Höfundur: Katrín Harðardóttir
Það er ljóst að það gengur ekki að helmingur þjóðarinnar, sem eru konur, eigi sér ekki sína rödd í kvikmyndum, öflugasta miðli nútímans. Það er ekkert bara vandamál kvikmyndagerðarmanna, heldur samfélagsins alls,“ segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra … Illugi segir tillögu Baltasars skynsamlega og rökin sannfærandi. „Við erum að missa af hæfileikaríkum konum. Ef við látum þetta standa óáreitt þá breytist ekkert. Þetta er óæskileg staða, eins og hún er í dag.

Menntamálaráðherra gægist í linsu kvikmyndagerðarmanns. Myndin er sótt hingað.
Þessi orð, sem Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, lét falla 25. júlí s.l., í kjölfar þess að kvikmyndaleikstjórinn Baltasar Kormákur mætti í föstudagsviðtal í Fréttablaðinu og lýsti þar yfir að hugsanlega ætti að beita kynjakvóta við úthlutanir Kvikmyndasjóðs, komu mörgum spánskt fyrir sjónir, þó sérstaklega þeim sem fylgst hafa með umræðu sem inniheldur kyn og kvikmyndir. Kynjakvóti í úthlutunum úr Kvikmyndasjóði er hugmynd sem er hreint ekki ný af nálinni, reyndar hefur verið hamrað á henni í nokkur misseri og nú síðast í vetur þegar allhressileg skoðanaskipti áttu sér stað á Facebook sem auðvitað rötuðu svo í blöðin og er nú tilefni til þess að rifja upp. Kvikmyndagerðarkonurnar Dögg Mósesdóttir og Helena Harsita Þingholt gagnrýndu báðar harkalega kynjahalla í greininni og nálguðust efnið bæði að innan sem utan ef svo má að orði komast.
Karllægt sjónarhorn og einhliða umfjöllunarefni íslenskra kvikmynda eru áhyggjuefni fyrir komandi kynslóðir og á því vakti Helena athygli um leið og hún lýsti innihaldi kvikmyndahandrits síns sem óskandi er að komist á tjaldið:
Konur eru gerendur í kvikmyndahandritinu sem ég er að skrifa. Þær tala, þær hafa skoðanir, fá hugmyndir og framkvæma þær. Þær hafa margslunginn persónuleika, eru frekar, óþekkar, nastý, fyndnar, hræddar, hugrakkar, vænar, reiðar, útsmognar, kærleiksríkar og bara alls konar. Þær hafa önnur markmið en að verða ástfangnar og gifta sig. Er það kannski það sem karlarnir í bransanum eru svona hræddir við? Að konur séu sýndar sem gerendur? Gæti það kannski komið upp ranghugmyndum hjá stúlkum um það hvernig þær eiga að haga sér? Að þær megi aksjúally vera gerendur? Að þær megi prumpa, naga neglurnar, klóra sér í píkunni, segja fokkjú og… hið hræðilega… skrifa kvikmyndahandrit og leikstýra því sjálfar?
Og hið karllæga sjónarhorn verður auðvitað ekki til í einhverju tómarúmi, eins og Dögg benti á:
Það er ákveðinn valdastrúktúr í þessari grein sem flestir eru blindir á og viðheldur þessu ástandi. Þú þarft að starfa við greinina til að fá styrki frá Kvikmyndamiðstöð. Meirihluti þeirra sem starfa við greinina eru karlar. Það eru ekki miklar líkur á að þeir velji konu úti í bæ til samstarfs við sig í verkefni. Sér í lagi ef hún er nýgræðingur. Þannig breytist ástandið ekki. Við þurfum pressu að ofan til að þetta breytist. Næsta skref er að fá karlana í lið með okkur því þetta er ekki einkamál okkar kvenna. Ég veit að þeir eru margir sem eru með okkur í liði en við þurfum öll að vera vakandi því konur geta líka verið karlrembur,.
Í þessu samhengi er ánægjulegt að Baltasar hafi komið út úr skápnum sem „litli hræddi karlinn“ en það stingur í stúf að Illugi Gunnarsson, sem ráðherra þessa málaflokks, skuli aðeins hafa eyru fyrir karlmannarómi og ekki þeim kvenröddum sem hér voru rifjaðar upp. Það minnir óneitanlega á baráttu Framsóknar um fæðingarorlofið um aldamótin síðustu. Skemmst er frá því að segja að Páll Pétursson lagði fram nokkuð róttækt frummvarp til laga um breytingar á fæðingarorlofi, breytingar sem Kvennaframboðið hafði talað um fyrir í 20 ár.
Það verður gaman að sjá hvort þetta er aðeins tímabundin skynvilla, eins og karlaklúbburinn, með Jón Steinar í fararbroddi, virðist telja, og að allt verði tekið til baka líkt og gert var með fæðingarorlofið, þegar áform um lengingu til 12 mánaða voru dregin til baka. Hækkun þaksins var þó haldið til streitu og það fært upp í 350.000 kr. Megum við þá jafnvel eiga von á að þak verði sett á kvótann?
Bakvísun: Annáll 2015 | Knúz - femínískt vefrit