Að vera stelpa: Stutt, persónuleg saga af ofbeldi

Höfundur: Anne Theriault

1.

Ég er sex ára. Fimm ára syni  barnfóstrunnar, sem höfði hærri en ég, finnst gaman að sýna mér tippið sitt. Hann gerir það þegar mamma hans sér ekki til.. Einu sinni þegar ég segi honum að gera það ekki, heldur hann mér niðri og setur tippið á handlegginn minn. Ég bít hann fast í öxlina. Hann fer að gráta, girðir upp um sig og hleypur upp til mömmu sinnar til að segja að ég hafi bitið hann. Ég skammast mín of mikið til að segja frá þessu með tippið og allir halda að ég hafi bitið hann að ástæðulausu.

Ég er skömmuð, fyrst þarna og síðan heima hjá mér.

Næst þegar strákurinn reynir að sýna mér tippið sitt, veiti ég ekki mótspyrnu því ég vil ekki vera skömmuð.

2.

Ég er í öðrum bekk og við erum á opnu svæði og fjórði veggurinn í stofunni er gangurinn að leikfimisalnum. Við sjáum útundan okkur hina bekkina koma og fara í leikfimi. Við eigum að hunsa þá. Alla nema sjötta bekkinn sem Monsieur Pierre kennir.

Í hvert sinn sem Monsieur Pierre gengur hjá, eigum við að segja í kór: „Bonjour, Monsieur Sexiste.“ Fallega kennslukonan okkar, hún Madame Lemieux,  segir okkur að gera þetta. Hún segir að Monsieur Pierre, velklæddur gráhærður maður með yfirskegg, sé karlremba því hann leyfir ekki stelpunum í bekknum sínum að leika hokkí. Hún er fyrsta manneskjan sem ég heyri nota orðið „karlremba“.

Það hljómar mjög alvarlega þegar hún segir það. Hún horfir í kringum sig til að vera viss um að allir taki eftir og röddin verður áköf og spennt.

„Stelpur geta leikið hokkí. Stelpur geta allt sem strákar geta“ segir hún.

Við trúum henni eiginlega ekki. Í fyrsta lagi leika stelpur ekki hokkí. Allir í NHL, líka hetjan okkar hann Mario Lemieux, sem við pískrum stundum um að gæti verið bróðir kennslukonunnar okkar eða frændi eða jafnvel eiginmaður –eru strákar. En við samþykkjum að jafnvel stelpur í sjötta bekk geti leikið hokkí í leikfimi og gerum því eins og hún biður okkur.

En best man ég eftir brosinu á andliti Monsieur Pierre í hvert sinn sem við köllum hann karlrembu. Ekki bros þess sem skammast sín, heldur bros manns sem finnst sætt hvað við erum reið.

3.

Seinna þetta sama ár gengur maður inn í Tækniskólann í Montreal og myrðir fjórtán konur. Hann drepur þær af því að hann hatar femínista. Hann drepur þær því þær ætla að verða verkfræðingar,  því þær ganga í skóla, því þær taka pláss. Hann drepur þær því honum finnst þær hafa tekið eitthvað sem tilheyrir honum með réttu. Hann drepur þær því þær voru konur.

Allt við þennan dag er grátt; himinninn, rigningin, gatan, múrveggurinn á Tækniskólanum, myndirnar af stúlkunum fjórtán í blaðinu. Andlit móður minnar er grátt. Það er vetur og loftið bragðast eins og vatn drukkið úr tinbolla.

Madame Lemieux hættir að segja okkur að kalla Monsieur Pierre karlrembu. Kannski fá stelpurnar hans núna að leika hokkí. Eða kannski er hún hrædd.

Stelpur geta gert allt sem strákar gera en stundum eru þær drepnar fyrir það.

4.

Ég er fjórtán ára og móðir bekkjarsystur minnar er myrt af kærastanum sínum. Hann stingur hana til bana. Í blöðunum heitir þetta ástríðuglæpur. Þegar hún kemur aftur í skólann, talar hún ekkert um þetta.  Þegar hún minnist á móður sína er það alltaf í nútíð. „Mamma segir“ eða „mamma heldur“ –eins og hún sé enn á lífi. Hún skiptir um skóla árið eftir því faðir hennar býr í öðru skólahverfi í borginni.

 

Ástríða.  Eins og morð sé eins og að strá rósablöðum á rúmið eða snæða kvöldverð við kertaljós eða kyssast í lok kvikmyndar.

5.

Karlmenn fara að ávarpa mig á götunni, stundum svo hátt að allir í kring heyra það, en ekki alltaf. Stundum muldra þeir svo ég heyri bara hvað þeir segja, til þess að ef ég bregst við, þá sé ég að ýkja eða ljúga upp á þá. Þessi hvísl gera mig samseka í einhverju þó ég viti ekki alveg hvað það er.

Mér finnst ég eiga þetta skilið. Mér líður eins og ég sé að biðja um þetta. Mér finnst ég óhrein og til skammar.

Mig langar að svara þeim fullum hálsi en ég er hrædd. Mér gremst þetta hugleysi mitt. Mér finnst að ef ég væri hugrakkari kæmust þeir ekki upp með þetta. Loks herði ég upp hugann og segi einum þeirra að láta mig í friði; ég gæti þess að röddin sé styrk og tilfinningalaus, svo þetta hljómi frekar sem skipun en beiðni. Hann grípur um úlnliðinn á mér og kallar mig helvítis tík.

