Höfundur: Þóra Kristín Þórsdóttir
Sjúkraliðafélag Íslands og SFR, starfsmannafélag í almannaþjónustu, eru nú líklega á leið í verkfall og náði RÚV í heilbrigðisráðherra í gær vegna málsins. Hann hafði þetta að segja:
„Þetta er hvimleitt, þetta er þungt og þetta gerir ekkert annað en veikja stoðir heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Þetta er einhver spírall sem við erum bara hreinlega dottin inn í, varðandi launamál á vinnumarkaði á Íslandi. Ég met þetta þannig að þá sjái það allir hvers lags ógöngur við erum komin í.“
Þá segir í fréttinni að ráðherra segi ríkan vilja „beggja vegna borðsins til að komast út úr þessum spíral en einhverra hluta vegna hafi það ekki gengið. Einhverra hluta vegna hafi komist á verklag í kjarasamningum sem spinnist þannig áfram að alltaf þurfi að toppa við hvern gerðan samning.“
Minnir þetta mjög á orðræðuna í kringum verkfall hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra fyrr á árinu:
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að þetta sé ekki æskilegt ástand. „Og í rauninni með ólíkindum að við þurfum að lenda í þessu hvað eftir annað,“ segir Kristján.
Fyrir tæpu ári, þegar verkfall lækna var yfirvofandi, kvað hins vegar við annan tón. RÚV hefur orðið:
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, segir stöðuna erfiða: „Vissulega er það áhyggjuefni, í þeirri stöðu sem heilbrigðisþjónustan á landinu er, að til þessa þurfi að koma. Það er ekki gott mál og það er sárt að horfa upp á það“.
Aðspurður hvort ekki yrði dýrt fyrir ríkið að verða við launakröfum lækna er haft eftir Kristjáni:
„Það kostar alla eitthvað að halda úti heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Það er alveg klárt mál. Og ég hef í mínu máli, og skal ítrekað það, að til þess að við stöndumst samkeppni við aðrar þjóðir um þessa sérhæfðu þekkingu, þá er alveg óumdeilt í huga okkar allra að við þurfum að leiðrétta kjör lækna. Það er óumdeilt. En hversu mikið eða hátt, það er samkomulagsatriði sem hefur lengi vafist fyrir mönnum og á örugglega eftir að taka einhvern tíma í viðbót að finna lausn á.“
Ekki kom til greina, að mati ráðherra, að setja lögbann á verkfallið.
Í fyrra var sem sagt augljóst að heilbrigðisþjónusta kostaði og mjög mikilvægt þótti að gera vel við lækna svo þeir flyttu ekki allir til Noregs. Þegar hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar eiga í hlut er kjarabaráttan hins vegar hvimleið og stoðir heilbrigðisþjónustunnar veiktar. Munurinn á viðbrögðum ráðherra við verkfalli lækna í fyrra annars vegar og verkfalli hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á þessu ári hins vegar er sjálfsagt að einhverju leyti skýranlegur með því að nú eru fleiri stéttir á leið í verkfall og órökrænn óttinn um að hagkerfið fari á hliðina við þessar launaleiðréttingar hefur magnast, en munurinn á þessum starfsstéttum skiptir líka máli í sögunni.
Læknar: Hámenntuð karlastétt (2/3 eru karlar, sjá hér) sem sögulega hefur alltaf haft mikil völd og hvurs nám hefur verið kennt í háskólum frá öndvegi. Stétt sem ennfremur hafði efni á að ráða fjölmiðlafulltrúa til að hanna orðræðuna í kringum verkfallið fyrir sig.
Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður: Vel menntuð kvennastétt hvurs nám komst á háskólastig fyrir þremur áratugum, en starfið hefur jafnan verið kvennastarf og álitið framlenging af náttúrulegu umönnunarhlutverki konunnar.
Sjúkraliðar: Sinna almennari hluta umönnunar sjúklinga. Lítið menntuð kvennastétt (2 ár í framhaldsskóla).
Eftir margra ára fjársvelti og niðurskurð, þar sem stöðugildum umönnunarstéttanna hefur verið fækkað með tilheyrandi álagsaukningu á þær sem eftir eru, er ekkert skrítið þó hver heilbrigðisstéttin á fætur annarri krefjist kjaraleiðréttinga. Og þó það væri fyrirsjáanlegt er að nokkru skiljanlegt að ráðherra upplifi sig sem í spíral nýrra og harðari kjarasamninga. Það er hins vegar kolrangt hjá honum að svo sé enda ímyndar sér enginn að samningur sjúkraliða muni toppa samning læknanna, og kjarabarátta hjúkrunarfræðinga var að litlu gerð með verkfallsbanni.
En þó greining ráðherra sé ekki rétt, hefur hann að vissu leyti rétt fyrir sér. Hvað varðar kjaramálin erum við nefnilega föst í spíral. Sá snýst um viðhald kynbundins launamunar, sérstaklega á milli stétta, þannig að fái kvennastétt kjarabót fá karlastéttirnar jafnmiklar eða meiri. Og í þessu viðhaldi ójafnaðar eru viðbrögð ráðherra mikilvæg.
Leturbreytingar í tilvitnunum eru höfundar.
Er einhver ástæða til þess að ætla að hjúkrunarfræðingar eða sjúkraliðar, verandi mun fjölmennari stéttir en læknar, hafi ekki efni á að ráða fjölmiðlafulltrúa? Það er gefið í skyn með framsetningunni.
Bakvísun: Annáll 2015 | Knúz - femínískt vefrit
Bakvísun: Annáll 2015 | Knúz - femínískt vefrit