Höfundur: Erna Magnúsdóttir
Í umræðuþætti Kastljóss um staðgöngumæðrun í vikunni var tekist á um ýmis álitamál varðandi málefnið og lagafrumvarp um staðgöngumæðrun sem nú er í undirbúningi var rætt. Áður en pallborðsumræður hófust var sýnt viðtal við Guðlaugu Elísabetu Ólafsdóttur sem hafði tekið að sér staðgöngumæðrun fyrir náinn ættingja og málið endað illa.
Í pallborðsumræðum var látið í veðri vaka að þau tilfiningatengsl sem Guðlaug upplifði við barnið hafi verið svo sterk sem um ræðir vegna þess að hún var einnig erfðafræðileg móðir barnsins. Í heimi staðgöngumæðrunar virðist sú staðreynd að staðgöngumóðir sé ekki líffræðileg móðir barns vera notuð til tilfinningalegrar aftengingar. Lagafrumvarp það sem nú liggur fyrir Alþingi bannar einmitt bæði staðgöngumóður að leggja til egg sem og allan skyldleika á milli staðgöngumóður og barns. Þannig er ýtt undir þá sýn að staðgöngumóðir sé einungis óvirkur hýsill fyrir fóstur á meðgöngu sem leggi aðeins til líkama sinn í stutta stund til þess að stuðla að fósturþroska. Við fæðingu séu öll líffræðileg tengsl rofin. – Að gjöf á barni sé í raun ekki ósvipuð líffæragjöf.
Nýleg þekking bendir þó til að þessi sýn sé í raun mikil ofureinföldun á líffræðilegum tengslum móður og barns og getur mögulega kollvarpað því hvernig við lítum á á staðgöngumæðrun frá líffræðilegu sjónarmiði. Líf móður og barns er mun samofnara og óaðskiljanlegra líffræðilega en áður var talið og gegnir þá einu hvort um er að ræða erfðafræðilega- eða staðgöngumóður.
Lengst af hafa staðgöngumæður sem ekki leggja til gjafaegg verið álitnar efðafræðilega óskyldar barninu. Og vissulega leggja þær ekki til erfðaefni til kímlínu barnsins. Erfðaefni staðgöngumóður erfist ekki til næstu kynslóðar -til barnabarnanna. Nú er hins vegar komið í ljós að frumur úr fóstri taka sér mjög oft varanlega bólfestu í líkama móður. Ein rannsókn greindi til dæmis karkyns frumur í heila 63% kvenna sem gengið höfðu með karlkyns fóstur (Chan et al., 2012).
Ekki er útilokað að þessar frumur sem taka sér bólfestu í líkama móður gætu haft áhrif á líkamsstarfsemi hennar. Það er meira að segja alls ekki ólíklegt. Til dæmis sýnir tilvist karlkyns fruma úr fóstri í heila kvenna fylgni við lækkun á tíðni elliglapa en virðist auka líkurnar á ristilkrabbameini. Aðeins er um fylgnisambönd að ræða, en þessar niðurstöður vekja þó upp ótal spurningar sem enn er ósvarað og nokkuð ljóst að líffræði móður og fósturs er mun samofnari til langframa en lengst af var talið.
Rannsóknir benda ekki einungis til þess að frumur úr fóstri taki sér bólfestu í líkama móðurinnar, heldur geta frumur staðgöngumóðurinnar, meðal annars stofnfrumur hennar, að sama skapi endað í líkama barnsins(Nelson, 2012). Á þann hátt er mögulegt að erfðaupplag staðgöngumóður hafi áhrif á lífeðlisfræði og heilsu barnsins í framtíðinni. Öfgafyllstu dæmi þess eru þegar æxlisfrumur úr staðgöngumóður taka sér bólfestu í barninu og valda krabbameini.
Þessi nánu líffræðilegu tengsl eru í raun það sem margar staðgöngumæður reyna að forðast. Fyrst þessi vitneskja liggur fyrir á þessari stundu er það siðferðislega óverjandi að greina verðandi staðgöngumæðrum ekki frá henni vegna þess að hún er líkleg til þess að hafa áhrif á afstöðu einhvers hluta verðandi staðgöngumæðra (Loike and Fischbach, 2013). Og þá veltir maður fyrir sér hvort forsendan fyrir tilfinningalegri aftengingu verði áfram sú sama, hafi hún í raun verið til staðar fyrir.
Hitt er þó ljóst, að þekking okkar á líffræði fleygir sífellt fram og krefst þess að við endurskoðum sífellt afstöðu okkar bæði til nýrrar tækni og til hluta sem við áður töldum okkur þekkja með nokkurri vissu, eins og til dæmis líffræðilegt samband móður og barns.
Þessi hugleiðing á aðeins við um mjög afmarkaðan hlut tengdan staðgöngumæðrun, en Knúz hefur birt fjölda greina og hugleiðinga um málið sem lesa má í þessum greinaflokki.
Heimildir:
Chan, W.F.N., Gurnot, C., Montine, T.J., Sonnen, J. a., Guthrie, K. a., and Nelson, J.L. (2012). Male Microchimerism in the Human Female Brain. PLoS One 7.
Loike, J.D., and Fischbach, R.L. (2013). New Ethical Horizons in Gestational Surrogacy. 1, 2–5.
Nelson, J.L. (2012). The otherness of self: Microchimerism in health and disease. Trends Immunol. 33, 421–427.
Við þetta má bæta því sem við ljósmæður höfum bent á frá upphafi umræðu um staðgöngumæðrun hér á landi, sem er sú tengslamyndun sem á sér stað á meðgöngu. Hvaða erfðaefni sem barnið ber mun líkami konunnar framleiða hormónið oxytocin í miklu magni á meðgöngu og í fæðingu. Þetta hormón hefur verið kallað ástar- og umhyggjuhormónið, því það gegnir lykilhlutverki í tengslamyndun. Það gildir því einu hverjar fyrirætlanir fólks eru, svona á skynsemisplaninu. Líkaminn ætlar að láta þessa konu tengjast þessu barni. Ég fæ ekki séð hvernig hægt er að rökræða sig framhjá slíkri líffræði og komast að þeirri niðurstöðu að aðskilnaðurinn eftir fæðingu valdi konunni ekki þjáningu.
Bakvísun: Stöðvum staðgöngumæðrun áður en það er um seinan | Knúz - femínískt vefrit