Þrælahald nútímans

Höfundur: Chantal Louis

 

Þessi grein birtist í þýska femínistatímaritinu EMMA vorið 2011, sem hluti af greinasafni um vændi í Þýskalandi. Herdís H. Schopka þýddi og endursagði með leyfi tímaritsins og höfundarins, Chantal Louis. Greinin var birt í tveimur hlutum hér á Knúzinu árið 2012 og er nú endurbirt í einu lagi.

***

38d26-mynd1Nicki situr á bekknum á biðstofunni og klórar taugaveikluð í hlébarðaskinnsveskið með bleikum, löngum nöglum. Samt er hún ekki ein þeirra sem bíður eftir að komast í skoðun til kvensjúkdómalæknisins. Hún fékk ekki miða með númeri á, eins og konurnar sem þurfa að fara eins og skot aftur út á götu til að lenda ekki í vandræðum. Að sitja og bíða í klukkutíma eftir læknishjálp af því manni sé illt í móðurlífinu? Ekki til í dæminu. Menn í leðurjökkum, nú eða íþróttagöllum, rigsa um götur rauðljósahverfisins í miðborg Stuttgart, hrópa skipanir á útlensku til kvenna í háhæluðum stígvélum og sjá til þess að þær haldi sig við efnið.

ÓLÉTT, EN EFTIR HVERN?

Konurnar sem myndu lenda í enn meiri vandræðum ef þær þyrftu að bíða lengi eftir læknishjálpinni fá því miða með númeri á hjá Sabine Constabel. Þær tékka öðru hvoru bak við hurðina með mjólkurlitaða glerinu hvort röðin fari að koma að þeim. Á næstu hæð fyrir ofan hitta þær svo Dr. Friedrich Spieth, sem skoðar vændiskonur hér á hverju fimmtudagskvöldi eftir klukkan hálfátta. Ókeypis, því hér er enginn með sjúkratryggingu og klamidía, sífillis og krónískar sýkingar í eggjastokkunum grassera.

Nicki þarf ekki að hitta Dr. Spieth í kvöld. Hún veit nú þegar hvað er að: Hún er ólétt. Hvað er hún komin langt á leið? „Góð spurning,“ segir hún og brosir vandræðalega. Eftir kærastann eða kúnna? Það er erfitt að segja.

Nicki er tvítug, eða það segir hún alla vega, og kom til Stuttgart frá Ungverjalandi 2008. Hún er úr lítilli borg „mjög langt frá Búdapest“. Faðir hennar er látinn, móðirin þurfti að ala hana og tvö systkini hennar upp ein. Nicki lærði hjúkrunarfræði í hjúkrunarskóla og lauk náminu. Hún vann hins vegar aldrei sem hjúkrunarkona, enda hefði hún aðeins fengið 200 evrur á mánuði í laun í Ungverjalandi. „Það er allt erfitt í Ungverjalandi,“ segir hún.

Í VÆNDI HJÁ FRÆNKU

prostit_stradeFrænka Nicki, sem rekur vændishús í gömlu miðborginni í Stuttgart, bauð litlu frænku sinni að koma að vinna fyrir sig. Nicki mætti, og fyrstu kúnnarnir hennar líka. „Það var mjög erfitt,“ segir hún. Tveimur árum og mörg þúsund kúnnum síðar skuldar þessi blíðlega unga kona rekstraraðilum vændishússins þar sem hún vinnur 300 evrur. Hún borgar nefnilega 100 evrur fyrir herbergiskytruna sem hún vinnur í. Á dag. Samfarir kosta 30 evrur, sem þýðir að hún þarf 100 kúnna á mánuði til þess eins að geta borgað leiguna.

Og núna er Nicki ólétt, eftir Guð má vita hvern. Hún vill eiga barnið. Og hætta, einhvern veginn, í gömlu miðborginni. Hún veit ekki enn hvernig hún ætlar að fara að því. „Ég ætla að tala við Sabine um það.“

Sabine Constabel hefur ekki enn tíma til að setjast niður og spjalla. Það er í mörg horn að líta hjá félagsráðgjafanum. Klukkan er hálfníu og mikil traffík í La Strada. Athvarfið er rekið af samfélagsþjónustu kaþólsku kirkjunnar í Stuttgart, Caritas, og er opið eftir klukkan sex fjögur kvöld í viku. Teymi sjálfboðaliða og félagsráðgjafa hlynnir að konunum og veitir þeim það sem þær vantar helst: Máltíð eða heitt te, smokka eða lyf, sturtu eða þýskunámskeið. Eða tuskudýr. Constabel setur kassa með tuskuböngsum, öndum og hérum fram þetta kvöld sem önnur. „Þessi kassi tæmist alltaf fyrst,“ segir hún.

