Kvennatími – Hugleiðing um kvennasýningar

 

Höfundur: Anna Jóa.

Pistillinn er unninn upp úr grein höfundar í sýningarskránni Kvennatími – Hér og nú þrjátíu árum síðar sem gefin var út af Listasafni Reykjavíkur í september 2015 (1).

Tilefni sýningarinnar Kvennatími – Hér og nú þrjátíu árum síðar á Kjarvalsstöðum, eru tímamót sem tengjast konum: Á þessu ári er haldið upp á 100 ára kosningarétt kvenna á Íslandi. Á sýningunni getur að líta verk eftir á þriðja tug kvenna sem sýndu saman á sýningunni Hér og nú á Kjarvalsstöðum árið 1985. Sú sýning var einn umfangsmesti viðburður Listahátíðar kvenna sem efnt var til í lok kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna. Tilgangur hátíðarinnar var að gera framlag kvenna á sviði lista og menningar sýnilegt og samanstóð hún af fjölmörgum sýningum og viðburðum, og fól í sér samstarf margra helstu menningarstofnana landsins með þátttöku mikils fjölda kvenna. Hátíðin var sannkallað þrekvirki sem hefur án efa markað spor í íslensku menningarlífi. Þótt ummæli um kvennasýningar og kvennalist hafi nokkuð einkennt umfjöllun fjölmiðla, þá var Hér og nú fyrst og fremst samsýning sem varpaði ljósi á ný verk ólíkra listamanna – listamanna sem áttu það sameiginlegt að vera konur.

Frá sýningunni á Kjarvalsstöðum. Mynd fengin hjá pistlahöfundi.

Frá sýningunni á Kjarvalsstöðum. Mynd fengin hjá pistlahöfundi.

Ýmsar spurningar vakna þegar horft er um öxl og þá ekki síst sú hvers vegna enn sé þörf á „kvennasýningum“ líkt og þessari. Hugur er í Guðrúnu Erlu Geirsdóttur (Gerlu) framkvæmdastýru í viðtali um fyrirhugaða Listahátíð kvenna sem birtist í 6. tbl. tímaritsins Veru 1985, og telur hún stöðu kvenna hafa batnað mjög á kvennaáratugnum. Aðspurð um það hvort konur hafi sömu tækifæri og karlar segir hún hins vegar: „Nei, við erum ekki búnar að ná markmiðinu, sem er að standa jafnfætis körlum og að verk okkar verði dæmd á sömu forsendum og þeirra. Á meðan svo er ekki, er nauðsynlegt að halda sérhátíð listakvenna eins og við gerum núna, en ég vona að sá tími komi að þess þurfi ekki.“ Þörfin er þó enn til staðar, gott dæmi um það er sú staðreynd að Listahátíð í Reykjavík var á þessu ári tileinkuð höfundarverki kvenna. Meðal gesta hátíðarinnar voru meðlimir Guerrilla Girls, hóps sem einmitt var stofnaður árið 1985 í þeim tilgangi að afhjúpa kynja- og kynþáttamisrétti í listheiminum. Eitt þekktasta verk þeirra er veggspjaldið Do women have to be naked to get into the Met. Museum? frá 1989 en þar kemur fram að 5% verka í eigu Metropolitan-safnsins í New York séu eftir konur, en að 85% nektarmynda safnsins sýni konur (2). Verkið kallast jafnframt á við tímamótagrein Lindu Nochlin, Why Have There Been No Great Women Artists? sem birtist í listtímaritinu ARTnews árið

Mynd fengin af womhist.alexanderstreet.com

1971 og fjallar um kerfislæga útilokun kvenna frá mikilvægum liststofnunum myndlistarinnar í aldanna rás (3). Femínískar listfræðirannsóknir síðustu áratuga hafa leitt í ljós fjölda vanræktra og gleymdra hæfileikakvenna – þ. á m. „huldukonur“ í íslenskri myndlist. Fram kom á fyrirlestri Guerilla Girls í Reykjavík að þær hafa enn ekki undan í skæruhernaðinum; verk þeirra á Listahátíð opinberaði rýran hlut kvenna í kvikmyndagerð hér á landi og á Facebook-síðu sinni birtu þær tölur um kynjahallann í safneign Listasafns Íslands (tölur um verk eftir íslenska listamenn, en af þeim eru 63% eftir karla en 37% eftir konur). Fyrir rúmum tveimur áratugum gerðu fimm íslenskar konur – þær Guðrún Erla Geirsdóttir, Erla Þórarinsdóttir, Brynhildur Þorgeirsdóttir, Svala Sigurleifsdóttir og Harpa Björnsdóttir (þær fjórar síðastnefndu voru meðal sýnenda á Hér og nú 1985) – úttekt á kynjaslagsíðunni í íslenskum listheimi í tengslum við sýningu á plakötum Guerilla Girls í Nýlistasafninu árið 1994. Þær útbjuggu plaköt á íslensku þar sem m.a. er bent á að engin kona hafi verið valin fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum, hversu miklu færri útilistaverk í eigu Reykjavíkurborgar séu eftir konur og að verulega halli á konur í sýningum á verkum einstakra listamanna í Listasafni Íslands sem og í listinnkaupum opinberra stofnana og úthlutunum úr launasjóði myndlistarmanna. Þessi úttekt hefur án efa haft áhrif til batnaðar, t.d. var fyrsta konan valin fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringinn árið 1997 (nú er staðan sú að alls hafa fimm konur sýnt þar en hins vegar 22 karlar). Ýmislegt hefur áunnist síðan en ljóst er að enn er langt í land hvað snertir jafnræði kynjanna í íslenskum listheimi.

