Hvers vegna kynlífsvinna er ekki vinna – seinni hluti

Fyrri hluti þessarar greinar birtist í gær, hann má finna hér.

Höfundur: Lori Watson

Kynferðislegt áreiti

gúmmidúkurKynferðisleg áreitni á vinnustað er skilgreind sem „hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og sem er forsenda eða skilyrði fyrir ráðningu eða atvinnuöryggi” [38] Slík áreitni getur birst sem quid pro quo (þegar „ákvarðanir um áframhaldandi veru einstaklings í starfi eru teknar út frá því hvort sá einstaklingur samþykkir áreitnina eða hafnar henni“) eða á þann hátt að starfsmanninum sé búið fjandsamlegt vinnuumhverfi. [39] Algengasta tegund kynferðislegrar áreitni er þegar yfirmaður eða samstarfsfélagi áreitir samstarfsfélaga á einn eða annan hátt. Í tilfelli „kynlífsvinnu“ yrði hegðun yfirmanns eða vinnufélaga sem færi fram á kynlíf í skiptum fyrir atvinnuöryggi væntanlega dæmd á sömu forsendum og í öðrum atvinnutengdum aðstæðum. Erfiðara er að gera sér grein fyrir hvernig mætti takast á við kynferðislega áreitni af hálfu kúnna í „kynlífsvinnu“. Þess vegna er mikilvægt að hafa í huga að „sá sem áreitir getur verið yfirmaður þolanda, yfirmaður í annarri deild, samstarfsmaður, eða einhver sem er ekki í vinnu hjá atvinnuveitanda þolenda, eins og t.d. viðskiptavinur eða skjólstæðingur“. [40] Þannig er ljóst að núverandi lög og reglugerðir bjóða upp á þá túlkun að „skjólstæðingar“ eða „viðskiptavinir“ – kaupendur kynlífs í þessari umræðu – geti beitt seljanda kynlífs kynferðislegu áreiti.

Þetta vekur upp alvarlegar spurningar um það hvernig hægt sé að setja lög um kynferðislega áreitni í samhengi þar sem kynlíf er söluvara. Þar sem öll verkefnin í vinnunni geta falið í sér að kynferðisleg hegðun í óþökk starfsfólks verði skilyrði fyrir að halda vinnunni, af því að vinnan felst í kynlífi, hvernig getum við þá mögulega farið eftir lögum um kynferðislega áreitni á vinnustað? Ætlum við að búa til undanþágu fyrir kynlíf í viðskiptaskyni – þannig að lög um kynferðislega áreitni gildi ekki í því samhengi? Eða munum við halda í þá afstöðu okkar að kynferðislegt áreiti sé ein birtingarmynd kynbundins misréttis sem löggjafanum beri að vernda starfsfólk fyrir? Sé raunin sú, er einfaldlega ómögulegt að samræma lögleiðingu vændis við löggjöf um kynferðislega áreitni sem verndar „allt starfsfólk“.

Til að sjá nákvæmlega af hverju lögleiðing kaupa og sölu á kynlífi samræmist ekki lógíkinni í lögum um kynferðislega áreitni má velta eftirfarandi fyrir sér: Í fyrsta lagi, eins og bent var á hér að ofan er „óþökk“ þess sem fyrir verður það sem breytir kynferðislegri hegðun í kynferðislega áreitni í skilningi laganna. Viðbrögð þolandans geta ekki verið notuð sem vörn í því máli. Það að brotaþoli áreitisins hafi „sjálfviljug“ látið undan getur ekki afsakað kynferðislegt áreiti. „Það að kynferðislegt samband hafi verið „með samþykki“ að því leyti að kærandi hafi ekki verið neydd (með líkamlegu ofbeldi) til að taka þátt, gildir ekki sem vörn fyrir kynferðislegri áreitni fyrir dómstólum. […] Það sem gildir er hvort brotaþoli hafi með hegðun sinni sýnt að áreitið hafi verið óvelkomið/í hennar óþökk, ekki hvort hún hafi látið undan þrýstingi og tekið þátt í kynferðislegum athöfnum án þess að vera neydd til þess.“ [41] Úrskurður Áfrýjunardómstóls ellefta umdæmis BNA veitti fordæmi fyrir almennri skilgreiningu á „háttsemi í óþökk“: háttsemin sem um ræðir verður að vera í óþökk starfsmannsins „að því leyti að starfsmaðurinn hafi ekki falast eftir henni eða hvatt til hennar, á þann hátt að starfsmaður hafi álitið háttsemina óæskilega, óþægilega eða móðgandi.“ [42]

