Þegar konum var bannað að hlaupa langt…

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

“Konur geta ekki hlaupið lengra en 800 metra í keppni.”

Þessi mynd af Jock Semple hlaupstjóra sem reynir að rífa númerið af Kathrine fór víða og hafði meiri áhrif en nokkurn óraði fyrir.

Á liðinni öld var þetta lengi vel viðkvæðið í íþróttaheiminum. Konur voru álitnar svo veikbyggðar og þollitlar að þær gætu engan veginn þolað sama álag og karlar. Þetta var ákvörðun karla sem réðu þá því sem þeir vildu og íþróttamót voru skipulögð fyrst og fremst fyrir karlmenn. Kvennagreinar voru færri á stórmótum vegna þessarar forsjárhyggju og það var ekki fyrr en á sjöunda áratugnum sem barátta kvenna fyrir jafnrétti í íþróttum fór að bera árangur. Þar ruddu margar brautina. Sú sem langhlaupakonur eiga mest að þakka er Kathrine Switzer. Hún segir sögu sína í bókinni The Spirit of Marathon eftir Gail Waesche Kislevitz (2002).

“Þegar ég var tólf ára vildi ég verða klappstýra. Líkt og margar stúlkur á gelgjuskeiði áleit ég að ef ég væri klappstýra, yrði ég vinsæl og strákar myndu bjóða mér út og ég myndi komast á fast með fyrirliða ruðningsliðsins. Þegar ég sagði pabba frá þessari löngun minni, leit hann á mig og sagði: “Þú skalt ekki vera klappstýra. Það er kjánalegt. Lífið er til þess að taka þátt í því, ekki horfa á. Klappstýrur stjórna klappi. Taktu þátt í íþróttum, svo aðrir klappi fyrir þér…”

Kathrine átti góða fyrirmynd í foreldrum sínum, sem lögðu ríka áherslu á að henni væru engin takmörk sett og hún gæti gert allt sem hún leggði sig fram við. Faðir hennar hvatti hana sérstaklega til að hugsa út fyrir hefðbundin kynjahlutverk.

Kathrine ákvað að leggja stund á vallarhokkí og hóf að byggja upp þol með hlaupaæfingum. Þetta var árið 1959 og þá var óþekkt að fólk skokkaði á götum úti, en aðra kosti hafði hún ekki. Hún gat sér gott orð fyrir árangur í hokkíinu, þótti hafa gott úthald og var síðar boðið að keppa með frjálsíþróttaliði menntaskólans í Lynchburg í Virginíu. Hún var fyrst kvenna til þess að keppa með skólaliðinu og þótti þátttaka hennar jaðra við helgispjöll. Á keppnisdegi var krökkt af fjölmiðlamönnum á skólasvæðinu og í áhorfendastúkunni því allir vildu sjá og fjalla um konuna sem vogaði sér að hlaupa með karlmönnum. Kathrine vissi að hún yrði að standa sig vel og gerði það.

En þarna rann upp fyrir henni að eftir menntaskólanámið væri þátttaka í íþróttum ekki í boði. Hún ákvað því að læra íþróttafréttaritun og hóf nám við Syracuse-háskóla 1966. Þar fór hún þess á leit við þjálfara karlaliðsins í víðavangshlaupum að fá að ganga í liðið, þar sem ekkert kvennalið var við skólann. Þjálfarinn benti henni á að hún gæti ekki keppt formlega með liðinu, þar sem það væri bannað samkvæmt reglum bandaríska frjálsíþróttasambandsins, en henni væri velkomið að æfa með því. Það gerði Kathrine allan þennan vetur, var langsíðust á öllum æfingum en bréfberi skólans, Arnie Briggs, tók hana undir sinn verndarvæng og kenndi henni allt um hlaup, enda vanur hlaupari og hafði 15 sinnum lokið Boston-maraþoninu. Á æfingum sagði hann sögur af kunnum hlaupagörpum og langhundum, sem urðu til þess að Kathrine ákvað að taka þátt í maraþoninu í Boston vorið 1967, sem leiddi næstum til vinslita þeirra, því Arnie sagði í fyrstu að konur gætu ekki hlaupið maraþon, samkvæmt lögmálinu um minnkandi árangur. Þó sannfærðist hann að lokum, fullyrti að ef einhver kona gæti þetta, væri það hún og skipulagðar æfingar hófust með þetta takmark í huga.

