Aðgát skal höfð

Höfundur: Árdís Kristín Ingvarsdóttir

Það er sjóðandi hiti þar sem ég sit á torginu við hliðina á einum besta vini mínum í Aþenu. Hann skelfur hins vegar. Hann hristist í ekkasogum og getur varla komið tilfinningum sínum í orð. Það er óvenjulegt. Þessi ungi drengur er snillingur í að koma fyrir sig orði. Ástæðan fyrir sorg hans er yfirþyrmandi sektarkennd, ótti og einmanaleiki. Kvöldið áður hafði hann haft mök við eldri mann án þess að segja manninum að hann væri HIV smitaður. Þetta var sumarið 2012. Þar sem ég sat við hliðina á honum áttaði ég mig á því hversu flókin réttlætiskennd getur verið.

DSC00330Þessi ungi vinur minn fæddist í landi þar sem mikil óbeit er á samkynhneigð. Faðir hans barði hann reglulega fyrir að vera of kvenlegur og á unglingsárum gekk lögregla landsins í skrokk á honum með það að átyllu að hann væri að selja sig. Við fyrsta tækifæri flúði hann land sitt og komst að sem alþjóðanemi sökum þess að hann er bráðgáfaður. Evrópu sá hann í draumaljóma þar sem hann fengi nú að ganga frjáls ferða sinna eins og hann er – en fyrsti evrópski maðurinn sem hann átti í kynferðislegum samskiptum við smitaði hann af HIV.

Sjúkdómurinn átti eftir að hafa mikil áhrif á skólagöngu hans þar sem dró af honum þrek og langvarandi streituröskun gaus ávallt upp þegar að próftíma kom. Engu að síður er hann að klára núna og kvíðir því mikið að þurfa aftur að halda til móðurlandsins. Þar kasta krakkar á eftir honum steinum á götunni og móðir hans, sem hann elskar mjög mikið, er sífellt að spyrja hann hvort hann ætli nú ekki að fara festa ráð sitt og finna sér „góða konu“. Álagið er svo mikið að hann hefur nokkrum sinnum reynt að vera með stúlkum en finnst hann bara tómur á eftir. Þess vegna hefur hann alvarlega hugleitt að sækja um hæli í Evrópu. Hann hefur líka hugleitt að finna sér mann til að giftast til að bjarga honum frá því að fara til baka. En helst af öllu vill hann fá að standa á eigin fótum.

Ástandið er, þrátt fyrir allt, betra í Grikklandi en heima fyrir. Þar hefur hann, hingað til allavega, fengið lyf og sálfræðilega meðhöndlun. Engu að síður er hann einmana. Samskiptasíðurnar er oft vettvangur til að finna félagskap en þar er oftast óskað eftir kynlífi án verja. Samskiptasíðurnar eru líka að fyllast af fyrirlitningu í garð þeirra sem eru eitthvað öðruvísi. „Enga niggara, enga asíubúa, engar hlussur og enga gamlingja,“ gæti verið gróf þýðing á algengu orðalagi þar. Samt sem áður er framandi útlit hans og heillandi framkoma mikið aðdráttarafl fyrir heimamenn, þegar enginn annar sér til. Honum er stundum boðið í partý þar sem dóp er flæðandi og „allt má“, líka að „prófa þetta framandi“. Hann er hættur að fara í slík partý, þau drepa hann andlega. En fyrst um sinn reyndi hann, þar sem hann leitaði eftir hlýju, viðurkenningu og ást. Er það ekki það sem við öll viljum?

