Druslur hernámsáranna. Hvað hefur breyst?

Höfundur: Ingunn Sigmarsdóttir

Þessa dagana standa yfir í Bíó Paradís sýningar á stórmerkilegri heimildamynd, Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum.  Í myndinni kafar Alma Ómarsdóttir fjölmiðlafræðingur og fréttakona ofan í myrkan íslenskan veruleika sem aðeins er rúmlega 70 ára gamall. Ein stærsta þjóðarskömm sem þjóð okkar burðast með í viðbót við Guðmundar- og Geirfinnsmálið, Breiðuvíkurdrengina o.m.fl., meðferð svokallaðra „ástandsstúlkna“ á hernámsárunum. Eins og fram kemur í myndinni voru fjölmargar íslenskar stúlkur, jafnvel barnungar og undir lögaldri ofsóttar, njósnað um þær, beittar ofbeldi af svokölluðum „eftirlitsaðilum“, fyrir það eitt að hafa átt samneyti við erlenda hermenn. Stúlkur þessar áttu sér engar málsbætur. Þær voru kallaðar öllum ljótum nöfnum, skækjur, lauslætisdrósir o.fl. þó þær hefðu jafnvel ekki gerst „sekar“ um annað en sjást á tali við hermann. Múgæsing var alger og stjórnvöld gengu jafnvel svo langt til að ná höndum yfir þessar stúlkur að hækka sjálfræðisaldur tímabundið.

Hinar grunuðu voru geymdar í gamla sóttvarnarhúsinu!

KleppjárnsreykirStofnað var vinnuhæli að Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði þar sem ástandsstúlkur voru látnar dúsa, fyrir minnstu yfirsjónir jafnvel í einangruðu kjallaraherbergi með byrgða glugga. Póstur þeirra var ritskoðaður og svo má lengi telja. Þrátt fyrir nýlega úttekt á vistheimilum landsins, smánarbletti þjóðarinnar og afsökunarbeiðni þeirri sem vistmenn Breiðavíkur o.fl. slíkra heimila hafa fengið, hafa þær konur sem dvöldu á Kleppjárnsreykjum fyrir rúmum 70 árum aldrei verið beðnar opinberlega afsökunar. Margar þeirra hafa þurft að bera þungan bagga skammar og niðurlægingar alla ævi. Í myndinni talar Alma við tengdadóttur konu sem seinna svipti sig lífi eftir að hafa verið merkt fyrir lífstíð eftir „ástandið“.

Nú þegar hávær umræða heyrist í þjóðfélaginu um mannréttindi, barnaverndarmál, innflytjendur, blöndun kynstofna, fordóma, kynfrelsi kvenna og mörg fleiri áleitin málefni, væri tilvalið fyrir alla sem vettlingi geta valdið að skella sér í bíó á mynd Ölmu. Það eru ekki nema fáeinir áratugir síðan barnungar stúlkur voru sviptar mannorði sínu fyrir það eitt að líta hýru auga mann af öðru þjóðerni en íslensku. Sumar þeirra höfðu jafnvel áður þurft að þola misnotkun og vanrækslu eins og fram kemur í myndinni. Grimmilegar sögur af ofsóknum lögreglukonunnar Jóhönnu Knudsen  sem gekk svo langt að senda telpur nauðugar í læknisskoðun til að athuga meyjarhaft þeirra, hljóma eins og atriði úr hryllingsmynd.

Nei, þetta var Ísland á fimmta áratugnum. Hvað höfum við lært síðan þá? Spurði einhver þessar dömur hvort þær hefðu e.t.v. verið misnotaðar og þá jafnvel af hreinræktuðum Íslendingi? Druslugangan  okkar minnir okkur á það að ennþá eru konur kallaðar ljótum nöfnum fyrir það eitt að vilja njóta kynfrelsis og sjálfsákvörðunarréttar varðandi klæðaburð. Sömuleiðis hafa þær þurft að þola ásakanir um að klæðaburður og/eða fas þeirra eigi sök á kynferðisofbeldi sem þær verða fyrir. Ungar íslenskar stúlkur sem klæddust amerískum nælonsokkum og nutu þess að fara á dansleiki með glæsilegum herramönnum frá útlöndum voru kallaðar mellur og skækjur. Jafnvel var stungið upp á því að flytja inn erlendar vændiskonur til að svala fýsnum hermannanna til að dömurnar „okkar“ lentu í ekki því!

Svei´ attan Ísland. Húrra fyrir Ölmu Ómarsdóttur og tímabæru framtaki hennar að draga þennan viðbjóð fram í dagsljósið. Nú bíðum við eftir afsökunarbeiðni fyrir allar konur sem hafa þurft að líða, líkt og stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum, fyrir fordóma og hroka í þjóðfélagi karlaveldis. Það er ósk þeirrar er þetta skrifar að heimildamyndin Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum verði sýnd sem oftast og víðast, í grunnskólum landsins, sjónvarpi og víðar til þess að minna okkur á að svona viljum við ekki koma fram við neinn.

6 athugasemdir við “Druslur hernámsáranna. Hvað hefur breyst?

  1. Herdís Helgadóttir skrifaði heila bók um ástandið Úr fjötrum, íslenskar konur og erlendur her. Bára Baldursdóttir skrifaði magisterritgerð, ég gerði tveggja þátta útvarpsleikrit, sem kveikti hugmyndina hjá Ölmu að hennar sögn. Það er orðum aukið að Alma hafi dregið málið í dagsljósið.

    • Frábært og það er mitt næsta verk að ná mér í þessar heimildir og afrakstur þeirra vinnu fyrir okkur sem viljum að þetta sé dregið fram í birtuna og vitund og veröld þjóðar sem er alltof dugleg að ljúga að sjálfri sér hvernig við erum vorum og erum í raun.

  2. Hún dró það aftur fram í dagsljósið því lítið hef ég séð af opinberri umfjöllun um ástandsstúlkurnar nú í nokkur ár. Útvarpsleikritið var að mínu mati frábært og bók og ritgerð um málið einnig hið besta mál. Svo virðist þó sem mjög margir komi nú af fjöllum þegar rætt er um málefnið og að áður birt ágætt efni hafi farið framhjá of mörgum. Andköf bíógesta og umræður í þjóðfélaginu núna benda til þess að margir séu hissa á þessum ljóta veruleika. Það er fagnaðarefni að þetta mál hafi nú aftur og með skilmerkilegum hætti verið dregið aftur fram. Það var ekki ætlunin að kasta rýrð á fyrra útgefið efni heldur vekja athygli á skeleggri umfjöllun Ölmu um mál sem þarf að tala í hel og læra af. Ánægjulegt væri ef útvarpið sæi sér fært að endurflytja leikritið einmitt núna. Ég hef, sem skólasafnskennari, oft aðstoðað nemendur við að leita að efni um „ástandið“ og fundist leitt hve lítið er til af aðgengilegum heimildum á mannamáli fyrir t.d. unglinga. Því meira efni, því betra.

  3. Bakvísun: Knúz um “Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum”: Druslur hernámsáranna. Hvað hefur breyst? | Klapptré

  4. Bakvísun: Annáll 2015 | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.