Af transfóbískum femínistum og kynbundnu ofbeldi

Höfundur: Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir

Baráttumál femínisma og kvennahreyfinga á Íslandi og víðar hafa tekið miklum stakkaskiptum á undanförnum áratugum. Áður fyrr var einblínt á borgaraleg réttindi kvenna en nú er baráttan orðin víðfeðmari og tekur á fjölbreyttari málefnum. Samt sem áður hafa femínismi og kvennahreyfingar oft átt í erfiðleikum með að skoða ólíka reynsluheima sem og misjafna stöðu kvenna í samfélaginu. Alls konar þættir spila þar inn í, svo sem menningarlegur bakgrunnur, húðlitur, fötlun og skerðingar, aldur, kynvitund, kynhneigð og svo framvegis.
Samtvinnun (e. intersectionality) er nálgun sem virðist vera að ná meiri fótfestu innan kynjafræði en með henni er staða kvenna skoðuð út frá mismunandi þáttum, t.d. hvernig reynsluheimur svartra kvenna er ólíkur reynsluheimi hvítra kvenna, hvernig
reynsla fatlaðra kvenna er ólík reynslu ófatlaðra kvenna og þar fram eftir götunum. Þar er skoðað hvernig mismunandi þættir hafa áhrif á stöðu einstaklinga og afleiðingar þess.
Út frá sjónarhorni samtvinnunar er oft fjallað um margþætta mismunun (e. multiple discrimination), það er hvernig einstaklingum er oft mismunað vegna ólíkra þátta og hvernig sú mismunun birtist á ólíkan hátt. Kenningar um samtvinnun skoða alla þessa þætti og hvernig staða einstaklinga getur verið margþætt en þegar fjallað er um margþætta mismunun er eingöngu litið til þess hvernig þessir þættir hafa áhrif á þá mismunun sem fólk verður fyrir. Einn af þeim þáttum sem skoðaðir eru út frá samtvinnun er staða trans fólks og hvernig hún er frábrugðin stöðu sís fólks. Staða t.d. trans kvenna og sú mismunun sem þær verða fyrir er töluvert ólík þeirri sem sís konur verða fyrir. Ef við skoðum fleiri þætti, eins og stöðu svartra trans kvenna, fáum við enn eina breytuna og þar með nýja birtingarmynd stöðu einstaklings. Það gefur því auga leið að reynsluheimur kvenna hlýtur að vera fjölbreyttur, margs konar og margslunginn.

Kvennahreyfingin á Íslandi og íslenskur femínismi hefur meðal annars verið gagnrýndur fyrir að tileinka sér ekki þessa nálgun en á undanförnum árum virðist hafa orðið vitundarvakning hvað það varðar. Samband trans samfélagsins við kvennahreyfingar og femínisma á Íslandi hefur samt sem áður ekki verið mikið og lítið er um formlegt samstarf milli félaga trans fólks (Trans Íslands) og femínískra samtaka hérlendis.
Hreyfingarnar hafa í raun haldið sig svolítið út af fyrir sig, þrátt fyrir að vissulega séu einstaklingar innan beggja samtaka sem eru í góðu sambandi sín á milli og til sé fólk sem er virkt í báðum hreyfingum. Umræða um trans málefni hefur aukist dálítið meðal femínista á Íslandi og ég hef sem betur fer að mestu leyti orðið vitni að jákvæðri umræðu. Hins vegar virðast vera femínistar innan þessara hreyfinga sem telja tilvist trans fólk ekki vera raunverulega, alvöru eða ekta. Ég hef átt samræður þar sem yfirlýstir femínistar hafa talað niður til trans fólks, gert lítið úr tilvist þess og jafnvel beitt hatursorðræðu. Það er innileg ósk mín að slíkar skoðanir séu í minnihluta og að femínistar hérlendis geri sér grein fyrir mótsögninni sem felst í þeim.

