Höfundur: Rut Guðnadóttir
Einn skemmtilegasti leikur sem ég veit um er SPK- hin íslenska útgáfa af Truth or Dare. Þessi ágæta skammstöfun stóð í mínum vinkvennahóp fyrir Spurningar, Prósenta og Kossar. Ég veit ekki hvort það er hin rétta túlkun en ég og vinkonur mínar skemmtum okkur konunglega yfir því að skipta bekkjarbræðrum okkar upp í flokka eftir því hversu mörg prósent við gæfum í þá eftir útliti, húmor, hári og öðru mikilvægu; hvort við myndum kyssa þennan eða hinn ef við þyrftum að velja; og skemmtilegast var að þurfa að svara djúsí og ágengum spurningum hreinskilnislega. Reyndar vorum við í 7. bekk þegar þessi leikur var hvað vinsælastur í náttfatapartíum og engin okkar hafði svo mikið sem haldið í höndina á dreng, svo ekki urðu spurningarnar neitt svakalega svæsnar.
Spólum áfram nokkur ár. Nú er haust 2015, ég er nýorðin 21 árs og hef haldið í höndina á þó nokkrum piltum. Í partíum er SPK ennþá spilað. Eini munurinn er sá að áfengi er oftast með í för og núna getur maður spurt að einhverju áhugaverðara en „ertu skotin í stærðfræðikennaranum?“. Í einu slíku partíi í sumar gekk þessi spurning í kringum borðið: Hvað ertu búin(n) að sofa hjá mörgum? Nú ætla ég ekki að deila „töfratölunni“ minni með öllu Íslandi, en það er þó ekki vegna feimni (enda er ég ekki feimin) heldur einfaldlega vegna þess að ég veit ekki svarið. Ekki beint allavega.
Tölur runnu af vínuðum vörum í kringum mig á meðan ég reyndi að telja upp þá einstaklinga í huganum sem ég hefði í raun riðið. Er það kynlíf? Að ríða? Verður typpi að fara inn í píku til þess að þú megir telja það með? Verður maður að fá fullnægingu? –Ég held við getum öll verið sammála um að tölur stelpna myndu að meðaltali hrynja um nokkur staðalfrávik ef svo væri.
Skilgreiningin á kynlífi er í raun nokkuð loðin. Oftast hef ég heyrt talað um typpi-inn-í-píku kenninguna (köllum hana TIP) þar sem ef typpi fer ekki inn í píku alveg nokkrum sinnum að minnsta kosti sé ekki um kynlíf að ræða. Ekki alvöru kynlíf allavega. Tja.. um hvað erum við þá að tala? Það er hægt að gera fullt af hlutum við typpi og píkur sem fela samt ekki í sér notkun TIP kenningarinnar.
Hvað um einstaklinga sem eru ekki með heterónormatívu kynfærasamsetningu pulsu og kleinuhrings? Stunda lesbíur aldrei alvöru kynlíf? Hvað með homma? Eða pansexual stelpu sem ríður trans* strák? Eða gagnkynhneigða stelpu og strák sem fíla að skiptast á að fara niður á hvort annað? Er það ekki kynlíf?
Umræðan um kynlíf er svolítið skekkt finnst mér. Ekki bara hvað flokkist sem alvöru kynlíf, heldur líka hver má hvað innan þeirra viðmiða sem samfélagið hefur sett um kynlíf. Kynjahlutverkin hræðilegu spila hér stórt hlutverk. Strákar skora á stelpum og stelpur … tapa einhverju verðmætu í kjölfarið? Kynlíf er ekki gjöf sem stelpur veita strákum sem standast eitthvert próf. Kynlíf er ekki eitthvað sem þú gerir við einhvern, það er eitthvað sem þú gerir með einhverjum. Samvinna og samþykki.
Viðmið samfélagsins gagnvart fjölda bólfélaga eru líka breytileg eftir því hvaða kyni viðkomandi tilheyrir. Ef þú ert strákur ertu nagli ef þú ríður fullt af stelpum, en drusla ef þú ert stelpa sem sefur hjá fullt af strákum. Ef þú ríður engum ertu aumingi ef þú ert strákur og tepra ef þú ert stelpa. Þau rök sem ég hef heyrt sem viðhalda þessu ójafnvægi eru til dæmis þau að strákar séu lyklar og stelpur séu lásar; ef einn lykill getur opnað marga lása þá er það master lykill, en ef margir lyklar geta opnað einn lás er sá lás ömurlegur.
Ég vil hafa það á hreinu að ég er ekki dyrnar, ég er manneskjan sem býr í húsinu. Ég get opnað dyrnar, og þar með boðið einhverjum til að sofa hjá mér, ef mig langar. Ég opna dyrnar sjálf og býð þér inn ef mér svo sýnist. Þú mátt ekki brjóta dyrnar upp og ég má ekki troða þér inn um gættina ef þú vilt ekki ganga í bæinn.
Við sitjum saman á kaffihúsi og spjöllum. Kannski göngum við yfir þröskuldinn saman. Kannski viljum við bara fá okkur annan kaffibolla og ekki fara neitt strax. Kannski viljum við fara heim sitt í hvoru lagi. Kannski sofnar þú í stólnum og þá má ég ekki draga þig heim til mín. Kannski er hurðin alltaf opin. Kannski er hún það aldrei. Hverjum er ekki sama, þetta er mín hurð, ég má gera það sem ég vil við hana.
Ég hef ekki hugmynd um hvað ég er búin að sofa hjá mörgum. Ég veit ekkert hvernig ég að skilgreina það. Ég er löngu hætt að telja. Ég opna dyrnar mínar þegar mig langar, og kannski þegar þú gengur inn fyrir langar þig ekkert endilega að gera neitt djúsí. Það er allt í lagi, við getum farið í SPK eða spilað lúdó.
Myndir fengnar af hun.moi.is, drawception.com, themoderngay.com og pikusogur.wordpress.com