Opið bréf til þolenda kynferðisofbeldis

Opið bréf til allra þolenda kynferðisofbeldis, óháð kyni, aldri og þjóðfélagsstöðu

*TW*

Elsku þolandi. Fyrst og fremst langar mig að segja að þú gerðir ekkert til að verðskulda ofbeldið sem þú varðst fyrir. Alveg sama hvar þú varst niðurkomin/n, í hvernig ástandi þú varst, hverju þú klæddist eða hvað þú gerðir í aðdraganda ofbeldisins – þá liggur ábyrgðin ekki hjá þér. Aldrei. Hún liggur hjá gerandanum sem ákvað að beita þig ofbeldi, hver sem það var og hvernig sem viðkomandi tengdist þér. Viðbrögð þín breyta engu um þetta. Burtséð frá því hvort þú streittist á móti eða þóttist sofa, sagðir „nei“ eða ekki neitt, varst meðvitundarlaus eða ákvaðst að hlífa þér við frekara ofbeldi með því að ‘spila með’ – þá var brotið gegn þér framið á því augnabliki sem gerandinn hóf kynferðislegt athæfi án samþykkis þíns. Viðbrögð þín #eftirkynferðisofbeldi draga ekki á neinn hátt úr þessari staðreynd. Þú sem reyndir að láta eins og ekkert væri daginn eftir, þú sem fórst í sturtu í bullandi afneitun, þú sem borðaðir morgunmat með manninum sem nauðgaði þér, þú sem fórst ekki á Neyðarmóttökuna fyrr en eftir vinnu, þú sem varst í gleðilegum broskallasamskiptum við gerandann – viðbrögð þín draga ekki úr ábyrgð hans. Hann einn er ábyrgur fyrir ofbeldinu.
Ekki þú.
Allra síst þú.

þolendamyndinElsku þolandi. Kannski hefurðu velt fyrir þér að kæra ofbeldið sem þú varst fyrir, kannski ekki. Hvaða leið sem þú velur að fara er hún rétt – fyrir þig. Enginn veit betur en þú hvað er best fyrir þig. Kannski efast þú um getu réttarkerfisins til að ná fram réttlæti. Ég skil þann efa. Ekkert kerfi er óbrigðult og því miður eru kynferðisbrotamál í meirihluta tilvika felld niður, sönnunarbyrðin er þung, fáfræði gætir víða og lagaúrræði í sumum tilvikum hróplega vannýtt. Á síðustu árum hafa nýjar hindranir bæst við með tilkomu möguleikans að vera kærð/ur á móti fyrir rangar sakargiftir, jafnvel þótt kynferðisbrotamálinu sé ólokið. Nógu þungbært er nú samt að kæra kynferðisofbeldi. Nógu oft hafa slík mál splundrað fjölskyldum, sundrað bæjarfélögum og kostað fólk æruna, geðheilsuna eða jafnvel lífið sjálft. Það er auðvelt að fyllast vanmætti þegar mótlætið er yfirþyrmandi. Á svoleiðis stundum finnst mér gott að muna að það er í mótvindi, ekki meðbyr, sem flugdrekinn hefst á loft.

Í tilraun til að sleppa litlum flugdreka upp í himinhvolfið í gær skoraði ég á þingmenn að setja lög þess efnis að ekki verði hægt að kæra brotaþola fyrir rangar sakargiftir á meðan kynferðisbrotakæra er ennþá til meðferðar. Slíkt er nefnilega engum til hagsbóta, ekki lögreglunni, sem veitir ekki af tímanum og mannaflanum til að rannsaka umrætt kynferðisbrotamál – og allra síst þér. Skrefin eru nógu þung nú þegar. Markmiðið ætti að vera að létta þau, ekki bæta steinum í skóna þína.

Elsku þolandi. Ég veit að síðustu vikur hafa verið erfiðar og sum ykkar hafið sagt mér að trú ykkar á réttarkerfið sé í molum, en ég vil biðla til þín að missa ekki móðinn. Þegar þetta er ritað hafa hundruð einstaklinga skrifað undir áskorunina og haldið flugdrekanum hátt á lofti. Fimm þingmenn úr fjórum mismunandi flokkum hafa lýst yfir áhuga á að fara lengra með málið. Hundruð einstaklinga stóðu fyrir utan lögreglustöðina fyrr í þessum mánuði til að sýna stuðning sinn og samstöðu. Þúsundir hafa lækað, kvittað, deilt og dreift boðskapnum um að nú sé nóg komið. Allt er þetta af sömu ástæðunni: Vegna þess að þú skiptir máli. Þú ert ekki ásættanlegur fórnarkostnaður í réttarkerfinu. Og þú ert allra síst ein/n.

-Þórdís Elva

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.