Stelpur skjóta

Höfundar: Ritstjórn, Ása Helga Hjörleifsdóttir og Dögg Mósesdóttir

 

stelpur skjóta minniDagana 4.-18. ágúst standa samtök kvenna í kvikmynda- og sjónvarpsefnisgerð, eða WIFT (Women In Film and Television, sjá www.wift.is), fyrir námskeiði í stuttmyndagerð fyrir stelpur á framhaldsskólaldri. Á námskeiðinu eru kennd undirstöðuatriði kvikmyndagerðar og kennslunni lýkur með gerð stuttmyndar.

Leiðbeinendur á námskeiðinu eru þær Ása Helga Hjörleifsdóttir og Dögg Mósesdóttir, sem báðar eru þaulreyndar kvikmyndagerðarkonur, og Knúzinu lék forvitni á að heyra meira um námskeiðið, forsendur þess og nálgun leiðbeinenda.

Er námskeiðið Stelpur skjóta tilraun til að bregðast með beinum hætti við þeirri margumræddu staðreynd að mun færri konur en karlar leikstýra og stjórna gerð kvikmyndaefnis hér á Íslandi?

Námskeiðið var eins konar viðbragð við skýrslu menntamálaráðherra, Úttekt á stöðu kynja og þátttöku í félagslífi framhaldsskólanema, þar sem kom m.a. fram að myndbandaklúbbar framhaldsskólanna eru í langflestum tilvikum fullskipaðir strákum sem framleiða myndbönd sem eru oftar en ekki mjög karllæg. Þar kemur m.a. fram að þær stúlkur sem hafa reynt að fá aðgang að þessum klúbbum eru fældar frá, oft með þeim formerkjum að þær hafi ekki næga tæknilega kunnáttu. Við hjá WIFT teljum að þetta sé undirrót þess mikla kynjahalla sem hefur ríkt í íslenskri kvikmyndagerð og höfum þess vegna ákveðið að leggja sérstaka áherslu á þennan aldurshóp.

Er það samfélagslega ástand sérstaklega rætt á námskeiðinu eða nálgist þið nemendur einfaldlega sem stelpur sem hafa áhuga á að gera kvikmyndaefni?

Við munum flétta inn í kennsluna fræðslu um birtingarmyndir kvenna í kvikmyndum og tala um mögulegar ástæður kynjahallans í faginu, auk þess sem við munum leggja áherslu á mikilvægi þess að raddir kvenna heyrist. En að öðru leyti verður þetta fyrst og fremst “hands-on”, þ.e.a.s. við erum á þeirri skoðun að með því einu að hvetja stelpurnar til að segja sínar sögur séum við í raun að tækla vandann.

WIFT hefur áður staðið fyrir „Stelpur skjóta“-námskeiði fyrir aldurshópinn 13-16 ára. Á þessu námskeiði eru nemendur hins vegar á framhaldsskólaaldri, en það er einmitt í framhaldsskólunum sem margir fá sína fyrstu reynslu af gerð kvikmynda og byrja að mynda tengsl við aðra sem hafa áhuga á greininni – tengsl sem gjarnan nýtast þeim síðar sem atvinnufólki á þessu sviði. Að hve miklu leyti er nálgunin mismunandi milli aldurshópa – eða er hún kannski sú sama fyrir báða hópana?

stelpa að skjótaNálgunin er mjög svipuð fyrir báða aldurshópa. Á námskeiðinu fyrir grunnskólahópinn vorum við að hvetja stelpurnar til að láta af sér kveða þegar að þær fara í framhaldsskóla á meðan að við erum að efla þær sem nú þegar eru í framhaldsskólum til að taka skrefið og benda þeim á mikilvægi þess að þeirra raddir heyrist líka. Ástæðan fyrir því að við flokkum hópana eftir aldurshópum er frekar hugsað út frá samsetningu hópsins sem þarf að vinna mikið saman og þá finnst okkur ágætt að séu nálægt í aldri þar sem það sé líklegra að þær nái betur saman á jafningjagrunnvelli.

Hafið þið orðið varar við það á fyrri námskeiðum að nálgun stelpna sé öðruvísi en stráka (að þeirra eigin mati eða að ykkar mati), til dæmis þegar kemur að umfjöllunarefni?

Þær koma frá öðrum reynsluheimi og eru með allt öðruvísi sjónarhorn en strákarnir. Mér finnst strákarnir oft hafa tilhneigingu til að herma eftir myndum sem þeir hafa séð og sjá sig í en þar sem stúlkurnar geta síður speglað sig í þeim kvikmyndum sem til eru, þá finnst mér eins og að þeirra hugmyndir séu oft nýstárlegri enda sóttar beint í þeirra eigin reynsluheim.

