Hvers vegna kynlífsvinna er ekki vinna – fyrri hluti

Höfundur: Lori Watson

Íslensk þýðing: Herdís Schopka, Hildur Guðbjörnsdóttir,  Katrín Harðardóttir, Kristín Jónsdóttir, Kristín Vilhjálmsdóttir.

Mörg þeirra sem styðja lögleiðingu vændis vísa til þess sem „kynlífsvinnu“ og nota hugtök eins og „samþykki“, „umboð“, „kynfrelsi“, „réttinn til vinnu“ og jafnvel „mannréttindi“ þegar þau rökstyðja málflutning sinn. [1] Lítum á nokkrar algengar fullyrðingar sem verjendur lögleiðingar hampa iðulega:

Kynlífsvinna er vinna, alveg eins og öll önnur störf, nema hvað félagsleg blygðun og skömm sem fylgir kynlífi koma í veg fyrir að fólk sjái hana í því ljósi; [2] margar (flestar) konur [3] sem selja kynlíf hafa kosið sér þetta starf, svo að við ættum að virða val þeirra og umboð, þær eru einfaldlega í sömu stöðu og þau sem velja láglaunastarf þegar betur launað starf býðst ekki; [4] það að konur velji að selja kynlíf sé dæmi um kynfrelsi og þær hafni kúgandi hegðunarreglum sem takmarka kynverund kvenna [5] svo að við ættum að virða kynferðislega sjálfstætt val þeirra að selja kynlíf sér til lífsviðurværis.
Aðrir eru varkárari þegar talað er fyrir lögleiðingu. Því er haldið fram að vændi sé „elsta atvinnugreinin“, að það sé ekki að fara neitt og að þess vegna væri best að koma á „áætlun um skaðaminnkun“. Það er að segja, því er haldið fram að megnið af þeim skaða sem tengist kaupum og sölu á kynlífi sé skaði sem annaðhvort er bein afleiðing af ólögmæti þess eða að hægt sé að draga úr honum með reglugerðum sem komið yrði á fót ef vændi yrði lögleitt. [6] Til dæmis er því haldið fram að lögleiðing muni draga úr mansali til kynferðislegrar misneytingar; því er haldið fram að lögleiðing muni auka heilbrigði og öryggi kvennanna (verkafólksins); því er haldið fram að lögleiðing muni draga úr dauða, ofbeldi og annarri misnotkun. [7]

Til er ofgnótt af ritum og greinum sem hrekja þessar fullyrðingar. Hver rannsóknin á fætur annarri sýnir að meginástæða þess að konur leiðast út í vændi er fjárhagsleg örvænting. [8] Ennfremur byrjuðu margar konur í vændi fyrir 18 ára aldur; [9] mörgum finnst þær vera milli steins og sleggju og finnst þær ekki hafa nein önnur raunhæf tækifæri til að komast af fjárhagslega. [10] Lögleiðingu fylgja ekki margar þeirra hagsbóta sem talsmenn hennar gefa til kynna: hún dregur ekki úr mansali (að því gefnu að hægt sé að gera greinarmun) [11]; „innandyravændi“ er ekki endilega öruggara en „utandyra“ vændi eða götuvændi, eins og það er kallað; [12] hún leysir engan vanda viðkvæmustu kvennanna í vændi – innflytjendanna – sem hafa oft á tíðum ekki greiðan aðgang að réttmætri málsmeðferð og leyfum; hún eykur ekki endilega heilbrigði og öryggi kvenna – kaupendur þurfa ekki að fara í læknisskoðun og kynsjúkdómar eru ekki skimaðir hjá þeim þótt vændi sé lögleitt; lögleiðing afmáir ekki félagslega skömm vændiskvenna. [13] Hinsvegar afmáir lögleiðing líklega eitthvað af félagslegri skömm kaupandans, fyrir utan að gera aðgang að konum auðveldari og hættuminni (fyrir hann). Enn fremur, og þrátt fyrir hið algenga bragð að tala um vændi sem „kynlífsvinnu“, kalla margar vændiskonur, bæði núverandi og fyrrverandi, þessa svokölluðu vinnu „lífið“ eða „lífstíllinn“ – með áherslu á „lífið“ sem lýsandi fyrir veru sína í heiminum, sem lýsingu á allri tilveru sinni, en ekki eitthvað sem maður skilur eftir á „skrifstofunni“. [14] Að lokum má taka fram að ofbeldið – hættan á árás, nauðgun og jafnvel dauða – er mun meira í vændi en í öðrum mjög hættulegum starfsgreinum. [15]

Þessi rök hafa verið að vinna á gegn lögleiðingarstefnunni. Æ fleiri þjóðir og alþjóðastofnanir eru farnar að viðurkenna að leiðin til að taka á vændi sé ekki endilega sú að lögleiða það né að gera það refsivert [16] en hvorugt þykir gera gagn fyrir konur í vændi. [17] Norræna leiðin, þar sem sala á kynlífi er ekki lengur refsiverð en kaup á kynlífi eru það hinsvegar, ásamt aukinni félagslegri þjónustu til að efla útgönguleiðir fyrir konurnar, hefur hlotið meiri hljómgrunn því hún er talin vera besta leiðin til þess að kljást við tjón af völdum vændis, til þess að auka valdeflingu einstaklinga í vændi um leið og hún treystir jafna stöðu kynjanna.