Listfræðingurinn Maura Reilly birti á þessu ári ítarlega úttekt í tímaritinu ARTnews sem sýnir  ótvíræða mismunun konum í óhag – listamönnum, sýningarstjórum, safnstjórum, listfræðingum, listgagnrýnendum o.s.frv. – í evrópskum og bandarískum listheimi samtímans (4). Hún segir tímabært að  mótmæla þeirri algengu staðhæfingu að „nú ríki jafnræði milli kynjanna í listheimunum“ enda sé hún fjarri sanni (5). Í greininni vitnar Reilly í orð Lindu Nochlin þess efnis að konur verði að standa vaktina, „óttast ekkert, láta í sér heyra, vinna saman og vera stöðugt til vandræða“. Umrætt hefti er tileinkað konum og í ritstjórnarpistli segir Sarah Douglas frá því hvernig brosið hafi horfið af vörum viðmælanda nokkurs við tíðindin, ungrar konu sem er listaverkasali; hvernig sú hafi stunið þungan og spurt: „Mynduð þið gera karlahefti?“ Douglas klykkir út með því að segja að jafnskjótt og konur verði orðnar jafnsýnilegir og jafngildir þátttakendur í listheiminum og karlmenn, muni hún fúslega gefa út sérstakt „karlahefti“.

Víst er að skiptar skoðanir eru um kvennasýningar. M.a. hefur verið bent á að þær geti virkað sem afsökun eða uppbót og að „kvennastimpillinn“ smætti merkingu listaverka ólíkra listamanna. Sérstaða sýningarinnar Kvennatími – Hér og nú þrjátíu árum síðar er sú að þar er fylgt eftir listsköpun kvenna með langan feril að baki, kvenna er náð hafa að þroska listhugmyndir sínar og þá miðla og aðferðirnar sem þær hafa tileinkað sér. Margt bendir til þess að ekki sé nægilega hlúð að listsköpun kvenna með svo ríkulegt lífsstarf að baki – og fer samfélagið þannig á mis við mikil verðmæti. Samtöl við sýnendur leiddu í ljós að þær telja sig almennt hafa átt erfiðara uppdráttar en karlmenn. Starfsskilyrðin hafa ekki endilega verið þeim hagstæð og í mörgum tilvikum byggist árangurinn að miklu leyti á eigin áræðni og þrautseigju. Ummæli á borð við þessi staðfesta gildi kvennasýninga: „Ef þú hefðir spurt mig fyrir tíu árum þá hefði ég sagt: „Hvað, enn ein kvennasýningin?“ En núna segi ég að ekki veiti af, hvað þá að sýna verk eftir eldri konur.“ Sé horft til framlags sýnenda á Kvennatíma – Hér og nú þrjátíu árum síðar, og annarra kvenna í listum, er ljóst að án framlags þeirra væri listin sannarlega ekki söm.

 

(1) Sýningin Kvennatími – Hér og nú þrjátíu árum síðar var opnuð á Kjarvalsstöðum 12. september 2015. Sjá nánar á heimasíðu Listasafns Reykjavíkur.

(2) Guerilla Girls gerðu sams konar úttekt á Metropolitan-safninu árið 2005 og voru þessar hlutfallstölur þá 3% og 83% og í nýjustu úttektinni 2012 eru hlutfallstölurnar 4% og 76%.

(3) Greinina er m.a. að finna í nýútgefnu greinasafni Nochlin, Women Artists. The Linda Nochlin Reader. Ritstj. Maura Reilly. London og New York: Thames & Hudson 2015.

(4) Maura Reilly, „Taking the Measure of Sexism: Facts, Figures, and Fixes“, ARTnews, júní 2015. Sótt 19. júní 2015.

(5) Samanber ummæli Reilly í áðurnefndri grein: „The more closely one examines art-world statistics, the more glaringly obvious it becomes that, despite decades of postcolonial, feminist, anti-racist, and queer activism and theorizing, the majority continues to be defined as white, Euro-American, heterosexual, privileged, and, above all, male. Sexism is still so insidiously woven into the institutional fabric, language, and logic of the mainstream art world that it often goes undetected.“

Ein athugasemd við “Kvennatími – Hugleiðing um kvennasýningar

  1. Bakvísun: Annáll 2015 | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.