Einu sinni í viku kemur nuddkona í sjálfboðavinnu. „Konurnar eru jú aldrei snertar á eðlilegan hátt,“ útskýrir Constabel. „Nudd hjálpar þeim að halda sambandi við líkamann. Þó það sé náttúrulega ekki beint eftirsóknarvert í þessu starfi,“ bætir hún svo við, kaldhæðin að vanda. Vilji kona hætta í þessu starfi, sem krefst þess að hún tékki út úr eigin líkama, er Sabine Constabel til hjálpar reiðubúin. Hún hefur starfað við þetta í 20 ár á vegum Heilbrigðisnefndar Stuttgart, og veit að það er nánast ómögulegt fyrir konur að komast úr vændi einar og óstuddar.

Nú stendur hún, ljóshærð í svörtum kjól og gerðarlegum stígvélum, innan við afgreiðsluborðið og skenkir tveimur svarthærðum konum heimalagaða minestrone-súpu. Þegar þær tvær eru búnar að háma í sig súpuna og meðlætið yfirgefa þær La Strada með poka fullan af samlokum og ávöxtum. Nesti fyrir nóttina, eða fyrir samstarfskonur sem gátu ekki brugðið sér sjálfar í athvarfið.

05b1d-mynd5Tvær ungar konur í viðbót koma og biðja um miða með númeri, sú þriðja kemur inn með tannpínu og vill fá verkjalyf, sú fjórða stendur við afgreiðsluborðið og vill hvorki kex né rúnnstykki heldur biður í sífellu um „Gell!“. „Hvað meinarðu?”, spyr Constabel. „Gell!” endurtekur unga, svarta konan, sem greinilega hefur ekki stóran orðaforða, og bendir á skúffu. „Já auðvitað,“ segir félagsráðgjafinn og nær í eina túbu af sleipuefni. „Þarftu líka smokka?“ spyr hún. Konan hristir höfuðið og fer.

Constabel lítur ofan í kassann með tuskudýrunum. Hann er tómur. „Sabine, nennirðu aðeins að koma?“ er kallað úr eldhúsinu. Það gæti orðið einhver bið á að hún nái að setjast niður með Nicki til að spjalla.

LÖGLEIÐING OG FRJÁLST VÆNDI

Ólétta er hluti af lífinu í La Strada. Samkvæmt tölum Spieth læknis komu 40 ófrískar konur til hans árið 2010, þ.e. ein á viku að meðaltali. „Þær vinna án smokka og nota engar getnaðarvarnir,“ segir Sabine Constabel. Þessar tölur koma henni þannig ekki á óvart – reyndar kemur fátt henni á óvart lengur eftir tveggja áratuga starf með vændiskonum. Síst af öllu mantran um frjálsa vændið, sem er fyrst og fremst haldið á lofti af stjórnmálamönnum og -konum á vinstri/rauða og græna vængnum.

Constabel er reyndar hætt að furða sig á því að mannfyrirlitningin og ofbeldið, sem á sér stað í götunum og húsasundunum allt um kring, hafi verið normalíseruð með lögleiðingu fyrir tíu árum síðan. Fyrst um sinn gat hún engan veginn skilið að öll opinber umræða síðan vændisumbótalögin (Prostitutionsreform) voru sett árið 2001 skuli skauta yfir það sem hún, félagsráðgjafinn, sér á hverjum einasta degi: Að konurnar og stúlkurnar í La Strada fyrirlíta starf sitt og eru sér vel meðvitaðar um að það gerir þær veikar á bæði líkama og sál.

„Eins og ég segi alltaf, þetta er nútíma þrælahald,“ segir Helga Beck, ein af 30 sjálfboðaliðum sem manna La Strada. Hún er illborgari (Wutbürgerin vs. Gutbürgerin, góðborgari vs. illborgari), ef svo má að orði komast. Ekki einasta er hún ill út í nýju, umdeildu lestarbygginguna í Stuttgart, heldur er hún líka fokill út í vændiskaupendur sem „nýta sér neyð kvennanna“. Þessi sjötuga kona ólst upp í stríðinu og veit því mætavel hvað neyð er; hún veit það líka vegna þess að hún bjó lengi á Spáni og hefur því heyrt sögur fjölmargra kvenna frá Ekvador og Kólumbíu sem hafa endað á að leita sér hjálpar á La Strada. „Við erum eina athvarfið sem margar þessara kvenna eiga,“ útskýrir Beck. Þess vegna fer hún, eftirlaunaþeginn, með þegar einhver kvennanna þarf að mæta fyrir rétt, eða heimsækir þær á sjúkrahúsið. Hún er líka ill þegar hún, sem sjálf á son, lýsir upplifun Rómakvenna sem eru gerðar út í vændi af bræðrum sínum og feðrum. „Konurnar eru meðhöndlaðar eins og úrgangur af sínum eigin fjölskyldum og eru svo látnar sjá fyrir körlunum!“

