Fáránleg sönnunarbyrði?

Höfundur: Hildur Guðbjörnsdóttir

HvaðaþarftilÞorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavík, minntist nýlega á að hugsanlega væri hægt að bæta dómskerfið hér á landi hvað varðar kynferðisbrotamál með því að fara svipaða leið og Bretar hafa nýlega valið. Í því felst að í stað þess að þolandi þurfi að sýna fram á að sér hafi verið nauðgað þurfi gerandi frekar að greina frá því hvernig hann hafi fengið skýrt samþykki til kynferðislegra athafna.

Um leið og minnst var á þessa hugsanlegu nýju leið virtist allt ætla um koll að keyra í kommentakerfum landsins. Fólk (aðallega karlar samt) spurðu hvernig í ósköpunum eigi að sanna samþykki. Sumir töldu þingmanninn jafnvel ekki hæfan til þingstarfa, þar sem hann hlyti að vera veikur á geði að stinga upp á þessari leið. Mörgum körlum virtist finnast það fáránleg tilhugsun að ákærði ætti að þurfa að útskýra hvernig samþykki var fengið. „Það er ekki nokkur leið að sanna það.“ „Það er ósanngjarnt.“ „Það er orð á móti orði.“

En hver er staðan í dag í kynferðisbrotamálum? Staðan eins og hún er núna leggur meginþunga sönnunarbyrðarinnar á þann sem kærir, á brotaþolann. Kærandi þarf sem sagt að sanna það að samþykki hafi ekki verið veitt. Hvernig er það hægt? Er það ekki líka orð á móti orði?
Af hverju ætti það að vera eðlilegra að brotaþoli þurfi að sanna nauðgun, heldur en að ákærði þurfi að sanna að ekki hafi verið um nauðgun að ræða? Hvers vegna er allur þungi sönnunarbyrðarinnar settur á kærendur kynferðisbrota?

Ef brotist er inn í hús og brotaþoli segist vita hver framdi glæpinn, hvernig bregst réttarkerfið við? Er brotaþoli beðinn um að sanna það að innbrotsþjófurinn hafi virkilega verið í húsinu í leyfisleysi? Nei, vegna þess að dómskerfið trúir þeim sem er brotist inn hjá. Dómskerfið trúir ekki brotaþolum kynferðisofbeldis. Kynferðisbrotamál eru einstök að því leyti að þar gerir réttarkerfið sjálfkrafa ráð fyrir því frá upphafi að sá sem kærir sé að segja ósatt. Byrðin liggur því hjá kæranda að sanna mál sitt, en ekki hjá ákærða að sanna sakleysi sitt.

Sönnunarbyrðin

Nú gætu sumir bent á að það séu ákveðnir hlutir sem brotaþoli ætti að geta notað til að sanna að um nauðgun hafi verið að ræða. Líkamlegir áverkar? Nei, fjöldi nauðgana eiga sér stað án þess að skilja eftir sig neina líkamlega áverka. Og jafnvel þó að líkamlegir áverkar séu til staðar, eru til mörg dæmi um að dómarar hafi samt sýknað gerandann, ótrúlegt en satt (hér er eitt dæmi). Sálfræðilegir áverkar? Já það eru langalgengustu áverkarnir, en er tekið mark á sálfræðilegum kvillum sem afleiðingar kynferðisofbeldis í dómskerfinu? Nei, það er ekki gert. Var brotaþola byrlað lyf? Skiptir ekki máli, lyfin hverfa alveg úr líkamanum á nokkrum klukkutímum, engar sannanir og jafnvel þó að brotaþolar fari strax upp á spítala eru dæmi um að starfsfólk hafi neitað konum um blóðprufu til að ganga úr skugga um hvort þeim hafi verið byrlað lyf. Voru fötin rifin? Nei, það virkar heldur ekki, ég þekki dæmi um unglingsstúlku sem kærði nauðgun, fötin hennar voru rifin (auk þess sem henni var byrlað lyf og hún var með sýnilega líkamlega áverka sem hún gat sýnt fram á þar sem hún fór beint á neyðarmóttökuna) en samt var sýknað á þeim forsendum að hún „gæti hafa viljað þetta“. Enda þrátt fyrir að þetta hafi verið þriðja kæran á hendur þess gerenda, þrjár kærur frá þremur mismunandi þolendum, gengur þessi maður enn laus.

Hugsum okkur aðeins um, hvað er það nákvæmlega sem er fáránlegt við meðhöndlun kynferðisbrotamála? Ef maður pælir aðeins í því, þá er þessi hugmynd Þorsteins líklega besta hugmynd síðari ára. Það ætti að teljast fullkomlega eðlilegt að sá sem er ákærður fyrir nauðgun geri grein fyrir því hvernig samþykki var fengið. Í stað þess að gera kerfisbundið ráð fyrir því að brotaþoli sé að ljúga, hvernig væri þá að gera frekar ráð fyrir því að sá sem er sakaður um nauðgun, um glæp, sé að ljúga til um sakleysi sitt?

Hvers vegna?

