Fótboltastelpur og fótboltastrákar, mömmuhugleiðingar

Höfundur: Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir

Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á ávinning þess að börn stundi íþróttir. Íþróttastarf hefur mikið forvarnargildi, eflir félagsþroska barna og hvetur til heilbrigðara lífernis. Íþróttaiðkun ýtir í mörgum tilfellum undir heilbrigðan metnað og skapar vettvang fyrir skemmtilegar samverustundir. Ég ætla hér aðeins að velta upp hugleiðingum mínum varðandi eina íþrótt, fótbolta. Gríðarlegur fjöldi barna æfir fótbolta á Íslandi, jafnt stelpur sem strákar. Sumir æfa fyrir félagsskapinn, aðrir fyrir hreyfinguna, enn aðrir fyrir gleðina af því að leika með boltann. Sum börn hreinlega lifa fyrir fótboltann, ætla sér að ná langt og vonast til að geta gert íþróttina að atvinnu sinni. Ég á tvö svoleiðis börn, strák og stelpu. Ég á reyndar tvö önnur börn, 19 ára stelpu sem prófaði allar mögulegar íþróttir áður en hún staldraði við í handboltanum. Hann æfði hún í nokkur ár, sér til ánægju. Hún hætti að hafa gaman af handboltanum uppúr fermingu og hætti þá, enda var hún að gera þetta fyrir sjálfa sig og engan annan. Yngsta stelpan mín æfði fimleika í einn vetur, henni fannst það ekki gaman og hefur nú æft fótbolta í eitt ár. Hún hefur gaman að boltanum og ætlar að halda áfram, en hvar metnaðurinn liggur kemur bara í ljós. Ég tel að börn eigi að æfa íþróttir fyrir sig sjálf en auðvitað skiptir hvatning og stuðningur að heiman miklu máli líka.

En aftur að miðjunum mínum, hún er 12 ára og hann er 15. Þau eru bæði gríðarlega metnaðarfull, mæta á hverja einustu æfingu og sækja allar aukaæfingar og aukanámskeið sem í boði eru. Þessi tvö eiga sér þann draum að komast einn daginn í landsliðið og æðsti draumurinn er að komast í atvinnumennsku. Þau eru bæði afar efnileg og ég hef fulla trú á þeim báðum. Eins og hvert einasta foreldri óska ég þess að börnin mín fái tækifæri til að eltast við draumana sína í von um að þeir rætist hvað svo sem þau dreymir um. Það sem hryggir mig þó svo óendanlega mikið er að þrátt fyrir að þau leggi nákvæmlega jafnhart að sér í fótboltanum þá virðist framtíðin mun bjartari fyrir hann en hana.

fotbolti stelpur strakar

Segjum svo að þau nái bæði markmiðum sínum og verði með bestu fótboltamönnum á Íslandi. Þá, eins og staðan er í dag eru allar líkur á því að hann fái góðan samning sem inniheldur margfalt hærri laun en hún mun nokkurn tíma geta fengið. Hann mun líklega leika fyrir fullri áhorfendastúku en á hennar leiki mæta aðeins örfáar hræður. Íþróttafréttamenn munu sýna honum áhuga, minna almenning á leikina hans, sýna frá þeim og tala um þá en veita hennar leikjum algjöra lágmarksathygli. Þrátt fyrir að þau séu enn svona ung að árum er mismununin þegar byrjuð. Strákum er hampað en stelpur eru hundsaðar. Nú er sumarið 2015 að líða undir lok og sem móðir þriggja fótboltabarna hef ég eytt mörgum sumardögum á hliðarlínunni á hinum ýmsu fótboltamótum.

Snemma í júní fór stelpan mín á TM mótið í Eyjum, hún hefur í allan vetur æft sérstaklega fyrir þetta mót því hún stefndi að því að komast í „landsliðið“ sem valið er í á mótinu. Ein stelpa úr hverju liði er valin í þetta lið. Stelpan mín var ekki sú eina í Fylki sem stefndi að því að verða valin og segja má að þetta val geti valdið sárindum milli liðsfélaga vegna þess að í mörgum tilfellum þarf að gera upp á milli stelpna sem eiga þetta jafnmikið skilið. En þetta er hefð og þykir mikill heiður, stundum erum við of hrædd við að brjóta upp hefðir en það er efni í annan pistil. Nú, það fór svo að dóttirin uppskar eins og hún sáði og var valin í landsliðið. Það var því stór stund fyrir hana að fara í landsliðsbúninginn, heyra nafnið sitt lesið upp áður en leikur hófst og fá að spila á stóra vellinum fyrir framan fulla stúku. Þvílíkt augnablik, einmitt það sem hana hafði dreymt um í marga mánuði.

Fylkir stóð sig vel á mótinu og komst alla leið í úrslit A-liða og spilaði þar á móti Stjörnunni. Fylkir tapaði úrslitunum og með tárvota vanga tóku þær á móti silfurpening fyrir frammistöðuna. Í lok verðlaunaafhendingar, þegar skottan mín var enn að þurrka tárin eftir tapið kom tilkynning þess efnis að kosið hefði verið um efnilegasta leikmann mótsins. Hver þjálfari hafði kosið eina stelpu sem tilheyrði öðru liði en hans eigin. Á mótinu voru tæplega 700 stelpur.

