Orator, félag laganema við Háskóla íslands, hélt málþing hinn 18. nóvember síðastliðinn í Lögbergi, Háskóla Íslands með ofangreindri yfirskrift, og var öllum opið.
Frummælendur fundarins voru Ragnheiður Bragadóttir, prófessor við lagadeild HÍ, Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum og Björg Valgeirsdóttir, hdl. og eigandi DIKA lögmanna.
Fundarstjóri var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, funda- og menningarmálastjóri Orators.
Ragnheiður Bragadóttir hóf mál sitt með því að rekja dæmi sem í fyrstu mætti halda að væri hið nýja ,,Hlíðamál“ um viðbrögð almennings vegna nauðgunarmáls þar sem meintur gerandi var ekki settur í gæsluvarðhald. En nei, þessi frásögn lýsti viðbrögðum almennings við atburðum sem áttu sér stað árið 1984. Sömu viðbrögð, en hvað hefði breyst í millitíðinni?
Síðan lýsti Ragnheiður stöðu kynferðisbrotamála eins og hún var 1984: Lögin höfðu verið óbreytt frá 1940, í 44 ár. Dómar voru afar fáir og umræðan um þessi brot var nánast engin í samfélaginu. En nefnd sérfræðinga var sett saman og vann að rannsókn þessa málaflokks. Árangur þeirrar vinnu kom fram 1992 en þá voru sett ný ákvæði um kynferðisbrot. Kynferðisbrotakaflinn var endurskoðaður á ný með lögum frá 2007. Byggðist sú endurskoðun á:
- Fræðilegum rannsóknum á löggjöf og réttarframkvæmd.
- Rannsóknum á löggjöf um kynferðisbrot í öðrum löndum.
- Upplýsingum um umfang og eðli brotanna í íslensku samfélagi.
- Reynslu þeirra sem starfa með þolendum.
Sérstaklega lagði Ragnheiður áherslu á hið síðastnefnda og jafnframt að engin ákvæði hegningarlaga hefðu verið endurskoðuð eins oft og ítarlega og ákvæðin um kynferðisbrot.
Með lögunum frá 2007 var hugtakið nauðgun rýmkað og náði þá yfir ofbeldi, allar hótanir og ólögmæta nauðung sem og misnotkun þroskahamlaðra, sofandi og ölvaðra. Refsiramminn varð 1-16 ár í öllum tilvikum en hann hafði áður verið mestur 6 ár fyrir síðasttöldu brotin. Stórfellt ofbeldi og sérstaklega sársaukafullt eða meiðandi brot yrði til þess að þyngja refsingu, og einnig ef þolandi væri yngri en 18 ára, sem og ítrekuð brot. Þá var einnig nýlunda að kynmök við barn yngra en 15 ára eru lögð að jöfnu við nauðgun, refsing við því er 1-16 ára fangelsi.
Ragnheiður dró fram niðurstöður rannsóknar um fjölda Hæstaréttardóma og refsingarnar á árunum 1976 til 2014 sem hún vann sjálf en eru óbirtar. Tilhneigingin á þeim áratugum er sú að dómum hefur fjölgað og þeir þyngst. Fyrsti dómurinn féll árið 1979, sem könnunin tekur yfir, en hin síðari ár eru þeir orðnir 5 á ári að meðaltali. Frá árinu 1993 til 2007 verða refsingarnar vægari til ársins 2003. Þar eftir þyngjast þær aftur til ársins 2007. Frá 2008 til 2014 hefur árafjöldi refsivistar verið að meðaltali 4 ára fangelsi, sem þýðir að refsingin hefur þyngst. (Sjá mynd).
Þrátt fyrir það eru sömu viðbrögð við ákvörðunum í kynferðisbrotamálum og var árið 1984. Ekki nægir að spyrja aðeins hvort lögin séu í lagi, heldur verður einnig að spyrja hvort framkvæmd þeirra sé í lagi. Ekki er víst að breytingar á nauðgunarákvæðinu myndu bæta meðferð mála á nokkurn hátt, enda er það ekki heppilegt að löggjöfin sé stöðugt sett út fyrir breytingar. Ragnheiður bætti við að hún væri ekki hlutlaus, sjálf hefði hún samið lögin sem stuðst er við, en aðeins með fræðilegum rökum héldi hún þessu fram. Hún væri tilbúin til að leggja til breytingar ef gloppur koma í ljós. Í lok framsögu sinnar lagði Ragnheiður áherslu á að skipun Hæstaréttar, æðsta dómstóls landsins, verði að endurspegla samfélagið og fleiri konur yrðu að fá þar sæti.
Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri í Vestmannaeyjum var önnur á mælendaskrá. Hún kvað það alltaf nauðsynlegt að endurskoða lög, eins og gera þurfi með tilkomu netvæðingar; nýjustu dæmin um það eru eflaust ákvæði um vörslur barnakláms og hugmyndir um ákvæði um hefndar- eða hrelliklám. Breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga hefðu tekist vel og stæðust tímans tönn. Ákvæði um kynferðisbrot væru skýr og þegar grundvöllur margra dóma. Sjaldnast væri vafi um heimfærslu brota, vandamálin lytu að því að sanna brot. Páley taldi eðlilegt að samið yrði nýtt ákvæði um hefndarklám, sem sett yrði inn í kynferðisbrotakaflann. Í dag væru slík brot heimfærð undir blygðunarsemi og dreifingu á klámi og einnig 233. gr. b. alm. hgl. sem stórfelldar ærumeiðingar. Í því broti er skilyrði að um nákomna sé að ræða og benti Páley á dóm Héraðsdóms Austurlands, þar sem aðilar hefðu ekki verið taldir nákomnir þrátt fyrir 1 árs samband og tekið fram í dómi að ákvæðið hefði ekki hlotið umfjöllun Hæstaréttar. Páley sagði þörf á nýju lagaákvæði um hefndarklám og teldi þá eðllegt að taka afstöðu til þess hvort tengsl skiptu máli, en að hennar mati ættu slík tengsl að varða refsiþyngingu.
Þá nefndi hún lög um meðferð sakamála, sem lúta að umgjörð sakamála og hvernig þau eru unnin og taldi að þar mætti gera bragarbót. Hún kvað eðlilegt að sjónum yrði beint að veikasta hópnum, sem að hennar mati væru fatlaðir þolendur. Hún kvað engin sérstök ákvæði vera í lögunum sem tryggja fötluðum brotaþolum sérstaka aðstöðu og aðbúnað þegar skýrslutökur færu fram fyrir dómi á rannsóknarstigi. Þar skorti ákvæði um stuðning í skýrslutöku, að þroskaþjálfi eða réttindagæslumaður fatlaðra gæti komið að skýrslutöku í sérútbúnu rými og jafnvel með sérþjálfuðum fyrirspyrjanda.
Bæta þyrfti aðstöðu þolenda með því að skýra hlutverk réttargæslumanna og tryggja þeim aðgang að gögnum. Margir dómarar álíta að helsta verkefni réttargæslumanna sé að setja fram einkaréttarkröfur í lokin og væri aðkoma þeirra takmörkuð við það, en það væri ekki svo samkvæmt lögum heldur væri hlutverk þeirra að gæta hagsmuna þolanda.
Svo mörg voru orð hennar um hnökra á lögunum sem mætti laga. Því næst vék Páley að bættu verklagi:
Mikilvægt væri að komið sé fram við þolendur af virðingu, þeim sýnd nærgætni, gætt sé að aðbúnaði og aðstæðum á lögreglustöð og upplýsingum til fjölmiðla. Rannsóknarhagsmunir lögreglu og brotaþola væru samspyrtir. Brotaþoli sem getur ekki tjáð sig vegna áfalls getur ekki gefið skýra lýsingu á atburðum, því væri mikilvægt fyrir rannsóknarhagsmuni að þolandinn væri í eins góðu jafnvægi og mögulegt væri. Virða bæri þagnarskyldu, en brotaþola væri ávallt í sjálfsvald sett hvort hann tjáir sig við fjölmiðla og hvenær.