Trans Is stórtGagnrýni femínista

Femínistar á borð við Sheilu Jeffreys, Julie Bindel, Janice Raymond og Germaine Greer hafa opinberlega gagnrýnt trans fólk (þá sérstaklega trans konur) og viðhaft hatursorðræðu í þeirra garð. Hugmyndir þeirra ganga í grunninn út á það að trans fólk geti ekki verið af öðru kyni en því sem þeim var úthlutað við fæðingu og að barátta trans fólks fyrir sínum réttindum og sinni sjálfsmynd grafi undan baráttu kvenna. Þær segja að konum sé í grunninn mismunað vegna líffræði sinnar og að með tilkomu trans fólks sé hægt og rólega verið að eyða út reynsluheimi kvenna, þar sem að nú eigi trans karlar aðild að þeirri mismunun sem þær upplifa. Þær segja að ekki megi lengur tala um baráttumál kvenna þar sem trans fólk telji sig útilokað út frá slíkri umræðu, enda hafa trans karlar og kynsegin trans fólk oft upplifað mismunun út frá sömu þáttum og sís konur.

Sumar hafa jafnvel gengið svo langt að skrifa heilu bækurnar sem tala gegn transfólki og tilvist þess – þar má helst nefna bókina The Transsexual Empire – Making of the She-Male eftir Janice Raymond. Í bókinni heldur Raymond því fram að trans fólk styrki kynjahlutverk karla og kvenna með því ferli sem það undirgengst innan heilbrigðiskerfisins. Hún heldur því fram að tilvist trans fólks sé í raun ekkert annað en ein af mýtum feðraveldisins sem sé að reyna að taka sér bólfestu og gera innrás í reynsluheim kvenna, kvennamenningu og femínísk rými – hormónameðferðir og aðgerðir fyrir trans konur séu í raun tilraun feðraveldisins til þess að búa til konu samkvæmt sínum stöðlum. Tilvist trans kvenna er því ógn við tilvíst sís kvenna og þeirra reynsluheim. Hún segir einnig að allt trans fólk sé í raun að nauðga líkömum sís kvenna með því að hlutgera hann og eigna sér einkenni kvenlíkamans með skurðaðgerðum.

transempireStöllur Raymond hafa svipaðar skoðanir og eru þekktar fyrir að tala gegn réttindum trans fólks, sérstaklega réttindum trans kvenna. Þær telja að trans konur séu ekki alvöru konur og geti aldrei orðið alvöru konur þar sem líffræði þeirra sé ólík líffræði sís kvenna. Þær virðast tala minna um trans karla eða kynsegin transfólk en þegar það hefur borið á góma hefur meðal annars verið sagt að trans karlar séu lesbíur sem hati „aðrar“ konur og séu að afskræma líkama sinn vegna þessa haturs. Einnig segja þær að tilvist trans karla þurrki út reynsluheim kvenna því ekki megi lengur tala um að konur fari á blæðingar eða þær verði óléttar án þess að minnast á að trans karlar geti slíkt vissulega líka. Einnig segja þær að þessi mál séu orðin að tabúi í femínískum rýmum þar sem gæta þurfi að því að móðga ekki eða „triggera sadfeels“ hjá trans fólki, eins og stundum hefur verið sagt í umræðum á netinu.

