Fyrsta stórmótið?

Höfundur: Halla Sverrisdóttir

 

evrópudraumurinnÞað er best að taka af öll tvímæli um það strax: Mér finnst frábært að íslenskt landslið í fótbolta skuli nú hafa komist á EM. Þetta er reyndar í fjórða skiptið sem það gerist en auðvitað er það jafn hátíðlegt og skemmtilegt og spennandi fyrir því.

Hver sá sem ekki vissi betur hefði hins vegar vel getað haldið að þetta væri að gerast í fyrsta skipti í Íslandssögunni.

Að það væri bara eitt landslið í fótbolta sem skipti einhverju máli: landslið karla.

Og það er ótrúlega pirrandi og þreytandi að þurfa alltaf að vera að tala um þetta, en þannig er það bara samt og við VERÐUM að tala um það.

Stöð 2 birti auglýsingu á heilli opnu í Fréttablaðinu á föstudaginn var. Auglýsingin var fyrir sportrásirnar á Stöð 2 og þar blasir við sá veruleiki sem íþróttakonur um heim allan búa við: Að fjölmiðlar hafa ákveðið að það sem þær eru að gera sé ekki áhugavert og muni ekki selja neinum áskrift að neinu.

Stöð 2 KarlaSport

Eftir leik Íslands og Hollands áttu einhverjir skiljanlega erfitt með að leyna gleði sinni á útvarpsþættinumi Harmageddon, á útvarpsstöðinn X-inu, og fóru mikinn, eflaust hefur eitthvað af því átt að vera grín. Það var talað um „sögulegan viðburð“, um að það væri lágmark að gefa barasta frí í vinnunni næsta dag ef Ísland sigraði Kasakstan og kæmist áfram.

Grín eða ekki grín – orð hafa áhrif. Sögulegir viðburðir … er það ekki yfirleitt eitthvað sem er, tja, einsdæmi? Hefur aldrei gerst áður? Markar tímamót?

EN ÞETTA ER EKKI Í FYRSTA SINN SEM ÍSLENSKT LANDSLIÐ FER Á EM.

Við vitum svo sem öll að í fjölmiðlum þykja íþróttir karla merkilegri og áhugaverðari en íþróttaiðkun kvenna og ekki bara á Stöð 2 eða X-inu. Guðrún Harpa Bjarnadóttir hefur sýnt okkur rækilega fram á það undanfarin misseri með samviskusamlegri hausatalningu í útbreiddasta prentmiðli landsins, dag fyrir dag. Þar tala prósentuhlutföllin sínu máli og þarf í raun ekkert meira um það að segja.  Um þetta fjallar Guðrún Harpa Bjarnadóttir í knúzpistlinum Kynlegar íþróttafréttir og hægt er að skoða gögnin eigin augum hér. Þau lýsa þeim veruleika sem allar íþróttakonur, bæði hér heima og erlendis, búa við.

Undanfarna daga hafa bæði þjálfarar og foreldrar rætt opinskátt og hreinskilnislega um það grafalvarlega mál að börnum er augljóslega og sannanlega mismunað eftir kynjum í íþróttum, þá einkum og sér í lagi vinsælustu íþróttagrein landsins – fótbolta.

Það er talið ómerkilegra starf að þjálfa stelpuflokkana, segir þjálfari hjá einu stærsta íþróttafélagi á höfuðborgarsvæðinu.

bikararStelpurnar fá miklu minni bikar en strákarnir – eins og frægt varð á dögunum.

Þær fá lélegri æfingatíma, verri keppnisvelli og minni fjölmiðlaumfjöllun.

Stelpurnar sem upplifa mismununina á eigin skinni hafa vakið athygli á því sjálfar.

Og kannski eru þeir sem sitja í fréttamannastúkunni á Laugardalsvellinum ekkert að spá í neitt af þessu, og eflaust myndu þeir, væru þeir spurðir um það, segja að það væri hið versta mál og þyrfti að laga hið fyrsta.

En.

Kannski líta þeir ekki á sjálfa sig sem hluta af vandamálinu? Sem þeir jú auðvitað eru, rétt eins og allir sem starfa við fjölmiðla.

