Hið vafasama velgjörðarskyn

Höfundur: Auður Alfífa Ketilsdóttir

Þessi grein birtist upphaflega á Smugunni 16. desember 2011 og er endurbirt með leyfi höfundar. Hún er innlegg í umræðu sem hófst í Kastljósinu í gærkvöldi.

staðgöngumæðrun

Þingsályktunartillagan um staðgöngumæðrun er aftur komin á dagskrá Alþingis. Í tillögunni er lögð áhersla á að staðgöngumæðrun verði einungis heimiluð í velgjörðarskyni en ekki fyrir borgun. Með því er opnað fyrir að konur gangi með börn og gefi þau frá sér til þess að uppfylla óskir annarra um börn, af ánægjunni einni saman, frekar en af fjárhagslegri neyð.

Í þessu felst að konur leggi mikið á sig fyrir hamingju annarra. Sú hugmynd er ekki ný af nálinni. Hin fórnfúsa kona sem leggur eigin hamingju til hliðar til þess að aðrir geti öðlast hana er lífseig mýta. Enn eru stúlkur aldar upp í samfélaginu til þess að þóknast öðrum og halda sig til hlés, á meðan strákunum er kennt að stíga fram, taka það sem þeim ber og sækjast eftir sigrum. Þá má ekki líta fram hjá því að þó fólk vilji fjölskyldum sínum alla jafna það allra besta, geta þrifist innan þeirra ójöfn valdatengsl og fólk á til að gera óraunhæfar kröfur til sjálfs sín og fjölskyldumeðlima.

Varasamt er að ganga út frá því að það séu réttindi fólks að eignast börn með hvaða ráðum sem er, og að litið sé á konur, æxlunarfæri þeirra og líkama, sem sjálfsögð verkfæri í þeim tilgangi að tryggja öðrum slík réttindi. Í lokaáliti sérfræðingastarfshóps heilbrigðisráðherra um hvort leyfa ættistaðgöngumæðrun kemur orðrétt fram að: „…helstu rök gegn staðgöngumæðrun eru að hætta sé á að litið sé á staðgöngumóðurina sem hýsil utan um barn“.

Þegar rætt er um umverfi staðgöngumæðrunar á Indlandi eru allir sammála um að þar séu aðstæður óásættanlegar. Konur eru oft undir þrýstingi eiginmanna sinna að taka að sér meðgönguna og þær kjósa að leggja eigin velferð til hliðar til þess að tryggja fjárhagslega velferð fjölskyldna sinna.

Indverskum staðgöngumæðrum er jafnvel leiðbeint um hvernig þær geti komið í veg fyrir að tengjast fóstrinu tilfinningalega, með öðrum orðum, þær eru hvattar til að aftengjast líkama sínum og tilfinningum. Slík aftenging er alvarleg. Margir búa við slíka upplifun í samfélagi okkar, oftar en ekki fólk sem orðið hefur fyrir alvarlegum áföllum, ofbeldi eða er haldið fíkn. Á sama tíma og getan til aftengingar vitundar eða tilfinninga og líkama getur verið lífsnauðsynleg við ákveðnar aðstæður, býður hún líka upp á hættuna á að fólk misbjóði sjálfu sér eða hafi ekki getu til að stöðva misnotkun annarra.

Samfélag sem nær ekki að tryggja konum tæknileg útfærsluatriði eins og sömu laun fyrir sömu vinnu og karlar fá, að ekki sé talað um líf án ofbeldis eða jafna aðkomu að völdum, það er ekki samfélag sem er treystandi til að koma í veg fyrir að konur séu misnotaðar í þeim tilgangi að uppfylla óskir barnlausra. Raunveruleg hætta er á að konur sem næst standa barnlausu fólki verði fyrir beinum eða óbeinum þrýstingi eða þvingunum til að ganga með börn fyrir aðra.

Samfélag sem skilgreinir móðurhlutverkið sem svo mikið grundvallaratriði í sjálfsvitund kvenna að ef þær geta ekki eignast barn með hefðbundnum leiðum, þá sé eðlilegt að fá aðrar konur til að ganga með börn fyrir þær, það er samfélag sem getur ekki sett lög um að kona gangi með barn í þeim tilgangi einum að láta það frá sér

4 athugasemdir við “Hið vafasama velgjörðarskyn

  1. Í samfélagi þar sem konum er ekki treystandi til þess að segja NEI, þegar þær vilja eitthvað EKKI, er ekki vissast að svifta þetta veika og óstöðuga kyn (því að á hverfanda hveli voru þeim hjörtu sköpuð) sjálfræðinu?

    Líklegast gera fáir meira til þess að grafa undir trausti á konum, og þar með tiltrú á hæfi þeirra til þess að gegna háum stöðum (s.s. hæstaréttardómurum) en þeir sem skrifa slíkan pistil sem þennan sem lýsir konum sem ósjálfstæðum og vanmáttugum fórnarlömbum alls sem er.

    Eða hvernig getur konum verið treystandi til þess að fara í fóstureyðingar, þegar kannski var einhver búinn að þrýsta á þær að fara? Er þá ekki réttast að banna þær? Eða varla getur konu verið treystandi til þess að ráða yfir eigin líkama og ákveða hvað hún vill og hvað hún vill ekki? Hvernig getum við forðað því að ákvörðun konu geti haft afleiðingar?

  2. Bakvísun: Bönnum staðgöngumæðrun! | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.