Skuggarnir leysast ekki lengur upp

*TW*  *Efnisviðvörun*

Höfundur: Kristín Jónsdóttir

Mánudaginn 9. nóvember 2015 má líklega halda því fram að stór hluti þjóðarinnar hafi vaknað upp af einhvers konar blundi. Ég vil ekki segja værum blundi, því jú jú, við heyrum alltaf við og við af nauðgunarmálum. Karl er grunaður, brotaþoli fór á sjúkrahús til skoðunar, málið er í rannsókn og á meðan eru allir „meintir“ og „saklausir uns …“

Þetta fáum við að sjá í fjölmiðlum og við rennum yfir þessar frásagnir annars hugar og innra með okkur erum við bara fegin þegar kemur að dálknum Daglegt líf eða Lífsstíll eða hvað sem hann heitir. En smart heima hjá leikaraparinu! Nauðgunarmálið hefur í mesta lagi náð að verða að örlitlum skugga í huga okkar, en skugginn leysist fljótt upp í amstri dagsins. Nauðgun er líka í huga okkar eitthvað sem gerist líkt og fyrir tilviljun. Kona verður á vegi karls sem tryllist og nauðgar henni. Sumar konur eru svo heppnar að lenda aldrei í þessu.

Á mánudagsmorgun 9. nóvember 2015 birtist á forsíðu dagblaðs, sem borið er í hvert hús í Reykjavík og dreift víðar um land, lýsing á staðnum sem talinn er hafa verið vettvangur tveggja nauðgana sem hafa verið í fréttum undanfarna daga. Lýsingin var svo óhugnanleg að í þetta skipti leystist skugginn ekki upp með næsta kaffisopa og næstu blaðsíðu. Þetta var of sterkt. Eins og í ljótri, ljótri bíómynd, en ekki í Hlíðunum, því góða hverfi.

Fram að þessari frétt höfðu þessi tilteknu nauðgunarmál verið aðeins meira áberandi en venjulega, því þau var annars vegar hægt að tengja við virtan háskóla og hins vegar var um að ræða tvo náunga sem frömdu að minnsta kosti annan glæpinn í sameiningu og einhvern veginn hafði alþjóð á tilfinningunni að um fyrirfram skipulagðan og vel ígrundaðan glæp væri að ræða. Skólinn var gagnrýndur fyrir slæleg viðbrögð og annar mannanna var settur í leyfi úr vinnu sinni á hóteli.

Vegna þessarar grafísku lýsingar í Fréttablaðinu þennan tiltekna mánudagsmorgun, leystist skugginn ekki upp heldur bólgnaði hann út.

Skjáskot frá Þórdísi Elvu - smellið á myndina til að stækka

Skjáskot frá Þórdísi Elvu

Internetið logaði. Fyrstu reiðiviðbrögðin beindust gegn lögreglu sem hafði ekki beðið um gæsluvarðhald yfir gerendum. Lögreglan yfirheyrði mennina og sleppti þeim svo. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, höfundur bókar um kynbundið ofbeldi, Á mannamáli, lagði fram fyrirspurn á facebook-síðu lögreglunnar um það hvers vegna ekki þótti varða almannaheill að loka mennina inni á meðan rannsókn málsins stæði yfir. Svörin á facebooksíðunni og svo viðbótin á Twitter munu væntanlega rata í sögubækur:

„Lögreglan getur ekki tryggt öryggi, þar sem það er ekki hægt að tryggja öryggi neins.“

„Það er ekki hægt að tryggja öryggi nema kannski að búa í lögregluríki – frelsi vs. öryggi.“

Lögreglan hefur þarna afhjúpað að hún telur sig ekki geta sinnt starfi sínu. Grunnhlutverk lögreglunnar er að tryggja öryggi og almannaheill. Það stendur í lögum um lögregluna. Þetta hlýtur í það minnsta að vera tilefni til að stofna nefnd og gera skýrslu, er það ekki?

Meðfram þessum samskiptum Þórdísar Elvu við lögregluna, voru „meintir“ gerendur afhjúpaðir. Fólk kepptist við að deila facebook-síðum mannanna og skjáskotum af tvítum þeirra um helgina. Nöfnin fóru bókstaflega út um allt, ég sá þau sjálf oftar en tvisvar og oftar en þrisvar á nokkuð venjulegu netflakki mínu. Um kvöldið virtist svo nokkuð ljóst að mennirnir væru farnir úr landi. Það birtust meira að segja myndir af a.m.k. öðrum þeirra í Leifsstöð. Það sauð á ansi mörgum: Var ekki einu sinni farbann á hina grunuðu?!

