Berleggjuð dama á sextugsaldri

Höfundur: Sigríður Pétursdóttir

berleggjaða daman

Á laugardag var hitasvækja í Lundúnaborg, ég þvældist um í stuttbuxum og bol en fór svo heim og auðvitað beint í tölvuna. Áður en ég kæmi mér að vinnu kíkti ég á Facebook. Við mér blöstu statusar frá fjölda hlaupara á Menningarnótt og án þess að spá frekar í það tók ég símann og smellti mynd af mér berleggjaðri með tölvuna í fanginu. Við hana skrifaði ég;

Í hitamollunni les kona um fjölda maraþonhlaupara sem styrkja gott málefni. Til hamingju allir hlaupagikkir og þeir sem njóta góðs af! Á Eton Place reynir heilaskarnið mitt að hlaupa maraþon við skriftirnar, án mikils árangurs. Ekki veit ég hvernig rithöfundar í Afríku fara að!

Að þessu sinni sat ég ekki og starði eftirvæntingarfull á skjáinn í von um læk, heldur fór og fékk mér kaffi og brasaði eitthvað. Þegar ég kom að tölvunni hálfri klukkustund síðar var komið eitt læk og svolítið grín í kommentum, meðal annars um að þetta væri nú eiginlega nektarmynd. Ég flissaði. Hafði ekki áttað mig á að það sást ekki í stuttbuxurnar. Það sást samt ekkert sem fólk sér ekki í sundi eða þegar heitt er úti. Fyrir nú utan að ég er ekki einu sinni í kynþokkafullri stellingu á myndinni og klikkaði alveg á að Fótósjoppa hana í drasl til að gera mig girnilegri.

Mér datt fyrst í hug að eyða færslunni, þar sem ég hefði gert eitthvað sem væri pínlegt, en velti því svo fyrir mér hvort nokkrum hefði brugðið við ef myndin hefði verið af karlmanni eða ungri konu. Í þrjósku minni ákvað ég því að halda henni inni og hugsaði til átaksins þegar ungu konurnar frelsuðu geirvörturnar. Ekki þorði ég að vera með, ekki frekar en flestar aðrar konur á mínum aldri. Nú ætlaði ég sko að sjá hvað gerðist.

Ekki þurfti ég að bíða lengi. Strax duttu inn þó nokkur einkaskilaboð. Annars vegar góðlátlegar ábendingar um að svona mynd ætti kona á mínum aldri og í minni stöðu ekki að setja á Facebook og hins vegar skilaboð frá karlmönnum. Skilaboð sem mér dettur ekki einu sinni í hug að hafa eftir. Vafasamar vinabeiðnir létu heldur ekki á sér standa.

Ég hef haft það fyrir reglu að setja aldrei neitt á Facebook sem heimurinn má ekki sjá eða lesa. Mér væri líka slétt sama þó blessuð myndin væri utan á strætó. Ég sé ekkert rangt við beran fótlegg. Sjálfsagt er þetta eins og allt annað spurning um samhengi, tölvan í kjöltunni og svona, en þrátt fyrir það get ég ekki séð neitt ósæmilegt við myndina.

Ég er enn dálítið hlessa yfir viðbrögðunum en nú er kella búin að frelsa lærleggina og skorar á allar skvísur yfir fimmtugu að fylgja fordæminu! Þótt undarlegt megi teljast er greinilega ekki vanþörf á.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.