„Ef fólk hefði haft áhuga á að kynna sér raunveruleikann hefði vændisumbótafrumvarpið aldrei verið samþykkt,“ segir Constabel með sannfæringarkrafti. „En í sjónvarpinu eru bara lobbíistar, eða vændiskonur sem fá 500 evrur fyrir að mæta og lýsa hvað þeim finnist vændi æðislegt,“ heldur hún áfram. „Konurnar okkar hér hafa hvorki krafta né tíma til að mæta í spjallþætti. Þær þurfa að einbeita sér að því að lifa af.“

AÐ LIFA VÆNDIÐ AF

Rósa lifði af, varla samt. Hún er líka frá Ungverjalandi og ólst upp á munaðarleysingjahæli. Þegar hún var 16 eða 17 ára gömul kom kona og borgaði hælinu fyrir Rósu. Þessi kona og maðurinn hennar létu engan tíma fara til spillis: Á 18 ára afmælisdag Rósu fóru þau með hana á diskótek þar sem einn gestanna tók hana traustataki. „Ég grét,“ segir hún og strýkur fingrinum frá augnkróknum yfir kinnina. „En hann sagði: Ég er búinn að borga fyrir þig!”. Þetta var fyrsta skiptið hennar. Þau urðu mörg fleiri, og barsmíðarnar líka, árum saman. „Sjáðu, ég var barin hér,“ segir hún og bendir á ör á enninu.

cd583-mynd6Þegar hún var tvítug varð Rósa ólétt. Hún þurfti að fara aftur að vinna um leið og hún var búin að fæða og þegar hún kom til baka af götunni var barnið horfið. Önnur hjón keyptu hana og píslarvættið hélt áfram. Hún var 33 ára þegar hún flýði og húkkaði sér far til Þýskalands. Hún talaði ekki orð í þýsku og endaði í gamla miðbænum í Stuttgart.

Það vildi Rósu til happs að hún var tekin einn dag án farmiða í lestinni og dæmd til samfélagsþjónustu sem hún fékk að inna af hendi í La Strada þökk sé skynsömum dómara. „Ég er alveg ónýt. Má ég vinna hjá þér?“, spurði Rósa Sabine Constabel, sem tók málin í sínar hendur. Fyrir stuttu fékk Rósa sína fyrstu alvöru vinnu, í eldhúsinu á McDonalds.

Þegar maður horfir á þessa litlu, áköfu, elskulegu konu með ógreitt hárið smyrja brauð og skenkja te, og hlustar á hana lýsa hryllingnum á bjagaðri þýsku, er ekki auðvelt að ímynda sér hvernig mennirnir sem borguðu fyrir að láta hana þjónusta sig hugsa. Hvernig þeir tikka. En svoleiðis menn eru ekki einasta til; þeir eru margir. Og það eru margar konur eins og Rósa í boði fyrir þá.

Af vændiskonunum 3500, sem eru opinberlega skráðar sem slíkar til starfa í Stuttgart, eru nærri 80% útlendingar, samkvæmt tölum frá lögreglunni. Þar af eru tveir þriðju hlutar frá löndunum sem eru nýgengin í ESB (neuen Beitrittsländer). Á toppi listans árið 2010 eru Rúmenía og Búlgaría, en þaðan koma nærri helmingur þeirra 854 kvenna sem voru nýskráðar árið áður. Eitt hundrað konur voru frá Ungverjalandi. Flestar þessara kvenna eru Rómakonur – þær fátækustu af þeim fátæku, þær sem eru lægst settar bæði innan samfélagsins sjálfs og innan sinna eigin fjölskyldna. Oft eru þessar konur, sem eru fluttar í rútuförmum til Þýskalands til að vinna í vændi, bæði ólæsar og kunna ekki orð í þýsku og eru þannig algerlega upp á náð og miskunn dólganna komnar. Og ekki bara í Stuttgart.

FAST VERÐ – ÓTAKMÖRKUÐ ÞJÓNUSTA!

Ríkislögreglustjórinn í Þýskalandi hefur einnig staðfest mikla aukningu á fjölda kvenna frá þessum löndum í vændi í Þýskalandi síðan ESB var stækkað til austurs. Þetta má lesa í skýrslunni Mennskar neysluvörur – Mansal í Þýskalandi (Ware Mensch – Menschenhandel in Deutschland – fannst því miður ekki á internetinu (innsk. þýðanda)): „Þær eru oft við slæma heilsu og margar eiga að baki sögu um kynferðisofbeldi. Ekki ósjaldan bjóða þær upp á óvarðar samfarir fyrir gjafverð.“ Sabine Constabel tekur undir þessi orð. „Konurnar gera hvað sem er fyrir 10 evrur. Þær fá sjálfar að halda kannski 200 evrum af því sem þær skaffa á mánuði. Þær senda helminginn af því til fjölskyldunnar heima fyrir. Sjálfar eru þær oft svangar.“

Flatrate-klúbbur í Fellbach í grennd við Stuttgart. Myndin er héðan.

