Ávarp í tilefni Druslugöngu 2015

Höfundur: Sóley Tómasdóttir

SóleyKæra samkoma – kæru druslur.

Ég tími ekki verja takmörkuðum tíma mínum hér í að hrósa ykkur eða þakka. Þið vitið hvað þið eruð frábær – og að þið eigið skilyrðislausa aðdáun mína fyrir allt það sem þið hafið verið að standa fyrir í vetur.

Þið eruð fyrirmyndir, þið eruð hvatning, þið eruð innblástur og þið eruð ögrun.  Þið eruð bylting. Ég get hrósað ykkur þangað til ég verð hás – en það mun ekki breyta neinu.

Ég elska ykkur – trúið mér.

Nú ætla ég að vinda mér í efnið – ég ætla að nýta tímann til að tala um kynbundið ofbeldi sem viðfangsefni stjórnmálanna, það sem er hægt að gera og það sem verður að gera.

Kynbundið ofbeldi er ekki persónulegur harmleikur, stakar uppákomur eða óheppni. Það bitnar vissulega á einstaklingum – af öllum kynjum – en það er fyrst og fremst samfélagslegt mein.

Kynbundið ofbeldi er raunveruleg ógn í daglegu lífi íslenskra kvenna.

Það er ljótasta birtingarmynd kynjamisréttis. Það byggir á kerfislægri mismunun kynjanna og hefur viðgengist í þegjandi sátt frá örófi alda.

Kynbundið ofbeldi þrífst í samfélagi sem leggur ríka áherslu á aðgreiningu stelpna og stráka og ætlar þeim ólík hlutverk – þar sem konum er ætluð prúðmennska og passívitet á meðan körlum er ætluð ákveðni og aggressjón.

Kynbundið ofbeldi þrífst í samfélagi þar sem klámvæðing fær að grassera gagnrýnislaust og óáreitt – þar sem efast er um mörkin milli kynlífs og ofbeldis – þar sem “harkalegt kynlíf” og “hún vildi það” þykja trúverðugar skýringar á nauðgun.

Kynbundið ofbeldi þrífst í samfélagi hinna tvöföldu skilaboða. Þar sem stelpum er kennt að vera sexí og sætar – en ekki of sexí og ekki of sætar. Druslur en samt ekki.

Kynbundið ofbeldi þrífst í samfélagi þar sem aðgengi kynjanna að fjármagni, valdi og athygli er ójafnt, þar sem karlar eru í meirihluta á þingi, í ríkisstjórn og í dómskerfinu.

Kynbundið ofbeldi þrífst í samfélagi þar alvarleiki glæpa er skilgreindur og metinn út frá reynsluheimi gagnkynhneigðra hvítra miðaldra karla.

Kynbundið ofbeldi þrífst þar sem þolendum er sagt að bera harm sinn í hljóði, þar sem ráðgjöf og stuðningur við þolendur er alfarið á ábygrð grasrótarsamtaka og þar sem nauðgunarkæra þykir alvarlegri glæpur en nauðgunin sjálf.

Kynbundið ofbeldi þrífst í samfélagi þöggunar – í samfélagi sem beitir miskunnarlausri þöggun á þolendur, aðstandendur, aktívista og stjórnmálafólk ef það sýnir minnstu tilburði til að ógna stöðugleika þagnarinnar.

Kynbundið ofbeldi þrífst í skjóli þagnar.

En ég mun ekki þegja.

Þolendur eru hættir að bera harm sinn í hljóði – þeir hvísla ekki lengur sín á milli og þeir láta ekki sjálfshjálparhópa og lokuð vefsvæði duga.

Þar með er það ekki lengur í boði að skilgreina veruleikann út frá eigin forréttindum, loka augunum og lifa í blissfúl ignorans.

Það er kominn tími til að við hættum að hlífa samfélaginu fyrir sjálfu sér og nauðgunarmenningunni sem það hefur alið af sér.

Í stað þagnar sem áður stóð vörð um ofbeldið hefur byltinginn sett fram háværa kröfu um breytingu – um aðgerðir – um betra samfélag.

Skjólið er ekki lengur til staðar – byltingin er hafin – enhenni er hvergi nærri lokið. Nú er komið að okkur – þolendum, aðstandendum, aktívistum og stjórnmálafólki – að standa saman og halda fast á málum!

Byltingin þarf að ná inn í Ráðhúsið – hún þarf að ná inn í þinghúsið – inn í stjórnarráðið – inn í heilbrigðiskerfið – dómskerfið – lögregluna – félagsþjónustuna – skólana. Byltingin þarf að flæða um allt samfélagið og breyta því til framtíðar.

Þess vegna megum við ekki þegja. Við verðum að standa saman.

Rétt eins og kynbundið ofbeldi snýst ekki um persónur – þá er þöggunin ekki einstaklingsbundin – hún er kerfislæg. Kynbundið ofbeldi er tabú. Þolendum er gert að þegja. Stjórnmálafólk á að halda kjafti og einbeita sér að öðrum og mikilvægari málum. Alvöru stjórnmálum.

