Höfundur: Jóhann Björnsson
Þetta byrjaði allt árið 2008 þegar ég starfaði við fræðsludeild Alþjóðahúss. Mitt hlutverk var meðal annars að fara í fyrirtæki og skóla og ræða við fólk um fordóma og fjölmenningu, oftar en ekki þar sem útlendingaandúð var mikil. Sérstaklega er mér minnistæð ein vika sem ég dvaldi við grunnskóla nokkurn á Akranesi. Flóttafólkið frá Írak var væntanlegt í bæinn og vegna andstöðu ýmissa í bænum sem hafði áhrif á nokkra nemendur við grunnskólann var ég beðinn um að koma með fræðslu um fjölmenningu og fordóma í alla bekki á mið- og unglingastigi.
Þegar ég undirbjó tímana velti ég því mikið fyrir mér hvernig ég gæti nálgast nemendurna þannig að ég hefði traust þeirra en gæti á sama tíma vakið þá til vitundar og skynsamlegrar rökræðu um málefni flóttafólksins, um fjölmenningu og fordóma? Ég vissi að ég gæti mætt með reiðilestur þar sem ég færði þeim boðskapinn um fjölmenningarlegt samfélag og kosti þess, en ég vissi það líka að slíkur reiðilestur væri boðun þar sem nemendurnir kæmust ekki sjálfir að eigin niðurstöðu í málinu. Svo ég ákvað að fara aðra leið.
Ég hafði lagt stund á heimspeki í háskólum, bæði hér á landi og í Belgíu. Í námi mínu fékk ég oft að heyra að markmið heimspekilegrar rökræðu væri að kryfja hin ýmsu mál, spyrja spurninga, rökræða, mynda sér skynsamlegar skoðanir og færa fyrir þeim rök. Þetta hljómaði alltaf vel innan veggja háskólanna, en virkar það þegar komið er út í alvöru hversdagsleikans og umdeild mál og flókin mæta manni? Það var spurning sem ég spurði sjálfan mig að á þessum tíma.
Ég ákvað því að gera tilraun þarna á Akranesi. Ég ákvað að sleppa reiðilestrinum og bjóða nemendum til heimspekilegrar samræðu þar sem opnum spurningum yrði varpað fram og þeir beðnir um að mynda sér sjálfstæðar skoðanir, færa fyrir þeim rök, hlusta á og taka mið af öðrum sjónarmiðum sem fram kæmu í samræðunum, með það að markmiði að komast að bestu mögulegri niðurstöðu.
Til þess að gera langa sögu stutta þá gekk þetta upp. Ég var sáttur. Til þess að þetta gengi upp varð ég að treysta þeim sem tóku þátt fyrir því að lúta reglum samræðunnar. Með þessu trausti og með því að ég tæki bara þátt í samræðunum sem stjórnandi, án þess að þykjast vita betur eða hafa réttari eða betri skoðanir tókst okkur að velta upp fjölmörgum hliðum málsins, kostum og göllum, orsökum og afleiðingum, ýmsum álitamálum o.s.frv. Með þessari nálgun fór eitthvað að gerast. Hugur unga fólksins opnaðist og ég var ekki í öðru hlutverki en því að vekja til umhugsunar og leiða samræðurnar áfram. Mínar persónulegu skoðanir komu aldrei fram, en mörgum þeirra tókst að mynda sér skynsamegar skoðanir á málinu.
Eftir að hafa haldið áfram að vinna á þennan hátt í allmörg ár með grunnskólanemum, einkum í Réttarholtsskóla og börnum sem taka þátt í námskeiðum Siðmenntar fyrir borgaralegar fermingar varð úr að ég gaf út bókina Eru allir öðruvísi? Fjölmenning og heimspeki (2012). Í henni má finna fjölbreyttar kveikjur að samræðum, samræðuæfingar, örsögur og spurningar um fordóma og fjölmenningu þar sem markmiðið er að þátttakendur í heimspekilegum samræðum fái að mynda sér sjalfstæðar skoðanir og færa fyrir þeim rök. Þarna hafði heimspekin verið notuð til að takast á við veruleikann sem staðið var frammi fyrir.