Þegar kemur að „kynlífskaupum“, hvað mun teljast til þess að „falast eftir“ eða „hvetja til“ kynferðislegra athafna? Ef hún samþykkti að gera x, y og z, mun þá verða dæmt sem svo að hún hafi falast eftir þeim athöfnum sem hún taldi óæskilegar, sem hún neitaði eða sem hún gaf til kynna að væru gegn hennar vilja? Með öðrum orðum, gerum ráð fyrir að hún samþykki að veita munnmök og leggangamök en neiti endaþarmsmökum. Gerum aftur ráð fyrir að viðskiptavinurinn krefjist svo endaþarmsmaka og neiti að borga nema hann fái vilja sínum framgengt. Gerum ráð fyrir að hún samþykki – uppákoman og sjálf athöfnin eru henni ógeðfelld, hún varð að framkvæma hana til að halda vinnunni (þ.e. fá greitt) og það hvort hún hafi samþykkt skiptir ekki máli varðandi það hvort hún hafi verið beitt kynferðislegu áreiti. Hún var beitt kynferðislegu áreiti. En hvers vegna ættum við að gefa afslátt á því að telja fyrri athafnirnar tvær kynferðislega áreitni? Þær voru í óþökk hennar, í þeim skilningi að hún framkvæmdi þær einungis til að fá greitt fyrir – ekki til að njóta kynlífs á jafningjagrundvelli – og þær voru skilyrði þess að hún héldi vinnunni (fengi greitt). Það að skilyrða atvinnuöryggi starfsfólks við kynferðislegar athafnir í óþökk þess – þ.e. að fá greitt fyrir kynlíf – er kynferðislegt áreiti; starfið felst í því að þola kynferðislegt áreiti.

Ennfremur er til staðar lagalegur grunnur fyrir að halda því fram að sú staðreynd að hún vinni í kynlífsiðnaði og gæti hafa samþykkt ákveðnar athafnir en ekki aðrar sé því máli óviðkomandi hvort ákveðin athöfn hafi verið í hennar óþökk og teljist því áreitni. Lagalega séð er sú staðreynd að brotaþoli vinni í kynlífsiðnaði óviðkomandi því hvort kynferðislegt áreiti hafi átt sér stað eða ekki. Við getum ímyndað okkur að tilraun til varnar myndi hljóma eitthvað á þessa leið: „Hún er nú einu sinni vændiskona. Þannig að hegðunin sem um ræðir gæti ekki hafa verið í hennar óþökk.“ Samt sem áður stendur í bandarískum lögum að „öll hegðun brotaþola, sem eigi að sýna fram á að hún hafi áður sýnt „þökk“, verður að hafa beinst að kærða“. Með öðrum orðum, fyrri hegðun brotaþola verður að hafa beinst að þeim manni sem er kærður fyrir áreitið til þess að teljast málinu viðkomandi.