Í bland við þessa bylgju afhjúpunar sem var nokkuð áberandi í fréttaveitu minni, birtust svo viðbrögð við aðgerðinni. Nafngreining fólks sem er með stöðu grunaðra er vissulega sjóðandi heitt umræðuefni og auðvitað risu ýmsir réttsýnir og velmeinandi þegnar upp og sögðu: „Nei, þetta má ekki! Þetta er ekki fallegt. Þetta er ekki rétta leiðin.“ Einhverjir drógu meira að segja Lúkasarmálið ógurlega fram þessu til stuðnings. Netið og frelsið þar er nefnilega svo ógurlegt að fólkið sem notar það getur stundum farið offari. Og það má ekki!

Það er vissulega satt og rétt að það samræmist ekki almennum reglum samfélagsins að dreifa nöfnum grunaðra manna. Hvað ef þeir væru saklausir? Hvað ef einhver er að ljúga? Það væri agalegt til þess að hugsa að þessir menn hafi saklausir verið ataðir aur af reiðum netnotendum.

Hins vegar er það staðreynd að á Íslandi er til risa, risastór hópur kvenna sem hafa orðið fyrir nauðgun. Sumar þeirra þurftu að þola margra klukkutíma pyntingar og niðurlægingu. Aðrar upplifðu þetta meira eins og sekúndubrot þar sem þær voru frosnar og fundu ekki fyrir neinu fyrr en daginn eftir. Báðir hóparnir þurfa almennt að þola að vera bara skugginn sem leysist upp. Þær fá ekki skilning neins staðar í kerfinu. Kæran velkist um hjá lögreglu og þær þurfa að mæta aftur og aftur í yfirheyrslu líkt og grunaðir. Þær upplifa vanskilning á ástandi sínu í kjölfar árásarinnar, en þjóðfélagið virðist ekki hafa pláss fyrir áfallastreituröskun og hömlunina sem hún veldur. Þeirra eina skjól eru Stígamót, sem trekk í trekk er reynt að sverta og gera grunsamleg. Þau ku nefnilega fara offari með sínum kröfum um að fjölmiðlar fjalli um nauðganir á útihátíðum og svona. Í raun eru allir sem gera eitthvað gegn nauðgunum og gegn nauðgurum taldir fara offari. Er það málið?

Við sem höfum aldrei orðið fyrir nauðgun og þá sérstaklega karlar sem hafa ekki heldur alist upp við þá ógn sem nauðgun er fyrir allar konur, alltaf, alls staðar, ættum kannski að bíða aðeins með að fordæma og afneita hópnum sem nú rís upp og ákveður að berjast. Við getum ekki ímyndað okkur hve margir í kringum okkur bera skuggann með sér. Við getum ekki ímyndað okkur hvað þær hafa gengið í gegnum. Við getum því ekki heldur staðið á hliðarlínunni og sagt þeim hvað má og hvað má ekki. Við, þessi sem erum sterk vegna þess að við erum svo heppin að hafa losnað við að lenda í því að einhver réðst á okkur og nauðgaði okkur, við skuldum kannski hinum brotnu að standa sem klettar við hlið þeirra. Líka þótt þau noti aðferðir sem okkur hugnast ekki. Eva Lind Þuríðardóttir skrifaði eldsnemma á þriðjudagsmorgni inní nýstofnaðan hópinn Ekki mínir #almannahagsmunir (vísunin er stytt og snyrt með leyfi Evu Lindar, en hér er tengill á athugasemd hennar í  heild):

Hér birtist tilraun Hrafns Jökulssonar til að færa svör talsmanns kerfisins í prenthæft mál.

Hér birtist tilraun Hrafns Jökulssonar til að færa svör talsmanns kerfisins í prenthæft mál.

„Nei, það er ekki í lagi að hóa í aftöku án dóms og laga. Heldur snýst þetta um þá meðferð sem nauðgunarmál fá innan kerfisins og þá framkomu sem þolendur mega þola. Það eru til fjölmörg mál í íslenskri réttarsögu þar sem menn hafa verið kærðir fyrir nauðgun og ekki settir í gæsluvarðhald, konan hefur þá farið fram á nálgunarbann og ekki fengið. Svona mál hafa endað með morði.
Ég kærði nauðgun ekki einu sinni og ekki tvisvar. Ég var undir lögaldri þegar mesta misnotkunin átti sér stað og vinir hans tóku af mér myndir og seldu þær. Ég fór til lögreglunnar og hún gerði ekkert. Mörgum árum seinna var málið loks komið inn til ríkissaksóknara, hann spurði mig hvort ekki væri kominn tími fyrir mig til að „slaka á“ því þetta væri nú orðinn gamall maður.“