Í þessari ritgerð ætla ég ekki að halda uppi vörnum fyrir norræna módelið, líkt og svo mörg hafa nú þegar gert [18], heldur langar mig að sjá hvað gerist þegar fullyrðingin um að sala kynlífs sé „eins og hvert annað starf“ er tekin bókstaflega, og rannsaka hvað lögleiðing myndi hafa í för með sér í Bandaríkjunum. Að mínu mati eru verulegir annmarkar á þeirri nálgun sem miðar að því að konur sem selja kynlíf (stundi „kynlífsvinnu“ samkvæmt lingóinu) séu eins og fólk í hverri annarri vinnu. Ef krafan um að „kynlífsvinna“ sé talin til hverrar annarrar vinnu (og reglugerðir þar að lútandi) er tekin bókstaflega verður að huga að eftirfarandi þáttum:

1. Öryggi starfsmanna
2. Kynferðislega áreitni
3. Borgaraleg réttindi

Hér á eftir mun ég sækja í bandarísk lög er varða starfsöryggi, kynferðislega áreitni og borgaraleg réttindi til að sýna fram á að sú fullyrðing að sala á kynlífi sé rétt eins og hver önnur vinna er óverjanleg. Hún er óverjanleg vegna þess að ef við notumst við reglugerðir sem gilda um önnur störf eru þær athafnir sem „starfið“ felur í sér ekki leyfðar; þær samræmast einfaldlega ekki reglugerðum um öryggi starfsmanna, lögum um kynferðislegt áreiti né ákvæðum er varða borgaraleg réttindi.

Öryggi starfsmanna

OSHA [hér eftir: Vinnueftirlitið] ber ábyrgð á eftirliti með vinnuvernd í Bandaríkjunum. Stofnunin setur viðmið fyrir öryggi í starfsumhverfi sem felur í sér áhættu á sjúkdómsvaldandi blóðsmiti og öðrum mögulega sýktum vessum (þ.m.t. sæði) [19], þar sem hætta er á HIV smiti, lifrarbólgu eða öðrum smitsjúkdómum. Þær kynlífsathafnir sem mynda nauðsynlegar vinnuaðstæður fyrir (manneskjur) konur sem selja kynlíf hafa í för með sér að venjuleg „váhrif í starfi“ eru eiginleg „starfinu“. „Váhrif í starfi“ þýða „raunhæfar líkur á að blóð komist í snertingu við húð, augu, slímhimnu eða aðra mögulega sýkta vessa við framkvæmd á skyldu starfsmanns“. [20] Starfsmenn þurfa að „gera lista yfir […] öll verk og ferli eða tengd verkefni og ferli þar sem váhrif í starfi koma fyrir…“ og þennann lista váhrifa skal gera án tillits til notkunar á persónulegum hlífðarbúnaði.” [21] Líklega má gera ráð fyrir því að hver einasta mögulega kynlífsathöfn þyrfti að vera á þessum lista yfir „verkefni“ sem hafa í för með sér váhrif. Listann þarf að gera án tillits til þess hvort smokkur hafi verið notaður því listinn skal ná yfir öll váhrif án þess að tiltaka varnir einstaklingsins gegn þeim.

Smokkanotkun væri vissulega  lágmarkskrafa til þess að samræmast viðmiðum Vinnueftirlitsins. Aftur á móti dugir smokkanotkun ekki til að mæta reglugerðum þess því „[ö]ll ferli sem fela í sér blóð eða aðra mögulega sýkta vessa skal framkvæma á þann hátt að skvettur, úði, gusur og hverskonar framleiðsla smádropa sé í lágmarki“. [22] Smokkar rifna, þeir eru ekki öruggir. Ennfremur rifna smokkar frekar í endaþarmsmökum. CDC [hér eftir: Sóttvarnarnefndin] fullyrðir að þiggjandi endaþarmsmaka með HIV jákvæðum einstaklingi sem notar smokk sé í 100 sinnum meiri hættu á að smitast af HIV en ef um munnmök með smokki væri að ræða. [23] (Endaþarmsmök með HIV-jákvæðum einstaklingi og án smokka setur „viðtakanda“ í 100 sinnum meiri áhættu á því að smitast af HIV en munnmök með smokki). [24] Þótt smokkar dragi úr áhættu útrýma þeir henni ekki og ekki er heldur hægt að segja að þeir lágmarki hana í skilningi Vinnueftirlitsins; þar að auki veita smokkar ekki vernd gegn öllum kynsjúkdómum. Sóttvarnarnefndin tekur sérstaklega fram að þótt smokkar geti dregið úr smiti á mörgum kynsjúkdómum veiti þeir ekki vernd fyrir öllum kynsjúkdómum, kynfæravörtur og -áblástur er að finna á stöðum sem smokkurinn hylur ekki og þar af leiðandi eru smokkar ekki vörn gegn öllum sjúkdómum. [25] Þar að auki vitum við að jafnvel þar sem smokkanotkun er fyrirskipuð með lögum vilja „viðskiptavinirnir“ oft ekki nota þá. [26] Við vitum líka að varnarlausasta vændisfólkið er minnst líklegt til að nota smokka (þ.e. að hafa vald til að krefjast smokkanotkunar af kaupendum kynlífs), t.d. transfólk og „farandverkafólk“ í kynlífsiðnaðinum. [27]

Aðrar viðeigandi reglugerðir Vinnueftirlitsins sem augljóslega myndu leggja línurnar um vernd starfsfólks í starfsumhverfi „kynlífsvinnu”:

1. „Bannað er að sjúga upp í munn blóð eða aðra mögulega sýkta vessa.“ Athugið að hér segir ekki að unnt sé að nota hlífðarbúnað. Það stendur að þetta sé bannað. Svo virðist sem munnmök samræmist ekki öryggisviðmiðum Vinnueftirlitsins sem þó gilda um öll önnur störf. [28] Verða veittar undanþágur í „reglugerð um kynlífsvinnu“? Og ef svo verður, hver yrðu rökin? Munum við segja að öryggi starfsmanna í þessum iðnaði skipti ekki jafnmiklu máli og öryggi annarra starfsmanna?