„Sá leikmaður sem flest atkvæði hlaut kemur frá Fylki“ sagði kynnirinn og mömmuhjartað stoppaði smá stund, alveg óvart kleip ég víst ansi fast í soninn sem sat við hlið mér í stúkunni. Þar sem ég hélt í strákinn heyrði ég nafnið hennar lesið upp með tilþrifum. Ég týndi algjörlega minni stóísku ró í smá stund, hoppaði og klappaði og reyndi að ná myndbroti á símann minn af því þegar stelpuskottið gekk inn á völlinn og tók á móti verðlaunabikar undir dynjandi lófaklappi. Myndbrotið er allt hrisst og gæðin skelfileg, svolítið í takt við geðshræringu móðurinnar sem var með barmafullt hjartað af stolti. Mikið vildi ég óska þess að einhver annar hefði tekið þetta upp og stelpan gæti átt þessa minningu á filmu.

Ef hún hefði verið strákur þá hefði Stöð 2 tekið þetta upp ! En það var engin sjónvarpsmyndavél á staðnum, ekkert var tekið upp á þessu móti og við vorum ekkert að pirra okkur á því þá. Ekki fyrr en sama mót var haldið fyrir stráka tveimur vikum síðar og við sáum og heyrðum allt um það í íþróttafréttum Stöðvar 2. Það voru bæði fluttar fréttir af strákamótinu, sýndar myndir og viðtöl og svo var sérþáttur um mótið á Stöð2 sport. Ekki misskilja mig, mér finnst algjörlega frábært að strákarnir hafi fengið þessa umfjöllun og viðurkenningu en ég er hrikalega ósátt við að stelpurnar hafi ekki fengið það sama. Á strákamótinu eru 12 strákar valdir bestir og fær hver um sig eignarbikar á meðan aðeins ein stelpa er valin best á stelpumótinu. Til að toppa mismuninn á milli stráka og stelpna á eyjamótunum í sumar þá var sá bikar sem sigurlið stúlkna fékk hér um bil þriðjungi minni en sá bikar sem sigurlið strákanna fékk. Þegar það mál kom upp á yfirborðið var talað um samskiptaleysi milli mótsaðila, það er ódýr og léleg afsökun að mínu mati.

bikarar

Norðurálsmótið á Akranesi (strákamót) var haldið helgina eftir TM mót stelpnanna, það var sýnt í sjónvarpinu og tekið var fram að þetta væri fyrsta fótboltamót sumarsins. Í ALVÖRU, heilt stelpumót með mörg hundruð stelpum hundsað algerlega !!!

Yngsta stelpan mín fór á Sauðárkrók í lok júní og keppti þar ásamt rúmlega þúsund öðrum stúlkum, frábært mót en ekki eitt orð um það í fréttum. Sömu helgi var þó fjallað ítarlega um strákamótið sem þá var í eyjum.

Ég skrifaði bréf til 365 og óskaði eftir útskýringum á þessari mismunun. Í ljós kom að þetta snýst allt um peninga. Mér var sagt að fyrirtæki sem styrkja fótboltamót barna vilja sum hver bara borga fyrir upptöku af strákamótum en ekki stelpumótum. Í bréfi mínu minntist ég á TM mótið í eyjum og fékk ég þau svör að Tryggingamiðstöðin hefði ekki viljað borga fyrir stelpurnar. Þetta þykir mér gríðarlega mikil skömm fyrir viðkomandi fyrirtæki, að það taki viljandi þátt því að mismuna börnum eftir kyni. Mér þykir einnig fyrir neðan allar hellur að ÍBV samþykki svona ójafnrétti. Hvernig geta fyrirtækið og félagið útskýrt fyrir þeim mörg hundruð stelpum sem tóku þátt í mótinu að þær séu ekki jafnverðmætar og mikilvægar og strákarnir? Er þetta kannski líka bara misskilningur og samskiptaleysi eins og bikararnir?

Mér þykir þetta ekki sanngjarnt og hreint út sagt finnst mér þetta óþolandi. Ég óska þess að við í samfélaginu sem áhuga höfum á fótbolta tökum höndum saman og breytum þessu. Við sem eigum stelpur í boltanum ættum að vera góðar fyrirmyndir, það getum við til dæmis gert með því gæta að því hvernig við tölum um kvennaíþróttir. Látum stelpurnar okkar aldrei upplifa að þær séu minna virði og að þeirra draumar séu óraunhæfir. Við sem förum á völlinn að horfa á meistaraflokksleiki, hvernig væri að við myndum gera okkur ferð á kvennaleikina líka? Þeir eru ekki eins óspennandi og margir halda að þeir séu. Fjölmargir voru gapandi hissa þegar þeir horfðu á HM kvenna í sumar og sáu að stelpurnar spila bara fjandi skemmtilegan bolta og eru í mörgum tilfellum enn harðari af sér en strákarnir. Í kjölfar HM hefur verið ákveðið að knattspyrnukona muni í fyrsta skipti prýða forsíðu Fifa16 sem er einn vinsælasti tölvuleikur í heimi. Það eru gleðilegar fréttir og vonandi einungis byrjunin á breyttu viðhorfi samfélagsins.

Litlu stelpurnar okkar vilja ekki þurfa að spila fyrir tómri stúku í framtíðinni svo við ættum að byrja strax að mæta á kvennaleikina og styðja stelpurnar okkar…sama í hvaða liði það er. Tökum höndum saman, hvetjum bæði stelpur og stráka og veitum þeim jafnmikla athygli. Hver veit nema að íþróttafréttamenn sem gjarnan segja að engin eftirspurn sé eftir kvennaíþróttum í sjónvarpi þurfi að éta þau orð ofan í sig og neyðist til að taka þátt í jafnréttinu með okkur…væri það ekki dásamlegt?

Þessi grein birtist upphaflega hér og birt á knuz.is með leyfi höfundar.

 

 

 

 

Ein athugasemd við “Fótboltastelpur og fótboltastrákar, mömmuhugleiðingar

  1. Bakvísun: Fyrsta stórmótið? | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.