Ekkert til að sýna? Um kynjahalla á íslenskum byggða- og menningarminjasöfnum

Höfundur: Arndís Bergsdóttir. 8561841bbe3a5233114d8534038fa11f

Þetta safnaknúz er unnið upp úr fyrirlestri sem höfundur hélt á vegum MARK, miðstöðvar margbreytileika- og kynjarannsókna fyrr í nóvembermánuði 2015.

Flestir eru nokkuð meðvitaðir um hvernig kynin/kyngervin birtast með mismunandi hætti á opinberum stöðum eða í fjölmiðlum. Tökum sem dæmi bleiku og bláu deildirnar í stórum keðjum leikfangaverslana, sláandi munur karlkyns og kvenkyns viðmælenda í fréttamiðlum, birtingamyndir kvenna í auglýsingum, strákabækur og stelpubækur í bókabúðum. Færri hafa, hinsvegar, velt fyrir sér birtingamyndum kynjanna á sýningum þeirra safna sem fjalla um sögu landsins og menningararf – hið víðsjála fyrirbæri sem íslenska þjóðin er ákaflega stolt af. Jafnvel þótt komið hafi fram að samband er á milli sýnileika kvenna á sýningum menningarminjasafna og þróunar jafnréttis og að samþætting kynjasjónarmiða á þessu opinbera sviði (sem notið hefur lítillar athygli fram að þessu) stuðli um leið að jafnrétti í samfélaginu öllu. Það er því ekki síður mikilvægt að sýningar safna séu skoðaðar með sömu gagnrýnu kynjagleraugunum og við beitum á dótabúðir, auglýsingar, fréttamiðla og bækur.

KAN 141

Í fyrra var metaðsókn á söfnum, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands, en um tvær miljónir manna heimsóttu þessi almannarými, þar af lang flestir söfn og sýningar þar sem fjallað er um sögu landsins og fólksins sem byggði það. Í úttekt Hagstofunnar er ennfremur gert ráð fyrir að aukning safnaheimsókna á milli ára sé meðal annars vegna aukins fjölda ferðafólks. Það er ekki einungis mikilvægt að hafa í huga fjölda erlendra gesta. Í skýrslu sem gefin var út á vegum UNESCO haustið 2014 kemur fram að menningararfur þjóða byggi á vali sem endurspegli gildismat þeirra. Með vali er sérstaklega átt við að menningararfur er ekki fiskaður úr fortíðinni í formi heimilda, t.a.m. frásagna og gripa, sem er raðað saman á sýningum safna til að endurspegla óvéfengilega „hvernig þetta var”. Heldur er byggir sá „veruleiki” sem okkur kemur fyrir sjónir á því hvaða gripir eru valdir, hvernig valið er að setja þá í samhengi og ekki síst hvaða hugmyndir og samfélagslega mótuðu viðmið liggja til grundvallar. Að mati höfunda UNESCO skýrslunnar endurspeglar það meðal annars gildismat þjóða.

Rannsóknir sem gerðar hafa verið erlendis hafa leitt í ljós er að almennt eru konur á jaðri frásagna – þær eru sá bakgrunnur sem styður við frásagnir af afrekum hvítra, miðaldra karla, eða aukapersónur sem ljá þessum sömu afrekum aukna vídd. Hlutverk þeirra eru afmörkuð og takmörkuð og lítið sem ekkert er gert til að sýna fram á mismunandi líf og lífsskilyrði karla og kvenna, stöðu þeirra í valdatengslum, og hinar ýmsu skaranir sem geta átt sér stað í lífi einstaka kvenna. Ásýnd kvenna er almennt óljós, einsleit og byggir oft á nútíma staðalmyndum um kyngervi12334046_10208001634097415_1045012327_o kvenna. Þrátt fyrir að Ísland skipi fyrsta sæti í úttekt alþjóða efnahagsráðsins á jafnrétti karla á kvenna, þá sýnir rannsókn sem ég gerði á sex byggða- og menningarminjasöfnum víðsvegar um landið (1) að íslensk byggða- og menningarminjasöfn túlki hlut kvenna í lífi og menningu íslendinga ekki á ósvipaðan hátt og gert er á menningarminjasöfnum annarsstaðar í hinum vestræna heimi. Þær eru aukapersónur í frásögnum af fortíðinni, eða með öllu ósýnilegar. Nokkur dæmi um slíkt endurspeglast í staðalímyndum, kynjahlutleysi og því hvernig konur eru fjarlægðar frá verðmætasköpun, en hið síðastnefnda virðist ekki hafa verið skoðað sérstaklega í erlendum rannsóknum (til eru rannsóknir sem sýna kynjun í frásögnum af fæðuöflun). Að konur væru fjarlægðar frá verðmætasköpun í sýningum safna var, hinsvegar, nokkuð áberandi á íslenskum byggða- og menningarminjasöfnum.