2. „Hanskar. Klæðast skal hönskum þegar gera má ráð fyrir því að starfsmaður muni komast í snertingu við blóð, aðra mögulega sýkta vessa, slímhúð eða skaddaða húð …“ Samkvæmt þessari reglugerð virðist sem „kynlífsstarfsmenn“ skuli klæðast latexhönskum við framkvæmd hverskonar „verkefna í starfi“ þar sem hendur þeirra kunna að komast í snertingu við mögulega sýkta vessa (þ.e. sæði). Ef þetta hljómar fáránlega í eyrum einhverra lesenda, hugsið um að í handbókinni St. James Infirmary Occupational Safety & Health Handbook er að finna álíka ráðleggingar, en aðeins fyrir sum verkefni. Þar segir: „notið latexhanska (helst upp að olnboga) og mikið af sleipiefni fyrir hnefun”. [29] En þetta er ekki eina „verkefnið“ þar sem áhætta er möguleg eða jafnvel líkleg. Í öðrum greinum þar sem áhætta er möguleg eða líkleg, sérstaklega í sjúkrageiranum, er skylda að vera með hanska. Smit getur mögulega borist um smáa skurði eða skrámur og til að „lágmarka áhættu“ þarf starfsfólk augljóslega að vera með hanska við öll þau verkefni þar sem húð gæti komist í snertingu við vessa. Handbók St. James sjúkrahússins fer því alla leið og segir einfaldlega: „Vegna þess að líkamsvessar eins og blóð, æla, þvag, saur, munnvatn og sæði geta innihaldið sýktar lífverur skal ávallt klæðast hlífðarhönskum þegar unnið er með líkamsvessa.“ [30]

3. „Skylt er að bera grímur ásamt augnhlífðarbúnaði, eins og til dæmis hlífðargleraugu, eða andlitsskerma sem ná niður að höku, þegar starfsmaður getur átt hættu á að fá á sig skvettur eða dropa sem gætu innihaldið smitbera og þar sem einstaklingur gæti átt á hættu að smitast í gegnum augu, nef eða munn“ [31]. Sáðlát á andlit kvenna í klámi er daglegt brauð. Ekki er vitað hversu algeng þessi iðja er meðal kynlífskaupenda. Við getum hins vegar gengið út frá því sem vísu að slík tilfelli eigi sér stað. Samt sem áður væri þessi iðja annað hvort bönnuð (samkvæmt lögum Vinnueftirlitsins) eða, ef hún væri leyfð, væri það með því skilyrði að grímur, augnhlífðarbúnaður og/eða andlitsskermar væru notaðir. Þetta hljómar kannski fáránlega, en það er staðreynd að kynsjúkdómar á borð við lekanda og klamýdíu eru algengir meðal klámleikara, meðal annars í augum. [32]

4. „Sloppar, svuntur og annar hlífðarfatnaður. Viðeigandi hlífðarfatnaður, eins og til dæmis sloppar, svuntur eða sambærilegar flíkur, skal ávallt nota þegar aðstæður eru þannig að starfsfólk eigi í hættu á að komast í snertingu við líkamsvessa. Tegund hlífðarfatnaðar fer eftir verkefni og því hve búast má við mikilli snertingu starfsmanns við líkamsvessa.“ Þótt þessi orð hljómi vitaskuld fáránlega þegar rætt er um starfsfólk í „kynlífsvinnu“ er tilgangurinn sá að benda á að þær öryggisráðstafanir sem þykja sjálfsagðar í öllum öðrum starfsgreinum þar sem starfsfólk gæti mögulega eða líklega komist í snertingu við smitbera, eru óframkvæmanlegar í kynlífsvinnu. Hægt er að halda því fram að gera megi undanþágu frá reglugerðum fyrir þessa tegund „vinnu“ en hvað segir  okkur þá um það hvers virði við teljum starfsfólk í kynlífsvinnu vera, miðað við starfsfólk í öllum öðrum atvinnugreinum sem eru í hættu á að verða fyrir smiti? Þar að auki er ekki heimilt að veita undanþágur frá þessum reglum nema í „sjaldgæfum og einstökum“ tilfellum, þar sem aðstæður eru metnar sem svo að notkun á hlífðarbúnaði minnki öryggi og stefni heilsu viðkomandi starfsmanns í voða. [33] Enn fremur má nefna að eins og minnst var á hér að ofan er ekki mögulegt að verjast öllum kynsjúkdómum með smokkum og jafnvel ekki heldur með hönskum. „Sárasótt (sífilis) getur smitast við snertingu húðar á húð, ekki einungis við snertingu á sæði eða leggangavökva.“ Það sama á við um frauðvörtur (molluscum contagiosum), kynfæravörtur (HPV), og fleiri smitsjúkdóma. [34] Bein snerting húðar á húð er áhættusöm fyrir „starfsfólk“. Þar af leiðandi samræmist bein snerting húð-við-húð ekki reglugerðum Vinnueftirlitsins um varnir gegn líffræðilegum skaðvöldum.

Gúmmídúkur.

Gúmmídúkur.

5. Komist starfsfólk í snertingu við líffræðilega skaðvalda, þ.e. líkamsvessa í okkar tilviki, skal samkvæmt Vinnueftirlitinu „[s]kima blóð þess einstaklings sem blóðið kom úr, eins fljótt og hægt er og um leið og samþykki fæst, fyrir lifrarbólgu B og HIV smiti. Fáist ekki samþykki skal vinnuveitandinn staðfesta að lögbundið samþykki hafi ekki fengist. Þegar samþykki þess einstaklings sem blóðið kom úr er ekki lögbundið skal skima blóð hans, sé sýni til staðar, og niðurstöðurnar skráðar.” [35] Þetta þýðir að ef starfsmaður kemst í snertingu við líkamsvessa sem hugsanlega ber í sér einhvers konar smit þarf að skima blóð einstaklingsins sem líkamsvessinn kom úr (kaupandinn í tilfelli „kynlífsvinnu“) fyrir HIV smiti og lifrarbólgu B. Alls staðar þar sem vændi hefur verið lögleitt eru það seljendurnir, en ekki kaupendur, sem þurfa að gangast undir prófanir, sem verndar kaupandann auðvitað að einhverju leyti en gerir ekkert til að vernda seljandann/„starfsmanninn“.

