Druslugangan, Beauty tips byltingin og leitin að réttlætinu

 

Höfundur: Hildur Fjóla Antonsdóttir

Eins og Beauty tips byltingin hefur nýlega varpað ljósi á þá er réttlætið vandfundið er kemur að kynferðisbrotamálum. Af þeim málum sem rata inn á borð lögreglu er rannsókn hætt í yfir helmingi mála, af ólíkum ástæðum. Og af þeim málum sem vísað er til ríkissaksóknara er rúmlega helmingur þeirra felldur niður, iðulega vegna skorts á sönnunargögnum. Ef við mælum réttlætið í fjölda sakfellinga hlýtur spurningin að vera sú: Hvernig er hægt að fjölga sakfellingum sekra manna í kynferðisbrotamálum? Á árunum 2013 – 2014 vann ég að rannsókn á vegum EDDU – öndvegisseturs, í samstarfi við innanríkisráðuneytið, um viðhorf fagaðila sem starfa við meðferð nauðgunarmála til málaflokksins, og um hvort, og þá hvernig, megi að þeirra mati bæta málsmeðferð. Í niðurstöðunum koma fram ábendingar um hvernig megi styrkja réttarvörslukerfið til að takast á við kynferðisbrot. Hér langar mig að reifa nokkra þætti sem gætu bætt rannsóknir og meðferð kynferðisbrotamála, styrkt stöðu brotaþola innan réttarvörslukerfisins og þannig mögulega leitt til fleirri sakfellinga sekra manna. Einnig mun ég koma inn á fleiri atriði sem er þess virði að skoða í þessu samhengi.

Fjármagn og fagleg sýn

Hlúa þarf að refsivörslukerfinu til að gera það betur í stakk búið til að takast á við kynferðisbrot. Til þess þarf fjármagn og skýra pólitíska og faglega sýn á brotaflokkinn. Stytta þarf málsmeðferðartíma, en of langur málsmeðferðartími getur haft áhrif á gæði rannsókna og málsmeðferðar. Menntun og þjálfun lögreglu hefur verið ábótavant en það stendur nú að einhverju leyti til bóta. Einnig er mikilvægt að styrkja starfsemi sem heyrir undir aðrar stofnanir en gegna lykilhlutverki við öflun beinna og óbeinna sönnunargagna. Þá má sérstaklega nefna starfsemi neyðarmóttakanna, og annara heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sem brotaþolar kunna að leita til, sem og sálfræðinga sem sérhæfa sig á sviði áfalla. Innan réttarvörslukerfisins getur aukið fjármagn, faglegri sýn og stjórnun, aukin þekking á eðli og afleiðingum kynferðisbrota, skjótur viðbragðstími lögreglu og betri yfirheyrslutækni leitt til þess að sannleikurinn komi í ljós í fleiri málum og þannig til fleiri sakfellinga sekra manna.

Styrkari staða brotaþola

Fólk sem hefur kært kynferðisbrot til lögreglu talar stundum um „málið sitt“. Brotaþolar eru þó ekki aðilar að sakamálum og í lagalegum skilningi er málið því ekki „þeirra“. Aðilar að sakamálum eru ríkið annars vegar og sakborningar hins vegar. Það þýðir m.a. að brotaþolar fá iðulega litlar upplýsingar um gang mála þar sem lögreglu og saksóknara er einungis skylt að tilkynna brotaþola um gang málsins ef rannsókn þess er hætt eða það fellt niður og eins ef ákæra er gefin út. Í Noregi hefur staða brotaþola verið styrkt til muna með lagabreytingum sem tóku gildi árið 2008. Í breytingum fólst meðal annars aukinn aðgangur að upplýsingum á öllum stigum máls; réttur til að hlýða á málflutning fyrir dómi; réttur á að gefa yfirlýsingu áður en ákærði gefur skýrslu fyrir dómi; og réttur til að spyrja spurninga, gera athugasemdir við sönnunargögn og gefa lokayfirlýsingu fyrir dómi. Ástæða er til að kanna forsendur fyrir sambærilegum lagabreytingum hér á landi til að styrkja stöðu brotaþola innan réttarvörslukerfisins og auka þannig „eignarhald“ þeirra á málum.

Nauðgun af gáleysi?

Í norskum lögum er sérstakt ákvæði um nauðgun af gáleysi. Sambærilegt ákvæði á Íslandi gæti náð til mála þar sem ofbeldi og hótanirnar eru óverulegar og þolandi hefur, vegna ölvunar eða ótta, ekki getað spornað við verknaðinum. Mál sem einkennast af miklu líkamlegu ofbeldi og hótunum eru í minnihluta mála sem kærð eru til lögreglu. Í stað þess að þurfa að sanna ásetning um nauðgun, sem getur verið snúið út frá lagalegu sjónarmiði, opnar gáleysishugtakið á spurningar um hegðun sakbornings og hvort að hann hafi gætt nægilega að sér í samskiptum við brotaþola. Hefði hann ekki mátt vita að samþykki væri ekki fyrir hendi? Gallinn við þessa leið er að gáleysisákvæði getur, út frá lögfræðilegu sjónarmiði, leitt til umræðu um „eigin sök“ brotaþola. Það gæti aftur hleypt af stað umræðu um hvort og hvernig hegðun og atferli brotaþola hafi átt þátt í að orsaka brotið. Jafnframt má ætla að refsing á grundvelli slíks ákvæðis yrði mun minni en fyrir nauðgun af ásetningi. Slíkar breytingar gætu því leitt til bakslags í þeirri baráttu sem femínistar hafa háð um árabil og er skýrt haldið á lofti í Druslugöngunni. Þó gæti verið ástæða til að skoða þennan möguleika nánar en fara þyrfti varlega við útfærslu slíks ákvæðis.