Flatrate-klúbbur í Fellbach í grennd við Stuttgart. Myndin er héðan.

Þær eru líka Rómakonur, konurnar sem vinna í tilboðs (Flatrate)-vændishúsunum sem hafa sprottið upp um allt Þýskaland síðan 2009. Eitt svoleiðis er í einungis 10 km fjarlægð frá La Strada, í Fellbach. Hummer-risajeppar rúntuðu um helstu innkaupagötur bæjarins og auglýstu píkur á tilboði: „Fyrir 70 evrur á daginn, 100 á kvöldin, færðu ótakmörkuð afnot af öllum þeim konum sem þig lystir, eins oft og þú vilt, hvernig sem er!“ Tilboðið náði yfir allt kynmakarófið, frá samförum í endaþarm, gangbang og yfir í „náttúruleg“ munnmök, þ.e., án smokks.

Dagblöðin í Stuttgart fluttu fréttir af því að „búlgarskir dólgar” hafi „smalað saman miklum fjölda kvenna í byggðum Rómafólks í Rúmeníu eða Búlgaríu“ en það stöðvaði ekki marga frá því að fara og nýta sér þetta kostaboð. Lögreglan áætlar að um 1700 kúnnar hafi heimsótt vændishúsið fyrstu helgina sem það var opið.

Stormur vandlætingar fór af stað eftir opnunina en ótrúlega stuttu síðar mátti lesa í blöðunum að konurnar í píku-klúbbunum skildu ekkert í þessum látum, að Flatrate-vændishúsin væru bara „fínn vinnustaður“. Teymið á La Strada getur ekki annað en lýst yfir undrun sinni á því hve barnalegir blaðamennirnir eru, því þær vita hvernig er í raun í pottinn búið: Nokkrar kvennanna úr píku-klúbbnum komu í ofboði í La Strada og sögðu frá því hvað það væri nú „fínt“ að þjónusta alla þessa kúnna. „Þær sögðu að eftir þann þriðja fyndu þær ekkert lengur,“ segir Sabine Constabel. „Þær aftengja sig því sem er að gerast.“

Þrátt fyrir það gat lögreglan ekki stöðvað hina ömurlegu starfsemi í píku-klúbbnum. „Málum er þannig háttað að samkvæmt lögum dagsins í dag getum við ekkert aðhafst,“ var sagt. Á endanum báru yfirvöld fyrir sig „skorti á hreinlæti“, handtóku „framkvæmdastýruna“ rúmensku fyrir skattsvik og lokuðu klúbbnum. Annars staðar fengu Flatrate-húsin að halda áfram starfsemi. „Við höfum enga lagalega heimild,“ sögðu yfirvöld í Wuppertal og í Berlín.

VÆNDISUMBÆTUR – FYRIR HVERN?

Á götunni við La Strada og í opnum vændishúsum í nágrenninu gengur lífið líka sinn vanagang – konurnar borga uppsprengda leigu fyrir herbergi, dólgarnir hirða af þeim tekjurnar og neyða þær til að vinna 14 klukkustundir á dag. „Það sem er í gangi hérna,“ segir Sabine Constabel og hlær kuldalega, „er allt löglegt.“

Fræðilega séð er það reyndar ekki rétt, því enn er bannað með lögum að gera fólk út í vændi. Vandamálið er bara að lögreglunni hefur verið gert nánast ómögulegt að færa sönnur á að slíkt eigi sér stað. Þegar rauð-græna stjórnin setti vændisumbótalögin, sem tóku gildi 1. janúar 2002, var ekki einungis felld út klausan um hve “ósiðlegt” vændi væri heldur líka klausan sem lögreglan notaði til að ná dólgum og iðkendum mansals, um að það væri ólöglegt að hafa milligöngu um vændi. Þessar lagagreinar gerðu lögreglunni nánast alltaf kleift að sýna fram á grun um ólöglegt athæfi svo hún gæti lagst í nánari rannsóknir, hvort sem um vændishús eða „ástarsamband“ vændiskonu og dólgs var að ræða. Þessir tímar eru nú liðnir, þökk sé vændisumbótalögunum.

Lobbíistarnir notuðu nokkuð sniðuga taktík til að losna við þessa lagagrein: Þeir færðu rök fyrir því að ef vændishúsaeigandi myndi t.d. útbúa sameiginlega huggulega stofu fyrir vændiskonurnar væri hægt að lögsækja viðkomandi fyrir að “hafa milligöngu um vændi”. Þannig væri vændishúsaeigendunum mismunað og því réttast að fella lagagreinarnar út.