Það sem er einna áhugaverðast í rökum þessara femínista er að flest allt sem þær segja varðandi trans fólk er í beinni mótsögn við það sem þær segjast standa fyrir. Í fyrsta lagi má nefna þá grundvallarhugmynd innan kynjafræði að kyngervi sé í raun félagslega mótað og fólki sé eignað ákveðið kyngervi út frá líffræði. Kyngervi (e. gender) og kyn (e. sex) séu því tveir aðskildir hlutir og kyneinkenni (t.d. kynfæri, hormónar og önnur útlitseinkenni) séu ekki það sem sker úr um kyn einstaklings. Þessu eru vinkonurnar vissulega sammála – nema þegar kemur að trans fólki. Þá virðast þær aðhyllast þá hugmynd að kyngervi og kyn fylgist að og að breyting eða röskun á því jafnvægi sé ekki möguleg. Einnig vilja þær meina að öllum konum sé mismunað vegna líffræði sinnar – en ekki trans konum, þar sem þær séu jú ekki „alvöru konur“. Það að viðurkenna trans konur ekki sem alvöru konur, hvort sem um er að ræða líffræði eða kyngervi, gerir ekkert annað en að undirstrika völd feðraveldisins sem fær að skilgreina hvernig líkamar kvenna eru og hvernig þeir eru ekki. Rök þessara femínista eru því, eins og fyrr sagði, í beinni mótsögn við grundvallarhugmyndirnar og ganga út á það að trans fólk sé ekki alvöru, kynvitund trans einstaklinga sé ekki raunveruleg og að um einhvers konar geðsjúkdóm eða röskun sé að ræða. Einnig má taka það fram að nauðgunarlíkingarnar eru ekki til neins nema að gera lítið úr þolendum kynferðisofbeldis og þeim afleiðingum sem það hefur í för með sér.

Félagsmótun

Önnur algeng rök sem þær stöllur og fylgilið þeirra beita gegn transfólki (trans konum sérstaklega) ganga út frá að trans konur séu félagsmótaðar sem karlmenn og njóti því sömu forréttinda og karlar í samfélaginu. Slík staðhæfing skautar algjörlega framhjá þeirri staðreynd að trans konur upplifa sína félagsmótun sem „strákar“ allt öðruvísi en sís karlmenn. Á meðan sís karlmenn eru og upplifa sig sem karlmenn gera trans konur það ekki. Á meðan sís strákar geta lifað í sátt við sína félagsmótun og tekið við sínum forréttindum jafnvel ómeðvitað upplifa trans konur oft mikla skömm, vanlíðan og ótta. Sú félagsmótun sem þröngvað er upp á þær passar ekki við þeirra kynvitund og sjálfsmynd þeirra nýtur ekki góðs af því. Félagsmótunin er því ekkert annað en samfélagið að segja trans konum að þær séu ekki konur og að kynvitund þeirra sé röng. Af þeim sökum upplifa trans konur (og trans fólk almennt) oft mikla vanlíðan, þunglyndi, fá áfallastreituröskun og þar fram eftir götunum.

Margar trans konur upplifa líka kvenhatur og sexisma löngu áður en þær koma fram sem konur í samfélaginu. Trans konur sem eru mjög kvenlegar eða hegða sér ekki samkvæmt karllægum gildum upplifa oft einelti, eru uppnefndar og jafnvel beittar ofbeldi. Sem krakki varð ég til að mynda fyrir miklu einelti og var kölluð „hommi“, „faggi“, „kelling“ og þar fram eftir götunum þar sem mín kyntjáning og hegðun passaði ekki inn í þrönga kassa félagsmótunar um hvernig „strákar“ ættu að hegða sér.

Vissulega hefur það sína kosti og gefur einstaklingum forréttindi ef þeir eru lesnir sem karlkyns í samfélaginu en forréttindi byggja ekki eingöngu á útliti. Hvernig við berum okkur, hegðum okkur, hvað við segjum og fleira hefur þar einnig áhrif. Trans konur sem byrja að lifa sem þær sjálfar eru ekki lesnar einfaldlega sem „karlmenn“, sérstaklega ekki trans konur sem uppfylla staðla samfélagsins um hvernig konur „eiga að líta út“. Trans konur sem falla ekki eins vel að þessum stöðlum upplifa ekki heldur karlkyns forréttindi, þar sem þær eru oft í enn meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi og fordómum sökum útlits síns og hegðunar. Það að halda því fram að trans konur séu ekki konur vegna þess að þær njóti karlkyns forréttinda er því mikil rökvilla og einstaklingar sem halda slíku fram þurfa virkilega að kynna sér birtingarmyndir sexima og kynbundis ofbeldis.