Gæsluvarðhald væri tvenns konar og gera þyrfti skýran greinarmun á gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna, sbr. 1. mgr. 95. gr. sml. og gæsluvarðhalds vegna almannahagsmuna sbr. 2. mgr. 95. gr. sml. Það væri stjórnarskrárvarinn réttur borgara að vera ekki sviptur frelsi nema með heimild í lögum. Handtökum væru sett mörk og skilyrði er að menn sem settir eru í varðhald séu leiddir fyrir dómara innan sólarhrings. Lögregla hefur heimild til að halda manni í 24 klst eftir að hann hefur verið handtekinn. Það sé yfirleitt gert í kynferðisbrotamálum, ef sá tími dugar ekki til að ljúka mikilvægum rannsóknaraðgerðum er krafist gæsluvarðhalds á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Annað er svo að krefjast gæsluvarðhalds í framhaldi af því vegna almannahagsmuna. Gæsluvarðhald væri þungbærasta þvingunarráðstöfunin þar sem verið væri að setja fólk í fangelsi án efnisdóms í máli og skilyrði fyrir beitingu þess væri sterkur grunur og að það sé talið nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna . Skilyrðin eru ströng og að hennar mati yrðu þau að vera það.
Þá nefndi Páley þrjú nauðgunarmál þar sem gæsluvarðhaldi hafði verið beitt og áttu þau það öll sammerkt að grófar árásir höfðu átt sér stað á almannafæri, þolendur tengdust ekki brotaþola, heldur voru fórnarlömb valin af handahófi, vitni voru að árásunum og áverkar eftir þær. Sem sagt, sterkur grunur.
Að lokum velti Páley fyrir sér hvað helst væri til ráða. Hún nefndi nýlega skýrslu tveggja kvenna, Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur og Hildar Fjólu Antonsdóttur um viðhorf fagaðila til meðferðar nauðgunarmála. http://www.innanrikisraduneyti.is/media/frettir-2013/Samantekt–a-nidurstodum-rannsoknar-um-einkenni-og-medferd-naudgunarmala.pdf Samkvæmt henni væri marktækur munur á því hvort ákært væri í máli eftir því hvenær málin bárust lögreglu. Kært var í helmingi mála sem bárust lögreglu samdægurs, en í aðeins 24,50% mála ef tilkynning kom síðar. Tilkynning samdægurs auðveldar öflun sönnunargagna af vettvangi, frá læknisskoðun og framburði. Málin væru þess eðlis að þau gerast yfirleitt á milli tveggja aðila og sjaldnast eru vitni að þeim og því er sönnunin oft erfið, vandræðin lúta að sönnunarbyrðinni sem alþjóð veit, en því fyrr sem tilkynnt er, því fyrr gæti rannsókn hafist.
Nauðsynlegt væri að sækja lækni eða lögreglu sem fyrst, því að kynferðisbrot væru ofbeldisbrot og sýndi sig að þolendum reiðir betur af sem tilkynna mál sitt til lögreglu og fá viðeigandi aðstoð sem fyrst. Því skyldi fólk hvatt til að tilkynna þessi brot án nokkurs dráttar.
Þriðji og síðasti frummælandi var Björg Valgeirsdóttir, hdl. og eigandi DIKA lögmanna. Hún hóf mál sitt og velti fyrir sér þeirri stöðu sem komin væri upp í ,,Hlíðamálinu“. Allir ættu rétt á bestu vörn sem möguleg er hverju sinni með aðkomu lögmanna sem réttargæslumenn og verjendur. En væri of langt gengið með fram komnum kærum um rangar sakargiftir á hendur kæranda í upphafi rannsóknar sakamáls? Björg spurði hvort vinnubrögð lögmannsins í því máli væru hugsanlega skyld rótgrónum vanda innan réttarkerfisins:
Löng hefð væri fyrir smánun í garð brotaþola nauðgunar: Fyrr á tímum hefði nauðgun ekki verið brot gegn konunni sjálfri, heldur gegn föður hennar eða eiginmanni. Kallað hefði verið á vegsummerki eftir ofbeldi og ef þau lægju ekki fyrir hefði verið hægt að dæma konu fyrir skírlífsbrot sem varðaði dauðarefsingu hérlendis á árunum 1590-1749. Samkvæmt almennum hegningarlögum frá 1869 takmarkaðist refsiverndin einungis við konur sem höfðu ekkert ,,óorð“ á sér. Ef því skilyrði væri ekki fullnægt hlytu konurnar hegningu, en vægari en fyrr.
