Jo-Anne Dillabough, dósent við Cambridge-háskóla í Bretlandi

í tilefni af 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna verður efnt til alþjóðlegrar hátíðarráðstefnu í Hörpu, fimmtudaginn 22. og föstudaginn 23. október. Á ráðstefnunni verða ýmsar mikilvægar konur af alþjóðavettvangi með erindi. Ein þeirra er kynnt hér:

Höfundur: Berglind Rós Magnúsdóttir

Ég kynntist Jo-Anne fyrst á prenti þegar ég var Erasmus skiptinemi í London árið 2003. Lesefnið gaf frábært yfirlit um kynjafræðikenningar og rannsóknir innan menntunarfræða (Dillabough, 2001) og ekki fyrir svo löngu síðan ritstýrði hún bók á þessu sviði (Dillabough, McLeod og Mills, 2009). Þegar ég sat þarna á safni Háskólans í London við að skrifa meistararitgerðina mína, full aðdáunar á þessari konu, vissi ég ekki að hún ætti eftir að verða meðleiðbeinandi við doktorsverkefnið mitt í Cambridge þar sem hennar kanadísku augu nýttust vel til að rýna í gögn mín úr bandarískum skólaveruleika. Hún vinnur út frá amerískri hefð sem leiðbeinandi; gefur sér tíma með nemandanum, kann að vinna með erlendum nemendum sem eru að þjálfa sig í að skrifa á öðru en móðurmálinu og leggur mikið upp úr samræðunni og sköpunarmættinum í ferlinu sjálfu – fyrir svo utan hvað hún er skemmtilegur félagi. Þessi kona er núna á leiðinni til Íslands til að halda erindi á alþjóðlegri ráðstefnu RIKK um 100 ára kosningarétt kvenna.

Eftir doktorspróf með láði frá McGill með þverfaglegri áherslu á námskrárfræði, félagsfræði menntunar og alþjóðleg mannréttindi dvaldi Jo-Anne í nokkur ár í Cambridge sem póst-doktor hjá Madeleine Arnot prófessor. Þær hafa skrifað ógrynni bóka og greina um femínískar kenningar, lýðræði og borgaraleg réttindi (t.d. Arnot og Dillabough, 1999). Hún ólst uppdillabough_jo-anne og skólaðist á vesturströnd Kanada en festi rætur í Cambridge þannig að eftir nokkurra ára starf við UBC þáði hún fasta stöðu við Cambridge-háskóla. Hún situr í ritstjórn fjölmargra fræðitímarita, þ.á.m. Gender and Education, Discourse og Cambridge Journal of Education. Vegna þverfræðilegrar áherslu hefur hún fádæma kenningalega yfirsýn og hefur þróað kenningar (Dillabough, 2004; Dillabough o.fl., 2009) og aðferðir (Dillabough og McAlpine, 1996) sem nýtast innan ólíkra fagsviða. Þrátt fyrir að starfa innan menntunarfræða skilgreinir hún sig mun víðar, þ.e. sem etnógrafískur menningarfélagsfræðingur sem stundar rannsóknir á félagslegu ójafnrétti.

Helstu rannsóknarverkefni Jo-Anne hafa að undanförnu beinst að ungu fólki sem lifir á jaðrinum efnahagslega og félagslega. Sjónarhornið er á hvernig unglingarnir lifa sínu hversdagslífi og fara í gegnum menntakerfið og grafist er fyrir um hvað hindrar þau í að lifa við ýmiss konar mannréttindi sem talin eru fullgild í nútíma samfélögum. Jo-Anne hefur haft sérstakan áhuga á menningarkimum meðal ungs fólks eins og þeim sem eru heimilislaus, í fangelsum eða lokuðum sérskólum, eru þátttakendur í gengjum eða búa í „brennimerktum“ borgarhverfum. Hún leggur áherslu á að skilja hvernig aðstæður þeirra mótast af víðara félagslegu samhengi, s.s. efnahagsörðugleikum, búferlaflutningum, öryggis- og hernaðarvæðingu, kynþætti, þjóðerni, kyngervi og stétt og hvernig samspil þessara þátta skapa átök meðal og milli ólíkra hópa og samfélaga. Í gangi er rannsóknarverkefni um unglinga í Tottenham í Bretlandi og Höfðaborg í Suður-Afríku þar sem sjónarhornið beinist m.a. að aktívistum og meðlimum í öfgahægri-samtökum (Dillabough, McLeod og Oliver, 2015).

Næstkomandi föstudag á ráðstefnunni um 100 ára kosningarétt kvenna mun hún fjalla um rannsóknir sínar með áherslu á hið kynjaða sjónarhorn.

Heimildir
Arnot, M. og Dillabough, J.-A. (1999). Feminist Politics and Democratic Values in Education. Curriculum Inquiry, 29(2), 159-189. af http://dx.doi.org/10.1111/0362-6784.00120
Dillabough, J.-A. (2001). Gender theory and research in education: modernist traditions and emerging contemporary themes. Í B. Francis og C. Skelton (Ritstj.), Investigating gender: Contemporary perspectives in education (bls. 11-26).
Dillabough, J.-A. (2004). Class, Culture and the ‘Predicaments of Masculine Domination’: Encountering Pierre Bourdieu. British Journal of Sociology of Education, 25(4), 489-506.
Dillabough, J.-A. og McAlpine, L. (1996). Rethinking Research Processes and Praxis in the Social Studies: The Cultural Politics of Methodology in Text Evaluation Research. Theory & Research in Social Education, 24(2), 167-203.
Dillabough, J.-A., McLeod, J. og Mills, M. (Ritstj.). (2009). Troubling gender in education. London: Routledge.
Dillabough, J.-A., McLeod, J. og Oliver, C. (2015). Distant cities, travelling tales and segmented young lives: making and remaking youth exclusion across time and place. International Journal of Inclusive Education, 19(6), 659-676.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.