Fram að þessu hefur Wolfgang Hohmann yfirlögregluþjónn og stjórnandi vændisrannsóknateymisins í Stuttgart ekki séð neinar huggulegar sameiginlegar stofur útbúnar fyrir vændiskonur í borginni. „Ég get ekki bent þér á neitt sem hefur batnað fyrir vændiskonurnar síðan nýju lögin tóku gildi“, segir hann. Á meðan eru mennirnir sem hafa lífsviðurværi sitt af vinnu þessara kvenna hæstánægðir með sinn hlut.

ÓSNERTANLEGIR DÓLGAR

Café MIstral í gamla bænum í Stuttgart. Myndin er héðan.

Café MIstral í gamla bænum í Stuttgart. Myndin er héðan.

Yfirlögregluþjónninn veit nákvæmlega hvar dólgarnir í gömlu borginni í Stuttgart halda sig: Í u.þ.b. þriggja göngumínútna fjarlægð frá lögreglustöðinni. „Café Mistral er staðurinn þar sem stærstu fiskarnir halda til. Í Haus 49 og á Domino, bæði rétt hjá, halda litlu peðin sig, hinir svokölluðu „maurar“.“ En þessi vitneskja er honum vita gagnslaus, jafnvel þó lögreglan í Baden-Würtemberg (Stuttgart er í B-W, innsk. þýðenda) sé ein sú afkastamesta í landinu við að framfylgja lögum um vændi. Vændisrannsóknateymið í Stuttgart, sérþjálfað teymi sem fæst eingöngu við rannsóknir á vændismálum, er á vakt allan sólarhringinn alla daga vikunnar. „Þetta er algjör munaður“, segir Hohmann. Á ári hverju sinnir teymið um 3000 tilfellum og eftirlitsferðum. „Við förum svona þrisvar í viku á staðina, sem skipta oft út konum,“ útskýrir hann.

Rannsóknalögreglumennirnir bregðast við í hvert sinn sem grunur vaknar um eitthvað misjafnt: Er konan sjálf með vegabréfið sitt eða þarf hún að biðja einhverja menn að sækja það fyrir sig? „Ef svo er reynum við að fá konuna upp á stöð með okkur. Eina, ekki með „túlk“ með sér. En reyndar þarf dólgurinn ekki endilega að vera á staðnum, konurnar eru oft svo hræddar að þær segja ekkert hvort sem er. Eða þá að þær svara heiðarlega og segjast vera ánægðar með að fá þó 300 evrur á mánuði, það sé tvöfalt meira en þær þéni heima, og það sé allt í lagi að láta aðra fá 8000 evrurnar“. Hohmann bendir á að Rómakonurnar séu í dag það sem dópistarnir voru áður fyrr: Botnfall samfélagsins.

Dópistar koma líka stundum í La Strada en þeim hefur fækkað mikið. Ein þeirra er Susie, tékknesk kona með eldrautt hár og hring í vörinni, sem fór í meðferð og hefur verið dóplaus í fimm mánuði. Hún hætti þegar hún fékk enn eitt risastórt graftarkýlið, segir hún, og sýnir mér 10 sentimetra langt ör á framhandleggnum. „Vá!“, segir Rósa.

TILBOÐSKONUR

Foreldrar Susie fóru til Þýskalands þegar hún var 12 ára og skildu dóttur sína eftir í umsjá frænku sinnar. Hún fylgdi foreldrum sínum eftir þegar hún var 17 ára og gifti sig of ung. „Heimurinn hrundi fyrir mér eftir skilnaðinn,“ segir hún. Hún seldi sig í fjögur ár til að fjármagna heróínfíkn sína. „Sálin í mér þoldi það ekki“, segir hún. „Ég gæti aldrei gert þetta aftur“. Þar fyrir utan hefur verðið „einhvern veginn verið eyðilagt“.

Götumynd úr gömlu borginni í Stuttgart. Myndin er héðan.

Götumynd úr gömlu borginni í Stuttgart. Myndin er héðan.

Áður fyrr voru það eiturlyfjasjúklingar eins og Susie sem ollu verðlækkun á vændi, en síðan borgir fóru að bjóða upp á meþadón-prógrömm fyrir eiturlyfjaneytendur hefur þessi armur vændis snarminnkað. Í stað grindhoraðra stúlkna með brenndar tennur standa núna mállausar svarthærðar stúlkur frá Austur-Evrópu á götunum. Dólgarnir gera út á tilboðs-viðskiptamódel, útskýrir Hohmann; „marga kúnna sem hver fyrir sig borga lágt verð“. Þetta hefur haft þau áhrif á margar þýskar vændiskonur að þær brenna út fyrir aldur fram, geta hreinlega ekki meira og verða að hætta; fara fyrr „á eftirlaun“ en þær hefðu ella gert. „Þær lifa þá þaðan í frá á atvinnuleysisbótum og á einum og einum fastakúnna“.

