Lögleiðing staðgöngumæðrunar: 6 einföld skref

Höfundur: Þóra Kristín Þórsdóttir

Ímyndum okkur að stjórnmálaafl hafi áhuga á að lögleiða staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni en fyrir því sé andstaða í viðkomandi þjóðfélagi. Hvernig gæti aflið komið því til leiðar? Það er einfalt:

 1. skref: Að koma umræðunni af stað.Screen shot 2015-10-06 at 11.16.31 PM Staðgöngumæðrun, bæði launuð og ólaunuð, tíðkast víða en hefur á sér slæmt orð. Því er mikilvægt að byrja á því að gera skýran greinarmun á staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni (gott, göfugt og fallegt) annars vegar og staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni hins vegar, án þess þó að tala neikvætt um hið síðara (svara má fyrirspurnum og gagnrýni sem tengd er greiddri staðgöngumæðrun einfaldlega með því að lögleiðing hennar sé bara ekki til umræðu). Á sama tíma þarf að vanda mjög til hönnunar orðræðunnar enda þarf hér að leggja grunninn að orðræðunni sem notuð er allt ferlið. Hér hefur reynst vel að mistúlka réttinn til fjölskyldulífs og tala um réttinn til að eignast börn. Í sumum samfélögum á sumum tímum getur verið áhrifaríkt að tilgreina sérstakan barnlausan hóp, til dæmis samkynhneigða og/eða einstæða karlmenn, og tengja þannig saman andstöðu við staðgöngumæðrun almennt og andstöðu við að þessi hópur ali börn yfirleitt. Þá má alltaf kveða niður femínískar raddir með vísun í yfirráð kvenna yfir líkama sínum.
  Hamra skal á hugmyndinni um hina hamingjusömu staðgöngumóður við hvert tækifæri og styrkja þá umræðu með hagstæðum rannsóknarniðurstöðum. Gott er að ljúka skrefi eitt með þingsályktunartillögu um skipun starfshóps til að vinna að frumvarpi um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, og helst skal fá konu, sem er líka móðir, til að tala fyrir henni.
 2. skref. Frumvarpið samið og lagt fyrir þing.
  Hér er mikilvægt að huga mjög vel að réttindum allra aðila og hafa rammann sem þrengstan svo frumvarpið komist í gegn. Til að mynda er sterkur leikur að gera það að skilyrði að hvorki hin verðandi staðgöngumóðir né maki hennar séu líffræðilega skyld því verðandi foreldri sem leggur til kynfrumu og benda á að þetta komi í veg fyrir að staðgöngumóðirin (og/eða maki) gætu litið á barnið sem þeirra eigið. Þessu skal fylgja að staðgöngumæður hafi reyndar aðeins örsjaldan í heimssögunni neitað að gefa börnin frá sér svo það komi varla til enda eigi konur mjög auðvelt með að gefa frá sér börn sem þær hafa ákveðið að ganga með fyrir aðra (og hér skal eyða umræðunni ef grunur vaknar um áhuga á þessum vinkli).
 3. skref: Víkka skilyrðin.happy-pregnant-1187596-m
  Hafi tekist að fá staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni lögleidda reynast skilyrðin fyrir staðgöngumæðrun fljótlega of þröng til að gagnast mörgum og því er einboðið að víkka þau út. Hér væri gott að hafa raunverulegt dæmi í fjölmiðlum, en til dæmis má hugsa sér að byrja þetta skref með dæmi um gagnkynhneigt par þar sem konan getur ekki gengið með barnið einhverra hluta vegna en kynfrumur beggja eru í lagi, annað þeirra á systur sem dreymir um að ganga með barnið fyrir þau, en lögin, eins og fyrr segir, leyfa ekki náinn skyldleika staðgöngumóður og kynfrumna. Fólkið getur því ekki nýtt sér þessa skínandi lausn. Tína skal svo til fleiri fæmi til að sýna að fullt sé af góðu fólki sem ómögulegt er að verði ekki foreldrar sem og góðviljuðum konum sem núgildandi lög séu að hamla í góðverkunum. Síðan er breytingartillaga flutt og samþykkt, hafi vel verið að verki staðið.
 4. skref: Víkka skilgreiningar á greiddum kostnaði.
  Í þessu skrefi þarf að sýna fram á að kostnaður við staðgöngumæðrun er of þröngt skilgreindur í lögunum og rýmka þarf það ákvæði. Á þessum tímapunkti ættu líka að hafa komið fram í fjölmiðlum mál þar sem einhver kostnaður kom upp sem ekki fékkst greiddur vegna hinna þröngu laga, til að mynda vinnutap staðgöngumóður eða lýtaaðgerðir eftir meðgöngu. Önnur breytingartillaga er flutt.
 5. skref: Velgjörðarhugtakið víkkað.
  Nú þarf að vekja efasemdir um andstæðuparið velgjörðarskyn-hagnaðarskyn og þá kröfu sem gerð er í lögunum að verðandi staðgöngumóðir og verðandi foreldrar þekkist fyrir. Hvað með allar þessar góðu konur sem dreymir um að ganga með börn fyrir aðra en eiga enga að sem á slíkum greiða þurfa á að halda? Hvað með fólkið sem þekkir enga góða konu? Þriðja breytingartillagan er flutt.
 6. skref: Lokahnykkurinn.
  Þegar tekist hefur að víkka velgjörðarhugtakið út, endurskilgreina kostnaðinn og afnema þá hugmynd að kona verði endilega að þekkja fólk fyrir til að langa að gera því greiða, er kominn grundvöllur til að lögleiða staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni en hér, eins og áður, þarf að vanda orðræðuna mjög. Gefist getur vel að benda á að nú sé klárlega markaður fyrir greidda find-a-surrogatestaðgöngumæðrun, við höfum séð ýmis íslensk dæmi um velgjörðir þar sem allt gekk vel og ljóst er að hér sé fullt af frjálsum og fúsum konum sem langar að ganga með börn fyrir aðra. Er þá ekki sjálfsagt bara að leyfa konum sem það vilja gera að gera það – en er ekki jafnframt sjálfsagt að þær fái greitt fyrir þessa vinnu? Það fer eftir þjóðfélagslegu samhengi en hér er almennt gott að færa fókusinn frá barnlausum pörum og hamingjusömum staðgöngumæðrum yfir til samfélagsins. Búa má til reikningsdæmi um öll afleiddu störfin; einkavæddu ráðgjafarstofuna, sálfræðistofurnar sem sérhæfa sig í málefnum staðgöngumæðra og barna, rannsóknarverkefnin sem spretta upp í háskólum landsins þessu tengd og landsframleiðsluna sem þarna skapast. Með það í handraðanum er flutt frumvarp um breytingu á lögum um staðgöngumæðrun.

