Vændisstofnun ríkisins?

Höfundur: Brynhildur Björnsdóttir

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. október 2011, en er endurbirt hér. lítillega uppfærð í tilefni af ályktun á þingi Amnesty International um lögleiðingu allra vændisviðskipta

***

Helstu rökin fyrir því að leyfa kaupendum vændis að stunda sín viðskipti óáreittir eru eftirspurn, vilji einhverra til að stunda vændi svo og réttur einstaklinga sem ekki lifa kynlífi til kynlífs.

Gefum okkur í fyrsta lagi að við kjöraðstæður sé mögulegt að stunda vændi sér að skaðlausu. Gefum okkur því næst að fyrst eftirspurnin er augljóslega mikil, viljinn til starfans mögulega fyrir hendi hjá einhverjum og réttur þeirra kynsveltu enn fremur jafn veigamikill og Amnesty International virðast telja (en samtökin hafa í vinnuplöggum skilgreint réttinn til kynlífs nánast sem altæk mannréttindi, sjá t.d. á bls. 6 í vinnuskjali sem lak frá Amnesty í fyrra og liggur til grundvallar ályktuninni í Dublin). Að þessu gefnu virðist ljóst að það sé langbest og rökréttast að leyfa vændi, það er að segja bæði kaup, sölu og milligöngu þriðja aðila til að gera markaðsumhverfið sem fjölbreyttast.

gúmmíhanskarEf vændi á að vera leyfilegt og löglegt þá þarf að gera orðið „vændiseinstaklingur“ eða „fullnægingartæknir“ að lögvernduðu starfsheiti. Verðandi vændiseinstaklingar skyldu leggja stund á iðn- eða háskólanám eða að minnsta kosti að sækja námskeið og fá vottorð upp á að þeir hafi náð tökum á þeirri tækni sem þarf til að stunda starfið og skilji hvað starfið felur í sér. Þetta námskeið væri að sjálfsögðu haldið á tungumáli starfslandsins svo þeir útlendingar sem vilja fá þessi réttindi yrðu að hafa grunn í tungumálinu og geta tjáð sig vel á því. Ekki þarf að taka fram að fullnægingartæknar þurfa að hafa náð að minnsta kosti tvítugsaldri.

Sumir hafa lagt það að jöfnu að leggja stund á almenn þrif og að stunda vændi. Sá samanburður er mjög villandi. Þó hvort tveggja feli í sér afnot af líkama annarar manneskju (eins og fleiri starfsgreinar, t.d. smíðar, hárgreiðsla, sjúkraþjálfun og nudd) er mikill munur á því hvernig líkamanum er beitt í vændi annars vegar og öðrum greinum þar sem líkamar snertast hins vegar. Í vændi er unnið með þau líffæri viðskiptavinarins sem honum þykir hvað vænst um og því verður að ganga úr skugga um að sá eða sú sem meðhöndlar þessi líffæri kunni með þau að fara þannig að enginn skaði hljótist af. Því þarf eftirlit að vera gríðargott og umfangsmikið.

Gott eftirlit með hagsmunum viðskiptavinar og vændistæknis er frumforsenda, og því þyrfti vændiþjónusta að vera á vegum ríkisins eins og önnur heilbrigðisþjónusta, en ekki algjörlega háð lögmálum markaðarins jafnvel þó slíkt fyrirkomulag myndi að einhverju leyti draga úr fjölbreytni. Lykilatriðið er að eins og önnur heilbrigðisþjonusta yrði þessi veitt af menntuðum, vottuðum og þjálfuðum einstaklingum í hreinu og heilbrigðu umhverfi.

hreint rúm

Á meðan staðan er ekki svona, á meðan vændi er stundað í skúmaskotum af tilneyddum, á meðan vændiseinstaklingar eru beittir ofbeldi og þriðji aðili hefur milligöngu um að selja aðgang að líkama þeirra þá eru vændiskaup bönnuð með lögum af því að við samfélagið viljum ekki að fólk sé misnotað, svívirt og meitt.

Lagasetning getur ekki komið í veg fyrir glæpi, það vita allir. En lög lýsa afstöðu og vilja samfélags. Og afstaða er gríðarlega sterkur áhrifavaldur. Það er óskandi að afstaða Amnesty International eins og hún birtist í Dublin í gær muni leiða af sér að vændi verði ekki til þess að konur og börn verði misnotuð í enn ríkara mæli, nú þegar samtökin hyggjast beita sér fyrir því að löglegt sé fyrir þriðja aðila að selja aðgang að líkömum þeirra.

Það er óskandi að hún leiði af sér hreinlega og örugga kynlífsþjónustu þar sem niðurlæging, ofbeldi og nauðganir eru jafn sjaldgæf og við önnur líkamleg störf. Því miður er ekkert sem bendir til þess að sú sé raunin í þeim löndum þar sem alhliða sala á vændi er lögleg. Og ekkert í ályktun Amnesty sem bendir á hvernig samtökin ætla að hafa eftirlit með þeim umdeilda iðnaði sem þau hafa ljáð málstað sinn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.