Kæri lesandi, hvernig líður þér eftir að hafa lesið frásögn Evu Lindar? Hvaða tilfinningar berðu í brjósti til Thelmu Ásdísardóttur? Veistu að þær skipta hundruðum, konurnar sem eru í þessari stöðu? Manstu eftir þessu morðmáli? 28 hnífsstungur í konu sem bar vitni í nauðgunarmáli. Finnst þér ástæða til að bregast við þeirri staðreynd?

Kerfið er sjúkt. Kerfið er meingallað. Brotaþolar fá ekki áheyrn í þessu kerfi. Nauðgun er glæpur sem nánast aldrei næst að refsa fyrir. Og þar sem enginn dómur fellur eru, ef marka má skilgreiningar, gerendurnir „saklausir“. Hversu bilað er það? Nú þegar hefur lögmaður riðið á vaðið í forsvari fyrir þessa tilteknu „meintu“ gerendur og hótar málsóknum á hendur öllum þeim sem voguðu sér að taka þátt í afhjúpuninni.

Brotaþolinn er hins vegar tætt og rifin manneskja sem vaknar upp á mánudagsmorgni 9. nóvember 2015 og les hryllilega lýsingu Fréttablaðsins. Tvær sem bætast munu í þennan skuggahóp. Hvernig sem þetta tiltekna mál fer, verður samfélagsmeinið til staðar þangað til sameinast verður um að uppræta það. Má þessi skuggahópur ekki breytast í skuggaher? Eigum við ekki að standa með þeim, standa með þeim og setja yfirvöldum stólinn fyrir dyrnar: Gerið eitthvað til að breyta kerfinu! Núna! Annars verðum við að grípa til aðferða í anda Dirty Harrys eða Chuck Norris, við neyðumst til að taka slaginn án ónýts dómkerfis og götóttra laga, sem, eins og sagan sýndi þennan mánudag 9.nóvember 2015, jafnvel lögreglan sjálf telur sér ofviða að fylgja.

Ítarefni:
Málþófið um öfuga sönnunarbyrði eftir Önnu Bentínu Hermansen
Um sönnunarbyrði og sönnunarmat eftir Rún Knútsdóttur

3 athugasemdir við “Skuggarnir leysast ekki lengur upp

  1. „Þær upplifa vanskilning á ástandi sínu í kjölfar árásarinnar, en þjóðfélagið virðist ekki hafa pláss fyrir áfallastreituröskun og hömlunina sem hún veldur. Þeirra eina skjól eru Stígamót, sem trekk í trekk er reynt að sverta og gera grunsamleg.“ Þessi staðhæfing er rangfærsla sem betra er að standi rétt.

    Konur sem leita til Neyðarmóttöku (vegna nýrra kynferðisbrota) er boðin sálfræðiþjónusta. Í þeirri sálfræðiþjónustu er boðið upp á áfallahjálp, ráðgjöf, stuðning og svo greiningu og meðferð ef þarf. Unnið er í samræmi við bestu þekkingu á hverjum tíma. Þolendur hafa aðgang að sálfræðingi sínum á meðan málið þeirra er í kerfinu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem litið er framhjá þeirri þjónustu sem þó er í boði í kerfinu okkar.

    • Já, ég er að tala um hópinn allan. Þolendur gamalla brota og nýrra. Þau nýju hafa sumsé þetta úrræði, sem er frábært. En Stígamót taka við öllum, konum og körlum, hvenær sem er. Það er kannski ekki nógu mikið talað um þjónustu Neyðarmóttöku, en ég hef heyrt gott eitt um það starf. Stígamót hins vegar þurfa að sitja undir ýmsum dylgjum um að „búa til vandamál úr engu“ o.s.frv. Nærtækasta dæmið er líklega Þjóðhátíð í Eyjum.

  2. „Lögreglan hefur þarna afhjúpað að hún telur sig ekki geta sinnt starfi sínu.“

    Það er ekki starf lögreglu að ábyrgjast að ekkert slæmt gerist í landinu, ef þú lest aftur skilaboð lögreglunar þá er einfaldlega verið að benda á að lögreglan framkvæmir þessar rannsóknir eftir bestu getu. Án þess þó að halda því fram að hún sé svo almáttug að hún geti komið í veg fyrir að glæpir eigi sér stað á landinu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.