images
Staðalímyndir
Staðalmyndir smætta eiginleika, greind og getu einstaklinga niður í þröng og fyrirsjáanleg viðmið. Þær ramma inn „viðeigandi” útlit og hegðun sem kynjunum eru áskilin. Það kemur ef til vill ekki á óvart að víða mátti finna staðalmyndir, til að mynda varðandi skrautmuni og handverk. Móðurhlutverkinu var einnig hampað og skýr greinarmunur gerður á heimilisstörfum og annarri vinnu. Textar við skrautmuni sem og uppstilling þeirra gaf í mörgum tilfellum til kynna að þá hafi konur notað til að „vera fínar”, og í einu tilfelli var það beinlínis orðað. Þá voru gerð skýr skil á milli þess taldist til handverks karla annarsvegar, t.a.m. gullsmíði og útskurður, – og hinsvegar handverks kvenna, t.a.m. útsaumur. Í textum við sýningargripi mátti líka sjá ítarlegri umfjöllun um verk karla en kvenna. Verk sem voru tengd körlum beint voru mun oftar krydduð með lifandi lýsingum og frásögnum, en verk kvenna. Þannig mátti finna texta þar sem talað var um hagleiksmenn og listasmiði, en lýsingar á verkum kvenna voru oftar án slíkra lýsinga.
Móðurhlutverkið var áberandi á flestum söfnum og því jafnvel hampað. Það birtist með mjög einföldum en áhrifaríkum hætti.12318346_10208001635977462_1648553414_o Konur og börn voru gjarnan sýnd saman, t.a.m. við fiskvinnu eða landbúnaðarstörf en einnig mátti sjá dæmi þar sem kven- og barns-beinagrindum var stillt saman líkt og um væri að ræða móður og barn þótt í raun hafi þessir tveir aðilar verið alls óskyldir. Í sama anda var heimilið kyrfilega aðgreint frá annarri vinnu. Í langflestum tilfellum var dregin fram lífseig ímynd kvenna sem húsmæðra, en sú mynd sem dregin var upp af körlum sýndi þá sem drógu björg í bú, mynduðu stoðir heimilisins eða þjóðarinnar (t.a.m. stjórnmálamenn, stórbændur og prestar). Þessi ímynd byggir á hugmyndafræði eðlishyggju þar sem (hús)móðurhlutverkið er talið liggja í eðli kvenna, en sé andstætt eðli karla. Þessi hugmyndafræði þykir vafasöm í dag. Samt sem áður er hún enn víða í notkun.

