Höfundar texta: Ingimar Karl Helgason og María Lilja Þrastardóttir
Inngangur
Eitt sterkasta einkenni íslenskrar kvennabaráttu er samtakamátturinn. Konur hafa myndað með sér bandalög og samtök um stórt og smátt, formleg og óformleg og um lengri og skemmri tíma. Öll hafa þessi bandalög haft áhrif, hvert á sinn hátt.Vinkonur, systur og mæðgur hafa staðið saman gegnum tíðina, vinkvennahópar og saumaklúbbar hafa haft umtalsverð áhrif og konur hafa hist og myndað hópa þá og þegar þörf hefur þótt á slíku.
Sumir hafa orðið að skráðum og formlegum félögum en aðrir hafa ekki einu sinni verið skilgreindir sem hópar. Hér á sýningunni gerum við tilraun til að gera grein fyrir þeim fjölmörgu kvennahópum sem hafa haft áhrif á samfélagið með samstöðuna að vopni. Slík samantekt getur aldrei orðið tæmandi en það er von okkar að tekist hafi að gera heildarmyndinni um mikilvægi og áhrif samstöðunnar réttlát skil.
Kvennaframboð
„Þær beittu sér fyrir viðurkenningu á því að velferðarmál og réttindi kvenna væru líka hluti af pólitískri umræðu, rétt eins og verklegar framkvæmdir.“ Svona komst Auður Styrkársdóttir, forstöðukona Kvennasögusafns, að orði í Lesbók Morgunblaðsins fyrir fáum árum þar sem hún dró fram áherslur kvenna, meðal annars á þingi, og áhrif á upphaf og mótun velferðarkerfisins. En áður en kona getur farið að beita sér á þingi þarf hún að komast á þing.
Kvennasamstaðan hefur ekki síst skilað árangri á vettvangi stjórnmálanna. Fyrstu stórtíðindin urðu í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík árið 1908 þegar boðinn var fram sérstakur kvennalisti sem náði inn fjórum kjörnum fulltrúum. Í framhaldinu voru boðnir fram kvennalistar á Akureyri og Seyðisfirði en fyrsta konan var kjörin á þing árið 1922 af kvennalista.
Lengi frameftir 20. öldinni voru karlar svo til allsráðandi í stjórnmálum. Örfáar konur komust að í gegnum hefðbundna stjórnmálaflokka, allt fram á 9. áratuginn þegar ný pólitík steig fram á sviðið.
Enn á ný mynduðu konur með sér bandalag. Konur úr öllum flokkum og með fjölbreyttar skoðanir mynduðu með sér Kvennaframboð til að breyta stjórnmálunum. Þær vildu endurmat á samfélaginu og nýjan vinnumarkað sem hentaði körlum og konum og börnum. Tvær Kvennaframboðskonur voru kjörnar í borgarstjórn og tvær í bæjarstjórn Akureyrar árið 1982.
Ári síðar var Kvennalisti stofnaður. Hann náði þremur konum á þing árið 1983 og sex konum árið 1987. Konur voru enn í minnihluta á þingi, en þær voru sýnilegar og þær höfðu áhrif.
Stundum er sagt að hinir rótgrónu stjórnmálaflokkar hafi sett konur á framboðslista til málamynda. Kannski leyndist í þessu sannleikskorn. En nú urðu óafturkræfar breytingar. Án kvenna gat enginn unnið kosningar framar.
Kvennalistinn rann sitt skeið og inn í aðra flokka en áhrif hans eru óumdeild. Allir stjórnmálaflokkar segjast styðja jafnrétti kynjanna. Það var ekki sjálfgefið fyrir fáum árum. Markmið kvennanna náðust að miklu leyti. Þær komu konum að og breyttu stjórnmálunum þrátt fyrir að hafa aldrei náð helmingi kjörinna fulltrúa, hvað þá meirihluta.
Á meðan fullu jafnrétti hefur ekki verið náð í stjórnmálum munu konur, samtök kvenna og bandalög halda áfram að beita sér. Ný og breytt samtök eiga eftir að spretta fram, því sagan sýnir að þannig breyta konur.
Einu sinni spurði blaðakona á Morgunblaðinu Kristínu Ástgeirsdóttur, fyrrum Kvennalistakonu og forstöðukonu Jafnréttisstofu, „En hvaða máli skiptir að jafna kynjahlutföll á Alþingi?“ Kristín svaraði, „Sú einfalda staðreynd að konur eru helmingur þjóðarinnar ættu að vera næg rök út af fyrir sig.“
Fjölmiðlun kvenna
„Þær vantar blað, gott blað,“ nefndi Bríet Bjarnhéðinsdóttir sem áherslumál þegar Alþýðublaðið spurði hana árið 1936 um stöðu þeirra sem þá stóðu í fylkingarbrjósti réttindabaráttu kvenna. Þá stóð Bríet á áttræðu og áratugir liðnir frá því að hún hóf það árangursríka brautryðjendastarf í þágu kvenna sem mun tryggja henni varanlegan heiðurssess í sögunni. Sjálf gerði hún sér grein fyrir því að útbreitt og öflugt blað væri meginforsenda þess að vinna málstaðnum fylgi, setja mál á dagskrá og fylgja þeim eftir af krafti í allri samfélagsumræðu.
