Af skúringum og vændi

Frá ritstjórn: Höfundur greinarinnar óskar nafnleyndar

 

Ég hef unnið við skúringar á ýmsum tímabilum ævinnar, allt frá því ég var unglingur. Ég hef skúrað í fyrirtækjum, heimahúsum, skemmtistöðum, kaffihúsum, líkamsræktarstöðvum, börum, sjúkrahúsum og heilsugæslum og unnið við hverskyns þrif í fjölda mörg ár. Starfið er slítandi, líkamlega gríðarlega erfitt, stundum ógeðfellt og oft illa borgað.

Ég hef framfleytt mér í mörg ár á því að þrífa upp skítinn eftir aðra í bókstaflegri merkingu. Æla, saur, blóð og hland, ekkert af þessu finnst mér neitt tiltökumál að þrífa. Ég viðurkenni að ég hef oft kúgast, haldið fyrir nefið og jafnvel gripið á það ráð að binda fyrir vitin þegar fnykurinn er sem verstur. Einu sinni ældi ég hreinlega þegar einhver með niðurgang hafði ekki hitt á klósettið og mig grunar að viðkomandi hafi verið að losa eitthvað gamalt og fúið úr þörmunum þann dag.

En aldrei upplifði ég áfallastreitu eftir þrif. Ég fann aldrei fyrir skömm eða sektarkennd, né heldur lifði ég tvöföldu lífi eða fannst ég þurfa að fela fyrir umheiminum hvernig vinnu ég vann til að framfleyta mér og mínum í gegnum námsárin mín. Ræstingastörfin höfðu engin sérstök áhrif á sjálfsvirðingu mína, enda var ég í þeirri forréttindastöðu að vera að framfleyta mér á meðan ég var í námi og ég vissi að skúringarvinnan tæki enda. Ég hef reyndar stundum gripið í hverskyns þrif þegar mig vantar pening og tel það ekkert eftir mér.

Yfirleitt tekur ræstingavinnan stuttan tíma, þú sérð oft mikinn árangur og færð pening  í staðinn. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að sumar samstarfskonur mínar upplifðu skerta sjálfsvirðingu og skömmuðust sín fyrir vinnuna sína enda er hún lítils metin í samfélaginu okkar. Við ræddum þetta oft yfir kaffibollanum í hléum og hörmuðum stundum hlutskipti okkar. Það eru fáir þakklátir fyrir ræstingarkonurnar ósýnilegu sem halda öllu hreinu, eins ómissandi og þær eru. En í þeim samræðum töluðum við ekki um að við værum að upplifa „endurlit“  (flash back) eftir einhverja þrifatörnina, fengjum ítrekað martraðir um óhreinindin og stritið eða gætum ekki gengið fram hjá vinnustað okkar án þess að fá kvíðakast.

Nei! Enda er fáheyrt að manneskja sem vinni við skúringar fái martraðir af vinnu sinni eða glími við áfallastreitu í mörg ár eftir að vinnu lýkur.  Hinsvegar hefur umræðan í kringum lögleiðingu á kaupum vændis gjarnan leiðst á þær slóðir að vændi sé líkt við að starfa við skúringar. Þetta getur að mínu mati aðeins orðið til þess að drepa umræðunni á dreif og snúa þungum alvarleika vændis upp í léttvægab og auðþekkjanlegan hversdagsveruleika, og það er einmitt afskaplega gagnlegt fyrir samvisku þeirra sem kaupa vændi.

Í þeirri umræðu langar mig að leggja orð í belg, þar sem ég hef reynslu af báðum störfum. Þess vegna hlýtur mín reynsla og sjónarmið að hafa talsvert vægi.

Klefi XXVI. Louise Bourgeois, 3333. Myndin er sótt hingað.

Klefi XXVI. Louise Bourgeois, 2003. Myndin er sótt hingað.

Ég hef reynslu af því að veita aðgang að líkama mínum fyrir greiða. Þessa framfærsluleið notaði ég í mun skemmri tíma en skúringatímabilin voru samtals, en hún hafði gríðarlega mikil áhrif á sjálfsmat mitt og líðan. Ég staðhæfi að þessum störfum er á engan hátt hægt að líkja saman.

Áfallstreitueinkenni, þar sem ég endurupplifði  ítrekað athafnir og aðstæður vændisins  á eins ljóslifandi hátt og ef ég væri í þeim ennþá, yfirtóku lífið. Ég þagði þunnu hljóði yfir framfærslu minni og upplifði ekki að um eiginlegt vændi væri að ræða, þar sem skiptimyntin var ekki í formi peninga.  Að verða sér úti um næsta skammt var drifkrafturinn sem knúði mig áfram. Ég gerði það sem ég þurfti, ekki af því að mig langaði til þess, heldur vegna þess að ég hafði ekki önnur úrræði.

Ég hefði skúrað 20 skemmtistaði ef ég hefði haft líkamlega burði í það frekar en að liggja undir sveittum, andfúlum og illa lyktandi dópdíler.