Hafa skal í huga að betra er að fara sér hægt en of hratt í þessu ferli öllu því ef of geyst er farið er hætta á að andstaðan verði of kröftug. En sé farið rólega og skrefunum fylgt til hins ítrasta, að teknu tilliti til samfélagslegra aðstæðna og umræðu á hverjum tíma, ætti að takast að lögleiða staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni á svona fimm árum. Þegar það er komið ættu hin skrefin fjögur að taka kannski önnur fimm. Þá verður hægt að beina sjónum að öðrum ómarkaðsvæddum þáttum lífsins.

Myndirnar eru fengnar héðan í þessari röð sem þær birtast:

Click to access 40_lei%C3%B0ir_til_a%C3%B0_b%C3%BAa_til_barn.pdf

3 athugasemdir við “Lögleiðing staðgöngumæðrunar: 6 einföld skref

 1. Baráttan gegn velmeinandi og allsvitandi forsjárhyggjuöflunum, þ.e. gegn sem telja sig vera í stöðu til þess að taka ákvarðanir fyrir aðra fullorðna einstaklinga, útfrá eigin hugmyndum um hvað sé siðlegt og ósiðlegt vinnst sjaldnast í einni orrustu. (Bleiki) Fíllinn verður jú ekki étinn í einum munnbita. Ef að það á að annað borð að leyfa sjálfsákvörðunarrétt kvenna og þar með yfirráð yfir eigin líkama, þá er „velgjörðar“skrefið, vissulega eingöngu millileikur.

  Gott dæmi um velmeinandi inngrip stjórnvalda, í líf og sjálfákvörðunarrétt kvenna, er viðleitni ríkisins til þess að bjarga lögráða, lauslátum stúlkum frá sjálfum sér, og því athæfi sem vissum hópi þótti ekki siðlegt, með nauðungarvistun á Kleppjárnsreykjum. Sjá http://www.ruv.is/frett/umfangsmestu-njosnir-sem-fram-hafa-farid

  En rétt eins og að vinnuhælinu þar var að endingu lokað, og Jóhanna Knudsen að endingu rekin, þannig munu íslenzkar konur, þrátt fyrir tilraunir forpokaðra svo sem pistlahöfundar og Jóhönnu, áfram feta leiðina að réttinum til sjálfsákvörðunar og þeirrar virðingar að vera treyst fyrir eigin málefnum, jafnvel þó svo að ákvörðunin falli ekki að gildismati sumra.

 2. Bakvísun: Knúzannállinn 2015 | Knúz - femínískt vefrit

 3. Bakvísun: Bönnum staðgöngumæðrun! | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.