EEOC [hér eftir: Jafnréttisnefnd atvinnumála] viðurkennir þó að „[e]rfiðari aðstæður komi upp þegar starfsmaður samþykkir fyrst athafnir eða hegðun af kynferðislegum toga en vill síðan ekki lengur taka þátt í slíkum athöfnum og heldur því fram að áframhaldandi kynferðislegar athafnir skapi slæmt vinnuumhverfi. Hér fellur það í hlut starfsmannsins að þurfa að sýna að frekari kynferðisleg háttsemi sé í hennar óþökk og teljist því kynferðisleg áreitni á vinnustað. Viðkomandi starfsmaður þarf því að láta meintan geranda afdráttarlaust vita að háttsemi hans sé ekki lengur æskileg. Ef gerandi heldur tiltekinni háttsemi til streitu, en starfsmaður tilkynnir ekki málið til yfirmanna eða til Jafnréttisnefndar atvinnumála, má líta svo á að háttsemin hafi verið með hennar samþykki. Hvað sem því líður er þó ekki leyfilegt að neita henni um starfstækifæri eða starfsfríðindi, vegna þess að hún hafi neitað að taka þátt í kynferðislegri háttsemi; en slíkt myndi teljast brot á “quid pro quo” viðskiptunum.” [43] Hugsum okkur sem svo að þegar um er að ræða „kynlífsvinnu“, teljist kynferðisleg háttsemi æskileg þegar starfsmaðurinn samþykkir að taka þátt í ákveðnum kynferðislegum athöfnum gegn greiðslu – svo lengi sem það samþykki getur skilist sem svo að starfmaður falist eftir eða hvetji til umræddra athafna. Ef við gefum okkur þessar forsendur, þá er það á ábyrgð starfsmannsins að sýna viðskiptavininum að allar aðrar athafnir séu í hennar óþökk. Að auki þarf starfsmaðurinn að gefa skýrt til kynna að háttsemin sé í hennar óþökk og láta yfirmenn sína vita. Ef við notum hugtök þeirra sem styðja lögleiðingu og líta á vændiskonur (og -karla) sem „þjónustufólk“ sem starfar við að þjónusta viðskiptavini, hversu raunhæft er það að halda að starfmaðurinn sé í aðstöðu til þess að tjá skýra neitun? Að gera viðskiptavininum ljóst að frekari kynferðislegar athafnir séu óvelkomnar? Að láta yfirmenn vita þegar viðskiptavinurinn viðhefur óæskilega háttsemi ítrekað? Við vitum að ástæðan fyrir því að fólk leiðist út í þessa „vinnu“ er fjárhagsleg neyð. Við vitum einnig að í starfsumhverfi sem ekki er kynferðislegt er kynferðislega áreitni oft ekki tilkynnt vegna ótta við refsiaðgerðir eða starfsmissi. Síðast en ekki síst, hvernig er hægt að halda því fram að „það að starfsmaður neiti að taka þátt í kynferðislegri háttsemi geti ekki verið notað sem ástæða til að neita viðkomandi um starfstækifæri eða fríðindi“ þegar starfið gengur út á kynlíf?

Einnig er vert að nefna að dómsstólar hafa úrskurðað að „klámblöð“, „grófar kynferðislegar athugasemdir“, „kynferðislegar myndir í kvikmynd á vegum fyrirtækisins og glærusýningum“ og „kynferðislegar myndir og dagatöl á vinnustaðnum“ telst allt stuðla að fjandsamlegu starfsumhverfi. [44] Í Barbetta úrskurðaði dómsstóll að klám og niðurlægjandi athugasemdir, ef slíkt væri stöðugt viðhaft til lengri tíma, „gæti talist skapa starfsumhverfi þar sem litið er á konur sem kynferðisleg leikföng karlmanna frekar en sem jafningja þeirra og samstarfsfélaga.“ [45] Hvaða áhrif gæti slíkur úrskurður haft á vændishús þar sem klámefni er notað meðfram kynlífi? Þar sem „grófar kynferðislegar athugasemdir“ eru daglegt tungumál viðskiptavinanna? Þar sem iðkun kynlífs er skilyrði fyrir starfinu?

Vissulega eru þessir úrskurðir og reglugerðir samin með það í huga að starfið felist ekki í því að stunda kynlíf. Ef starfið sjálft felst í því að stunda kynlíf, hvaða merkingu hefur þá sá lagalegi skilningur að kynlíf án raunverulegs samþykkis sem forsenda ráðningar sé kynferðislega áreitni, og þar með kynjamisrétti? Lögleiðing vændis samræmist ekki lagalegum skilgreiningum um að kynferðislegt áreiti sé ein birtingarmynda kynjamisréttis. Og ef við ímyndum okkur að lögfræðingur færi rök fyrir undanþágum fyrir þessa tegund af „starfi“, hvaða skilaboð felur það í sér? Eiga sumar konur skilið að njóta verndar gegn óvelkomnu kynferðislegri áreitni og eiga rétt á að kæra ef það gerist, en ekki aðrar konur? Og þær sem ekki njóta verndar, eru þær ekki einmitt undirskipaðar, verst settar af öllu „vinnandi fólki“? Frá þessu leggur fnykinn af því að samkvæmt almenningsálitinu séu konur sem stunda vændi lauslátar druslur og eigi skilið það sem kemur fyrir þær.

