Bleiku brjóstin

Höfundur: Karlotta Leósdóttir

bleiktbrjóstborðislaufaUndanfarin ár hefur október verið helgaður baráttunni gegn brjóstakrabbameini. Krabbameinsfélagið hefur þá selt Bleiku slaufuna og allur ágóði af henni rennur til styrktar málefninu. Ég ber mikla virðingu fyrir starfi Krabbameinsfélagsins og mér finnst þetta gott framtak þar sem ég veit að margt fólk vill kaupa einhvern hlut þegar það styrkir ákveðið málefni. Sjálf hef ég valið að millifæra 2000 kr. beint yfir á Krabbameinsfélagið því mig vantar ekki slaufu og ég tel að með þessu fari upphæðin öll beint í málstaðinn en ekki í annan kostnað sem óhjákvæmilega hlýtur að koma til við framleiðslu og dreifingu Bleiku Slaufunnar.

Á Fésbókinni birtast myndir af bleikklæddu fólki á hinum ýmsu vinnustöðum á Bleika deginum, sem er í flestum tilvikum hið besta mál. Þegar maður er hins vegar farinn að sjá meira en nokkrar bleikar flíkur og bleika köku spyr maður sig hvort ekki hefði verið hægt að eyða peningunum sem fóru í skreytingar og dót beint í málstaðinn. Hvað hafa bleikir Hello Kitty fánar, bleikar hárkollur, hattar og einnota bleikur borðbúnaður með málstaðinn að gera? Er ekki líka pínulítið skrítið þegar skyndibitastaðir sem selja verksmiðjualið kjöt eru farnir að selja bleikar fötur með mat til stuðnings málstaðnum? Það er jafnvel verið að selja vörur í bleikum umbúðum sem innihalda efni sem talin eru vera krabbameinsvaldandi og tengja það þessu átaki. Erum við þá enn að gera gott eða er þetta bara hrein og bein markaðsvæðing og bleikþvottur? Og hversu mikið rennur í raun til málstaðarins þegar við tökum bleikan leigubíl eða kaupum bleikar vörur sem fylla verslanir þessa dagana?

Þó ég kunni vel að meta framtakið tengt Bleiku slaufunni kemur stundum upp í mér einhver mótþrói þegar allt tekur á sig bleikan lit í október. Þá langar mig hreinlega til þess að setja myndir af sjálfri mér sköllóttri eftir krabbameinsmeðferð á Fésbókina í stað þess að setja upp bleika slaufu. Ég þori samt aldrei að gera það vegna þess að fólk stuðast af því að sjá raunverulegar myndir af fólki með krabbamein. Fólk vill nefnilega miklu frekar horfa á bleikar slaufur en sköllótta krabbameinshausa.

Stundum verð ég líka pínulítið þreytt á því hvað það er alltaf verið að kyngreina krabbamein. Í október verður allt bleikt og „kvenlegt“ í tengslum við átak gegn brjóstakrabbameini, en í mars sjáum við sterka og flotta karla sem safna yfirvaraskeggi. Svona karla sem eru alvöru karlmenn og hörkutól en fara samt í skoðun… Samt eru til alls konar tegundir af krabbameinum sem herja bæði á karla og konur. Karlmenn geta meira að segja líka fengið brjóstakrabbamein. Stundum finnst mér eins og þessu sé snúið dálítið upp í kynjamiðaða markaðssetningu sem endurspeglar oft á tíðum þreyttar staðalmyndir kynjanna. Konur eru frá Mars og karlar frá Venus…eða var það öfugt? Þar eru til margar gerðir krabbameins sem eru óháðar kyni og ég veit ekki betur en að transfólk og intersex fólk geti líka fengið krabbamein.

Það er fínt framtak að mæta í vinnuna í bleikum fötum einn dag á ári til þess að sýna krabbameinsveikum samstöðu, rétt eins og það er frábært að sjá fólk sýna stuðning og samstöðu þegar kemur að einhverfu, einelti, þunglyndi og ýmsu fleira. Öll þekkjum við einhvern sem hefur fengið krabbamein og það er gott að sameinast um að sýna öðrum stuðning. En við þurfum kannski aðeins að pæla í því hvað það er sem við erum að styrkja og hversu mikið af peningunum sem við setjum í átakið er raunverulega að fara í málstaðinn sem við viljum styðja. Það er líka alveg hægt að styðja málstaðinn beint án þess að „kaupa dót“.

Þessi mynd um bleikþvottinn er þess virði að rifja upp:

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.