Höfundur: Kristín Ástgeirsdóttir
Í gærkvöldi sýndi danska sjónvarpið DR2 bandarísku heimildamyndina The Hunting Ground. Þetta er glæný mynd (2015) sem fjallar um nauðganir og nauðgunar(ó)menningu í bandarískum háskólum. Ímyndið ykkur ekki að þarna hafi verið um einhverja annars flokks háskóla að ræða. Við sögu komu Harvard, Stanford, Berkeley, MIT, Columbia og nánast hver einasti háskóli í Bandaríkjunum. Þetta var mjög upplýsandi, vekjandi en um leið sorgleg mynd. Mjög margar háskólastúlkur eiga í miklum sálrænum erfiðleikum eftir þetta ömurlega ofbeldi en verst var þó að ýmist þorðu þær ekki að segja frá lengi vel eða stóðu frammi fyrir því að ekki var á þær hlustað.
Í kynningu á myndinni kom fram að fimmta hver háskólastúlka verði fyrir nauðgun. Þær eru þaggaðar niður af skólayfirvöldum og skömminni skellt á stelpurnar. Þær eru þó að sameinast í baráttu til að skila skömminni þangað sem hún á heima. Stelpunum sem að lokum risu upp, tókst að komast alla leið inn í þingið og Obama forseti tók málið upp. Tugir háskóla í USA eru til rannsóknar vegna þess hvernig þeir hafa stungið kærumálum undir stól um árabil.
Fram kom að það eru um 8% karlkyns stúdenta sem fremja yfir 90% nauðgana. Ofbeldismennirnir nauðga mörgum stúlkum hver og einn en strákar verða auðvitað líka fyrir nauðgunum. Enn segja fæstir þeirra frá. Það ber auðvitað að undirstrika að langflestir karlar nauðga ekki og dytti það ekki til hugar en margir þeirra mættu beita sér miklu meira til að kveða niður þessa glæpsamlegu og eyðileggjandi hegðun og gera upp við alls konar „goðsagnir“ um karla og karlmennsku.
Ítrekað kom fram í myndinni að þegar málin voru rannsökuð af skólayfirvöldum voru stelpurnar spurðar hvernig þær hefðu verið klæddar, hvort þær hefðu drukkið og hvort þær ætluðu að eyðileggja líf strákanna. Þetta hljómar kunnuglega. Í mörgum tilvikum var eitthvað sett í drykki og þær urðu hálf- eða alveg meðvitundarlausar. Skilaboðin sem þær fengu voru að nauðgunin væri þeim að kenna.
Það sem var ekki síst athyglisvert voru tengslin við „bræðrafélögin“, strákaklúbbar sem eru mjög valdamiklir en innan þeirra þrífst alls konar ósómi eins og það að „safna“ stelpum hvernig sem farið er að því. Svo eru það skólaíþróttirnar en það hefur margoft komið fram í fréttum hve margir íþróttamenn í USA hafa verið sakaðir um nauðganir og margir verið dæmdir (þó fremur vægt miðað við alvarleika brotanna). Hlífiskildi hefur verið haldið yfir íþróttamönnum í lengstu lög vegna þess að þeir eru „hetjur“, varpa ljóma á skólana og skaffa peninga. Stúlka sem ákærði íþróttamann fékk þvílíkar hótanir að hún varð að flýja. Málinu var vísað frá en svo kom í ljós að brotaþolar voru fleiri. Það tók nokkra meistaratitla og stórmót þar til maðurinn var loks dreginn fyrir dóm. Einnig var rætt við kennara og einn lögreglumann sem höfðu reynt að beita sér í málum stúlknanna. Þau voru ýmist rekin eða gáfust upp á aðgerðarleysinu og meðvirkninni.
Tvær ungar konur tóku sig loks saman, auglýstu eftir þolendum á netinu og ferðuðust svo um öll Bandaríkin til að safna vitnisburðum. Að lokum setti það skriðu af stað að fá nógu marga til að standa upp saman frammi fyrir myndavélunum og segja sögu sína. Gefa glæpunum andlit og nafn. Það var það sem þurfti til að mark væri tekið á stúlkunum. Það verður forvitnilegt að fylgjast með framhaldinu, því eins og þær sögðu, byltingin er rétt að hefjast.
Nauðganir eru því miður alþjóðlegir stórglæpir sem yfirvöld hafa hunsað öldum saman. Þær eru hluti af kynjakerfinu sem hefur löngum tryggt völd karla yfir konum, hluti af „rétti“ sigurvegarans til að niðurlægja og eyðileggja andstæðinginn. Hvers kyns ofbeldi og valdbeiting gegn konum er því miður hluti af þessu lífseiga kerfi. Konur eru í margfaldri áhættu miðað við karla hvað varðar kynferðisofbeldi og fatlaðar konur í enn meiri hættu en ófatlaðar konur. Þetta eru staðreyndir sem rýra á engan hátt það ofbeldi sem karlar verða fyrir. Við verðum að skoða kynin sérstaklega sem og ákveðna hópa fólks sem eru í meiri áhættu en aðrir. Það hjálpar engum að þynna út umræðuna og tala bara um ofbeldi almennt. Þá sjást þeir ekki sem eru í mestri hættu. Ofbeldi á ekki að þrífast og það á enginn að þurfa að búa við það.
Á vettvangi kvennanefndar SÞ hefur refsileysið við kynferðisglæpum verið harðlega gagnrýnt og þjóðir hvattar til úrbóta. Íslendingar þurfa svo sannarlega að taka þau orð til sín og stórbæta meðferð nauðgunarmála. Allt of fá mál eru kærð og allt of fáum málum lýkur fyrir dómstólum. Umræðan getur ekki verið of mikil. Afsakanir og málsbætur eru engar, aldrei. NEI ÞÝÐIR NEI jafnvel þótt fólk hafi látið vel hvert að öðru og það náðst á mynd.
Kristín Ástgeirsdóttir
Frá ritstjórn: Ritstjórn Knúz mun senda Ríkisútvarpinu Sjónvarpi erindi og æskja þess að „The Hunting Ground“ verði tekin til sýningar.
Bakvísun: Till it happens to you… | Knúz - femínískt vefrit