Og ég veit að þessi reynsla mín er hjóm eitt á miðað við suma aðra sem selja líkama sinn. Ég var ekki  seld í gegnum milliliði, ég „réði“ mér sjálf og hafði „frjálst“ val til þess. Ég var vissulega í forréttindastöðu. Þessi mantra um valið sem ég hafði deyfði mig, gerði mér kleift að halda áfram, gerði mér kleift að ganga enn lengra og misbjóða mér enn meira. Því ég valdi það sjálf.  Skömmin og sjálfshatrið sem þessu fylgdi gerði það að verkum að ég deyfði mig enn frekar í legi áfengis og eiturlyfja þar sem ég lá stundum ósjálfbjarga og var ítrekað nauðgað, þar sem ég gat ekki sagt nei vegna lyfjavímunnar.

Ég hef aldrei kært þær nauðganir því ég „valdi“ sjálf að byrla mér eitur.  Ég „valdi“ að veita aðgang að líkama mínum fyrir næsta skammt. Hvaða máli skipti það þó einhver fengi útrás á líkama mínum án þess að ég fengi eitthvað í staðinn? Það er ekki nauðgun, eða það taldi ég mér í trú um, og ég kærði ekki neinn. Sjálfshatrið var orðið svo mikið að mér var hreinlega skítsama.

Mörgum árum síðar sit ég í þeim sporum að ennþá hryllir mig við þessum tíma. Verstar af öllu eru minningarnar um „vöruskiptin“ . Ég hef ekki fundið neina tækni, eins og ég gerði við skúringarnar.í til að gera verstu augnablikin bærilegri.  Ég get ekki bundið fyrir vit mín og hert mig upp. Það eina sem hefur hjálpað mér er að skilja að vændið var aldrei á mínum forsendum eða með neins konar samþykki.  Samþykkið og forsendurnar voru teknar af mér í þeim valdamismuni sem var á milli mín og dópsalans/kaupandans.

Að líkja vændi og skúringum saman er fáránlegt að mínu mati og segir mikið til um vanþekkingu á þessum störfum.  Að ræða líf og limi jaðarsetts fólks út frá heimspekilegum forsendum og með því að beita samanburði sem byggður er á algjörri vanþekkingu eru forréttindi  lítils hóps, sem hafa að öllum líkindum hvorugu starfinu sinnt, eða þá á mjög erfitt með að setja sig í spor jaðarsetts fólks. Ég veit að mörgum gengur gott eitt til, að margir telja sig vera að berjast fyrir mannréttindum þeirra verst settu, en hafa hvorki reynslu né þekkingu til þess að skilja að aukið frelsi og réttindi í vændiskaupum gagnast helst þeim sem njóta nú þegar yfirburðastöðu, það er að segja þeim sem kaupir vændið eða gerir það út sem milliliður.

Það getur verið að einhver segi að ég sé að friðþægja mig með því að skella skuldinni á aðilana sem kusu að nýta sér líkama minn til vöruskipta. Við því hef ég þetta að segja: Líkami fólks er ekki neysluvara fyrir einhvern í yfirburðastöðu til að nýta. Sumir misnota neyð fólks og hvergi er það gert jafn augljóslega  og í vændi. Ég hef kosið að friðþægja ekki þá einstaklinga sem hafa misnotað mig, heldur set ábyrgðina algjörlega til þeirra.

Það er eina tæknin sem hefur virkað á mig, það eina sem dugar mér til þess að halda áfram með mitt líf. Það hefur virkað eins og súrefnisgríma í úrvinnslu á áfallastreituröskunnni og  gefið mér þrek til að halda áfram.

Ég er ekki fórnarlamb, þótt ég þekki þau nokkur, sem aldrei náðu sér eftir svipaða reynslu og sviptu sig lífi. Ég er þolandi vændis sem í eðli sínu er eins og annað kynferðisofbeldi. Val vændisfólks er nánast undantekingalaust skilyrt og þeir sem halda öðru fram byggja þá skoðun yfirleitt á aðstæðum lítils forréttindahóps þeirra sem stunda glaðir sitt vændi.

Ég lifði reynslu mína af, og að því leyti má segja að ég tilheyri „forréttindahópi“. Því engin „vinna“ kostar jafn mörg mannslíf, átök, ofbeldi og fórnir og vændi.

Það getur vel verið að einhver hafi allt aðra sögu að segja, kannski einhver sem unir glaður við sitt í vændinu. Ég bið þig um að hugsa um þá sem gera það ekki. Því þeir hamingjusömu og sáttu þurfa ekki hjálp úr vændinu, eða hvað? Þeir eru ekki jaðarsettir í vændisheiminum eða selja sig af neyð. Þeir staðhæfa að þeir geri það ekki.

Af öllum hinum sem hrópa í neyð sinni, hverjum viltu þá hjálpa?

Ein athugasemd við “Af skúringum og vændi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.