Höfundur: Þorgerður Þorvaldsdóttir
*TW*
Á umliðnu ári hafa ungar, hugrakkar og djarfar stúlkur risið upp gegn feðraveldinu, ríkjandi nauðgunarmenningu, #karlarsemhatakonur samfélaginu og verið með mótspyrnu og usla, öskrað og spyrnt á móti – ég er að tala um #freethenipple í mars, #þöggun #konurtala þar sem hundruðir kvenna og stúlkna rufu þagnarmúrinn og sögðu frá kynferðislegu ofbeldi og misnotkun sem þær höfðu verið beittar, og núna í þessari viku Hagaskólastelpurnar sem hristu upp í samfélaginu með róttækum femínískum ljóða- og dansgjörningi.
En feðraveldið, nauðgunarmenningin, karlarsemhatakonursamfélagið kýlir til baka og kýlir fast.
Sýknudómur gærdagsins, þar sem fimm strákar sem hópnauðguðu 16 ára stúlku, voru sýknaðir þrátt fyrir að einn þeirra hafi tekið gjörninginn upp og dreift, er til marks um það. En hann er svo fjarri því að vera undantekningin.
Bara núna í nóvember hafa fjögur nauðgunarmál komist í hámæli, þar sem löggæslu og réttarkerfið, og ég leyfi mér að segja samfélagið allt, hreinlega gaf konunum sem brotið var á fingurinn.
Fyrst þessara mála var Nýjabæjarmálið. Tvær fatlaðar konur sem dvöldu í sumardvöl fyrir fatlað fólk voru ítrekað beittar kynferðislegu ofbeldi af starfsmanni. Orðrómur komst á kreik, en kerfið gerði ekkert. Konurnar sögðu frá en kerfið gerði ekkert. Konurnar kærðu glæpinn, en málinu var vísað frá. Framburður kvennanna þótti ekki trúverðugur, það var eitthvað misræmi í frásögninni, þær voru jú fatlaðar og því ekki færar um að tjá sig með þeim skýra hætti sem réttarkerfið krefst. – Málið var fellt niður og gerandinn látinn njóta vafans.
Í Hlíðarmálinu svokallaða var tveimur konum nauðgað með skömmu millibili í íbúð í Hlíðunum sem sagt var að væri sérútbúin til slíkra ofbeldisverka. Tveir menn/vinir voru gerendur, annar tók þátt í báðum nauðgununum, hinn bara í annarri. Konurnar söguð frá, málið komst í fjölmiðla, en kerfið gerði ekkert. Gæsluvarðhaldsúrskurði var ekki beitt. Mennirnir fóru úr landi. Almenningur mótmælti, lögmaður gerendanna stökk til varnar, og birti nákvæma frásögn „meintra“ gerenda af atburðunum. Þetta var bara „eðlilegt“ kynlíf – inspirerað af vinsælli bíómynd. En „stjörnulögmaðurinn“ gekk lengra, hann hótaði að lögsækja konurnar sem brotið var á fyrir rógburð, og hann raunverulega kærði aðra þeirra, fyrir að halda ekki bara kjafti , hlýða og vera góð.
Svo var það málið sem rataði í fjölmiða undir yfirskriftinni „nauðgun af gáleysi“ þar sem fullorðin maður hafði samfarir við 17 ára sofandi stúlku, án þess að „fatta“ að hann væri að nauðga henni.
Og nú síðast var það svo hópnauðgunin í Breiðholti. Fimm strákar, ein stelpa – ein myrkvuð íbúð. Miða við málsgögn hafði hún eitthvað verið að kyssa og kela einn þeirra. Hann býður vinum sínum að „ríða með“, fram kemur (og það er hvergi dregið í efa) að allir fimm tróðu tippum sínum uppí kok stúlkunar, fjórir þeirra riðu henni, einhver beit hana í geirvörtuna, auk annara ofbeldisverka. Ein stúlka – fimm drengir, en „Algjörlega venjulegt kynlíf“.
Það er þekktur vandi í nauðgunarmálum að það er alltaf orð á móti orði. Eitt orð gegn öðru orði. – Ekki í Breiðholtsmálinu, þar voru fimm „orð“ eða framburðir drengjana gegn einu „orði“ eða framburði stúlkunnar. Og svo var hún missaga og ósamkvæm sjálfri sér og upptaka af atburðinum, sem reyndar var strax eytt, en eitthvað stóð eftir og það sýndi svo sem ekki neitt, ekkert alvöru fórnarlamb, enga alvöru nauðgun. Bara „algjörlega venjulegt kynlíf“. Mórall sögunnar, strákar ef þið ætlið að nauðga, fáið þá vini ykkar með.
Vandamálið í öllum þessum tilfellum er að konurnar sem brotið var á voru ekki nógu „góð“ og „trúverðug“ fórnarlömb. Fórnarlömb nauðgunar eiga að öskra og grenja af öllum lífs og sálar kröftum. Þær eiga að berjast um á hæl og hnakka (alveg óháð því hvort einhver heyri til eða þær séu algjöru ofurefli bornar). Konur sem öskra ekki, konur sem reyna að bera harm sinn í hljóði og halda andlitinu eftir á, konur sem ekki eru sýnilega marðar og barðar falla ekki að ímynd feðraveldisins/nauðgunarmenningarinnar um alvöru fórnarlamb – og því eru málin látin niður falla, þær ekki teknar trúanlegar, eða þær fá á sig kæru fyrir að voga sér að segja en ekki þegja.
Í einu nauðgunarmáli voru hins vegar tveir menn sakfelldir – en þeir voru líka báðir útlendingar, og því allt í lagi að dæma þá.
Allt gerist þetta í samfélagi sem fyrr í vikunni var titlað „jafnréttasta land í heimi“ sjöunda árið í röð, í samfélagi þar sem, þegar þetta er skrifað 10336 karlmenn hafa skrifað undir HeforShe átak UN Women, í samfélagi þar sem sérstök kynferðisbrotadeild tók til starfa hjá lögreglunni 1. nóv, í samfélagi þar sem ungar konur arga sig hása til að mótmæla.
En feðraveldið/nauðgunarmenningin/karlarsemhatakonur samfélagið stekkur til varnar og kýlir til baka – og kýlir fast.
En hvað er hægt að gera – hvernig er hægt að bregðast við. Þegar Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta nefndi að hugsanlega væri það skásta í stöðunni að ráða fórnarlömbum kynferðisbrota frá því að kæra, risu upp fulltrúar úr lögfræðistétt – það mátti alls ekki hætta að kæra, (þótt líkur á sakfellingu séu hverfandi, en líkur á kærum fyrir ragnar sakagiftir með tilheyrandi mannorðsmissi séu yfirgnæfandi). Engar kærur fyrir kynferðisbrot, þýða nefnilega enginn „stjörnuverkefni“ fyrir „stjörnulögfræðinga“.
Annað sem mér dettur í hug sem svona almenn aðgerð er að kannski þurfi að fara að vara erlenda ferðamenn við – slá á kjaftæðið um „jafnréttisparadísina“ Ísland og láta það berast og hljóma um heiminn að Ísland sé paradís fyrir nauðgara og því full ástæða til að vara erlendar konur við að sækja okkur heim. Ef við segjum þetta allar nógu hátt og nógu oft þýðir það kannski bakslag fyrir ferðamannaiðnaðinn – gæsina sem nú verpir gulleggjum – og þá, ef til vill, hugsanlega, kannski mun samfélagið ranka við sér og bregðast við.