Kynjahlutleysikonur_1219657
Það er býsna algengt að gripið sé til kynjahlutlausra frásagna – sem oft birtast í textum við sýningargripi – sem tilrauna til að taka kynjabreytuna út úr frásögnum. Hér er átt við þá hugmynd að ef kyn sé hunsað þá gefi það til kynna að hver sem er (þ.e. hvort kynið sem er) geti átt þátt í frásögnum og þar af leiðandi jafngildi það kynjajafnrétti. Bent hefur verið á að slíkt eigi sér ekki áþreifanlegar stoðir, heldur byggi á nútíma kynímyndum og valdatengslum. Kynhlutlausar frásagnir í karllægu andrúmi (sem er ekki einungis að finna á söfnum heldur samfélaginu öllu) dragi fjöður yfir konur, líf þeirra, menningu og verk. Á íslenskum byggða- og menningarminjasöfnum virðast tilraunir til að gæta kynjahlutleysis í framsetningu ekki endurspegla kynjahlutleysi þess lífs og þeirra skilyrða sem eru til umfjöllunar. Þær virðast þvert á móti viðhalda stöðluðum kynímyndum og þeim valdatengslum sem fyrir eru í samfélaginu á okkar tímum. Með góðu móti má segja að kynjakerfið seytli í gegnum það tungumál sem er notað. Tökum dæmi um birtingamyndir kynjahlutlausra frásagna.

Samkvæmt íslenskri málhefð samræmist orðið „menn“ kynhlutleysi. Engu að síður vísar það til yfirskipunar karla og karllægra gilda. Þetta á sérstaklega við þar sem gripir og framsetning þeirra styðja einnig karllægar frásagnir. Meðal þeirra dæma sem fundust á íslenskum byggða- og menningarminjasöfnum voru frásagnir af reiðmanni og landnámsmönnum. Tökum þennan texta sem dæmi: „Dýrabein gefa mikilvægar upplýsingar um fæðu fólks og hvers konar skepnur menn höfðu, hvaða dýrategundir þeir veiddu sér til matar og hlutfallið þar á milli“ [mínar áherslur]. Hér má benda á að þótt orðið „menn“ sé kynhlutlaust samkvæmt hefðum um íslenska málnotkun þá vísar það í áðurnefndum dæmum sterklega til kynímynda. Í þessu dæmi sem á sér víðari skírskotun eru það karlar sem veiða – en konur….tja við vitum ekki hvað þær gerðu því í þessu tilfelli er hvergi minnst á fæðuöflun þeirra. Slík afmáun vinnu kvenna og þeirra skyldna sem þær höfðu byggir á nútíma kynímyndum og valdatengslum sem eiga sér ekki endilega stoð heldur vísa aftur fyrir sig.

1902-1910 Starf, húsmóðir. Konur þvo þvott í Þvottalaugunum í Laugardal. Þvottahús 1902 - 1910, konur við þvotta í Þvottalaugunum í Laugardal.

Fjarlægðar frá verðmætasköpun

Það sem greinir íslensk menningarminjasöfn hvað helst frá því sem komið hefur fram í erlendum rannsóknum er að konur eru sýndar sem virkir þátttakendur í vinnu. Þær eru hinsvegar fjarlægðar frá þeirri verðmætasköpun sem felst í vinnunni. Þær voru ekki eigendur afurðanna heldur birtust þær sem eignalaust vinnufólk. Sem dæmi má nefna sýningu þar sem konur voru sýndar við vinnu útivið til jafns við karla. Þar með lauk þeirra hlutverki í landbúnaði. Hinsvegar voru karlar einnig sýndir á hestbaki eða með glæstan bola í taumi – hnarreistir og uppstilltir eigendur.

Framleiðsla á vaðmáli er einnig ágætt dæmi, en á miðöldum var klæðnaður flestra íslendinga ofinn úr vaðmáli auk þess sem það var ein helst útflutningsafurð íslendinga. Í frásögnum var fjallað um vinnu kvenna við vefstaðina. Í öllum tilfellum var hún samt sem áður kyrfilega aðgreind þeirri verðmætasköpun sem átti sér stað. Bæði með texta og afstöðu í sýningarrýmunum (með því að hafa þá umfjöllun á öðrum stað). Verðmætin voru í öllum tilfellum tileinkuð körlum. Þeir voru stórbændurnir, útflutningsaðilarnir og framleiðendurnir. bmt_saga_thvottalaugarnar_konur_ad_thvo