Aðrar leiðir að réttlæti?

Sönnunarkrafa í sakamálum er rík og sönnunarbyrðin liggur alfarið á ákæruvaldinu, þ.e. ríkissaksóknara. Ástæðan fyrir þessu er meðal annars sú að mikilvægt þykir að rétta af valdamisræmið sem einkennir aðila málsins, þ.e. ríkið annars vegar og borgarinn hins vegar. Þannig er réttur sakbornings treystur með það að augnamiði að ríkið sakfelli ekki fólk sem hefur sér ekkert til saka unnið. Í kynferðisbrotamálum skortir einnig oft á bein sönnunargögn. Því má ætla að þrátt fyrir betri rannsóknir og meðferð mála innan réttarvörslukerfisins yrði staðan samt sem áður sú að einungis litlum hluta mála lyki með sakfellingu. En eru til aðrar leiðir til að tryggja einhvers konar réttlæti í þessum málaflokki? Ein af þeim hugmyndum sem hefur verið hreyft við er að brotaþolar fari í auknum mæli í einkamál. Rýmka þyrfti gjafsóknarreglur til að gera brotaþolum kleift að sækja slík mál gegn gerendum. Í þeim tilfellum yrði þolandinn aðili að málinu og hefði áhrif á hvernig það yrði sótt. Jafnframt eru sönnunarkröfur í einkamálum ekki eins háar og með öðru sniði en í sakamálum. Í einkamáli væri refsing í formi fangelsisvistar ekki möguleg en ef sækjandi vinnur málið fæst opinber viðurkenning á því að gerandi hafi valdið þolenda miska og/eða skaða og þarf þá að bæta fyrir það.

Til viðbótar vil ég fjalla stuttlega um það sem kallast uppbyggileg réttvísi (e. restorative justice). Uppbyggileg réttvísi er ferli sem miðar að því að þolendur, og jafnvel aðstandendur, fái tækifæri til að segja geranda frá því hvaða áhrif og afleiðingar ofbeldið hafði. Jafnframt fá gerendur tækifæri til að axla ábyrgð á gjörðum sínum án þess að eiga yfir höfði sér fangelsisdóm. Hér ber að taka fram að uppbyggileg réttvísi er ekki það sama og sáttarmeðferð þar sem markmiðið er að ná sáttum í deilumálum. Fjölmargar útfærslur má finna á uppbyggilegri réttvísi og markmið slíkra verkefna eru mismunandi. Varað hefur verið við því að nota uppbyggilega réttvísi í kynferðisbrotamálum þar sem hætta er á að gengisfella alvarleika slíkra mála. Jafnframt er hætta á að þolendur endurupplifi ofbeldið í gegnum slíkt ferli ef ekki er nægilega vel að þeim staðið. Í Bandaríkjunum og á Nýja Sjálandi er þó verið að þróa verkefni um uppbyggilega réttvísi í kynferðisbrotamálum þar sem gætt að sérstöðu málaflokksins og áhrifum ofbeldisins á þolendur. Þá er meðal annars framkvæmt sérstakt áhættumat og hugað vandlega að undirbúningi beggja aðila áður en fundur er haldin með þeim. Sérfræðingar sem starfa við þessi verkefni vilja meina að hugmyndir þolenda um réttlæti samræmist oft betur þeirri hugmyndafræði sem liggur að baki uppbyggilegri réttvísi heldur en það ferli sem boðið er upp á innan réttarvörslukerfisins.

Að lokum

Eitt af mikilvægari hlutverkum grasrótarinnar í lýðræðislegu samfélagi er að gagnrýna það sem miður fer og þrýsta á um breytingar. Framganga einstaklinga sem hafa verið beittir kynferðisofbeldi sem og kvennahreyfingarinnar á Íslandi hafa spilað lykilhlutverk í umbreyta samfélagsviðhorfum um nauðganir- og kynferðisbrot. Það hefur beint og óbeint stuðlað að breytingum innan réttarvörslukerfisins og mun án efa halda áfram að gera það. Gleðilega druslugöngu!

——————-

Viðhorf fagaðila til meðferðar nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins og tillögur að úrbótum (2014)

Tilkynntar nauðganir til lögreglu á árunum 2008 og 2009: Um afbrotið nauðgun, sakborning, brotaþola og málsmeðferð (2013)

Ein athugasemd við “Druslugangan, Beauty tips byltingin og leitin að réttlætinu

  1. Bakvísun: Knúzannállinn 2015 | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.