Ég ákvað að birta ykkur hér stutt inngrip í sögu þessa vinar míns eftir að frétt af ungum nígerískum karlkyns hælisleitanda sem sakaður er um að smita íslenskar stúlkur af HIV, var fleygt upp í íslenskum fjölmiðlum með átakanlegri ljósmynd í forgrunni. Ég þekki ekki forsögu þess manns, en ég þekki hins vegar sögur margra hælisleitenda og flóttafólks þar sem ég er að gera doktorsrannsókn á meðal þeirra í Grikklandi. Langflestir karlkyns hælisleitendur eru ágætis fólk, þótt á stundum séu sumir þeirra ráðvilltir, í leit að hlýju, viðurværi og virðingu. Þetta eru margar sögur, líka af þeim sem missa ákveðin forréttindi við að yfirgefa heimahaga og þurfa að móta sér líf í nýjum félagslegum veruleika.

Við gegnum öll margvíslegum félagslegum hlutverkum í lífinu, hlutverkum sem hafa áhrif á hvers er ætlast til af okkur og hvernig við horfum á okkur sjálf. En þessi staða er lika breytileg, til dæmis eftir því hvar við erum stödd í heiminum og í æviskeiði okkar. Í kynjafræðum er oft talað um að það sé gott að velta upp allskyns kyni, kynhneigð, og kyngervi til að sjá félagslegt samhengi í því sem er álitið norm og mannfræðingar bæta gjarnan þjóðerni við[1]. Þeir sem tilheyra meira norminu hafa yfirleitt meiri forréttindi í samfélaginu. Þetta á líka við um lagalegar stöður. Þrátt fyrir að skil milli innflytjenda, hælisleitanda, flóttafólks og kvótaflóttafólks virðast nokkuð skýr lagalega séð, þá eru þar sífellt að eiga sér stað breytingar. Þverþjóðlegt fólk á því í sífelldum samræðum við réttarlega stöðu sína til að samræma það sjálfsmyndinni (Cabot, 2014). Þess vegna er nauðsynlegt að skoða hvaða forréttindi eru til staðar þegar umfjöllun fjölmiðla og félagsmiðla fer af stað.

DSC00189Fjölmiðlaumfjöllunin um HIV-smitaða hælisleitandann kemur rétt eftir að íslenska ríkið samþykkti að taka við 50 kvótaflóttamönnum til að létta á grísku og ítölsku ríkjunum. Því fylgdi einnig fréttaflutningur um að íslenska ríkið þurfi svo einnig að eiga við allar umsóknir hælisleitanda sem hingað leita. Kvótaflóttafólk er í miklum meirihluta konur og börn sem Íslendingar eru svo góðir að bjarga. Nýlega hefur samkynhneigðum verið bætt í þennan hóp. Hælisleitendur eru hins vegar oftast ungir menn sem þykja mjög varasamir og lítið tillit tekið til við hvaða aðstæður sjálfsmynd þeirra hefur verið að mótast (Collyer, 2010; Macini, 2009).

Sjálfri finnst mér að hver og einn þurfi að teljast ábyrgur gjörða sinna. Á sama tíma er rétt að sýna aðgát í nærveru sálar, sama í hvernig líkama slík sál býr. Bæði nígeríski hælisleitandinn og íslenskir förunautar hans eiga sér eflaust erfiða sögu að baki, sem rétt er að taka tillit til. Fyrrnefndi vinur minn, fór stuttu seinna til að láta manninn vita af smiti sínu og var óendanlega létt þegar hann reyndist ekki smitaður. Í dag hefur hann þá reglu að stunda ekki óvarið kynlíf nema að félagi hans viti hvernig heilsu hans er háttað.

Heimildir:

Cabot, H. (2014). On the doorstep of Europe. Asylum and Citizenship in Greece. Philadelphia: University of Pennsylvania Press.

Collyer, M. (2010). Stranded migrants and the fragmented journey. Journal of refugee studies, 23(3), 273-293.

Mascini, P. (2009). Gender stereotyping in the Duch asylum procedure: “Indipendent” men versus “Dependent” women. International migration review, 43 (1), 112-133.

[1] Hér má að sjálfsögðu bæta fleiri samþættingum við og bendi ég hellst á nýleg verk Dr. Írisar Ellenbergar.

Ein athugasemd við “Aðgát skal höfð

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.