Boð til líkamsvirðingar

Höfundur: Eva Dröfn H. Guðmundsdóttir

Eru bara ákveðnar líkamsgerðir sem fá leyfi til að þykja vænt um sjálfan sig?

allbodiesaregoodAlls staðar í kringum okkur eru kröfur, væntingar og viðmið um hvernig við eigum að vera fullkomna eða besta útgáfan af okkur sjálfum. Einkennandi í umhverfi okkar eru kröfur varðandi útlit og holdafar. Þúsundir greina, pistla, kúra og ráða um hvernig hægt er, fyrir meðalmanneskjuna að öðlast þetta lýtalausa, óaðfinnanlega útlit. Útlitið sem allir vilja. Útlitið sem þú ættir að vilja svo mikið að þú sért tilbúin/n að deyja til að öðlast það.

Niðurstöður fleiri og fleiri rannsókna sýna fram á hið sama; mikill meirihluti ungmenna í dag eru óánægð með útlit sitt. Á sama tíma og hreinsað er og photoshoppað burt allt sem telst ófullkomið eru hugmyndir okkar og samfélagsins ómeðvitað að breytast og kröfur til útlits að aukast. Þess vegna er í rauninni mjög auðvelt að átta sig á þeirri staðreynd að það er nánast ómögulegt að ná sama útliti og fyrirsætan í tímaritinu. Samt sem áður er ég alls ekki ein um það að reyna og keppast að þeim fjarlæga áfangastað að líta svoleiðis út.

Mikilvægara að líta vel út en að vera góð manneskja

Hvaða þættir hafa áhrif á líkamsímynd okkar? Jú, einn stærsti áhrifavaldur í okkar samfélagi eru fjölmiðlar. Fjölmiðlar gefa mjög einhæfa mynd af manneskjum og holdafari. Jafnvel þegar notast er við módel sem talin eru vera í „plússtærðum“ sjáum við einhæfa mynd. Hvaða skilaboð sendir það okkur? Jú, að það sé ein upplögð og æskileg gerð líkama og holdafars sem allir eiga að vera í. Þeir sem eru það ekki … Tja, þeir geta t.d. leitað ráða í tískublöðum um hvernig hægt er að missa x mörg kíló á x stuttum tíma, prófað 1 af billjón megrunarkúrum, tekið megrunarpillur, hristinga, bætiefni, duft og farið í lýtaaðgerðir… Okkar samfélag er mjög peningamiðað og í þeim skilningi er ekki skrítið að stórfyrirtæki nýti sér óöryggi fólks til að selja því hluti, m.a. málningadót og snyrtivörur, megrunarlausnir og lyf. Ýta undir þá hugmynd að okkar helsta hlutverk sé að vera sæt og flott og fullkomin.

Að það sé mikilvægara fyrir manneskju að vera fullkomlega útlítandi heldur en hamingjusöm.

Ég skil ekki afhverju holdafar mitt breytir einhverju fyrir annað fólk. Afhverju hefur það áhrif á hvernig það horfir á mig sem manneskju? Hvernig ég horfi á mig sem manneskju? Er það að vera feit/ur virkilega verri eiginleiki hjá manneskju heldur en að vera dónaleg? Óheiðarleg? Eigingjörn? Fordómafull? Sjálfhverf? Neikvæð? Kærulaus um þá sem eru í kringum sig? Eða einfaldlega að vera leiðinleg? Þetta veldur mér heilabrotum. Það er nefnilega svo stutt síðan ég áttaði mig á þessu. Er það versta sem gæti komið fyrir mig, það að vera feit? Að bæta á mig nokkrum kílóum? Er lífið mitt búið ef ég er ekki með mjó læri? Mun enginn, ekki einu sinni ég sjálf elska mig fyrir það sem ég er í raun og veru, óháð tölunni á vigtinni?

Við hugsum best um það sem okkur þykir vænst um

Auðvitað ber okkur að virða líkamann og hugsa vel um hann! Það er hægt með því að borða hollt og hreyfa okkur, en fyrst og fremst með því að sýna honum ást, umhyggju og þakklæti, enda hugsum við best um það sem okkur þykir vænst um. Líkaminn fylgir okkur alla lífsleiðina, bókstaflega! Það er svoldið magnað þegar maður pælir í því. Líkaminn fylgir okkur alla ævi og passar uppá okkur. Ættum við ekki líka að passa uppá hann? Líkaminn okkar gerir í langflestum tilfellum allt fyrir okkur. Hugsaðu þér þegar þú dettur og færð skrámu, þá fer líkaminn strax í málið, sama gildir þegar við fáum flensu eða kvef, það eina sem líkaminn vill er að okkur líði vel og að við lifum góðu heilbrigðu lífi.

Eitt sem ber að hafa hugfast varðandi þessa umræðu er að þó svo það skipti svo sjúklega miklu máli að þykja vænt um líkama sinn, sama hvernig hann lítur út, má ekki gleyma því að líkaminn hefur ekki vald til að skilgreina hver ÞÚ ert. Þú ert svo miklu meira en líkaminn þinn. Líkaminn er partur af þér, en hann segir ekki til um hversu mikils virði þú ert eða hvernig manneskja þú ert. Þú ert ekki tærnar þínar, rétt eins og þú ert ekki lærin á þér eða mittið.

Við þurfum fleira fólk sem er komið með uppí kok af því að hafa áhyggjur af megrunarkúrum, tölum á vigtinni, hitaeiningatalningum, óraunhæfum kröfum til útlits og útlitsdýrkun í öllum sínum myndum! Tíminn er núna, við getum haft áhrif.

Verum þakklát fyrir hvern einasta hjartslátt sem heldur okkur lifandi, án þess að við þurfum í rauninni að gera neitt eða pæla í því. Líkaminn sér um þetta fyrir okkur. Fyrir hvern andadrátt og hvert augnablik. Fyrir meltinguna og ónæmiskerfið. Verum þakklát fyrir sjón, heyrn, lykt, bragð og snertingu. Líkaminn er fullkominn, og þú ert það líka. Ekki leyfa fjölmiðlum og auglýsingum né neinum öðrum að taka ástina af sjálfum þér frá þér.

Þessi grein birtist upphaflega í Framhaldsskólablaðinu.

Ein athugasemd við “Boð til líkamsvirðingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.