Kynjajafnrétti á opinberum vettvangi

jafnréttisþingMiðvikudaginn 25. nóvember er boðað til jafnréttisþings á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu og hefst dagskráin kl. 9.00. Þetta er í fjórða sinn sem jafnréttisþing er haldið í samræmi við núgildandi jafnréttislög.

Að þessu sinni snýst umræðan um kynjajafnrétti á opinberum vettvangi og verður sjónum beint að hvers kyns fjölmiðum, kvikmyndagerð og svo hatursorðræðu sem einkum fer fram á netinu. Þetta er kjörið tækifæri til að fræðast og taka þátt í umræðum. Tvær sænskar konur verða aðalfyrirlesarar, þær Maria Edström sem er lektor í fjölmiðlafræði við Háskólann í Gautaborg og Anna Serner sem er yfir sænsku kvikmyndamiðstöðinni. Maria hefur rannsakað kyn og fjölmiðla um árabil en það einkennir fjölmiðla á Norðurlöndunum sem annars staðar í heiminum hve karlmiðaðir þeir eru og hve fáar konur eru viðmælendur. Anna Serner hefur unnið markvisst að því að jafna stöðu kynjanna í sænskri kvikmyndagerð og verður fróðlegt að heyra hvernig það hefur gengið.

Fjölmiðlar standa sig illa

Í aðgerðaáætluninni sem samþykkt var á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking árið 1995 er kafli um konur og fjölmiðla. Þegar hann var samþykktur sá fólk fyrir sér miklar tæknibreytingar en engan óraði fyrir því sem koma skyldi. Samkvæmt Pekingáætluninni eru stjórnvöld skuldbundin til að auka rannsóknir á fjölmiðlum og beita öllum tiltækum ráðum til að auka hlut kvenna í þeim, vinna gegn neikvæðum birtingar- og staðalmyndum og sjá til þess að konur hafi aðgang að fjölmiðlum sem mikilvægum tækjum í lýðræðissamfélagi. Stjórnvöldum ber þó að  virða réttinn til tjáningarfrelsis. Þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni því mjög margir fjölmiðlar bregðast hinir verstu við gagnrýni og saka stjórnvöld og samtök um ritskoðun þegar þeir eru gagnrýndir fyrir kynja- og lýðræðishalla, sem og afar kynjað fréttamat. Fjölmiðlar eru því erfiðir við að eiga en reyndar er tæknin að gera fólki sífellt auðveldara að reka sína eigin fjölmiðla, sbr. knuz.is og fleiri miðla sem túlka sjónarmið femínista. Engu að síður verður að gera kröfur til fjölmiðla, ekki síst ríkisfjölmiðla, um að vinna markvisst að jafnrétti kynjanna og minnihlutahópa. Rannsóknir og mælingar sýna að hlutur kvenna í þeim fjölmiðlum sem mældir hafa verið hér á landi er um 30% og hefur ekkert breyst síðast liðin 15 ár.

Hvar eru sögur kvenna?

Undanfarin ár hafa konur í kvikmyndaiðnaðinum hér á landi látið í sér heyra og bent á hve hlutur kvenna er rýr í íslenskri kvikmyndagerð. Ungu mennirnir okkar fara sigurför um heiminn með frásagnir af reynsluheimi karla en okkur skortir sárlega sögur um konur og þeirra líf. Hvað stendur í veginum? Er það karllægt mat á kvikmyndahandritunum? Þarf að bjóða konum upp á námskeið í gerð kvikmyndahandrita eða hvað veldur? Ekki vantar sögurnar, svo mikið er víst. Eru kvótar rétta aðferðin til að rétta hallann af? Það verður spennandi að ræða þessi mál því fátt speglar sögu okkar og mannlíf betur en kvikmyndirnar en þær mega ekki vera of einsleitar. Kvikmyndir geta verið afl til vakningar og breytinga ef vel er haldið á spilum, sbr. nýlegar heimildamyndir sem varpa ljósi á sögu kvenna á stríðsárunum og segja frá kvennaframboðunum á tímabilinu 1981-1999.

Nýr veruleiki sem bregðast þarf við

Á stórfundinum Nordisk forum sem haldinn var í Malmö í Svíþjóð sumarið 2014, snérust umræður meira og minna um áhyggjur af vaxandi hatursorðræðu og uppgangi öfgaafla. Konur í fjölmiðlum, listum og stjórnmálum stóðu upp hver af annarri og lýstu reynslu sinni og ótta við hatursorðræðu á netinu og vaxandi fylgi öfgaflokka. Atburðir undanfarinna daga hafa ekki dregið úr þeim áhyggjum. Dæmi eru þess að menn hafi ekki látið netið nægja heldur hefur verið ráðist á fólk og það limlest eða jafnvel drepið. Norsk fréttakona sagði frá því að einn morguninn þegar hún kom til vinnu beið hennar pakki. Í pakkanum var öxi og skilaboðin voru þau að hún gæti varið sig með henni þegar sendandinn (sem hafði áður sent henni hótanir) kæmi til að drepa hana. Þetta var kært en ekki tókst að hafa upp á gerandanum.

Það er því full ástæða til að ræða hvernig hægt er að bregðast við hatursorðræðu og hatursglæpum. Það sem hinir hatursfullu netverjar og öfgaöflin úr öllum áttum eiga sameiginlegt er auk fyrirlitningar á lýðræði, árásir á femínista, minnihlutahópa og reyndar konur almennt (sbr. ISIS). Á ráðstefnu sem haldin var í október síðast liðnum í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna sagði Mary Anne Franks frá tilraunum til að koma lögum yfir hatursorðræðu í Bandaríkjunum en því miður hefur skort aðferðir og lagaheimildir til að taka almennilega á málum. Úrbóta er þörf og það þarf að vekja almenning og stjórnmálamenn til vitundar um það hversu alvarleg og eyðandi hatursorðræðan er fyrir þá sem fyrir verða og að henni geta fylgt stórhættulegar aðgerðir, t.d. hatursklám ef ekki beinar árásir og ógnanir. Þetta er nýr veruleiki sem þarf að bregðast við.

Jafnréttisþingið er öllum opið og ég hvet ykkur sem eigið heimangengt að mæta og taka þátt í umræðum.

Kristín Ástgeirsdóttir.

Ein athugasemd við “Kynjajafnrétti á opinberum vettvangi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.