Femínismi fyrir konur? Hann fyrir hana? Hver gerir hvað fyrir hvern? -og örlítið í upphafi um versta máltæki í heimi

Höfundur: Sóley Tómasdóttir

Einu sinni skrifaði ég pistil um fórnarlambsvæðingu undir titlinum Versta hugtak í heimi. Versta máltæki í heimi, “konur eru konum verstar” er svo slæmt að það verðskuldar ekki heilan pistil.

Máltækið er ekki bara alrangt, heldur úthugsað. Það er til þess gert að sundra konum, koma í veg fyrir kvennasamstöðu og draga úr áhrifum hennar. Máltækið er eitt margra varnarviðbragða ríkjandi valdakerfis, kerfis sem getur ekki hugsað sér að breytast og sér ekki kostina við það.

Raunin er nefnilega sú að fátt er áhrifameira en kvennasamstaðan. Kvennasamstaðan er sterkasta einkenni kvennabaráttunnar gegnum aldanna rás, hún hefur skilað framförum og tækifærum sem ekki hefðu fengist með öðrum hætti.

Nýleg athugasemd á facebook: Karl telur næsta víst að þegar kona gagnrýnir þingkonu, sé það vegna fegurðar!

Nýleg athugasemd á facebook: Karl telur næsta víst að þegar kona gagnrýnir þingkonu, sé það vegna fegurðar hennar og framkomu!

Á afrekasýningu kvenna í Ráðhúsi Reykjavíkur má sjá yfirlit yfir það hvernig konur hafa myndað samtök og bandalög um smá og stór viðfangsefni. Kvennalistar hafa skilað konum inn á þing og í sveitarstjórnir, grasrótarsamtök á borð við Femínistafélagið hafa bent á kynjamisrétti og þrýst á um úrbætur á öllum sviðum samfélagsins og konur hafa myndað með sér grasrótarsamtök um mikilvæg viðfangsefni sem hið opinbera hefur ekki látið sig varða, s.s. Stígamót og Kvennaathvarf. Konur hafa myndað með sér samtök til valdeflingar innan hefðbundinna geira, ekki síst þar sem karlar eru í meirihluta, s.s. Samtök kvenna í atvinnurkestri og Félag kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi, konur hafa myndað góðgerðar- og líknarfélög til að efla velferðarkerfið og létta byrðar af herðum kvenna eins og barnaspítali Hringsins er besta dæmið um og konur hafa staðið að fjölmiðlun til að rétta hlut kvenna á opinberum vettvangi.

Kvennasamstaðan hefur stuðlað að réttarbótum og auknum tækifærum fyrir konur, hún hefur styrkt konur sem einstaklinga og hópa, stutt við konur sem hafa þurft á hjálp að halda og hvatt konur til áhrifa á öllum sviðum.

Kvennasamstaðan hefur skilað konum árangri, það er óumdeilt, en á sama tíma mikil einföldun. Kvennasamstaðan, og sú barátta sem konur hafa háð í gegnum tímans rás, hefur skilað samfélaginu öllu umtalsverðum framförum.

Með aukinni þátttöku kvenna í stjórnmálum hefur velferðarkerfið elfst og styrkst í þágu okkar allra. Aldrað fólk, fatlað fólk og veikt fólk af öllum kynjum nýtur bættrar þjónustu, skipulag og samgöngur taka mið af þörfum fleiri hópa en áður, fjölbreyttari hópar stunda nú íþróttir með auknu framboði afþreyingarefnis fyrir okkur öll og svona mætti lengi telja. Kvennasamtök gegn kynbundnu ofbeldi hafa stuðlað að hugarfarsbreytingu, spornað gegn ofbeldi og elft og styrkt þolendur til aukinnar þátttöku í samfélaginu. Valdefling kvenna innan hefðbundinna geira hefur stuðla að auknu umburðarlyndi og ríkari skilningi á mikilvægi fjölbreytileikans og svona mætti lengi telja. Allt hefur þetta skilað umtalsverðum þjóðhagslegum ávinningi, þó tölur liggi ekki fyrir.

Að líta á kvennabaráttuna út frá hinni hefðbundnu tvíhyggju er því rangt. Að femínismi snúist bara um konur (hvað þá hvítar, menntaðar millistéttarkonur) er einföldun. Femínísmi snýst um að brjóta upp ósanngjarnt samfélag sem bitnar á öllum. Hann snýst um að byggja upp samfélag sem gerir ráð fyrir fólki af öllum kynjum og að innan þeirra rúmist fjölbreyttir hópar.

Femínismi rúmar þátttöku allra. Þátttaka karla krefst þess þó ekki að hún sé undir formerkjum He for she eða ridarrans á hvíta hestinum sem ætlar að bjarga konum frá ofbeldi og kúgun. Ekki heldur bara til að berjast fyrir forræði og fjölgun karlkyns leikskólakennara. Þátttaka í femínískri baráttu verður að vera á samfélagslegum grunni, enda stuðlar femínismi að sanngjarnara samfélagi fyrir okkur öll, samfélagi þar sem við fáum að vera við sjálf út lífið og njótum jafnra tækifæra á öllum sviðum í samfélagi sem fagnar fjölbreytileikanum.

Það er hagur okkar allra. Við eigum að vinna að því saman.

Ein athugasemd við “Femínismi fyrir konur? Hann fyrir hana? Hver gerir hvað fyrir hvern? -og örlítið í upphafi um versta máltæki í heimi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.