Rangar sakargiftir eru verulega fátíðar og rannsóknir sýna að hlutfallið er það sama og í öðrum málaflokkum. Hvers vegna gengur kerfið út frá því að brotaþoli sé að segja ósatt? Hvers vegna ætti einhver að kæra einhvern fyrir kynferðisofbeldi ef kynferðisofbeldi átti sér ekki stað? Það vill enginn vera brotaþoli kynferðisofbeldis. Það er ekki eftirsóknarverð staða. Enda fara flestir brotaþolar strax í afneitun eftir brotið, og sannfæra sig um að þeir séu alls ekki brotaþolar, þó að innst inni viti maður að á manni var brotið. Þetta er ástæðan fyrir því að mjög fáir brotaþolar leita á bráðamóttöku og mjög fáir kæra. Það er yfirleitt ekki fyrr en löngu seinna að brotaþolar horfast loksins í augu við brotið, og þá eru engin sönnunargögn, bara orð á móti orði. Og orð brotaþola eru ekki metin upp á marga fiska, eins og við höfum öll margoft séð dæmi um.

Það er stórfurðulegt hvað fólk er upptekið af því að konur séu sífellt ljúgandi um að sér hafi verið nauðgað, því að í fyrsta lagi er alls ekki eftirsóknarvert að segja opinberlega að sér hafi verið nauðgað, í öðru lagi er nánast aldrei sakfellt í nauðgunarmálum og í þriðja lagi er dómskerfið svo óhliðhollt brotaþolum að margir þolendur hafa lýst kæruferlinu sem enn frekara ofbeldi. (Til dæmis var þolandi nýlega látinn horfa á myndband af nauðguninni í viðurvist fjölda fólks). Hvað ætti manneskja að fá út úr því að kæra einhvern, nema þá að vera með afar sterk sönnunargögn? Margir sem jafnvel hafa mjög sterk sönnunargögn í höndunum og fóru strax á bráðamóttöku, hafa, ótrúlegt en satt, tapað málinu, eins og ég lýsti hér að ofan.

héraðsdómurFáránlegt

Það er margt fáránlegt við meðhöndlum kynferðisbrotamála á Íslandi í dag. Það er fáránlegt hvað fá brot eru kærð. Það er fáránlegt hvað er dæmt í fáum málum. Það er fáránlegt hvað margir gerendur sleppa við refsingu. Viðhorf flestra dómara, miðað við dóma síðustu mánaða, eru einnig fáránleg og bera vott um ótrúlega vanþekkingu á þessu sviði. Síðan er það fáránlegt að ef brotaþoli er karlkyns, virðist allt í einu ekkert mál að fá fram sakfellingu (sjá hér). Það er líka fáránlegt hvernig margir virðast búast við því að (kvenkyns) brotaþolar séu að ljúga, en dettur ekki í hug að manneskja sem er ákærð fyrir glæp sé líklega að ljúga. Það er fáránlegt að vegna þessarar mýtu um konuna sem lýgur til um kynferðisofbeldi skuli öll sönnunarbyrðin liggja hjá brotaþola, sem þarf að sanna að á sér hafi verið brotið. Það er fáránlegt að þrátt fyrir að öll sönnunargögn séu til staðar, fá gerendur samt aftur og aftur sýknu.

Það er hins vegar ekki fáránlegt að gera kröfu um að ákærði geri dómara grein fyrir því á ítarlegan hátt hvernig samþykki var til staðar að hans mati. Það er ekki fáránlegt að leggja sönnunarbyrðina jafnt á ákærða og kæranda. Þvert á móti er það kærkomin og löngu tímabær úrbót á íslensku réttarkerfi, sem allt of lengi hefur dregið taum gerenda og um leið brugðist þolendum.

3 athugasemdir við “Fáránleg sönnunarbyrði?

  1. Ég hugsa að það væri mjög áhugavert að heyra hvernig gerendur í kynferðisbrotamálum myndu útskýra hvernig þeir fengu og vissu að þeir fengu samþykki. Það myndi koma þeim í erfiða stöðu held ég, og gæti orsakað það að þeir þurfi þá að horfast í augu við brotið og hvernig þeir brutu á manneskjunni. Það að krefjast svara um hvernig þeir vissu að samþykki væri til staðar þýðir þá ákveðin sjálfsskoðun, og fyrir þá sem þykjast hafa „óvart nauðgað“ gæti þetta þá opnað augu þeirra fyrir því hversu ógeðslega mikil óvirðing og skítseiðisháttur er falinn í því að fylgjast ekkert með því hvort hinn aðilinn sé viljugur þáttakandi.

    Að heimta útskýringu á því hvernig gerendur viti að þeir fengu samþykki þýðir þá ekki bara að sönnunarbyrðin breytist eitthvað, heldur líka að gerendur þurfi að horfast í augu við það sem þeir gerðu. Það finnst mér ótrúlega mikil framför.

  2. „Til dæmis var þolandi nýlega látinn horfa á myndband af nauðguninni í viðurvist fjölda fólks).“

    Það er ákaflega vond framkvæmd á réttarkerfinu, eiginlega svo vond að maður trúir henni varla, að hafa annað hvort neytt stúlkuna til þess að horfa á myndbandið, eða ekki heimilað henni að horfa á það í einrúmi (eða með þeim sem hún hefði kosið), þ.e. hafi hún farið fram á það.

  3. Bakvísun: Hvað svo? Málþing um femíníska byltingarárið 2015. | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.