Tilboðskonurnar hafa í öllu falli yngt hressilega upp í gömlu borginni í Stuttgart. Vændishúsin og barirnir í Leonhardstrasse og Weberstrasse voru við það að líða undir lok. Lido Bar og Madeleine næturklúbburinn höfðu séð betri tíma og stelpurnar í Girls, Girls, Girls voru engar stelpur lengur. „Og þá“, segir Wolfgang Hohmann, „var ESB stækkað og vændislöggjöfinni breytt“.

Hann hefur horft forviða upp á „framkvæmdaaðila“ með ítök í Rúmeníu ræða „viðskiptaáætlanir“ við útlendingaeftirlitið í Baden-Würtenberg og veifa löggjöfinni framan í starfsfólkið. Hann fylgdist áhyggjufullur með þegar vændiskaupendur flykktust aftur í gömlu borgina og sögðu, „Hvað vilt þú eiginlega? Þetta er bara bissniss eins og hver annar!“

RÁÐALAUS LÖGREGLA

Wolfgang Hohmann yfirlögregluþjónn er týpískur Suður-Þjóðverji, vilji maður á annað borð flokka fólk eftir klisjum. Hann breiðir yfir reiði sína yfir því að lögin banni honum að aðhafast með nettu brosi og stofnanamálfari: „Hvað félagsleg úrræði fyrir vændiskonurnar varðar þá vantar enn nokkuð upp á að við séum á réttri vegferð“. Eða, „löggjafinn þarf að setja markmið sín skýrt fram“. Og þegar honum ofbýður gjörsamlega gerir hann að gamni sínu. Til dæmis þegar hann er spurður hvað honum finnist um ásakanir fjölmargra blaðamanna á hendur lögreglunnar í Baden-Würtenberg um tepruskap, vegna þess að hún lét loka öllum Flatrate-vændishúsum í landinu undir formerkjum þess að vera að taka á hreinlætismálum, skattsvikum eða öðru slíku. „Þetta er gott fyrir bílaiðnaðinn hér“, segir hann og brosir. „Fólk hugsar náttúrulega sem svo að svona smásmugulegt lið passi upp á að hver einasta skrúfa sé á sínum stað.“ Hohmann vonar samt að sumir hafi endurskoðað hug sinn til vændis eftir að hafa séð hvað átti sér stað á píku-klúbbunum. „Þetta var vonandi upplýsandi fyrir þá sem ekki þekktu neitt til ömurleika vændis áður“, segir hann. „Vonandi vöknuðu sumir til meðvitundar“.

Pólitíkusarnir virðast hins vegar ekki vera með á nótunum. Sláandi niðurstöður könnunarinnar sem Ursula von der Leyen, þáverandi ráðherra málefna fjölskyldna, aldraðra, kvenna og barna, lét gera árið 2007 um áhrif nýju vændislöggjafarinnar hafa ekki breytt neinu. Könnunin sýndi að lögreglunni var gert nánast ómögulegt að sinna eftirliti, alltof fá úrræði voru til staðar fyrir konur sem vilja hætta í vændi, og engin lög höfðu enn verið sett til að taka á þeim sem kaupa vændi af fórnarlömbum mansals. Síðan könnunin var gerð og birt hefur ekkert gerst í þessum málum. Ekkert.

Aðalvandamálið er að samkvæmt nýju lögunum er ómögulegt að koma lögum yfir dólga og aðra sem hagnast á vændi bak við tjöldin án vitnisburðar vændiskonunnar. Þær eru hins vegar í fæstum tilfellum reiðubúnar að vitna gegn þessum mönnum. Og þar er ekki eingöngu verið að ræða um Rómakonurnar frá Rúmeníu sem geta ekki lesið á götuskiltin og sem vita oft ekki einu sinni í hvaða borg þær eru staddar hverju sinni.

Þessa stundina er Hohmann að vinna að einu svona máli í fylgikvenna-bransanum, sem er almennt álitinn dálítið smart og „frjáls“. Konan sem um ræðir hefur um átta til tíu þúsund evrur í tekjur á mánuði og er búin að kaupa þrjár íbúðir fyrir „kærastann“ sinn. „Bróðir mannsins býr í einni íbúðinni, móðir hans í annarri og hann sjálfur í þeirri þriðju“, segir Hohmann frá. „En konan segir við okkur, „Nei, ég þarf ekkert að vera skráð sem eigandi, og ég hef heldur ekkert við minn eigin tékkareikning að gera“. Við fáum svipuð mál inn á borð til okkar í hverri einustu viku“.

