Fóstureyðingar í almannarýminu

Höfundar: Steinunn Rögnvaldsdóttir og Silja Bára Ómarsdóttir

Í september 2015 birtist myllumerkið #ShoutYourAbortion í fyrsta sinn. Tilefnið var að samtökin Planned Parenthood þurftu að verjast tilraunum íhaldssamra stjórnmálamanna í Bandaríkjunum, en þeir reyndu að skerða aðgengi kvenna að fóstureyðingum með því að takmarka fjárframlög til Planned Parenthood. Síðan myllumerkið birtist fyrst hafa þúsundir tíst frásögnum af fóstureyðingum í tengslum við #ShoutYourAbortion. Eins og við var að búast hafa þau sem tísta mörg hver fengið yfir sig gusurnar af hatursfullum ummælum frá fólki sem er á móti fóstureyðingum. Önnur af tveimur stofnendum herferðarinnar, Lindy West, lýsti því sem svo að fréttaveitan hennar á Twitter væri hreinlega stífluð með líflátshótunum og myndum af blóðugum fóstrum.

Markmið þeirra sem ausa slíkum óhróðri yfir fólk sem styður rétt kvenna til fóstureyðinga, eru margþætt. Til að byrja með er það að hræða konur, fá þær til að skammast sín, koma inn hjá þeim samviskubiti og láta þær efast um sjálfar sig. Þetta er í daglegu tali kallað kúgun, þótt gerendurnir hér vilji frekar kalla það tjáningarfrelsi (það er þó hugtak sem á betra skilið). Þessi kúgun er ekki hvað síst til þess fallin að þagga niður í konum sem vilja tjá sig um reynslu sína. Þessir þöggunartilburðir koma í veg fyrir að konur segi sögur sínar af fóstureyðingum, og sérstaklega þær sögur sem lýsa létti, sátt við ákvörðun og engri eftirsjá.

walking-770x470

Mynd fengin af hun.is

Konur þegja um fóstureyðingar sínar vegna algengra viðhorfa í samfélaginu um að fóstureyðingar séu eitthvað skammarlegt eða slæmt. Þar af leiðandi heyrum við ekki sögur kvenna sem sjá ekki eftir neinu, sem eru þakklátar fyrir að hafa haft þetta val, sem eru sáttar við ákvörðunina og líður ekki illa – leið aldrei illa.

Aðgengi kvenna að fóstureyðingum er verulega takmarkað víða í Bandaríkjunum, vegna landfræðilegra fjarlægða, fjárhagslegs kostnaðar og hugmyndafræðilegrar andstöðu. Þar mæta konur gjarnan herskáum mótmælendum þar sem þjónustan er veitt. Hér á landi eru fóstureyðingar veittar konum að kostnaðarlausu, á opinberum heilbrigðisstofnunum og lítið er um mótmæli.

Veruleiki íslenskra kvenna og bandarískra er því um margt ólíkur en þó er margt sameiginlegt með stöðu þeirra. Hérlendis hefur nefnilega tíðkast að þegja um fóstureyðingar, rétt eins og í Bandaríkjunum. Í þessum mánuði kom út bókin Rof – frásagnir kvenna af fóstureyðingum, þar sem sögur 76 kvenna á Íslandi af fóstureyðingum birtast. Útgáfa bókarinnar er eitt skref af mörgum sem hafa verið stigin í þá átt að opna umræðu um þessa algengu reynslu kvenna, en lengi vel hafa fóstureyðingar verið eitthvað sem er aðeins hvíslað um á milli kvenna.

Það sem gerist þegar ekki er talað um fóstureyðingar er að mýtur blómstra. Þess vegna upplifa margar konur sem segja sögu sína í bókinni að þeim eigi að líða illa. Þær eru hræddar við að finna fyrir eftirsjá – því þeim hefur skilist að fóstureyðingar séu alltaf erfiðar og miklar líkur séu á því að konur muni sjá eftir þeim. Aftur á móti sýna rannsóknir að minnihluti kvenna finnur fyrir eftirsjá vegna fóstureyðingar og það endurspeglast í þeim sögum sem birtast í bókinni. Sumum þeirra leið samt illa yfir því að líða ekki illa, sem segir mikið til um hvað samfélagsleg viðhorf hafa sterk áhrif á okkur.

Höfundar Rofs eru Silja Bára Ómarsdóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir

Þegar fólk þegir um reynslu sína af fóstureyðingum fá aðrir að skilgreina reynslu þess. Það hefur ekki leitt til annars en að skaðlegar mýtur sem hafa neikvæð áhrif á fólk sem íhugar fóstureyðingar, eru enn á sveimi og er viðhaldið með hversdagslegum orðum og gjörðum. En það er mál að linni. Næstum þúsund konur fara í fóstureyðingu á Íslandi á hverju ári. Engar tvær konur eru í sömu aðstæðum. Aðstæður eru alls konar og reynslan líka, hún getur verið góð og hún getur verið slæm. Í bókinni Rof – frásagnir kvenna af fóstureyðingum er þessari fjölbreyttu reynslu lýst, þó alveg örugglega ekki á tæmandi hátt. Við vonum að þessar frásagnir hjálpi fólki að skilja betur aðstæður og reynslu þeirra sem ganga í gegnum fóstureyðingu og komi í veg fyrir að skaðlegar mýtur og fordómar lifi mikið lengur.

Rof – frásagnir kvenna af fóstureyðingum er gefin út af Háskólaútgáfunni.

Ein athugasemd við “Fóstureyðingar í almannarýminu

  1. Bakvísun: Frjálsar fóstureyðingar í augsýn? | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.