Hafa stelpur á þessum aldri almennt minni tækniþekkingu og –reynslu en strákar og þarf að nota meiri tíma í slíka kennslu en ef þið væruð með stráka á námskeiði?

Flestar af stúlkunum sem voru í síðasta hóp voru mjög ákveðnar og fullar sjálfstrausts á meðan að aðrar hefðu kannski ekki þorað að taka skrefið hefði þetta verið blandaður hópur. Þær sýndu hvor annari mikinn skilning og stuðning í verkefnunum og margar bjuggu yfir mikilli tæknilegri kunnáttu. Það var heill vinkonuhópur á síðasta námskeiði sem hafði gert fjölda stuttmynda.

Flestir gera því skóna að fyrirmyndir séu mikilvægar og að það sé vandamál fyrir stelpur sem hafa áhuga á kvikmyndagerð að þær skorti fyrirmyndir í faginu. Eruð þið sammála því? Og til hvaða kvenna getið þið sérstaklega ráðlagt þeim að líta til að finna slíkar fyrirmyndir – fyrir utan auðvitað ykkur sjálfar?

Maya Deren. Myndin er sótt hingað

Maya Deren. Myndin er sótt hingað

Það er mjög mikilvægt fyrir konur að geta speglað sig í kvikmyndum. Fjarvera kvenna í kvikmyndum, sendir þau skilaboð til kvenna og samfélagsins alls að konur séu ekki mikilvægur hluti þess. Sem dæmi má nefna þá eru konur aðeins 20% allra sem koma fram í hópsenum í bandarískum kvikmyndum, en þessi tala 20% kemur mjög oft fyrir þegar talað er um stjórnunarstöður í Bandaríkjunum, t.d. í hlutfalli kvenna á þingi og kvenna í lögfræðingastett, og svo í stjórnunarstöðum í fjölmiðlum. Og staðan er mjög svipuð í öllum hinum vestræna heimi. Kvikmyndir og sjónvarpsefni hafa mótandi áhrif á samfélagið, ef við breytum þessu þar þá breytum við samfélaginu um leið. Við eigum margar flottar fyrirmyndir hér á Íslandi og erlendis. Á Íslandi höfum við leikstýrurnar Þórhildi Þorleifsdóttur, Guðnýju Halldórsdóttur, Silju Hauksdóttur og Kristínu Jóhannesdóttur svo dæmi séu nefnd og svo flottar konur á tæknisviðinu líkt og Elísabetu Ronaldsdóttur og Valdísi Óskarsdóttur klippara. Svo eru það leikstýrur eins og Sofia Coppola, Lynne Ramsay, Lucrecia Martel, Jane Campion og fyrir mig persónulega (Dögg) var Avant-garde kvikmyndagerðarkonan Maya Deren mín helsta fyrirmynd. Ég fann hana fyrir tilviljun á myndbandsspólu á bókasafni kvikmyndaskólans sem ég fór í en það var aldrei fjallað um hana né aðrar kvenleikstýrur í mínu kvikmyndanámi. Þetta er svolítið lýsandi fyrir þær fyrirmyndir sem til eru og sem virðast oft gleymast í sögunni.

Er hlutgerving kvenna í afþreyingariðnaði samtímans sérstaklega til umfjöllunar á námskeiðinu? Er nálgunin femínísk að einhverju – eða öllu – leyti?

Já við förum yfir birtingamyndir kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi um leið og við förum inn á myndlæsið þar sem við teljum að það sé mikilvægt fyrir þær, bæði svo að þær geti lært að nota myndmálið til að segja sínar sögur og svo að þær geti horft með gagnrýnisaugum á þau misgóðu skilaboð sem afþreygingariðnaðurinn sendir til þeirra. Nálgun námskeiðsins er femínísk að öllu leyti

Knúzið þakkar Ásu Helgu og Dögg kærlega fyrir spjallið. Nánari upplýsingar um Stelpur skjóta má finna hér. Enn eru örfá pláss laus.

Auglýsing frá WIFT fyrir námskeiðið. Enn gætu verið laus pláss.

Auglýsing frá WIFT fyrir námskeiðið. Enn gætu verið laus pláss.

Ein athugasemd við “Stelpur skjóta

  1. Bakvísun: Annáll 2015 | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.