Kvennablaðið sem hún stýrði í yfir þrjá áratugi varð frá upphafi „aðalvopnið í höndum hennar við að vekja íslenskar konur til vitundar um réttleysi sitt og hvetja þær til dáða.“ Þáttur útgáfunnar, eins og honum er lýst í umfjöllun Kvennasögusafns um Bríeti, var með öðrum orðum ómissandi grundvöllur og vettvangur kvennabaráttunnar. Frá fyrsta tölublaði ársins 1895 varð blaðið eitt hið útbreiddasta hérlendis og í þungamiðju sóknar og árangurs íslenskra kvenna fyrstu áratugina. Öflug útgáfa baráttukvenna hefur tryggt að réttindi, frelsi og áherslur kvenna í samfélaginu hafa ávallt verið á dagskrá og að málum fleygði fram. Baráttan yrði aldrei brotin á bak aftur eða hundsuð hvað sem ráðandi valdakarlar reyndu eða vildu. Frekja þeirra og fálæti hefur síðan aðeins náð að tefja, en ekki stöðva. Þá hefur „gott blað“ gríðarlegt gildi á hverjum tíma.
Kvenfrelsiskonur hafa í meira en öld verið óþreytandi í fjölbreyttri og blómstrandi útgáfu. Sum blöð lifðu skammt, önnur lengi og koma jafnvel enn út. Það á til dæmis við um tímarit Kvenréttindafélagsins 19. júní sem hefur komið út samfellt í yfir sex áratugi. Húsfreyjan á jafnlanga samfellda sögu.
Blöð kvenna hafa birt ólíkar áherslur og áhugamál. Stundum hefur hörð pólitík verið á oddinum en í öðrum frekar fjallað um aðstæður og störf kvenna á ýmsum sviðum. Sum hafa fjallað um afmörkuð viðfangsefni eins og blöð verkakvenna með áherslu á launakjör eða kosningablöð sem sameiginleg kvennaframboð hafa gefið út. Sameiginlegt eiga þau þó að þar fjalla konur um konur.
Tímaritin Forvitin rauð og Vera eru meðal þekktustu kvennablaðanna í seinni tíð. Rauðsokkur gáfu út hið fyrrnefnda á árunum 1972-1982 og Samtök um kvennalista hófu útgáfu á hinu síðarnefnda árið 1982. Í báðum var pólitískum stefnumálum, réttindamálum og hagsmunum kvenna fylgt eftir af festu og ákveðni.
Netið hefur haft mikil áhrif, einkum síðustu ár, og konur hafa nýtt sér tækniframfarir til að koma femínískum áherslum á framfæri, vekja fólk til umhugsunar, skipuleggja uppákomur og byltingar.
Upp úr aldamótum, um svipað leyti og Femínistafélagið var stofnað, var mikil femínísk umræða í bloggheimum þar sem félagskonur FÍ voru virkar og mikið lesnar. Í kjölfarið fylgdu svo samfélagsmiðlar sem hafa verið nýttir með góðum árangri í þágu kvenfrelsis. Fyrr á þessu ári komu þúsundir kvenna fram og lýstu upplifun sinni af kynbundnu ofbeldi og kynferðisofbeldi á Facebook. Kjarkur og hugrekki skilaði sér í órofa samstöðu kvenna um að „skila skömminni“ og víðtækri samfélagslegri samstöðu um ábyrgð gerenda á ofbeldi. Alþjóðlega hreyfingin #freethenipple er grein af sama meiði.
Þrotlaus barátta í vel á aðra öld hefur breytt öllu í okkar samfélagsgerð en fullt kynjafnrétti finnst aðeins að forminu til og enn er langt í land að fjölmiðlar endurspegli fjölbreytileika samfélagsins og reynsluheim kynjanna.
Það kallaði Inga L. Lárusdóttir „einkennilegt jafnrétti“ í forystugrein tímaritsins 19. júní, 1927. „Það ætti að vera konum holt að sjá ótvírætt hver mælikvarði er á þær lagður. Það ætti að vekja til umhugsunar um, að jafnrétti hafa þær hvergi nema á pappírnum, og að betur má, ef duga skal.“ Þetta gildir enn.
___
Efnið er hluti af Afrekasýningu kvenna á Íslandi í Ráðhúsi Reykjavíkur. Að textagerð komu Ingimar Karl Helgason og María Lilja Þrastardóttir ásamt starfsfólki ráðhúss. Sýningarstjóri er Rakel Sævarsdóttir.