Reglugerðir Vinnueftirlitsins voru augljóslega ekki skrifaðar með „kynlífsvinnu“ í huga. Það skiptir samt ekki máli fyrir það sem verið er að benda á hér – nefnilega það að ef þessar reglur eru taldar nauðsynlegar til að vernda starfsfólk í öðrum starfsgreinum þar sem hætta er á snertingu við smitaða líkamsvessa, af hverju ætti ekki hið sama að gilda um starfsfólk í „kynlífsvinnu“? Ef sala á kynlífi er eins og hver önnur vinna þá er alveg jafn mikilvægt að vernda öryggi þessara starfsmanna og öryggi starfsmanna í öðrum greinum. Staðhæfing um að lög muni mæla fyrir um smokkanotkun og að það nægi til að vernda starfsfólk í kynlífsvinnu er einfaldlega ekki sönn. Smokkar draga úr áhættu í sumum tilfellum, eins og rætt var hér að ofan, en þeir lágmarka ekki áhættu og þeir veita ekki vernd gegn öllum smitsjúkdómum. Í ofanálag sýnir reynslan frá svæðum þar sem kaup og sala á kynlífi er leyfð og smokkanotkun er skylda samkvæmt lögum – t.d. á Nýja-Sjálandi, í Ástralíu, Hollandi og hluta Nevada – að kaupendur vilja frekar kaupa kynlíf án smokka og eru reiðubúnir til þess að borga meira fyrir slíkt kynlíf, auk þess sem „yfirmenn“ gera yfirleitt ekkert til að sjá til þess að lögunum sé framfylgt. [36]

Tilraunin til að draga athyglina að öryggi og hollustuháttum í kynlífsiðnaðinum er ekki ný af nálinni. Árið 2012 kusu íbúar Los Angeles um „Measure B“— löggjöf sem gerði smokkanotkun að skyldu í klámiðnaðinum til þess að vernda heilsu starfsfólks. Árangurinn af löggjöfinni var sá að umsóknum um leyfi til að taka kvikmyndir í Los Angeles-sýslu fækkaði um 90%; klámframleiðendur hættu annaðhvort að taka myndir í sýslunni eða héldu iðju sinni áfram ólöglega. [37]
Staðreyndin er sú að það eru kaupendurnir sem stjórna markaðinum, eins og er yfirleitt tilfellið á frjálsum markaði. Ef kaupendurnir vilja ekki nota smokka eða fylgja öðrum reglum um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, sem er nauðsynlegt ef það á vera hægt að vernda heilsu og öryggi starfsfólks, þá höfum við enga ástæðu til að treysta því að lögleiðing og reglugerðir muni virkilega vernda þá sem selja kynlíf.

Framhald birtist á morgun en þá fer höfundur í saumana á atriðum sem varða kynferðislega áreitni og borgaraleg réttindi og hvernig reglugerðir þar að lútandi geta (eða geta ekki) verið aðlagaðar að kynlífsvinnu.

Lori Watson er aðstoðarprófessor í heimspeki og yfirmaður Kvenna- og kynjafræðideildar háskólans í San Diego.  Hún starfar á mörkum stjórnmálaheimspeki, lögfræðilegrar heimspeki og kynjafræði. Nú um stundir er hún að skrifa bók með Dr. Christine Hartley. Vinnutitill bókarinnar er “Feminist Political Liberalism”.

Þessi grein birtist upprunalega hér: http://logosjournal.com/2014/watson/

 

[1] Til að fá sögulegt yfirlit yfir “Sex Worker” hreyfinguna sjá: Chateauvert, Melinda. Sex Workers Unite: A History of the Movement from Stonewall to SlutWalk (Boston, MA: Beacon Press, 2013). Til að skoða dæmi um rök með lögleiðingu, sjá: Weitzer, Ronald.Legalizing Prostitution: From Illicit Vice to Lawful Business (New York: New York University Press, 2012).

[2] Sjá til dæmis, Nussbaum, Martha. “‘Whether from Reason or Prejudice’: Taking Money for Bodily Services,” in Prostitution and Pornography: Philosophical Debate about the Sex Industry (Stanford, CA: Stanford University Press, 2006), útg. Jessica Spector, bls. 175-208.

[3] Karlar, drengir og transfólk selja einnig kynlíf. Hér vísa ég þó til kvenna þegar ég tala um þá sem selja kynlíf. Þetta geri ég vegna þess að konur og stúlkur eru í yfirgnæfandi meirihluta þegar kemur að sölu á kynlífi. Sú staðreynd að konur eru í yfirgnæfandi meirihluta seljendur og karlar stærstur hluti kaupenda skiptir máli í umræðu um vændi, slæmar afleiðingar þess og því hver græðir á lögleiðingu. Það sem meira er, þetta undirstrikar að vændi er félagslega kynjað fyrirbæri, sem skiptir máli ef við ætlum að takast á við málefnið af alvöru.

[4] Weitzer (2012).

[5] Ýmsir hópar eins og t.d. C.O.Y.O.T.E (Call Off Your Old Tired Ethics) halda þessu fram, sjá Sex Workers Unite þar sem þetta er rætt. Weitzer notar einnig þessi rök um sumar konur í vændi. Í töflunni “Selected Types of Prostitution” [Ýmsar tegundir vændis] ma sjá flokkinn “Independent Call Girl/Escort” [sjálfstæð lagskona] þar sem merkt er við “None” [Ekkert] undir atriðinu “Exploitation by Third Parties” [Misnotkun þriðja aðila] (Tafla 1.1, bls. 17). Síðar, þegar hann ræðir gagnsemi vændis, nefnir hann að starfsánægja sé hærri hjá fólki sem starfar innandyra, þeim „finnist þau vera sexí, falleg og að þau hafi vald“. (Legalizing Prostitution, bls. 29).