Björg velti þeirri spurningu upp hvort við værum enn föst í úreltum sjónarmiðum sem ekkert ættu skylt við nútímann. Vísaði hún þar til orðalags 194 gr. alm. hgl. þar sem verknaðaraðferðin skipti mestu máli, enn sem fyrr. Þá væri andlegum áverkum gefinn lítill gaumur í rannsókn og meðferð nauðgunarmála.
Björg benti á að fá mál færu „alla leið“ í réttarkerfinu. Nefndi hún að í kringum 10% brotaþola sem leiti árlega á neyðarmóttökuna kæri kynferðisbrot til lögreglu og að árið 2014 hefðu 13,2% þeirra sem leituðu til Stígamóta kært brot til lögreglu. Vitnaði hún í kjölfarið til skýrslu Hildar Fjólu Antonsdóttur og Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur varðandi kærð kynferðisbrot á árunum 2008-2009. Samkvæmt skýrslunni hætti lögregla rannsókn í 26% mála og vísaði 74% áfram til ríkissaksóknara. Þar af felldi ríkissaksóknari niður 65% mála og ákærði í 35% þeirra. Fyrir dómi var sýknað í 26% mála en sakfellt var í 74% mála.
Björg spurði sig að því hvað valdi því að svo fá mál séu kærð og bendir í því samhengi á að meðferð nauðgunarmála hefur reglulega sætt harðri gagnrýni. Nefndi hún sem dæmi fyrir það að refsiramminn sé ekki nýttur, að sönnunarbyrði sé of þung og að enn eimi hugsanlega eftir af því viðhorfi að konur kalli yfir sig nauðganir með klæðaburði, hegðun eða öðru. Spurði Björg hvort sú gagnrýni eigi rétt á sér. Rakti hún síðan dæmi um að svo virðist vera. Í skýrslu starfshóps ríkissaksóknara um meðferð nauðgunarmála hjá ákæruvaldi, maí 2007, voru aðferðir lögreglu í skýrslutöku á rannsóknarstigi gagnrýndar. Til dæmis var vinkona brotaþola spurð í einu máli hvort brotaþoli ætti það til að vera lauslát undir áhrifum áfengis.
Í ofangreindri skýrslu Hildar Fjólu og Þorbjargar Sigríðar um meðferð nauðgunarmála kemur í ljós að marktækur munur hefði verið á afgreiðslu mála þar sem brotaþolar hefðu verið undir áhrifum áfengis eða annarra vímugjafa þegar brotið var framið, en þau mál hefðu oftar verið felld niður. Í sömu skýrslu kom fram að munur hefði jafnframt verið á afgreiðslu mála eftir því hvort brotaþolar lýstu því að hafa streist á móti sakborningi eða veitt líkamlega mótspyrnu, en þeim málum var marktækt oftar vísað til ríkissaksóknara en þeim málum þar sem brotaþoli lýsti engri líkamlegri mótspyrnu. Samkæmt þessu virðist viðbrögðum við áfallastjarfa ekki vera gefinn gaumur við rannsókn lögreglu. Aukin þekking hefur hins vegar leitt í ljós að andlegir áverkar séu alvarlegustu afleiðingar nauðgana.
Þá nefnir Björg atriði sem eru hvatir að baki verknaði. Í Hell’s Angels málinu svonefnda hefði sakborningur verið sýknaður af nauðgun er hann hafði stungið fingrum upp í endaþarm og leggöng brotaþola og klemmt þar á milli. Rökstuðningurinn dómara hefði verið að þessi háttsemi þeirra hafði þann tilgang að meiða brotaþola og þegar litið er til atvika málsins telst hún ekki til samræðis eða annarra kynferðismaka. En samkvæmt lögum eiga hvatir ekki að hafa áhrif við mat á refsinæmi verknaðar, heldur eiga þær að koma fyrst og fremst til skoðunar við ákvörðun refsingar.