Kynjamálin tekin heimspekilegum tökum
Í framhaldi þessarar reynslu dró ég þá ályktun að það hlyti að vera mögulegt að nota þessa nálgun til þess að takast á við fleiri álitamál. Ég ákvað að skoða kynjamálin með sambærilegum hætti. Ég er ekki kynjafræðingur og veit ekkert um kenningar, stefnur og strauma í kynjafræði. Ég er heimspekingur og nálgast því málin á sambærilegan hátt og Sókrates nálgaðist viðfangsefni sín forðum daga, þ.e. að viðurkenna fáfræði sína og leyfa sér að spyrja opinna spurninga sem sumum kann eflaust að þykja barnalegar. Rétt eins og með fjölmenninguna og fordómana sem lýst var hér að framan vissi ég að umfjöllun um kynjamál væri vandasamt verkefni. Ekki þyrfti mikið útaf að bregða til þess að rifrildi yrði ofan á og átökin yrðu heiftarleg á milli fylkinga þar sem oftar en ekki væru drengir í annarri og stúlkur í hinni. Þess í stað vildi ég koma af stað samstarfsverkefni allra, drengja og stúlkna, sem og annarra sem ekki geta flokkað sig sem annað hvort drengi eða stúlkur, þar sem allir myndu hjálpast að við að komast að sem skynsamlegustum niðurstöðum.
Það er ekkert skrítið að fólk, hvort sem það eru unglingar eða fullorðnir telji að það eigi að rífast þegar álitamál eru rædd. Við höfum slæmar fyrirmyndir allt í kringum okkur. Nærtækast er að líta til Morfís kappræðukeppni framhaldsskólanna og samskiptanna á Alþingi. Þar er oftar en ekki kapprætt, rifist og alhæft með það að markmiði að sigra andmælandann í stað þess að rökræða. Með rökræðunni er reynt er að komast að því sem satt er, rétt, gott og fagurt eins og markmiðið er með heimspekilegum samræðum.
Erum við öll jöfn? Kynjamál og heimspeki
Í bókinni Erum við öll jöfn? Kynjamál og heimspeki (2015), tek ég kynjamálin sambærilegum tökum og ég tók fjölmenningarmálin fyrir í bókinni Eru allir öðruvísi? Fjölmenning og heimspeki. Í henni má finna ýmsar kveikjur, örsögur, spurningar og fullyrðingar sem miða að því að koma umhugsunarvirkni og samræðum af stað. Orðið kyn kemur víða við sögu í íslensku máli og kynjamál er orð sem hefur mjög víðtæka vísun s.s. í kynjajafnrétti, kynhneigð, kynjabundið, kynjað o.s.frv.
Í bókinni er lagt upp með sex meginþemu auk þess sem aftast í henni eru leiðbeiningar og tillögur að notkun hennar, æfingar og verkefni sem kjörið er að nota í samræðustundum.
Fyrsti kaflinn heitir Var guð upphafið að þessu öllu sama? Þar er spurt um áhrif trúarbragðanna á kynjamálin. Adam og Eva og Páll postuli sem sagði meðal annars að konur ættu að þegja á safnaðarsamkomum eru dæmi um mál sem vert er að rökræða með kynjagleraugum. Hér er meðal annars spurt: Ætli það hafi komið til greina hjá guði að skapa fyrst konu í stað karls? Og Ætli það hafi komið til greina hjá guði að skapa tvo karla í stað karls og konu?
Í öðrum kaflanum er sjónum beint að forngrísku heimspekingunum sem mikil áhrif hafa haft á þróun vestrænna samfélaganna allt fram á okkar dag. Þar er annarsvegar niðurlæging Xanþippu eiginkonu Sókratesar sérstaklega skoðuð og sá hroki sem karlmenn sýndu henni og hinsvegar sú afstaða Aristótelesar að konur væru lægra settar en karlar vegna þess að þær hefðu lægri líkamshita en þeir. Þar er meðal annars spurt hvort konur séu kaldari en karlar?
