Gro Harlem Brundtland

í tilefni af 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna verður efnt til alþjóðlegrar hátíðarráðstefnu í Hörpu í næstu viku, fimmtudaginn 22. og föstudaginn 23. október. Á ráðstefnunni verða ýmsar mikilvægar konur af alþjóðavettvangi með erindi. Ein þeirra er Gro Harlem Brundtland. Vert er að rifja upp glæsilegan feril norsku stjórnmálakonunnar:

Höfundur: Guðbjörg Lilja Hjartardóttir

Ætla mætti að einkunnarorð Gro Harlem Brundtland væru áskorun Mahatma Gandhis til okkar allra „þú verður sjálf að vera fyrirmynd þeirra breytinga sem þú vilt sjá í heiminum“ svo miklu hefur hún áorkað – á sinn yfirvegaða hátt.  Þessi norski eldhugi, læknir og lýðheilsufræðingur, hefur sannarlega sett mark sitt á veröldina með sterkri hnattrænni heildarsýn og óbilandi trú á málefnin sem hún berst fyrir hvort sem það er sjálfbær þróun, umhverfisvernd, friður, tóbaksvarnir,  sameinuð Evrópa, femínismi, loftslagsbreytingar málefni aldraðra, eða  lýðheilsa á átakasvæðum. Og þetta eru einungis nokkrir málaflokkar sem hún hefur verið í forsvari fyrir á alþjóðavettvangi.

Á níunda og tíunda áratug síðustu aldar var Brundtland forsætisráðherra Noregs.  Þar tókst hún óhrædd á við ólík hagsmunaöfl og stóð ætíð með náttúrunni, því eins og hún segir þá verndum við náttúruna til að viðhalda okkar eigin heilbrigði. Í annarri ríkisstjórn sinni árið 1986 myndaði Brundtland stjórn með 8 kvenráðherrum og 10 karlráðherrum og hafði sú ákvörðun afgerandi áhrif á stjórnmálaþátttöku kvenna á Norðurlöndunum. Jafnréttismál voru ennfremur sett á dagskrá norskra stjórnmála svo eftir var tekið um allan heim og hefur hún fylgt þeirri áherslu eftir í öllum sínum störfum. Hún er óþreytandi að benda á þær staðreyndir að menntunarbylting og mikil atvinnuþátttaka kvenna hafa verið grundvöllur velferðar og hagvaxtar í Noregi, ekki ólíugróðinn. Brundtland segir að konur séu ekki settar undir sama mæliker og karlar í stjórnmálum.

Brundtland fékk jafnaðarmennskuna í arf. Hún fæddist árið sem seinni heimstyrjöldin braust út í Evrópu, naut góðs atlætis vel menntaðra foreldra og jafnréttis við bræður sína. Á heimilinu þótti sjálfsagt að ganga menntaveginn og vinna að almannaheill. Hún varð umhverfisráðherra í Noregi 35 ára gömul árið 1974 og ötul framganga hennar í embætti leiðir til þess að aðalritari Sameinuðu þjóðanna fær hana til að stofna og stýra nefnd um umhverfismál. Nefndin gegnir enn nafni hennar; Brundtland nefndin og var hún fyrsta alþjóðanefndin um umhverfismál og þróun. Nefndin birti skýrslu árið 1987, sem markaði vatnaskil í þróun málaflokksins og lagði grunninn að Heimsráðstefnunni um umhverfi og þróun í Ríó 1992. Umhverfismálin voru þar með loksins komin á dagskrá alþjóðastjórnmála. Skiptar skoðanir voru meðal Norðmanna um hversu mikið forsætisráðherra þeirra, eða landsmóðirin, var að heiman að sinna heimsmálum. Brundtland kvaddi norsk stjórnmál fyrir fullt og allt árið 1996 en hafði þá einnig orðið fyrir þeirri djúpu sorg að missa son sinn, sem féll fyrir eigin hendi eftir alvarleg veikindi. Nokkru síðar varð hún framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Genf og gegndi þeirri stöðu í fimm ár.  Hún beitti sér fyrir endurskipulagningu stofnunarinnar, betri og vandaðri gagna- og upplýsingasöfnun og festi heilbrigðismál í sessi á dagskrá stjórnmála. Enn á ný tengdi hún saman málaflokka eins og sjálfbæra þróun og fjárfestingar í heilbrigðismálum. Forvarnir eins og bann við tóbaksnotkun voru henni hjartans mál. Brundtland hefur hvergi nærri lagt árar í bát þótt komin sé hátt á áttræðisaldur. Hún var skotmark morðingjans í Útey en var nýfarin þaðan þegar fjöldamorðin hófust. Eftir voðaverkin varð hún aftur leiðtoginn sem hughreysti þjóðina.

Á tímum þegar fólk  í stjórnmálum er úthrópað og fundið flest til foráttu er gott að rifja upp afrek þeirra sem hvika hvergi frá hugsjónum sínum. Þau kunna listina að leiða saman fólk úr ólíkum áttum og vinna sig að niðurstöðu sem skiptir máli. Ekki einungis fyrir okkar daglega líf heldur einnig til framtíðar. Þess vegna skipta góðir stjórnmálamenn svo miklu máli hvort sem er á heimavelli eða alþjóðavettvangi.  Takk Gro!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.