Forréttindi, kynjamisrétti og kynjatvíhyggja

Höfundur: Alexander Björn Gunnarsson

Á minningardegi transfólks í Ráðhúsi Reykjavíkur var þessi ræða flutt og birtist hér með leyfi höfundar:

Trans Is stórtÉg er 27 ára, jarðfræðingur, trans maður og er meðstjórnandi í stjórn Trans Ísland. Mig langar að deila aðeins með ykkur minni reynslu á að hefja kynleiðréttingarferli. Ég vil árétta að eftirfarandi er aðeins mín reynsla og mínar vangaveltur.

Fyrir rúmlega ári síðan fór ég á stefnumót með stelpu sem er trans. Eftir eitt stefnumót og einhvern tíma af spjalli ákvað ég að opna mig fyrir henni og viðra hugmyndir sem ég hafði ekki tjáð við marga áður. Hún var mjög skilningsrík og hjálpaði mér mikið við að samþykkja fyrir sjálfum mér að ég væri trans. Hún fræddi mig um sitt ferli og sagði mér hvert ég ætti að leita. Og sagði mér líka aðeins við hverju ég mætti búast af fyrsta tímanum mínum hjá geðlækninum. Það sem sat fastast í mér var að hann myndi spyrja mig í hvernig nærfötum ég væri.

Ég fékk tíma hjá geðlækninum, eina geðlækninum sem hægt er að leita til með svona mál, rétt um viku eftir að ég hringdi. Ég var með hjartað í buxunum þegar ég mætti í tímann en undirbúinn fyrir nærfataspurninguna. Í minningunni var tíminn ekki mjög langur. Við ræddum ýmsa hluti um barnæskuna mína, persónuhagi og annað. Hann útskýrði fyrir mér ferlið og hvernig það virkaði. Og aldrei kom nærfataspurningin. Hann bað mig síðan að hafa samband við hann þegar ég væri búinn að koma út fyrir öllum, fjölskyldu, vinum og samstarfsfélögum.

Ég hafði sagt nokkrum nánum vinum frá þessu áður en ég fór í tímann hjá geðlækninum. Það er ekki auðvelt að koma útúr skápnum, og ég var að gera það í annað skiptið á ævinni. Ég sendi email til vinnuveitanda og skrifaði bréf til foreldra minna, sem var ekki það auðveldasta sem ég hef gert. Loks setti ég status á facebook til að reyna að ná til sem flestra. Allir sem ég þekki tóku þessu mjög vel, sumir sögðu að þetta kæmi þeim lítið á óvart. Ég hef fengið ómetanlegan stuðning frá vinum og fjölskyldu sem ég gæti ekki verið þakklátari fyrir.

Ég hef persónulega ekki fundið fyrir miklum fordómum eftir að ég kom út, en ég hef tekið eftir því að viðmót fólks sem ég þekki ekki hefur breyst. Starfsfólk í verslunum er oft kurteisara en áður og ég þarf sjaldnar að rökstyðja ákvarðanir sem ég tek. Fólk virðist treysta mér meira. Karlmenn, sérstaklega eldri karlmenn, eru vinalegri og það er næstum eins og ég sé kominn í eitthvað bræðralag. Ég finn algjörlega fyrir þessum auka fermeter sem mér hefur verið úthlutað, svo ég fái nú að vitna í mikinn snilling.

Í næsta tíma hjá geðlækninum fórum við yfir stöðu mála. Hann sagði mér að ég væri með geðsjúkdóm sem er kallaður kynáttunarvandi, eða gender identity disorder og að greiningin væri augljós í mínu tilfelli. Ég hóf því formlegt kynleiðréttingarferli til að laga þennan geðsjúkdóm. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvað kynáttunarvandi er. Ég á ekki við mikið vandamál að stríða varðandi kyn mitt, þarf bara vissa þjónustu til að samræma líkama minn við hvernig ég upplifi mitt kyn. Tímanum hjá honum lauk og ennþá hafði ég ekki verið spurður í hvernig nærfötum ég gengi.

Í kjölfarið fór ég að vera virkari í trans samfélaginu og fór að mæta á fundi hjá trans ísland þar sem ég fékk stuðning frá öðru fólki í svipuðum aðstæðum. Ég kynntist fullt af nýju fólki og komst fljótt að því að flestir hefðu fengið nærfataspurninguna í fyrsta tímanum sínum. Eða í það minnsta þær trans konur sem ég hafði talað við. Ég hef líka heyrt um trans konur sem hafa verið skikkaðar í iðjuþjálfun, eða „dömuþjálfun“. Ég hef ekki verið beðinn um að fara í neina herraþjálfun.

Ég hef mikið velt því fyrir mér á hverju þessi munur stendur. Mig grunar að það gæti verið að ég passi inní einhver kynjanorm sem einhver er búinn að ákveða að séu rétt, og mögulega að þeir sem passa ekki nógu vel inní þessi kynjanorm sé gert að laga sig að þeim. Eins og kynleiðréttingarferli snúist um að búa til kvenlegustu konurnar og karlmannlegustu karlana. Kannski vegna þess að okkur er gert að sanna fyrir öðrum að þetta sé okkar „rétta kyn“.

Ég vil því minna alla á að heimurinn er ekki svartur og hvítur. Það er til alls konar fólk, og alls konar trans fólk, ekki bara trans menn og trans konur. Mér finnst mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því að kyn er ekki tveggja flokka breyta og að allir eiga rétt á að fá þá heilbrigðisþjónustu sem þau þurfa. Vegna þess að það veldur mikilli vanlíðan og jafnvel þunglyndi og sjálfsvígshugsunum að fá ekki að tjá kyn sitt eins og maður vill.  Á sumum stöðum í heiminum er það einfaldlega hættulegt, sérstaklega án aðstoðar hormóna og skurðaðgerða. Enda erum við hér til að minnast þeirra sem hafa látist, af eigin hendi eða verið myrt, vegna kynvitundar sinnar svo ég vil að lokum votta þeim öllum, fjölskyldum þeirra og vinum virðingu mína. Takk fyrir.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.