[6] Skýrustu dæmin um þessar staðhæfingar má finna í The Occupational Health and Safety Handbook útgefin af St. James Infirmary (umsjón með útgáfu: Naomi Akers og Cathryn Evans, 2013, 3. útg). St. James Infirmary „er Occupational Saftey & Health Clinic for Sex Workers sem stofnuð var af aktívistum úr COYOTE (Call Off Your Old Tired Ethics)-hópnum og The Exotic Dancers Alliance í samvinnu við The STD Prevention and Control Section of the San Francisco Department of Public Health“. Þetta er einkaklíník, rekin í góðgerðaskyni. Hér má finna alla handbókina: http://perma.cc/02CetqGsJMU?type=live.

[7] Á þessu byggðist dómurinn í máli Bedford v. Canada (2013), í hæstarétti Kanada, þar sem hæstiréttur ógilti skilyrði vændis og vændishúsa í kanadískum sakalögum (skilyrði sem gerðu það ólöglegt að lifa á því að selja aðra manneskju og halda vændishús eða stað til að selja vændi). Nánari greiningu á Bedford málinu má finna hér: Waltman, Max. “Assessing Evidence, Arguments, and Inequality in Bedford v. Canada,” Harvard Journal of Law & Gender, Summer 2014, Vol. 37, bls. 459-544, fæst á netinu hér: http://harvardjlg.com/wp-content/uploads/2014/07/Waltman.pdf.

[8] Fjölmörg dæmi styðja þetta, og heyrast þau úr jafn ólíkum áttum og þeirra sem vilja að vændi sé annaðhvort löglegt, þeirra sem vilja afglæpavæða það og þeirra sem vilja það glæpavætt að einhverju leyti.  Sjáið til dæmis: Rannsókn sem gerð var af  Policy Department on Citizen’s Rights and Constitutional Affairs for the European Parliament sem heitir, “Sexual Exploitation and Prostitution and its impact on gender equality,” og lokið var í janúar 2014. Hana er að finna á netinu: http://www.europarl.europa.eu/RegData/etudes/etudes/join/2014/493040/IPOL-FEMM_ET(2014)493040_EN.pdf; einnig, „Behind Closed Doors“, skýrsla á vegum  Sex Workers Rights Project, sem finna má á http://sexworkersproject.org/downloads/BehindClosedDoors.pdf, um rannsókn á „innanhúsvændi“ í New York þar sem megin ástæður þess að farið er í vændi eru sagðar „fátækt og fjárhagsleg vandræði“ (financial vulnerability og economic deprivation); sjáið einnig “Shifting the Burden: Inquiry to assess the operation of the current legal settlement on prostitution in England and Wales,” frétt frá mars 2014 sem unnin var af All-Party Parliament Group um Vændi og kynlífsiðnaðinn (Prostitution and the Global Sex Trade), http://appgprostitution.files.wordpress.com/2014/04/shifting-the-burden1.pdf, þar sem kemur fram að „fátækt“ er aðalástæða 74% aðspurðra um ástæður fyrir því að þau fóru út í vændi. Í skýrslunni kemur fram að aðrar ástæður fyrir því að fara út í vændi eru kynferðisleg misnotkun sem barn, eiturlyfjamisnotkun og að hafa verið hluti af félagslegu fósturkerfi sem stúlkubarn. Lokaorð margra eru að „oftar en ekki er farið út í vændi af örvæntingu af ýmsum ástæðum (More often than not, prostitution is entered out of desperation arising from a number of situation-specific factors).

[9] FBI segir meðalaldur stúlkna sem leiðast út í vændi í BNA, vera milli 13 og 14 ára, sjá: http://www.fbi.gov/stats-services/publications/law-enforcement-bulletin/march_2011/human_sex_trafficking; sjá einnig, “Myths and Facts about Trafficking for Legal and Illegal Prostitution” (Mars 2009) http://www.prostitutionresearch.com/pdfs/Myths%20&%20Facts%20Legal%20&%20Illegal%20Prostitution%203-09.pdf

[10] Melissa Farley hefur rannsakað vændi í níu löndum og segir að 89% kvenna í vændi, sem hún talaði við í rannsókninni „langaði til að komast úr vændi, en höfðu engar aðrar lausnir til að sjá sér farborða“ Sjá: Farley, et al. “Prostitution and Trafficking in Nine Countries: An Update on Violence and Posttraumatic Stress Disorder,” available at http://www.prostitutionresearch.com/pdf/Prostitutionin9Countries.pdf

[11] Sjá: MacKinnon, Catharine A. “Trafficking, Prostitution, and Inequality,” Harvard Civil Rights-Civil Liberties Law Review, 2011, Vol. 46, No. 2, bls. 271-293, fæst hér: http://harvardcrcl.org/wp-content/uploads/2011/08/MacKinnon.pdf

[12] Sjá: Waltman. Sjá einnig: Behind Closed Doors: An Analysis of Indoor Sex Work in New York City, úgefið af Sex Workers Project hjá Urban Justice Center (2005), fæst hér: http://sexworkersproject.org/downloads/BehindClosedDoors.pdf

[13] Sjá: Waltman and MacKinnon (2011). Sjá einnig: Moran, Rachel.Paid For: My Journey Through Prostitution (Dublin: Gil & Macmillan, 2013).

[14] Til dæmis, sjá: Moran, Paid For (2013).

[15] Samkvæmt skýrslu um banaslys við vinnu árið 2011 frá National Bureau of Labor Statistics  eru fiskveiðar og skógarhögg hættulegustu störfin í BNA (samkvæmt mælingum á banaslysum). „Árið 2011 var hlutfall banaslysa á meðal sjómanna (127.3) og skógarhöggsmanna (104.0) um 25 sinnum hærra en hlutfall banaslysa við vinnu á landsvísu sem var 3.5 á hverja 100 sambærilega starfsmenn í fullri vinnu. Flugmenn, bændur, þaksmiðir, sölumenn og vörubílstjórar fara einnig yfir þetta 3,5 % hlutfall banaslysa við vinnu.“ Sjá :http://www.bls.gov/opub/btn/volume-2/death-on-the-job-fatal-work-injuries-in-2011.htm. Borið saman við banaslys kvenna í vændi eru banaslysin 40 sinnum líklegri hjá þeim en konum sem eru ekki í vændi. Í rannsókn á konum í vændi í Colorado reiknaðist rannsakendum til að dánartíðnin er 391 á hverja 1000, og að sjálfsmorðstíðni á meðal “virkra„ vændiskvenna sé 229 á hverja 1000 konur. Sjá, “Mortality in a Long-Term Open Cohort of Prostitute Women,” American Journal of Epidemiology (2004), Vol. 159, no. 8, bls. 778-785. Samkvæmt þessari rannsókn er dánartíðni kvenna í vændi þrisvar sinnum hærri en sjómanna og hér um bil fjórum sinnum hærri en skógarhöggsmanna, tveggja af hættulegustu störfum BNA.