Ég mun ekki þegja. Ég mun standa með þér.

Fyrir mig sem stjórnmálakonu eru þessar tvær setningar órofa heild. Ég mun standa með ykkur með því að láta ekki þagga niður í mér.

Allir heimsins spindoktorar geta reynt að halda því fram að ég hati son minn – að ég sé heimsk eða sjúklega leiðinleg. Ég mun ekki þegja.

Öll heimsins kommentakerfi mega loga og fordæma mig og skoðanir mínar. Ég mun ekki þegja.

Fólk má fordæma smámunasemi mína, baráttuaðferðir og viðfangsefni. Ég mun ekki þegja.

Ég get tekið á móti meiðyrðum og hótunarbréfum. Ég mun ekki þegja.

Og þið sem eruð alltaf að segja mér að ég þurfi að breikka mig sem pólitíkus – og að stjórnmál snúist nú um svo margt annað en femínisma. Sorrý. Ég mun ekki þegja.

Byltingin er persónuleg og byltingin er kerfislæg.

Við munum ekki láta feðraveldinu eftir skilgreiningarvaldið á stjórnmálum. Í stjórnmálum tökumst við á við fjölbreytt verkefni – en það erufemínískar hliðar á þeim öllum.

Við skipulag borgarinnar verðum við að útiloka undirgöng og skuggasund og gæta að lýsingu og hönnuntil að stuðla að auknu öryggi og vellíðan allra kynja.

Við þurfum að tryggja sýnileika og þátttöku allra kynja í íþrótta- og menningarlífi og brjóta upp staðalmyndir kynjanna.

Velferðarþjónustan verður að taka mið af þörfum og aðstæðum allra kynja og andskotakornið – af hverju getum við ekki tryggt að fatlað fólk fái tilhlýðilega þjónustu án þess að eiga það á hættu að vera beitt ofbeldi?

Síðast en ekki síst verður að innleiða kynjafræði á öllum skólastigum – þar sem börnum er kennd gagnrýnin  greining á samfélaginu og skilaboðum þess, fjallað er um staðalmyndir, tilfinningar, ofbeldi, fordóma og gagnrýna hugsun.

Við þurfum að breyta heiminum. Saman. Þið byrjuðuð. Við pólitíkusarnir verðum að hlusta. Og skilja. Og bregðast við. Og ef við gerum það ekki verðið þið að brjálast. Þannig virkar samstarf okkar. Er það díll?

Borgarstjórn er reyndar aðeins byrjuð – þökk sé ykkur. Ofbeldisvarnarnefnd hefur verið sett á laggirnar og fyrstu tillögur um forvarnarstarf verða lagðar fram í haust. Stóraukin áhersla er lögð á að uppræta heimilisofbeldi og mörg smærri verkefni eru þegar í gangi.

Auðvitað þurfum við að gera miklu miklu meira. Við þurfum að breyta öllu samfélaginu í stóru og smáu því þetta helst allt í hendur.

Stelpu- og strákaísar – gstrengur fyrir börn – kynferðislegar áletranir á barnafötum – prinsessu- og ofurhetjubúningar – dægurlög sem upphefja kynferðisofbeldi og klámvæddar poppstjörnur. Þetta eru ekki smáatriði. Þetta eru púsl í stórri mynd – mynd af samfélagi sem hlutgerir stelpur frá unga aldri.

Og þegar svo við bætast umvandanir frá foreldrum um að klæða þig ekki eins og drusla – að vera prúð og siðsamleg þrátt fyrir stöðuga hvatningu um annað – er myndin fullkomnuð.

Mynd af samfélagi þar sem hlutgerir stelpur frá unga aldri – þar sem kynbundið ofbeldi þrífst óáreitt. Mynd af samfélagi sem gerir þolendur ábyrga fyrir kynbundnu ofbeldi.

Þetta er ljót mynd og hún er vond fyrir okkur öll.

Elsku druslur.

Einu sinni þótti kosningaréttur kvenna fjarstæðukenndur. Í dag þykir sumum ofbeldislaust samfélag fjarstæðukennt. Það er rugl. Ofbeldislaust samfélag er sjálfsögð og eðlileg krafa og við munum ekki gefast upp.

Í dag er góður dagur – og engin ástæða til að gefast upp. Ég er bæði þakklát og full af bjartsýni. Ég er þakklát fyrir kosningaréttinn og kjörgengið og spítalann og leikskólana og fóstureyðingalöggjöfina – og ég er bjartsýn af því hér eru ungar konur sem munu aldrei gefast upp.

Takk fyrir að standa í þessu öllu saman. Takk fyrir að rjúfa þögnina. Takk fyrir að gera kröfur, takk fyrir að ögra og hvetja og gefast ekki upp. Takk fyrir mig.

Takk.

Þessi ræða var flutt á Lækjartorgi í tilefni að Druslugöngu 2015 og var einnig birt hér. Hún er birt á Knúzinu með góðfúslegu leyfi.

Ein athugasemd við “Ávarp í tilefni Druslugöngu 2015

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.