Borgaraleg réttindi

Þau sem berjast fyrir lögleiðingu vændis (eða afglæpavæðingu) tala oft út frá borgaralegum réttindum og mannréttindum „kynlífsverkafólks“, en þegar kynlífsvinna er orðin að venjulegum viðskiptum sem lúta lögum og reglugerðum njóta „viðskiptavinirnir“ einnig lögverndaðra réttinda. Fyrirtæki geta lögum samkvæmt ekki neitað að þjónusta einstaklinga á grundvelli kynþáttar, húðlitar, uppruna, kyngervis, trúarbragða eða fötlunar (líkamlegrar og andlegrar). Sum fylki í Bandaríkjunum vernda einnig borgara sína gegn mismunum á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar og kyntjáningar. Þetta þýðir að fyrirtæki sem veita almenna þjónustu hafa ekki frelsi til að neita að þjónusta neinn sem tilheyrir þessum vernduðu minnihlutahópum á grundvelli þess að þeir tilheyri vernduðum minnihlutahópi. Slíkt myndi brjóta á borgaralegum réttindum viðkomandi einstaklings. Gott og vel. En hvernig kemur þetta út í því tilfelli þar sem kynlíf er selt á frjálsum markaði og telst því til almennrar þjónustu?

Ef kynfrelsi á að hafa einhverja merkingu, hlýtur það að fela í sér réttinn á að neita að stunda kynlíf með hverjum sem er, hvenær sem er, af hvaða ástæðu sem er. Okkur getur þótt það mismunun að manneskja hafni boði um að fara á stefnumót eða neiti að sofa hjá einhverjum einungis vegna uppruna, trúar eða fötlunar viðkomandi, sérstaklega ef ákvörðunin byggist á fordómum eða óvild. Engu að síður hefur fólk rétt til að velja sér bólfélaga á þeim forsendum sem það kýs að skipti máli, þar á meðal kyn og kyngervi mögulegs bólfélaga. Ef einhver getur alls ekki hugsað sér að stunda kynlíf með neinum yfir 65 ára aldri er það þeirra réttur að breyta, eða ekki, samkvæmt því. Okkur ber engin skylda til að stunda kynlíf með þeim sem kunna að hafa áhuga á að stunda kynlíf með okkur. Rétturinn á neitun af hvaða ástæðu sem er, hvort sem hún er „til eftirbreytni“ eða ekki, er óskoraður.

En ef kynlíf er viðskiptaleg athöfn og talið vera starf eins og hvert annað, þá er erfitt að koma auga á rök sem verja „rétt starfsmanna“ til þess að neita að þjónusta einhvern vegna þess að þeir vilji það. Eiga „viðskiptavinir“ að hafa rétt til að lögsækja vændishús eða einstakar konur fyrir að „neita þeim um þjónustu“ , rétt sem þá grundvallaðist á aðild þeirra að ákveðinni verndaðri stétt? Ef þetta hljómar fáranlega, pældu í því sem fram kemur í breyttum lögum um vændi (PRA) á Nýja-Sjálandi: Í skýrslu um þau, fimm árum eftir að þau tóku gildi, er að finna meðal annars rannsókn Eftirlitsnefndarinnar á valdi „kynlífsverkamanna“ til þess að neita að þjónusta tiltekna kúnna. Samkvæmt rannsókninni segjast 60% „kynlífsverkamanna“ að auðveldara hafi verið að neita kynlífi með tilteknum kúnna áður en að lögin komu til, sem þýðir beinlínis að 40% finnist þau ekki geta neitað kynlífi með tilteknum kúnna. [46] Í viðtölum nefndarinnar við bæði vændishúsaeigendur og „kynlífsverkamenn“, kemur fram að þó svo að „starfsmenn“ hafi „rétt“ til þess að neita tilteknum kúnna héldu bæði „starfsmenn“ og eigendur því fram að neitun væri aðeins samþykkt „ef ástæðan teldist lögmæt“.“Þjóðerni má ekki vera ástæða — þær [konurnar sem selja kynlíf] hafa ekki rétt til að gera upp á milli fólks,“ var haft eftir einum eiganda vændishúss. [47]