TÍMI TIL AÐ BÆTA UMBÆTURNAR?

Andstætt pólitíkusunum virðast lögreglustjórar um allt Þýskaland vera búnir að átta sig. Þann 18. nóvember 2010 ályktaði fundur innanríkisráðherra þýsku landanna einróma að endurskoðunar á nýju vændislögunum væri þörf, þar sem „núverandi lagaumhverfi er fullkomlega óásættanlegt“, og að löggjafinn hefði ekki tekið neitt tillit til þess að um væri að ræða umhverfi þar sem glæpir væru gríðarlega algengir.

Ráðherrarnir fara fram á að vændishús verði leyfisskyld. Þeir vilja að vændiskonur verði að skrá sig, að auglýsingar fyrir vændi verði takmarkaðar verulega (sérstaklega auglýsingar á óvörðum kynmökum) og þeir vilja grípa í taumana á „þeirri uggvænlegu þróun sem hefur orðið með tilkomu Flatrate-klúbba og gangbang-tilboðum“. Innanríkisráðherrarnir fara einnig fram á yfirgripsmikið framboð af úrræðum fyrir konur sem vilja hætta í vændi. Úrræði eins og La Strada-kaffihúsið, sem þurfti að fjármagna nýtt og betra húsnæði eftir 15 ár í dimmum kjallara með frjálsum framlögum og gjafafé velunnara. Kaffihúsið gæti ekki heldur veitt öllum þessum konum mat ef ekki væri fyrir frjáls framlög og gjafir: Bróðurparturinn af matnum kemur frá góðgerðasamtökunum Stuttgarter Tafel og ef einhvers staðar falla til afgangar eftir starfsmannapartý eða þess háttar hleypur Sabine Constabel út í bíl og skutlast eftir þeim.

Klukkan er hálftíu. La Strada tæmist smám saman. Constabel þarf að skreppa aftur. Tvær stúlkur eru ófrískar. Spieth læknir er með nöfnin þeirra, nöfn vændishússins sem þær starfa í, og herbergisnúmerin. Næturklúbburinn Uhu er rétt handan við hornið, það tekur innan við eina mínútu að ganga þangað, og það brestur í gömlum viðnum í stiganum upp á aðra hæð. Á leiðinni að herbergi númer 10 deilir Sabine út smokkum og kexi til hálfnaktra, kornungra kvennanna sem standa í dyragættum hinna herbergjanna. „Komiði til okkar í La Strada!“, segir hún.

ÓLÉTT – FÓSTUREYÐING EÐA VINNA?

Hurðin að herbergi númer 10 er læst. „Selmin“ stendur ritað með flúraðri skrift á hurðina en „Selmin“ er ekki tyrknesk – nafnið á miðanum sem Sabine er með hljómar rúmenskt. Hurðin opnast og ungur maður, ekki deginum eldri en tvítugur, kemur út með afslappað bros á andlitinu. Inni í herberginu stendur skelfilega mjó stúlka með alvarleg augu. Hún talar ekki orð í þýsku, og kona úr nærliggjandi herbergi kemur til að þýða. Já, hún veit að hún er ólétt. Nei, hún vill ekki eiga barnið. Já, hún vill fara í fóstureyðingu. Nei, hún á engan pening til að borga fyrir aðgerðina. „Ég skal sjá um að borga“, segir Sabine Constabel. „En þú mátt ekki vinna í tvær vikur eftir aðgerðina“. Stúlkan hristir höfuðið. „Það gengur ekki“, þýðir hin konan.

66dbc-mynd3Næsti kúnni stendur í dyragættinni, hann er um fimmtugt, lítur út fyrir að vera kennari eða félagsráðgjafi. „Hún er upptekin!“, hvæsir Sabine Constabel og maðurinn fer í næsta herbergi. „Við verðum að flýta okkur“, segir hún við stúlkuna. „Þú hefur bara eina viku til að láta eyða fóstrinu, annars verðurðu gengin með of langt til að mega fara í löglega fóstureyðingu í Þýskalandi“. „Selmin“ útskýrir að hún geti þá bara látið eyða því í Rúmeníu, þar sé fólk sem taki svona lagað að sér sama hve langt óléttan er komin. „En þá er barnið orðið mjög stórt“, maldar Sabine í móinn. Ófríska stúlkan kinkar kolli. Sabine og hún koma sér saman um tíma fyrir fóstureyðinguna seinna í sömu viku. Sabine verður bara að vona að stúlkan mæti.