Þá spurði Björg hvort um tilraunir til þöggunar kæmu frá réttarkerfinu. Nefndi hún sem dæmi er lögreglan í Vestmannaeyjum gaf út að ekki yrðu veittar upplýsingar um kynferðisbrot á þjóðhátíðinni árið 2015. Þá mætti einnig velta því upp hvort kærur á hendur brotaþolum fyrir rangar sakargiftir á upphafsstigum rannsóknar máls væru aðferð til þöggunar.
Að síðustu benti Björg á það að sönnunarbyrði væri afar þung og að oft væru atriði túlkuð ákærða í hag. Nefndi hún dóm í máli sem dæmi þar sem meirihluti Hæstaréttar sýknaði, með vísan til þess að sekt væri ósönnuð, en minnihluti Hæstaréttar vildi sakfella og taldi það „hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi gerst sekir um það brot sem þeir eru ákærðir fyrir“.
Ekki taldi Björg knýjandi þörf á að breyta nauðgunarákvæði almennra hegningalaga. Nauðsynlegt væri þó að leitast við að draga úr vandanum sem fólginn er í því hversu fá mál eru kærð og hversu fá hljóti á endanum dómsmeðferð, án þess að slaka á sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum. Björg sagðist vera á þeirri skoðun að leitast þyrfti við því að vinna bug á fordómum þeirra sem kæmu að rannsókn og meðferð kynferðisbrotamála, enda væri augljós munur á nálgun þeirra aðila á ólíka brotaflokka. Það mætti hugsanlega gera með því að leitast við að gera alla þá aðila upplýstari um ástæður og afleiðingar kynferðisbrota, þ.e. með aukinni fræðslu lögreglu, ákærenda og dómara.
Björg varpaði einnig þeirri spurningu fram hvort möguleiki væri á því að styrkja með einhverjum hætti verkferla rannsakenda.
Björg gagnrýndi að ekki væri horft nægilega á það sem styrkt geti framburð þolenda kynferðisofbeldis og taldi að horfa þyrfti til bóta í þeim efnum í réttarkerfinu. Óeðlilega mikil áhersla væri lögð á þau atriði í dómum hæstaréttar sem dragi úr sönnunargildi framburðar brotaþola.
Með þessum orðum lauk Björg máli sínu og fundarstjóri opnaði fyrir spurningar úr sal.
- spurningu var beint að Ragnheiði og Páleyju og þær beðnar um að gefa álit sitt á kærum á hendur brotaþola fyrir rangar sakagiftir.
Páley svaraði því til að ekki væri algengt að kæra fyrir slíkt fyrr en máli væri lokið og fullsannað. Hægt væri að kæra allt hjá lögreglu. En engin gögn lægju fyrir til að meta rangar sakargiftir fyrr en að máli loknu.
Ragnheiður svaraði að ljóst væri að ekki væri hægt að sinna svona kæru fyrr en málið lægi klárt fyrir.
- spurningu var beint fyrst til Bjargar, hvort hugsanlega hefði ölvun og vímuefnanotkun áhrif vegna skorts á greinargóðum lýsingum af atburðum.
Björg svaraði því að slíkt kæmi ekki fram í skýrslunni sem nefnd var, heldur væri það gagnrýnt að ástand brotaþola skuli hafa haft áhrif á meðferð málsins. Oft væri slæmt andlegt ástand brotaþola af völdum kynferðisofbeldis, rétt eins og ölvunar. Páley bætti við þetta með því að segja að ekki væri rétt að stilla andlegum áverkum á móti líkamlegum. Alltaf lægi fyrir sálfræðivottorð um andlega áverka, sem væri mikilvægt sönnunargagn í öllum málum. Ef líkamlegir áverkar væru, sýndu þeir aukið ofbeldi ofan á kynferðisbrotið, þeir væru hluti af sönnunargögnum eins og annað, auðveldara væri að sanna ofbeldið en en það væri alls ekki forsenda kæru að hafa líkamlega áverka. Svo sagði hún að ölvunarástand væri alltaf rannsakað hjá bæði geranda og þolanda og væri það gert til að fá rétta mynd af atburðum, lögregla er að reyna að upplýsa hvað gerðist og ölvunarástand er hluti af því að komast að því. Mikil ölvun hefði vissulega áhrif á framburð enda er betra ef þolandinn getur gefið góðar upplýsingar.Hún nefndi að henni fannst athylgisvert að í skýrslunni hefði komið fram að viss fylgni væri milli aldursmunar brotaþola og sakbornings og því hve ölvaður eða vímaður brotaþoli hafi verið, þ.e. eftir því sem aldursbil á milli geranda og þolanda væri meira og þá gerandinn eldri þá virtist þolandinn vera undir meiri áhrifum.