[16] Ríki og alþjóðlegar stofnanir eru í auknum mæli að íhuga eða berjast fyrir norrænu leiðinni, sem viðurkennir að glæpavæðing vændissölu skaðar konur og aðrar manneskjur í vændi, og afglæpavæða ætti því vændissölu en gera kaupin glæpsamleg. Í Noregi, Svíþjóð og á Íslandi hefur Norræna leiðin verið valin. Á franska þinginu var nýlega kosið í vil Norrænu leiðarinnar, eins og á Evrópuþinginu. Verið er að skoða leiðina á Bretlandi og í Kanada. Í Þýskalandi leggjast áfallasérfræðingar (trauma experts) gegn ríkjandi kerfi afglæpavæðingar og tala fyrir Norrænu leiðinni um leið og fullyrt er að „[v]ændi er alls ekki eins og hver önnur vinna. Það er niðurlægjandi og kvalafull misnotkun. Manneskja sem er í vændi upplifir mikinn hrylling og andstyggð sem hún þarf að bæla niður til þess að komast í gegnum það.“ Þetta segir Michaela Huber, sálfræðingur og yfirmaður þýskra samtaka fyrir fólk með áfallastreituröskun (German Society for Trauma and Dissociation). Sjá:http://www.emma.de/artikel/traumatherapeutinnen-gegen-prostitution-317787, og sjá enska þýðingu hér: http://www.sabinabecker.com/2014/09/german-psychologists-and-the-scientific-case-against-prostitution.html

[17] Manneskjur, konur, í vændi eru ekki einsleitur hópur. Því meira ójafnrétti sem manneskjur, konur, eru beittar, með tilliti til kynþáttar, þjóðerni, aldurs, getu og efnahagslegrar afkomu, því meiri ójafnrétti eru þær beittar innan vændiskerfisins. Ef lögleiðing myndi hagnast einhverjum í vændi, þá væru það þeim best settu, konum með val, þær öruggustu og þeim sem hafa hve mest frelsi. Eins og í hverjum öðrum iðnaði á kapítalískum markaði er og verður að finna stigveldi innan hans. Engin ástæða er til þess að trúa því að lögleiðing muni jafna úr þessu stigveldi innan kynlífsiðnaðarins, ekki fremur en í öðrum iðnaði.

[18] Sjá til dæmis: MacKinnon (2011).

[19] “Önnur mögulega smitandi efni eru (1) eftirfarandi líkamsvessar: sæði, píkuseyti, heila og mænuvökvi, liðvökvi, brjósthimnuvökvi, gollurshúsvökvi, lífhimnuvökvi, legvatn, munnvatn við tannlækningar, hverskonar líkamsvessi sem er sýnilega blandaður blóði, og í öllum aðstæðum þar sem erfitt eða ómögulegt er að greina á milli vessa; (2) hverskonar vefir eða líffæri (önnur en ósködduð húð) úr manni (lifandi eða dauðum); og (3) HIV-smituðum frumum eða vefjarækt, líffærarækt og HIV- eða HBV-smituðum ræktunarmiðlum eða öðrum lausnum; og blóði, líffærum eða öðrum vefjum úr tilraunadýrum sem smituð eru af HIV eða HBV.“ Sjá: Occupational Safety and Health Standards, Code of Federal Regulations, Standards, Part 1910, Toxic and Hazardous Substances, Blood Borne Pathogens, (héreftir, reglugerðir vinnueftirlitsins OSHA) fáanlegar á netinu hjá, https://www.osha.gov/pls/oshaweb/owadisp.show_document?p_table=STANDARDS&p_id=10051

[20] Reglugerðir vinnueftirlitsins OSHA, https://www.osha.gov/pls/oshaweb/owadisp.show_document?p_table=STANDARDS&p_id=10051

[21] Ibid.

[22] Ibid.

[23] Sjá, http://www.cdc.gov/hiv/topics/treatment/PIC/pdf/chart.pdf

[24] Sjá, http://www.cdc.gov/hiv/topics/treatment/PIC/pdf/chart.pdf

[25] Sjá, http://www.cdc.gov/condomeffectiveness/brief.html

[26] „Um allan heim má finna rannsóknir sem sýna fram á að um helmingur þeirra sem kaupa vændi krefjast þess að smokknum sé sleppt. Margir þættir mæla gegn smokkanotkun: þörf kvenna til að eignast pening; eldri konur eru ekki jafn aðlaðandi fyrir körlum; samkeppni frá stöðum sem krefjast ekki smokkanotkunar; þrýstingur frá dólgum um að konur taki meira fyrir smokkalaust kynlíf; þörf á pening fyrir eiturlyf eða til að borga dólgi; og almennur skortur á stjórn vændiskvenna yfir líkama sínum á vettvangi. Jafnvel þótt vændishús hafi krafist þess að menn noti smokk, hafi þeir engu að síður gert tilraun til kynlífs án smokks. Samkvæmt efnahagslegri greiningu á smokkanotkun á Indlandi, þar sem mjög fátækar konur notuðu smokka, borguðu kaupendur þeim 66%-79% minna/lægra verð fyrir.” Sjá: http://www.prostitutionresearch.com/pdfs/Myths%20&%20Facts%20Legal%20&%20Illegal%20Prostitution%203-09.pdf