Eftir þetta svara ég ekki fyrir mig.  Ég brosi bara dauflega; stundum lýt ég höfði og hvísla takk. Ég herði ganginn og flýti mér, en einu sinni hrópar karlmaður ekki voga þér að hlaupa burt  og fer að elta mig.

Eftir það  reyni ég að ganga á jöfnum hraða, anda rólega. Eins og sagt er að eigi að gera ef maður sér bjarndýr. Ekki forða sér, bara hörfa rólega þar til dýrið sér mann ekki.

Ég held að þessir karlmenn séu eins og hundar, þeir finna lyktina af ótta mínum.

6.

Karlmenn þrýsta sér upp að mér í lestinni, í strætó, jafnvel einu sinni í mannþröng á mótmælafundi. Hendur þeirra dingla kæruleysislega, strjúkast stundum við klofið á mér eða rassinn. Einu sinni er þetta svo slæmt að ég kvarta við strætóbílstjórann og hann rekur manninn út úr vagninum en hann segir mér að ef ég kunni ekki við athyglina ætti ég kannski ekki að vera í svona stuttu pilsi.

Á átjánda afmælisdeginum mínum býður frænka mín mér í næturklúbb. Meðan við dönsum kemur maður aftan að mér og fer að fitla við hlýrana á svarta kjólnum mínum. En hann er eiginlega að dansa við mig og þetta er fyrsta skiptið mitt í næturklúbbi og ég vil vera svöl og segi ekkert. En svo togar hann hlýrana alveg niður og allir hlæja þegar ég gríp fyrir brjósin.

Á tónleikum kemur karlmaður aftan að mér og tekur utan um mig og fer að gæla við geirvörtuna mína meðan hann kyssir mig á hálsinn. Þegar ég næ að snúa mér við í þrengslunum er hann horfinn.

Í afmæli vinkonu minnar grípur hommi um brjóstin á mér og segir við alla að hann megi þetta því hann sé ekki fyrir stelpur. Ég hlæ því að allir hlæja því hvað annað á kona að gera.

7.

Ég fæ vinnu við sjúklingagæslu, sit hjá sjúklingum á sjúkrahúsi sem óttast er að rífi úr sér æðaleggina eða skaði sig eða flýi. Vaktirnar eru tólf tímar og það er eiginlega engin starfsþjálfun en kaupið er gott.

Margir karlsjúklingar fróa sér fyrir framan mig. Sumir fara ekki leynt með það sem er í raun betra því þá get ég kallað á hjúkrunarfræðing. Sumir fróa sér í laumi og þá er hjúkrunarfræðingunum eiginlega sama. Þegar það gerist, grúfi ég mig yfir bókina og læt sem ekkert sé.

Einu sinni biður aldraður maður mig að laga koddann sinn og þegar ég beygi mig yfir hann, grípur hann í hönd mína og setur hana á lim sinn.

Þegar ég kvarta við yfirboðara minn segi hún að ég eigi ekki að æsa mig því hann viti ekki hvað hann geri.

8.

Maður gengur inn í Amish-skóla, segir öllum litlu stelpunum að fara í röð við töfluna og svo fer hann að skjóta.

Maður gengur inn í systrafélagshús og fer að skjóta.

Maður gengur inn í kvikmyndahús því handrit myndarinnar var eftir femínista og fer að skjóta.

Maður gengur inn á fóstureyðingastöð og fer að skjóta.

Maður gengur inn…

9.

Ég fer að skrifa um femínisma á netið og innan nokkurra mánaða fer ég að fá reiðiathugasemdir frá karlmönnum. Ekki  beint morðhótanir, en samt ógnvekjandi. Ógnvekjandi vegna þess hve reiði þeirra er mikil og alvarleg. Ógnvekjandi því þeir segjast ekki hata konur, þeim finnst bara að konum eins og mér þurfi að segja til syndanna.

Að því kemur að athugasemdirnar  -og jafnvel stöku ofbeldishótanir –verða rútína. Ég spauga með þær. Mér þykja þær eins konar heiðursmerki, eins og ég tilheyri einhverju félagi. Félag kvenna sem fá hótanir frá karlmönnum.

Þetta er eiginlega ekki fyndið.

10.

Einhver hótar að myrða son minn.

Ég segi í fyrstu engum frá þessu því mér finnst sökin vera mín – fyrir að vera of hávær, of hreinskilin, of greinilega foreldri.

Þegar ég loksins segi fólki frá þessu, hafa flestir samúð með mér. En nokkrar konur segja „út af þessu minnist ég aldrei á börnin mín á netinu“ eða „þetta er ástæðan fyrir því að ég birti aldrei myndir af barninu mínu.“

Jafnvel þegar karlmaður ákveður að ógna litlu barni er það samt einhvern veginn konu að kenna.

11.

Ég reyni að vera ekki hrædd.

Ég er enn hrædd.

Þessi grein birtist upphaflega á bloggsíðu höfundar, sem veitti leyfi til þýðingar og birtingar á knuz.is. Gísli Ásgeirsson þýddi:

bellejar

Höfundur á óræðum aldri…

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.