- spurningu var beint til allra frummælenda: Hvor tilhugsunin væri þeim meira ógnvekjandi að dæma saklausan mann sekan eða láta sekan mann ganga lausan?
Björg svaraði fyrst og svaraði að sér þætti öllu verra að saklaus maður yrði dæmdur. Samt er nauðsynlegt að taka á því hvernig sönnunarmat fari fram, þótt ekki skyldi slakað á sönnunarkröfum. Að dæmt yrði eftir því sem hafið væri yfir skynsamlegan vafa. Dómarar væru mannlegir og að mannlegt mat þyrfti að fara fram. Páley vísaði til þess orðtaks að betra væri að 10 sekir sleppi en 1 saklaus verði dæmdur og leyfði sér að halda því fram að engir saklausir menn sætu í fangelsi á Íslandi, nógu erfitt væri að sanna mál fyrir íslenskum dómstóllum. Sagði það skelfilega tilhugsun að saklaus maður væri dæmdur. Ragnheiður tók undir það og sagði að slíkt væri kallað réttarmorð. En við erum á réttri leið og nú orðið skiptu óbeinu sönnunargögnin máli. Miklu skipti að hafa betri kynjahlutföll í Hæstarétti. Í héraðsdómi væru betri kynjahlutföll, þar sætu fleiri konur. Það kæmi fyrir að sakfellt væri í héraði en sýknað í Hæstarétti, hjá karlkyns dómurum, og sú dómara sem skilaði minnihlutaáliti um sakfellingu væri Ingibjörg Benediktsdóttir.
- spurningu úr sal var aftur beint að öllum frummælendunum þremur: Því hefði verið haldið fram að lagaumhverfið væri í lagi, en viðhorfið og umgjörðin ekki. Spyrjandi sagðist finna fyrir ótta hjá fólki vegna aðgerða tiltekins lögmanns og þolendur þyrftu að geta treysta kerfinu. Í raun væri óttinn áfellisdómur yfir kerfinu. Hverju vildu þær helst vilja breyta?
Ragnheiður sagði að meiri fræðsla væri nauðsynleg. Ekki aðeins um lagaumhverfið, heldur einnig um áhrif og afleiðingar brotanna, þannig að lögregla þekkti betur einkennin.
Páley sagði að fræðsla skilaði mjög miklu, það höfum við séð og nýjasta dæmið um það er fræðslan sem orðið hefur í heimilisofbeldismálum þar er fólk farið að átta sig á langtímaáhrifum brotanna og að þau hefðu alvarleg áhrif á börn sem búa við slíkt ofbeldi. Mikið hefði þó áunnist í meðferð kynferðisbrota, þó enn þyrfti fleiri konur í Hæstarétt, og að skammarlegt væri hvernig staðið hefði verið að því. Hún gæti ekki tekið undir allt í gagnrýni Bjargar á spurningar lögreglu í skýrslutökum, því að allar spurningar lögreglu væru til að varpa ljósi á málið þó það sé ekki augljóst þegar það er slitið úr samhengi. Varðandi kæru á hendur brotaþola fyrir rangar sakagiftir vildi hún benda á að það er líka erfitt að sanna rangar sakargiftir. Því skyldu brotaþolar ekki láta slíkt hræða sig. Björg taldi að fræðsla eyddi fordómum. Aldagömul karllæg sjónarmið hefðu enn áhrif á gang mála. Því væri jafnara kynjahlutfall í Hæstarétti afar mikilvægt.