Í þá daga var aðild að íþróttasambandi eða félagi forsenda fyrir þátttöku í þessu hlaupi. Í reglum bandaríska frjálsíþróttasambandsins var kveðið á um karlagreinar og kvennagreinar og í þriðja flokknum var maraþonhlaup, án kynjaákvæða.  Kathrine vildi hlíta reglunum, lagði fram læknisvottorð og skráði sig til þátttöku sem K.V. Switzer, eins og hún var vön.Engum datt í hug að bak við þetta nafn leyndist kona. Í kulda og slyddu stóð hún svo við ráslínuna að morgni keppnisdags, ásamt Arnie og Tom, unnusta sínum, sem var sleggjukastari, stór og þungur, óvanur að hlaupa, en vildi fylgja þeim.

Kathrine var eina konan í stórum hópi karla, sem fögnuðu henni ákaflega og buðu velkomna til hlaups. Öllum fannst þeim stórkostlegt að kona ætlaði að taka þátt í þessu elsta maraþoni íþróttasögunnar. Svo lagði hjörðin af stað.

Eftir nokkra kílómetra kom rúta full af fjölmiðlamönnum, sem tóku eftir Kathrine og munduðu myndavélarnar stórhrifnir, enda skildu þeir fréttagildi þátttöku hennar. Jock Semple, hlaupstjóri, var einnig í rútunni, kunnur skaphundur og taldi Kathrine vera þarna á fölskum forsendum. Hann stökk saltvondur út og réðist að Kathrine, heimtaði keppnisnúmerið hennar og sagði henni að andskotast burt úr hlaupinu sínu og greip harkalega í hana. Arnie Briggs reyndi að slíta Jock lausan en það var ekki fyrr en Tom henti sér á hann að Jock sleppti takinu og kastaðist út fyrir brautina, meðan ljósmyndararnir smelltu af í gríð og erg. Kathrine var illa brugðið við árásina en þau hlupu áfram, staðráðnari en nokkru sinni fyrr að komast í mark, hvað sem það kostaði. Það gekk eftir. Kathrine lauk hlaupinu á 4 stundum og 20 mínútum.

Þetta afrek hennar er þó hvergi fært til bókar og Íþróttabandalag Boston gerði sitt besta til að hunsa þátttöku hennar. En myndir og fregnir af uppákomunni fóru um allan heim og gerðu ráðandi öflum erfitt fyrir að þagga þetta niður. Máttur upplýsinganna er mikill og næstu ár fylgdu fleiri konur fordæmi Kathrine og hlupu í Boston, þrátt fyrir reglurnar.

Kathrine SwitzerEftir þetta helgaði Kathrine sig baráttu fyrir því að skapa konum tækifæri til að æfa og keppa í íþróttum og að þær hefðu sömu réttindi og karlmenn á öllum sviðum þeirra.  Hún barðist fyrir afléttingu á banni á þátttöku kvenna í Boston-maraþoninu og  hvatti til þess að konur fengju að keppa í lengri vegalengdum á Ólympíuleikum. Boston-banninu var aflétt 1972 og á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984 var fyrst keppt í maraþoni kvenna. Hún hélt áfram æfingum og keppni í langhlaupum og sigraði í New York maraþoninu 1974 á 2 stundum og 51 mínútu. Hún hljóp átta sinnum í Boston og sögulegar sættir urðu með þeim Jock Semple.

Kathrine Switzer hefur alla tíð barist fyrir réttindum og þátttöku kvenna í íþróttum og farið víða um heim með fagnaðarerindi sitt. Þessar 180 konur sem luku heilu maraþoni í Reykjavík 2011, geta þakkað það konum eins og Kathrine Switzer, sem ruddu brautina.

Nú er Kathrine Switzer stödd á Íslandi. Á laugardaginn hlaupa hundruð kvenna heilt maraþon í Reykjavík og hugsa vonandi til hennar og allra hinna sem ruddu brautina. Sú saga er nánar rakin í þessari grein.

Það er við hæfi að Kathrine eigi síðustu orðin:

Lánið hefur leikið við mig í lífinu. Foreldrar mínir og Arnie sögðu mér að ég gæti gert allt sem ég vildi. Ég lét mér aldrei nægja að leika mér bara með dúkkur eða vera bara klappstýra. Vissulega lék ég mér með dúkkur og gekk í kjólum en ég klifraði líka í trjám og var kappsfull í íþróttum. Eftir ævintýrið í Boston skildi ég að margar konur í heiminum alast upp án þessa stuðnings og án þess að vita að þeim eru engin takmörk sett. Ég vildi ná til þessara kvenna og gera eitthvað til að breyta lífi þeirra.

Það eina sem þarf er að þora að trúa á sig og taka eitt skref í einu.”

Þessi grein birtist upphaflega hér og er endurbirt ásamt viðauka með leyfi höfundar:

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.