Opið bréf til Amnesty á Íslandi

Frá ritstjórn

Bref-til-bjargar-lifi-logo

Amnesty International eru virt og vel metin samtök sem notið hafa mikillar velvildar hérlendis, enda tekið upp hanskann fyrir þá sem minna mega sín, eru kúgaðir, sæta illri meðferð eða ofbeldi stjórnvalda víða um heim. Undir þessa lýsingu á starfsemi þeirra geta væntanlega allir tekið:

Amnesty International er alþjóðleg hreyfing fólks sem berst fyrir því að allir fái að njóta alþjóðlegra viðurkenndra mannréttinda.

Félögum misbýður þau mannréttindabrot sem eiga sér stað um heim allan en sameinast í von um betri heim – og því berjast þeir fyrir auknum mannréttindum með mannréttindastarfi og alþjóðlegri samstöðu.

Félagar okkar og stuðningsaðilar þrýsta á ríkisstjórnir og löggjafarþing, fyrirtæki og alþjóðlegar stofnanir og samtök.

Baráttufólk okkar tekur upp mannréttindamál á vettvangi fjölmiðla og með því að virkja afl almennings á mótmælafundum, kröfugöngum, ýmsum viðburðum og með beinum þrýstingi.“

Samtökunum er ekkert mannlegt óviðkomandi og hafa þau nú samþykkt að styðja afglæpavæðingu vændis, þ.e. bæði hvað varðar kaup og sölu. Í samþykktinni er jafnframt kveðið á um að einstaklingar í kynlífsiðnaði njóti fullra og jafnra mannréttinda og verndar gegn ofbeldi, misnotkun og mansali. Þetta er umdeilt mál en í ljósi ofangreindrar lýsingar er einboðið að spyrja þessara spurninga:

kúnnar1. Mun Íslandsdeild AI, í samræmi við stefnu alþjóðasamtakanna AI, hér eftir líta svo á að vændiskaupendur og mangararar sem dæmdir hafa verið eða kunna að verða dæmdir skv. íslenskri vændislöggjöf hafi orðið fyrir mannréttindabrotum? Hér verður ekki hjá því komist að vísa til bls. 6 í hinu margumrædda stefnumótunarskjali sem lekið var úr fórum Amnesty International í fyrra, þar sem sérstaklega er til tekið að „viðleitni opinberra aðila til að hindra þá fyrirætlun fullorðins einstaklings að eiga kynmök við annan samþykkan fullorðinn einstakling telst því vísvitandi skerðing á sjálfræði og heilbrigði þeirra einstaklinga.“

2. Telur Íslandsdeildin að brotin séu mannréttindi á vændisseljendum með því að svipta þau möguleika á framfærslu eða nýta ráðstöfunarrétt á líkama sínum og/eða að brotin séu mannréttindi á hugsanlegum vændiskaupendum með því að gera þeim ókleift að fá aðgang að líkama vændisseljanda?

3. Mun deildin beita sér á einhvern hátt í málefnum vændisseljenda/-kaupenda, t.d. með undirskriftalistum, bréfaskriftum, áskorunum eða beiðnum til stjórnvalda? Sem dæmi: Munu þeir sem taka þátt í “netáköllum” Amnesty fá sms með áminningu um að senda áskorun til íslenskra yfirvalda um að fella niður kæru á hendur Sakborningi X næst þegar vændiskaupamál kemur fyrir íslenskan dómstól?

4. Verður á einhvern hátt reynt að taka upp þetta mannréttindamál „með því að  virkja afl almennings á mótmælafundum, kröfugöngum, ýmsum viðburðum og með beinum þrýstingi.“ Er hugsanleg mótmælastaða fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur til stuðnings kærðum vændiskaupendum?

5. Formaður Íslandsdeildar Amnesty hefur nú í vikunni kvartað undan ósanngjarnri umræðu í aðdraganda Dublin-þingsins og talað um að sú umræða hafi verið byggð á vanþekkingu. Hafði deildin ákveðið löngu fyrir þingið að hún hygðist ekki styðja tillöguna um altækt refsileysi, heldur koma með breytingatillögu og hvers vegna mátti ekki skýra frá því? Formaðurinn hefur borið við þagnarskyldu, sem vekur furðu í ljósi þess að sænska Amnesty-deildin var búin að lýsa því yfir þegar í maí s.l. að hún myndi vera á móti tillögunni. Hvenær var þagnarskyldan sett á, hvenær var breytingartillaga Íslandsdeildarinnar sett saman og lögð fram og hvernig hljómar hún efnislega?

6. Og að lokum: Hvers vegna kaus Íslandsdeild AI að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna, í stað þess að einfaldlega greiða atkvæði gegn tillögunni?

 

Svör við þessum spurningum og fleiri eru kærkomin. Þau má senda á netfangið ritstjorn@knuz.is og verða að sjálfsögðu birt á vefritinu svo skjótt sem þau berast.

Ein athugasemd við “Opið bréf til Amnesty á Íslandi

  1. Bakvísun: Annáll 2015 | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.