[27] Í skýrslunni “Thematic Report: Sex Workers. Monitoring implementation of the Dublin Declaration on Partnership to Fight HIV/AIDS in Europe, Central Asia” kemur fram að: “[í] heildina er smokkanotkun á meðal kvenkyns kynlífsstarfsmanna með kúnnum nokkuð algeng.  Umrædd gögn gefa til kynna að smokkanotkun sé ekki jafn algeng á meðal karlkyns kynlífsstarfsmanna og kvenkyns kynlífsstarfsmanna en erfitt er að draga haldbærar ályktanir þar sem gögn um smokkanotkun karlkyns kynlífsstarfsmanna eru fáanleg í fæstum löndum. Þau gögn sem til eru búa ekki yfir upplýsingum um smokkanotkun á meðal undirhópa kynlífsverkamanna, eins og farandsverkamanna. Reported data do not provide any information about use of condoms by other. Sjá nánar: http://www.ecdc.europa.eu/en/publications/Publications/dublin-declaration-sex-workers.pdf

[28] Í Handbók St. James er mælt með notkun “gúmmídúks eða plastvefju fyrir bæði munn-leggangamök og munn-endaþarmsmök.“ Occupational Health and Safety Handbook, bls. 18. En þessi ráðlegging dugir ekki til að mæta reglugerðum Vinnueftirlitsins, OSHA.

[29]St. James Infirmary, Occupational Health and Safety Handbook, bls. 18.

[30] Ibid. bls. 13.

[31] Reglugerðir Vinnueftirlitsins, OSHA, https://www.osha.gov/pls/oshaweb/owadisp.show_document?p_table=STANDARDS&p_id=10051

[32] http://www.dir.ca.gov/dosh/DoshReg/comments/STD%20and%20HIV%20Disease%20and%20Health%20Risks%20Los%20Angeles%20County%20DPH.pdf

[33] Reglugerðir Vinnueftirlitsins, OSHA: “Notkun. Vinnuveitandi skal tryggja að starfsmaður noti viðeigandi persónulegan hlífðarbúnað nema ef vinnuveitandi sýni fram á að starfsmaður hafi neitað að nota persónulegan hlífðarbúnað, undir sjaldgæfum og sérstökum kringumstæðum,  í því tiltekna tilviki hafi verið fagleg ákvörðun starfsmanns að notkun hafi komið í veg fyrir að hægt væri að sinna heilbrigðisþjónustu, öryggi almennings eða myndi hafa stofnað starfsmanni eða samstarfsmanni í hættu. Þegar starfsmaður tekur þessa ákvörðun skulu kringumstæður rannsakaðar og skráðar, svo hægt sé að ákveða hvort breytinga sé þörf til þess að koma í veg fyrir álíka aðstæður í framtíðinni.“ Reglugerðir Vinnueftirlitsins, OSHA, https://www.osha.gov/pls/oshaweb/owadisp.show_document?p_table=STANDARDS&p_id=10051

[34] St. James Infirmary, Occupational Health and Safety Handbook, bls. 21-30.

[35] Reglugerðir Vinnueftirlitsins, OSHA: https://www.osha.gov/pls/oshaweb/owadisp.show_document?p_table=STANDARDS&p_id=10051

[36] Sjá: Waltman (2013); Farley, Melissa. Prostitution and Trafficking in Nevada Making the Connections (San Francisco, CA: Prostitution Research & Education, 2007); Malarek, Victor. The Johns: Sex for Sale and The Men Who Buy It (New York: Arcade, 2009), sérstakl. bls. 232, þar sem hann ritar: “Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) skildi ekki að krafan um að nota smokk getur orðið til þess að konan er lamin eða jafnvel myrt.“

[37] http://www.latimes.com/opinion/editorials/la-ed-condoms-porn-20140810-story.html

6 athugasemdir við “Hvers vegna kynlífsvinna er ekki vinna – fyrri hluti

 1. Eftir lestur þessarar greinar eru augljóslega bezt að láta kynlíf eiga sig, hvort sem er selt eða óselt.

  Annars er skemmtilegt að höfundur kemst svolítið nálægt kjarnanum, áður en hann villist af leið eða:
  „Hver rannsóknin á fætur annarri sýnir að meginástæða þess að konur leiðast út í vændi er fjárhagsleg örvænting“ eða með öðrum orðum, af eigin (hrak)vali . Altso, megináherzla baráttunnar gegn vændi sem, byggist á samkomulagi tveggja lögráða frjálsra einstaklinga, ætti að felast í því, að bjóða fjárhagslega örvæntingarfullu fólki upp á aðra raunhæfra möguleika. Málið er nefnilega það, að örvæntingarfullt fólk, fylgir lögum og reglum ekki eins vel og þeim sem líður vel.

  • Já, það er naumast að þú sért með þetta á hreinu! En eff örvænting kemur í veg fyrir að fólk fari eftir lögum og reglum eins og þú fullyrðir, er þá nokkurt val um vændi, og er þá ekki lausn vandans fólgin í því að vernda það? Þá er hægt að koma böndum á kaupendurna, sem hafa peningana og val(d)ið, með því að setja lög á þá. Á meðan aðeins annar aðilinn hefur vald, er ekki hægt að tala um samkomulag, er það nokkuð?

   • Sæl Katrín

    Og á hvaða hátt hjálpar vændisbann fjárhagslega örvæntingarfullum konum að leysa sín vandamál? Á hvaða hátt mun bann, eða „vernd“ eins og þú myndir væntanlega kallað það, við að framfleyta sér í ákveðinni „hálauna“ atvinnugrein hjálpa konunni við að leysa úr sinni fjárhagslegu örvæntingu?