Enda gleymdist að hafa meðvitundina um þetta allt með sér á völlinn í í gærkvöldi. Og það finnst mér afskaplega leiðinlegt.

„Þetta er hugarfarið sem kemur okkur á fyrsta stórmótið,“ sagði einn karlanna þriggja sem lýstu leik Íslands og Kasakstan í gær. Og þá liggur beinast við að spyrja: Hvaða „okkur“? Okkur körlunum? Því hver sá þeirra þriggja sem þetta sagði (ég tók ekki eftir hver þeirra það var) hlýtur að vita að „við“ höfum komist á EM áður. Meira að segja þrisvar. Var hann búinn að gleyma því?

Ef það er verið að koma „okkur“ á fyrsta stórmótið er verið að segja, hvort sem það er þannig meint eða ekki, að það skipti engu máli að hafa farið þetta þrisvar áður af því að það var kvennalandsliðið.

Og það var ábyggilega ekki „þannig meint“, enda allir þessir þrír karlar alveg áreiðanlega vel innrættir og áhugamenn um jafnrétti.

Þeir virðast bara ekki skilja að þeir eru hluti af vandanum og þurfa því að vera hluti af lausninni.

Svo kona spyr sig: hafa fótboltafréttamenn RÚV gjörsamlega misst af þeirri víðtæku umræðu sem verið hefur undanfarið um að það séu fleiri landslið í fótbolta í þessu landi en það sem keppti í kvöld?

ÞETTA ER EKKI „FYRSTA STÓRMÓTIГ!

Fyrir þau sem gætu vel hafa misst af því, t.d. ef þau hlusta bara á íþróttaumfjöllun í ljósvakamiðlum: Kvennalandslið Íslands í fótbolta fór á EM árin 1995, 2009 og 2013, lengst í átta liða úrslit

Væri ekki alveg pæling að fara að taka tillit til allra þessara gagnrýnisradda og hætta hreinlega að tala eins og landslið karla sé eina landsliðið sem skipti máli? Vegna þess að það að tala þannig er bæði móðgun við kvennalandsliðið og móðgun við allar konur, stúlkur og litlar stelpur sem hafa æft og eru að æfa og keppa í fótbolta, af engu minni eldmóði, áhuga og dugnaði og í sumum tilvikum mælanlega betri árangri. Já, og reyndar er það móðgun við þjálfarana þeirra líka.

Visir.is, sunnudagskvöldið 6.9..

Femínistar hafa bent á vandann. Stelpurnar sem búa við vandann hafa bent á vandann. Foreldrar stelpnanna hafa bent á hann. Þjálfarar þeirra hafa viðurkennt hann. Vandinn er út um allt, Hjá Harmageddon, hjá visir.is, hjá fotbolti.net, hjá Stöð 2, hjá RÚV. Sem svíður auðvitað sárast, því það er fjölmiðillinn sem við eigum öll saman og gerum því eðlilega mestar og ríkastar kröfur til.

Gætu fjölmiðlar farið að hlusta? Jú, þetta þarna með „fyrsta stórmótið“ hjá RÚV var bara ein lítil athugasemd sem féll í hita leiksins og í gleðinni yfir frábærum árangri og hún var eflaust ekki „illa meint“. En hún skiptir máli því hún felur í sér algert meðvitundarleysi um allt það sem hér hefur verið rakið.

Og slíkt meðvitundarleysi er ömurlegt. Það er til skammar. Og það er er á ábyrgð fjölmiðla að gera eitthvað í því. Ekki stelpnanna, ungu stúlknanna og kvennanna sem æfa og keppa í fótbolta, ekki foreldra þeirra, ekki þjálfaranna. Heldur fjölmiðla.

Að lokum.

Þessi eftirtektarverða saga (birt hér með góðfúslegu leyfi) úr Kópavoginum er bæði lýsandi og ömurleg. Margrét María Hólmarsdóttir, þjálfari 5. flokks kvenna hjá Breiðabliki, fær orðið:

Árið 2014 komst 5.flokkur karla hjá Breiðablik í úrslitaleik Íslandsmótsins og fengu þeir það frábæra tækifæri að spila úrstlitaleik sinn á Kópavogsvelli. Það er draumur allra yngra iðkenda að fá að spila á aðalvelli félagsins.