Hvar ertu kona?
Margir kunna nú að hugsa sem svo að það sé varla óeðlilegt að minna sé fjallað um konur þar sem minjasöfn byggi frásagnir sínar að miklu leyti á sýnilegum hlutum, og að mun færri hlutir hafi varðveist sem geti gefið til kynna hlut kvenna í lífi og menningu þjóðarinnar. Það gæti vissulega verið rétt að flest það sem konur hafa gert hefur verið étið eða nýtt upp til agna. En það er líka fjarvistasönnun, sem ekki hefur verið litin nægilega gagnrýnum augum, eða höfð til umfjöllunar á söfnum. Þegar fjöldi byggða-og menningarminjasafna er skoðaður með kynjagleraugum er fjarvera kvenna ef til vill það sem er mest áberandi. Það sést í fjarlægð þeirra frá verðmætasköpun – þær eru sýnilegar við vefstólana en þegar kemur að hlut þeirra í helstu útflutningsvöru þjóðarinnar þá eru þær horfnar. Fagurlega útsaumaðir altarisdúkar eða höklar eru sýndir sérstaklega sem hluti af handverki kvenna, en þegar kemur að þætti þeirra í framleiðslu á þessum valdatækjum kirkjunnar þá eru þær horfnar. Og ósýnileikinn er stundum írónískur. Á sýningu einni er umfjöllun um manntal. Þar kemur fram að á þeim tíma sem manntalið tekur til bjuggu fleiri konur en karlar á Íslandi. Þjóðin samanstóð af á þriðja hundrað prestum og á annað hundrað þjónustustúlkum. Í manntalinu er talað um „þjónustustúlkur” sem starfsgrein og ennfremur er vitað hve margar konur voru innan greinarinnar. Á safninu er töluverð og heildstæð umfjöllun um presta – en engin um þjónustustúlkur – ekki eitt orð.

Ég vil taka fram að á ferðum mínum milli byggða- og menningarminjasafna rakst ég líka á vinnu sem var til fyrirmyndar. Frásagnir sem t.a.m. fjölluðu um þau valdatengsl sem liggja m.a. til grundvallar misrétti kynjanna og sýndu glögglega birtingamyndir þeirra. Því miður voru þessi tilfelli hinsvegar alltof fá.

Að lokum vil ég segja nokkur orð um viðleitni sumra safna til að „rétta” hlut kvenna í þeim frásögnum sem birtast í sýningum þeirra – eða bæta þeim við og hræra vel eins og Sandra Harding orðaði það svo snilldarlega. Lausnin á samþættingu kynjasjónarmiða á sýningum byggða- og menningarminjasafna má aldrei felast í að bæta konum við frásagnir sem snúast um karla – sem sagðar eru út frá körlum og með hætti karla. Svipaða sögu má segja um tímabundnar sýningar, eða sérsýningar. Á sama tíma og tímabundnar sýningar sem hlú að femínískum sjónarmiðum geta verið valdeflandi þá felst í því formi ákveðin hætta á að jaðarsetning ákveðinna hópa sé stofnanabundin – „hér er aðal sagan en þarna er hin sagan”. Þetta hefur m.a. verið kallað gettóísering, þar sem hópum sem hafa verið á jaðri frásagna safna er komið fyrir á stað stöðum sem ekki tengjast heildarfrásögn safna beint – sýningargettóum. Það sem þarf er gagnger endurskoðun þar sem frásögnum mismunandi karla og kvenna er fléttað saman, gagnrýnin umræða, gagnrýnir safngestir, fræðsla, auk samvinnu við háskólastofnanir og þann fræðaheim sem snýr að femínískri safnafræði. Meira en tvær milljónir heimsókna og væntanleg aukning safngesta hlýtur eitt og sér að renna stoðum undir slíkt.

(1) Rannsókn þessi leggur grunninn að doktorsrannsókn minni í Safnafræði við Háskóla Íslands þar sem ég rannsaka verufræði fjarveru í ljósi femínískrar safnafræði. Gagnaöflun fyrir þá grunnrannsókn sem rætt er um hér fór fram 2014 og 2015. Upphaflega skoðaði ég fjölda menningarminjasafna víðsvegar um landið, en valdi að lokum sex til frekari greiningar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.