- Spurt var hvort ekki væri ofuráhersla lögð á rangar sakargiftir með hliðsjón af því að þær væru jafn algengar eða öllu heldur fátíðar í öðrum brotaflokkum. Hvað stjórnar umræðunni í samfélaginu?
Páley benti á að fjölmiðlar stjórnuðu umræðunni. Sjálf teldi hún rangt að beita kæru gegn kæru. Björg benti á að hún hefði skrifað blaðagrein varðandi þessa kæru fyrir rangar sakagiftir: „Varasöm þróun“. Sjálf teldi hún hugsanlegt að framganga lögmannsins fæli í sér brot gegn siðareglum lögmanna.
- spurning fjallaði um, hvort það væri uppbyggjandi fyrir brotaþola að nauðganir væru strax tilkynntar eftir nauðgun.
Páley varð fyrri til svara og sagði að sér hefði einungis gengið það til að vernda brotaþola með því að tilkynna ekki nauðganir á Þjóðhátíð til fjölmiðla. Umfjöllun fjölmiðla gæti oft verið erfið brotaþolum. Aðstandendur þeirra hefðu þakkað henni eftir á fyrir að breyta þessu verklagi. Björg sagðist sammála Páleyju um að aðgætni væri þörf. En að því sögðu, þá þyrfti að segja jafnt frá brotum í öllum brotaflokkum, ef á annað borð ætti að gera grein fyrir tilkynningum um meint brot eða framlögðum kærum. Ragnheiður benti á að hlutlausar tilkynningar gætu verið nægilegar fyrir fjölmiðla. Það væri hins vegar réttur almennings að fá fréttirnar. Páley nefndi að samkvæmt sinni reynslu þá værum við það lítið samfélag að það væri strax búið að finna út úr því hver væri hvað í svona málum og vísaði til nýlegrar umfjöllunar þar sem myndir voru komnar á netið af gerendum á skömmum tíma.
- spurning: Björg hafði sagt að dómarar væru mannlegir. Erlendis frá væri kunnugt um dómara sem frægur er fyrir að dæma þungt í áfengismálum vegna persónulegrar lífsreynslu. Ætti ekki að velja dómarar í mál með hliðsjón af persónulegri reynslu þeirra?
Björg taldi að menntaður dómari með reynslu ætti að geta lagt persónulega reynslu sína til hliðar. Annars væri hann vanhæfur. En alltaf væri varinn góður og þess vegna væri mikilvægt að dómstólar endurspegluðu betur samfélagið, meðal annars með kynjasamsetningu sinni.
- spurning varðaði þagnarskyldu. Nú væri lögregla bundin þagnarskyldu, væru lögmenn ekki einnig bundnir þagnarskyldu?
Páley svaraði að ef skjólstæðingur vildi að málið færi í fjölmiðla þá mætti það. Björg sagði að lögmenn væri bundnir ríkri þagnarskyldu gagnvart sínum skjólstæðingum. Þeim væri vissulega heimilt að svara fyrir mál sinna umbjóðenda í fjölmiðlum með fengnu samþykki. Það væri hins vegar óheppilegt að ætla að reka mál í fjölmiðlum fyrir dómstóli götunnar, líkt og virðist vera tilfellið í ,,Hlíðamálinu“ svokallaða. Ragnheiður tók undir það.
- Páley var spurð að því hvort hún væri sammála því að breyta þyrfti verkferlum hjá lögreglu.
Páley svaraði að alltaf hægt að gera betur, hvað varðar aðbúnað og umhverfi fyrir þolendur.
- Að síðustu var Ragnheiður spurð að því hvort ekki þyrfti samt að breyta lagaumhverfi, þar sem „Hells angels-dómurinn“, hefði verið rökstuddur með hvata að baki verknaði, þótt það standi í lögum frá 1992 að hvati að baki verknaði skuli ekki skipta máli.
Ragnheiður sagði að sá dómur hefði byggst á grundvallarmisskilningi Hæstaréttar og væri rangur. Hún hefði skrifað grein til að útskýra að hvatir að baki verknaði skipti engu máli en ásetningur geri það hins vegar: Hvað er nauðgun?
Og með því var málþinginu slitið.
Bakvísun: Viljinn til verka | Knúz - femínískt vefrit