Hvað er hægt að gera? Sabine, sem er orðin sérfræðingur í öllu sem lýtur að vændi, býst ekki við miklum árangri af því að gera vændishús leyfisskyld, eins og ráðherrarnir vilja. „Þessi búlla hér fengi leyfi án nokkurra vandræða, enda er allt löglegt sem á sér stað hérna“, segir hún. „Þá er búllan bara með leyfi, og hvað svo? Ef stjórnmálamenn og –konur vilja virkilega gera eitthvað gott fyrir vændiskonur þá eiga þau að fjárfesta í úrræðum fyrir þær sem vilja hætta!“

Sabine hefur enn ekki hugmynd hvað muni verða um Nicki. Hún efast um að það sé mikið hægt að gera fyrir hana, því „kærastinn“ hennar, sem vinnur tvo daga í viku á skyndibitastað, er enn inni í myndinni. „Hún verður að losa sig við hann“, segir hún og talar af reynslu. „Svo lengi sem hann hagnast á vinnu hennar verður erfitt fyrir hana að hætta“. Sabine vill gjarna koma Nicki inn á heimili fyrir mæður og börnin þeirra. „Við erum hluti af öflugu tengslaneti hér í Stuttgart. Og það er mikilvægt vegna þess að konur sem hafa selt sig árum eða jafnvel áratugum saman þurfa mikinn og langvarandi stuðning og eftirfylgni.“

Það að stundum ganga hlutirnir upp og konurnar ná að segja skilið við vændi gerir að það verkum að Sabine hefur haldist í þessu starfi í 20 ár og alltaf líkað vel. Ein þessara kvenna er Rósa.

PRINSESSA, BRÚNN BANGSI OG TORG AÐ MORGNI

Klukkan er kortér yfir tíu og Sabrina vill ekki enn fara. Hún er sjötug, lítur út eins og indónesísk prinsessa og var hérna áður fyrr karlmaður. Hún er klædd í gallabuxur og rauðan íþróttajakka en í körfunni hennar er svartur kjóll með gylltu belti sem hún sýnir okkur stolt. Hún hefur ferðast um allan heiminn sem dansari og kampavínsstúlka í næturklúbbi, þar sem hún hafði tekjur af því að halda kúnnunum félagsskap og fá þá til að kaupa drykki. Nú kemst hún ekki einu sinni til Amsterdam að heimsækja systur sína, peningarnir duga ekki til. Og í þorpinu rétt utan við Stuttgart, þar sem nágrannarnir hræðast hana, er hún „óendanlega einmana. Allir vinir mínir og kunningjar eru í vændi. Við komumst ekkert út úr því“, segir hún. Sem betur fer er La Strada til. „Þetta er mitt annað heimili“, bætir hún við.

Bea, sextug kona frá Bæjaralandi, er frekar sjaldan á La Strada. „Hún er ein þeirra fáu sem komst hálfpartinn heil heilsu út úr vændinu“, segir Sabine Constabel. Hún tók við kúnnum á íbúðarhóteli og þar sem hún var gríðarlega hrædd við dólga vann hún alltaf ein. Hún sá hvernig hinar vændiskonurnar á hótelinu voru barðar og lamdar af mönnum sem þær svo gáfu pelsa í jólagjöf. Hve margar konur á hótelinu unnu án dólgs, eins og hún? „Engin“, svarar Bea stuttaralega.

Skyndilega standa þrjár stúlkur við afgreiðsluborðið, ein þeirra bendir á kviðinn á sér og spyr hvort hún geti fengið að hitta lækninn. Vaktin hjá honum kláraðist fyrir hálftíma, er henni sagt. „Slæmt“, svarar hún. Sabine kallar upp á aðra hæð, „Frieder, geturðu tekið einn sjúkling í viðbót?“. „Já!“ er svarið.

Klukkuna vantar tuttugu mínútur í ellefu. Dr. Friedrich Spieth er kominn úr læknagallanum og í leðurjakkann og gerir sig líklegan til að fara. Sabine Constabel horfir á tóbakspakkann sinn gegnum lesgleraugun og rúllar sér sígarettu. Það er búið að ganga frá í eldhúsinu og þurrka af borðunum. Á einu þeirra liggur eitthvað brúnt og mjúkt. Svo opnast dyrnar með mjólkurlitaða glerinu og stúlkan sem kom til læknisins með kviðverki kemur inn. Hún lítur með leitandi augnaráði yfir herbergið og staðnæmist við þetta brúna og mjúka. Það er bangsinn hennar. Hún treður honum snöggt ofan í svarta veskið sitt og tekur með sér út á þröngar götur gömlu borgarinnar.

Næsta morgun um hálftíu stendur konan með svarta veskið og brúna bangsann í háhæluðum stígvélum við litla torgið á Leonhardstrasse. Hún horfir út í tómið.

***

Myndirnar sem fylgja greininni eru fengnar hjá tímaritinu EMMA, nema annað sé tekið fram. Greinina má lesa á frummálinu hér.

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.