Í þriðja kaflanum eru völd sérstaklega til umfjöllunar og hafa verið valin mál sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum á undanförnum árum s.s. um pakistönsku stúlkuna Malölu, um bæjarstjórann sem bannaði konum að leggja bílum í lítil bílastæði vegna þess að hann taldi að þær væru verri í að leggja bílum en karlar. Þar er einnig fjallað um takmarkanir á hjólreiðum kvenna í Saudi Arabíu og Norður – Kóreu.
Í fjórða kaflanum er fjallað um ástina og mismunandi fjölskyldugerðir. Þar situr m.a. Jacob Zuma forseti Suður – Afríku fyrir svörum þar sem hann sagðist vera mikill jafnréttissinni vegna þess að hann elskaði allar konurnar sínar þrjár jafn mikið.
Fimmti kaflinn kallast Hversdagslegar kynjamyndir. Þar er spurt út í mismunandi stöðu kynjanna á vinnumarkaði, á hárgreiðslustofum, í sundlaugum og tónlistarhúsinu Hörpu. Spurt er meðal annars í þessum kafla: Hverjir eru kostirnir og gallarnir við það að leyfa fólki að vera í þeim sundfötum sem það vill þegar það fer í sund?
Sjötti og síðasti kafli bókarinnar heitir: Skiptir kyn og kynhneigð máli? Í þessum kafla er sjónum beint að kynleiðréttingu, intersex og hatri gagnvart samkynhneigðum. Þar er meðal annars spurt: Má maður segja allt sem maður hugsar og finnst? Og Geta pabbar verið mömmur?
Meginmarkmið bókarinnar er að efla umhugsunarvirknina, að hugsa yfirvegað, mynda sér skoðanir og rökræða. Efni hennar hefur verið notað með mörgum hópum unglinga, bæði kynjaskiptum hópum og blönduðum með góðum árangri. Þegar ég segi góðum árangri þá meina ég að hver hópur fyrir sig hefur nálgast viðfagnsefnið í anda samstarfs þar sem þátttakendur lúta leikreglum heimspekilegrar samræðu. Þar gilda bestu rökin hverju sinni og engin skömm er að því að skipta um skoðun ef eitthvað reynist betra og réttara en virtist í fyrstu. Tekist hefur að koma í veg fyrir að andstæðar fylkingar myndist sem slást í kappræðu í stað málefnlegrar og yfirvegaðrar samræðu.
Það þarf að treysta á rökræðuna og leikreglur hennar
Fyrsti kaflinn, þar sem rætt er um guð og trúarbrögðin með tilliti til kynjamála hefur ekki fallið vel í geð hjá þeim sem óttast afleiðingar trúarheimspekilegra pælinga. Hef ég svarað því til að þegar við tökum mál til umfjöllunar með aðferðum heimspekilegrar samræðu þá er sjálfsagt að ræða allt. Spurt er opinna gagnrýninna spurninga út í þann veruleika sem við búum við og ef við lútum reglum samræðunnar þá hljótum við að komast að bestu mögulegu niðurstöðu hverju sinni. Niðurstaðan liggur ekki fyrir fyrr en að rökræðu lokinni. Þess vegna er ekkert athugavert við að taka allt til heimspekilegrar samræðu.
Bókin Erum við öll jöfn? Kynjamál og heimspeki er flokkuð sem svo kölluð hversdagsheimspeki / heimspeki handa almenningi (e. Popular philosophy). Það er nálgun innan heimspekinnar sem verður sífellt vinsælli víða um heim. Þjónar þessi heimspeki þeim tilgangi að bjóða almenningi, bæði börnum og fullorðnum að borði heimspekilegrar samræðu þar sem hugsað er og rökrætt um hversdagslegt líf. Slík nálgun má ekki vera lokuð inni í menntastofnunum heldur á hún erindi við fólk hvar sem er og hvenær sem er. Heimspeki, sé hún stunduð á þennan hátt er jú líka að einum þræði tómstundagaman sem allir geta stundað og vert er að stunda í góðra vina hópi.
Nú er bara að prófa að taka efni bókarinnar til rökræðu. Góða skemmtun.
Bakvísun: Hvað vita heimspekingar um kynjamál? | Sísyfos heimspekismiðja
Bakvísun: Annáll 2015 | Knúz - femínískt vefrit