Árið 2015 komst 5.flokkur kvenna hjá Breiðablik í úrslitaleik bæði í A og B liðum. Var strax farið í það að leitast eftir því að fá að spila leikina á frábærum Kópavogsvelli. Var það svo að KSÍ setti leikinn hjá bæði A og B liðum á Kópavogsvöll. Með þessu var draumur hjá stelpunum að fara að rætast. Stelpurnar höfðu mætt á hvern einasta leik hjá meistaraflokki kvenna og dáðst af fyrirmyndum sínum spila á þessum frábæra velli og gátu ekki beðið eftir því að fá að spila einn leik á þessum velli.

Þar sem Kópavogsvöllur er í eigu Kópavogsbæjar þá var það í höndum þeirra að gefa leyfi á að leikirnir yrði spilaðir á vellinum. Þar sem strákarnir fengu að spila sinn úrslitaleik á vellinum árið 2014, þá héldum við að það ætti ekki neitt að vera því til fyrirstöðu að stelpurna fengju að spila sína úrslitaleiki á vellinum. Við urðum því hreint út sagt mjög hissa þegar Kópavogsbær ákvað að banna stelpunum að spila sína úrslitaleiki á vellinum. Þegar það var borið upp að strákarnir hefðu fengið að spila úrslitaleik þarna í fyrra og því ætti það nú að vera borðliggjandi að stelpurnar fengju það líka voru svörin á þá leið að í fyrra hafi þetta verið „Derbý-slagur“ (Breiðablik-HK) hjá strákunum og því hafi þeir fengið undanþágu í þetta eina skipti. Einnig að mikil mannekla væri á vallarstarfsmönnum og erfitt væri að kalla út starfsólk á sunnudegi til að gera völlinn klárann, þ.e. færa tvö lítil mörk á á völlinn og merkja fyrir vítateigum.

Bærinn haggaði sér ekki og starfsmenn Breiðabliks reyndu hvað þeir gátu til að fá að spila þessa einu leiki á vellinum, en engu varð breytt. Kópavogsbæ fannst þetta í lagi að leyfa strákunum að spila þarna í fyrra en banna stelpunum það í ár. Áttu leikirnir þar með að vera spilaðir inni í Fífu en fór það svo að A liðs leikurinn var færður, kl. 23.30 kvöldinu fyrir leik, yfir á aðalvöll Víkings, þar sem Breiðablik – Víkingur áttust við í úrslitaleik A liða í 5.flokki kvenna. Úrslitaleikur B liða fór því fram í Fífunni.

Það virðist vera minnst mál hjá öllum félögum, sem eru að spila mikilvæga leiki, að leyfa yngri iðkendum að spila úrslitaleiki á aðalvelli sínum. Hvort sem það er 7 eða 11 manna bolti. Finnst mér það alveg frábært, því það er mikil upplifun og heiður hjá yngri iðkendum að spila á aðalvelli félagsins.

Mér finnst að Kópavogsbær eigi að skammast sín fyrir þessi vinnubrögð. Með þessari ákvörðun sinni, hvort sem þeim líkar það betur eða verr, er verið að mismuna kynjum. Þetta eru börn sem eru jafn gömul, leggja jafn mikla vinnu á sig og eiga jafn mikið skilið að spila á aðalvelli félagsins. Það er ekki hægt að segja stelpunum okkar það, að ástæða þess að þær fá ekki að spila á vellinum sé sú að þetta sé ekki „Derbý-slagur“.

Ég vona í framtíðinni, að Kópavogsbær endurskoði þessi vinnubrögð sín og vinni frekar með félaginu heldur en á móti því. Finnst mér þetta hreint út sagt til háborinnar skammar fyrir Kóapvogsbæ og er þetta engum til framdráttar. Ég vil líka bara að þessir menn viti það að stelpurnar finna alveg fyrir þessari mismunun. Þær skilja ekki afhverju mótherjar þeirra fá að spila á sínum aðalvelli en þær fá það ekki.

Margrét María
Þjálfari 5. flokks kvenna hjá Breiðablik

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.