Hosur á krílið

Höfundur: Magnea J. Matthíasdóttir

bókmyndUm daginn hitti ég kunningja minn, karlmann sem var nýbúinn að senda frá sér bók.
„Þetta var löng meðganga og erfið fæðing,“ sagði hann, „en nú er afkvæmið loksins komið í heiminn.“
„Til hamingju,“ sagði ég. „Spennandi. Hlakka til að sjá það.“ Því hvað segir maður annað?
Ja, nema kannski: „Varstu með morgunógleði? Fékkstu bjúg? Hvernig varstu af brjóstsviðanum á meðgöngunni? Þvaglekinn getur verið voðalega hvimleiður. Fórstu langt framyfir? Slappstu alveg við grindargliðnun?“
Kannski: „Hvað varstu kominn marga í útvíkkun þegar þú fórst í prentsmiðjuna? Gekk þetta af sjálfu sér eða varstu settur af stað? Þurftirðu kannski í keisara? Hvað varstu lengi með hríðir? Ég hef heyrt að það dragi úr verkjunum að fæða í vatni. Rifnaðirðu nokkuð? Varstu saumaður? Tekur saumurinn í?“
Og auðvitað: „Hvernig gengur svo núna? Er legið gengið saman? Kom brjóstamjólkin á réttum tíma? Fékkstu hita? Enginn sængurkvennablús? Mundu að gera grindarbotnsæfingar til að losna við gyllinæðina.“
Eða jafnvel: „Gekkstu með sjálfur eða fékkstu þér staðgöngupenna?“ – En þá væri ég náttúrulega komin út fyrir öll mörk velsæmis.

Spurningar af þessu tagi gætu komið upp um að ég geri greinarmun á sköpunarferli og barnsfæðingum. Þær gætu flett ofan af því að meðganga og fæðing tveggja barna og skrif einhverra bókarræfla hafi gert mig fráhverfa þessari fallegu líkingu. Þær gætu opinberað að mér þyki hreinlega ekkert líkt með meðgöngu og fæðingu og ritstörfum. Þær gætu jafnvel vakið grun um að mér þyki kátbroslegt að karlmenn líki einhverju sem þeir hafa afrekað við það sem þeir eru líffræðilega ófærir um að afreka. Og það gengur að sjálfsögðu ekki.

Svo ég fór bara heim og prjónaði hosur á krílið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.