Fordómar

Trans fólk, sérstaklega trans konur sem eru ekki hvítar, verður fyrir gríðarlegum fordómum um allan heim vegna kynvitundar sinnar og það þarf ekki nema eitt gúgl til að sjá fjöldann allan af fréttum, rannsóknum og greinum sem tala um háa sjálfsvígstíðni trans fólks og ofbeldisglæpi, morð og fordóma sem það verður fyrir. Til að mynda halda samtökin Transgender Europe úti vakt sem tekur saman morð sem hafa verið framin á trans fólki vegna kynvitundar þess. Frá því að skráningin byrjaði árið 2008 og til ársins 2014 hafa yfir 1.700 manneskjur verið myrtar vegna kynvitundar sinnar og þar á meðal er stór hópur einstaklinga undir lögaldri. Einnig hefur Transgender Europe gefið út myndband sem lýsir raunveruleika trans fólks í Evrópu (hægt að stilla á íslenskan texta). Enn fremur er hægt að finna ýmislegt um réttarstöðu trans fólks á heimasíðu samtakanna, www.tgeu.org/. Í viðtölum hefur komið fram að trans fólk á Íslandi verður einnig fyrir miklum fordómum og upplifir útskúfun, útilokun, fordóma og jafnvel ofbeldi.

Trans fólk á því undir högg að sækja á mörgum stöðum; meðal fjölskyldu og vina, meðal almennings, á atvinnumarkaði og í þjónustu og meira að segja meðal meintra „femínista“. Það er ótrúlegt að einstaklingar sem kenna sig við femínisma, sem stendur fyrir jafnrétti, réttlæti og útrýmingu kynbundis ofbeldis, beiti jaðarsettan hóp hatursorðræðu og andlegu ofbeldi. Ekki nóg með það heldur beinist þessi hatursorðræða oft sérstakega að trans konum. Að öðrum konum. Sú mótsögn sem felst í því þegar fólk segir sig vera femínista en tekur svo þátt í kynbundnu ofbeldi gagnvart jaðarsettum hópi fólks er hreint út sagt ógeðsleg. Það að fólk virðist geta sett sig í dómarasæti þegar kemur að lífi trans einstaklinga og beiti þá nákvæmlega sama ofbeldi og fólkið sjálft hefur verið beitt í gegnum áraraðir er ein ógeðfelldasta og mesta mótsögn sem finnst meðal femínista í dag. Fólk sem útilokar annað fólk eða mismunar því á grundvelli kyns, kynvitundar eða kyngervis er einfaldlega ekki femínistar heldur gerendur, ofbeldisfólk og kúgarar.

En sem betur fer eru þessi viðhorf ekki altæk hérlendis og er það mín von að þau nái ekki fótfestu hérlendis – slíkt myndi setja svartan blett á jafnréttisbaráttu hérlendis. Femínismi þarf að vera víðtækur og tala fyrir jafnrétti í sinni víðustu mynd, ekki á forsendum hvíts, millistéttar, ófatlaðs, sís fólks – heldur okkar allra. Við þurfum að bera virðingu fyrir öðrum hópum, fjölbreyttum reynsluheimum og átta okkur á því að jafnréttisbarátta getur aldrei gengið út á það að mismuna eða jaðarsetja aðra.

Að lokum við ég benda áhugasömum um málþing sem verður haldið á Minningardegi trans fólks, þann 20. nóvember næstkomandi. Málþingið ber heitið „Málþing um málefni transfólks sem hluta af femínískri baráttu” og verður í borgarstjórnarsal ráðhúss Reykjavíkur, en viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Reykjavíkurborg í tilefni af 100 ára afmæli kosningarétts kvenna.

Ein athugasemd við “Af transfóbískum femínistum og kynbundnu ofbeldi

  1. Bakvísun: Menning sem við viljum ekki | Ungar athafnakonur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.