Þar af leiðir að þar sem kynlíf telst „vinna eins og hver önnur“, sumsé reglugerðabundin markaðsviðskipti, hafa „þjónustuaðilar“ ekki lagalegan rétt til að neita kúnnum í vernduðum stéttum um þjónustu vegna aðildar þeirra að verndaðri stétt. Ef þú neitar að stunda kynlíf með einhverjum yfir 65 ára aldri er það aldursmismunun, því kynlífsvinna er vinna eins og hver önnur. Á sama hátt er neitun um kynlíf vegna kyns (eða kyngervis eða trans-gervis, þar sem sá hópur er verndaður) einnig mögulegt brot á borgaralegum réttindum viðskiptavinarins. Þessi rök, framar öllum öðrum, opinbera annmarka á rökstuðningi þeirra sem halda því fram að „kynlífsvinna sé eins hver önnur vinna“. Það að neita að stunda kynlíf með einhverjum er ekki það sama og að neita að bera mat á borð fyrir einhvern, snyrta neglur, klippa hár eða veita einhverja aðra „persónulega þjónustu“. Að neita því að gefa einhverjum handsnyrtingu á grundvelli uppruna, aldurs, kyns, o.s.frv. er lágkúruleg neitun á því að koma fram við viðkomandi á jafnræðisgrundvelli. Þar er komið fram við fólk á ójafnréttislegum grundvelli og fólkinu neitað um grunnréttindi. Að neita að stunda kynlíf með einhverjum, á hvaða grundvelli sem er, er einfaldlega ekki samsvarandi. Að neita að stunda kynlíf með einhverjum er ekki brot á viðeigandi einstaklingi, hvorki brot gegn borgaralegum réttindum né öðrum mögulegum réttindum.

Umfram þau rök sem hér hafa komið fram vakna spurningar um kerfi lögleiðingar. Þar sem það er löglegt að telja kynlíf með í ráðningarskilmálum (í kynlífsvinnu) er hægt að endurskilgreina aðrar gerðir starfslýsinga svo að þær innihaldi kynlíf. Hvar verður línan dregin? Getur kynlíf hugsanlega verið lögmætur hluti af nokkurri starfslýsingu? Mun kynlífsvinnu verða krafist af fólki (konum) þar sem þess er krafist af bótaþegum velferðar- eða atvinnuleysisbóta að þeir taki þá vinnu sem í boði er, í staðinn fyrir að vera á bótum? Samkvæmt núgildandi lögum um samninga er misbrestur á því að veita áður samþykkta þjónustu brot á samningsskilmálum og kann að leiða til bótakröfu eða sekta fyrir þann aðila sem neitar að framfylgja samningnum: mun þetta einnig ná yfir samninga um „kynlífsvinnu?“ [48] Með því að víkka einfaldlega út þær reglugerðir sem eru í gildi varðandi vinnulöggjöf, samninga og önnur opinber réttindi svo þær nái einnig yfir „kynlífsvinnu“ má sýna fram á ósennileika slagorðsins „þetta er vinna alveg eins og öll önnur vinna“.

Ein af aðalástæðunum fyrir lögleiðingarrökunum er viljinn til skaðaminnkunnar á meðal fólks í vændi, þó svo, líkt og kemur fram snemma í þessari ritgerð, ekki verði hægt að koma í veg fyrir eða minnka allan skaða sem tengist vændi með lögleiðingu. Í sumum tilfellum eykst jafnvel skaðinn. Hvað sem öðru líður, er nauðsynlegt að ræða skaðann sem fylgir glæpavæðingu kynlífssölu: handtaka, fangelsun, vonlaust að kæra nauðgun, árásir og hvers kyns ofbeldi. Enn verra er að þar sem sala á kynlífi er glæpur verða varnarlausar manneskjur (konur í meirihluta) enn varnarlausari gegn árásum og þvingunar til kynmaka af hendi lögregluþjóna, fólksins sem einmitt á að „vernda“ þær gegn slíkum misþyrmingum. [49]

Svarið við þessum skaða er ekki lögleiðing. Öllu heldur væri svarið alger afglæpavæðing kynlífssölu. Stuðningur við kynjajafnrétti, við algert félags-, borgaralegt og pólitískt jafnræði vændisfólks felur ekki í sér að veita kaupendum frjálsan aðgang í gegnum kerfi lögleiðingar. Kaupendurnir – eftirspurnin – keyra áfram það kerfi ójöfnuðar sem leyfir vændi að blómstra. Glæpavæðing kynlífskaupa er frumskilyrði til að hægt sé að takast á við skaðann sem fylgir vændi og þann skaðvald sem vændi er. Við þurfum þessa kópernísku byltingu, umpólun sjónarhornsins, sem einmitt felst í norræna módelinu.

Lori Watson er aðstoðarprófessor í heimspeki og yfirmaður Kvenna- og kynjafræðideildar háskólans í San Diego.  Hún starfar á mörkum stjórnmálaheimspeki, lögfræðilegrar heimspeki og kynjafræði. Nú um stundir er hún að skrifa bók með Dr. Christine Hartley. Vinnutitill bókarinnar er “Feminist Political Liberalism”.