    Hér er verið að berjast við einkennin en ekki orsökina. Ég skal fúslega viðurkenna að ég held að fæstar hórur séu hamingjusamar, og að starfið sé draumastarf ákaflega fárra. En ef ástæðan fyrir að flestir „villist“ inn í þessa grein er „fjárhagsleg örvænting“, sem ég dreg ekki í efa, þá er fjárhagsleg örvænting málið sem við ættum að reyna að leysa, ef okkur geðjast ekki að vændi, ekki að reyna að banna tveimur lögráða einstaklingum að semja um kaup og kjör fyrir ákveðna þjónustu. Og það að leysa úr fjárhagslegri örvæntingu mun líka leysa fullt af öðrum vandamálum, svo sem „raunverulegum“ glæpum, þar sem upplýst samþykki allra hlutaðeigandi er ekki fyrir hendi.

    Þá sagði ég ekki að örvænting kæmi í veg fyrir að fólk færi að lögum, eingöngu að fólk sem er örvæntingarfullt er líklegra til þess að fara á svig við lög. Ert þú ósammála þeirri túlkun?

    „Á meðan aðeins annar aðilinn hefur vald, er ekki hægt að tala um samkomulag, er það nokkuð?“
    Já, það er vel hægt. Pípari sem tekur 8 þús á tímann kann að vera í fjárhagslegum kröggum, eigum við að banna pípulagnir? Af hverju ættum við frekar að banna konu að taka 30 þús á tímann á þeirri forsendu að hún gæti þurft á peningunum að halda?

    Annars er nauðung bönnuð í lögum á Íslandi, þannig segir í almennum hegningarlögum: 195. gr. [Hver sem með annars konar ólögmætri nauðung þröngvar manni til samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi allt að 6 árum.]1)

    Ætti það ekki að duga?

 2. Bakvísun: Hvers vegna kynlífsvinna er ekki vinna – seinni hluti | Knúz - femínískt vefrit

 3. Sæll Haukur

  Jú, ætli ég sé ekki sammála þer um fjárhagslega örvæntingafulla lögbrjóta, þó ég geti ekki fullyrt um það, ætli aðrir þættir komi ekki þar inn í líka.

  Þessi norræna leið sem mælt er með í greininni gerir einmitt því fólki sem er í örvæntingu kleift að stunda sína vinnu, en þá verndað með lögunum.

  Þú segir að barist sé við einkennin en ekki orsökina, en því er akkúrat öfugt farið. Er það ekki eftirspurnin sem ræður markaðinum, búum við ekki í kapítalísku hagkerfi? Og í kapítalísku hagkerfi þar sem manneskjur eru söluvara er brýnna að vernda þau sem standa höllum fæti, eða hvað?

  Pípari selur ekki líkama sinn, þessi líking þín er í engu sambærileg og gefur til kynna að þú hafir ekki skilið útgangspunkt greinarinnar.

  Og hefur þér í alvörunni fundist að lagasetning um nauðung nægi? Þú hlýtur að vera að djóka?

  • Sæl Katrín

   „Þessi norræna leið sem mælt er með í greininni gerir einmitt því fólki sem er í örvæntingu kleift að stunda sína vinnu, en þá verndað með lögunum.“
   Ég hef skilið sænzku leiðina sem svo að vændi sé enn ólöglegt, bara refsingarlaust fyrir seljandann. Það þýðir að starfsemin er enn neðanjarðar og því ekki „vernd[u]ð með lögum“. En leiðréttu mig ef ég hef rangt fyrir mér. Hins vegar er gott að fólki í bransanum sé boðið upp á önnur félagsleg úrræði, sem geta þá leyst úr fjárhagslegu örvæntingunni.

   Eftirspurnin ein og sér hvorki býr til markaðinn né ræður honum. Til þess þarf að vera framboð. Og framboðið skapast af tveimur hópum, annars vegar hamingjusömum hórum, og á meðan þær eru hamingjusamar, þarf í mínum huga góða blöndu af stjórnlyndi og hræsni til þess að leggja stein í götur þeirra, og hins vegar, líklega mun fjölmennari hópur, sem eru fjárhagslega örvæntingarfullar konur, sem myndu kjósa önnur úrræði til þess að leysa úr sínum kröggum, ef nógu góð biðust. Lausnirnar eru því þrjár, a) fá karla (og konur) til þess að hætta að vera graðir(/graðar), b) að búa til samfélag þar sem fólki í fjárhagsnauð er boðið upp á raunhæfar leiðir út úr sínum vandræðum sem innihalda ekki vændi og reyndar myndi ýmis önnur „vandamál“ en vændi leysast við að fara leið b). eða c) Banna þetta bara og allt verður gott, samanber það að vændi er jú hvergi vandamál þar sem það er bannað, ekki satt?

   „Og í kapítalísku hagkerfi þar sem manneskjur eru söluvara er brýnna að vernda þau sem standa höllum fæti, eða hvað?“ Get svo sem verið sammála því, en hvernig vilt þú vernda fólkið? Með því að banna því að framfleyta sér eða …?

   „Á meðan aðeins annar aðilinn hefur vald, er ekki hægt að tala um samkomulag, er það nokkuð?“
   Þú fyrirgefur, en ég ákvað að skylja þessa fullyrðingu þína sem almenna, en ekki sértæka, eigandi bara við um kynlífsviðskipti, en já, ef eingöngu annar aðilinn hefur val, en hinn ekki, þá er ákveðin nauðung í gangi. Ef að annar aðilinn hefur vald til þess að falast eftir viðskiptum en hinn ekki til þess að hafna viðskiptum, t.d. á grunvelli verðs eða annarra lögmætra ástæðna, þá erum við að tala um þrælahald eða nauðung, og það er, merkilegt nokk, bannað í íslenzkum lögum.

   Nú hef ég svarað spurningum þínum, hvernig væri að þú svaraðir þá þeirri sem ég bar upp eða,
   „á hvaða hátt hjálpar vændisbann fjárhagslega örvæntingarfullum konum að leysa sín vandamál? Á hvaða hátt mun bann, eða „vernd“ eins og þú myndir væntanlega kallað það, við að framfleyta sér í ákveðinni „hálauna“ atvinnugrein hjálpa konunni við að leysa úr sinni fjárhagslegu örvæntingu?“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.