Þessi grein birtist upprunalega hér: http://logosjournal.com/2014/watson/

[38] http://www.eeoc.gov/policy/docs/currentissues.html

[39] Ibid.

[40] Ibid.

[41] http://www.eeoc.gov/policy/docs/currentissues.html

[42] Henson v. City of Dundee, 682 F.2d at 903

[43] http://www.eeoc.gov/policy/docs/currentissues.html

[44] Ibid.

[45] Ibid.

[46]http://www.justice.govt.nz/policy/commercial-property-and-regulatory/prostitution/prostitution-law-review-committee/publications/plrc-report/documents/report.pdf, bls. 45.

[47] Ibid.

[48] Fyrir góða greiningu, sjá: Anderson, Scott, Prostitution and Sexual Autonomy,” í Prostitution and Pornography, útg. Spector (sjá neðanmálsgrein 2).

[49] Sjá:  “Behind Closed Doors,” available at http://sexworkersproject.org/downloads/BehindClosedDoors.pdf

3 athugasemdir við “Hvers vegna kynlífsvinna er ekki vinna – seinni hluti

 1. Hér er gengið út frá því að „öll verkefnin í vinnunni geta falið í sér að kynferðisleg hegðun í óþökk starfsfólks verði skilyrði fyrir að halda vinnunni, af því að vinnan felst í kynlífi, hvernig getum við þá mögulega farið eftir lögum um kynferðislega áreitni á vinnustað?“

  Er ekki svolítið furðulegt að gera ráð fyrir því að sú þjónusta sem kynlífsstarfsmaðurinn er að reyna að selja sé í óþökk hans sjálfs? Vill starfsmaðurinn kúnna eða ekki kúnna?

  “ Með öðrum orðum, gerum ráð fyrir að hún samþykki að veita munnmök og leggangamök en neiti endaþarmsmökum. Gerum aftur ráð fyrir að viðskiptavinurinn krefjist svo endaþarmsmaka og neiti að borga nema hann fái vilja sínum framgengt.“
  Ofangreint er samningssvik, sem er lögbrot. En auðvitað getur „hún“ ekki kært í umhverfi þar sem samningurinn er um ólöglegt efni.

  „Ef við notum hugtök þeirra sem styðja lögleiðingu og líta á vændiskonur (og -karla) sem „þjónustufólk“ sem starfar við að þjónusta viðskiptavini, hversu raunhæft er það að halda að starfmaðurinn sé í aðstöðu til þess að tjá skýra neitun? Að gera viðskiptavininum ljóst að frekari kynferðislegar athafnir séu óvelkomnar? Að láta yfirmenn vita þegar viðskiptavinurinn viðhefur óæskilega háttsemi ítrekað?“
  Það er alla vega erfiðara þar sem þjónustan er hluti af neðanjarðarstarfsemi og því utan „laga og réttar“.

  Ef að vændi hyrfi við það eitt að vera bannað, rétt eins og Ísland varð fíkniefnalaust árið 2000 (en fíkniefnin eru jú bönnuð), þá væri a.m.k. eitthvað vit banninu. En eins og ofangreint dæmi (frá bandaríkjunum þar sem vændi er almennt bannað), þá er aðstaða vændiskvenna til þess að leita réttar síns miklu verri en ella. Málið snýzt því um skaðaminnkun (svona fyrir þá sem lifa ekki í þeim útópískaheimi að bönn leysi vandann) og er náskylt umræðunni um refsingar, refsileysi og lögleiðingu fíkniefna.

 2. Sæll Haukur.
  Nei það er ekki furðulegt á meðan meirihluti kvenna, eins og rannsóknir sem vísað er í í greininni sýna, eru í vændi af neyð.
  Já, það er samningsbrot og myndi þá sænska leiðin tryggja að manneskja í vændi myndi geta leitað réttar síns, því hún er ekki að fremja lögbrot, eftir því sem ég kemst næst.
  Nei, hún er ekki utan laga og réttar samkvæmt þeirri leið sem mælt er fyrir í greininni.

  Útopía eða ekki, má ég biðja þig vinsamlegast um að kynna þér sænsku leiðina betur.

 3. Bakvísun: Knúzannállinn 2015 | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.