*TW* Þetta sagði auðjöfurinn Ehsan Abdulaziz þegar hann var kærður fyrir nauðgun í Bretlandi og kom þar fyrir rétt í liðinni viku. Margt við þetta mál er ótrúlegt og fáránleikinn náði nýjum hæðum þegar hann var sýknaður af kærunni eins og hér má lesa nánar um í grein Daily Mail. Málsatvik voru þau að hann bauð tveimur ungum konum heim til sín, 18 og 24 ára. Sú eldri fór með honum til kynmaka inn í herbergi hans en sú yngri lagði sig á sófann frammi í stofunni en vaknaði með morgni við það að hann var ofan á henni að þröngva sér inn í hana. Henni brá en hann kvað þetta allt í sómanum, vinkona hennar væri sofandi inni. Stúlkan sleit sig lausa, reyndi að vekja vinkonuna en án árangurs og forðaði sér síðan. Hún hafði samband við lögreglu og kærði verknaðinn.
Fyrstu viðbrögð Abdulaziz við handtökunni voru eins og fram kemur í fyrirsögninni. Hann hélt því fram að stúlkan hefði togað hann ofan á sig og sett hönd hans milli fóta sér og í raun reynt að tæla hann til atlota en þegar sæði hans og lífssýni fundust í leggöngunum, breytti hann framburði sínum og kvaðst hafa dottið ofan á stúlkuna og við það hafi limur hans, sem sennilega hafi staðið út úr nærbuxunum, farið inn í stúlkuna af slysni. Þau sem hafa gripsvit á kynmökum, geta reynt að ímynda sér hvernig þetta fær staðist því leggöng eru jú varla eins og hola sem hægt er að falla í. Hér væri freistandi að rifja upp alræmd ummæli þekkts líkamsræktarþjálfara og meints atferlisfræðings sem líkti stúlkum við ílát sem einboðið væri að losa í, en það er önnur saga og ótengd þessari.
Íslenskir miðlar hafa endursagt þetta í stuttu máli án þess að leggja mat á frásögnina. Margt við sýknudóminn er með ólíkindum en kviðdómurinn var á öðrum máli og þurfti aðeins hálftíma til að komast að niðurstöðu, þrátt fyrir ofangreinda lýsingu, enda ríkur og áhrifamikill miðaldra maður til frásagnar á móti framburði 18 ára stúlku. Það er ekki ofmælt að almenningur er agndofa yfir þessu og víða falla þung orð í fjölmiðlum og netmiðlum.
Nýlegir dómar í kynferðisbrotamálum hérlendis hafa vakið furðu margra. Eindregin neitun geranda/gerenda hefur nægt til sýknunar, nema þar sem karlmaður er brotaþoli. Þá er sektardómur auðfenginn, þótt engin vitni séu til staðar og sum brotanna ekki eins alvarleg og þau sem sýknað er fyrir. Maður spyr sig hvað íslenskur héraðsdómur hefði gert í ofangreindu máli, miðað við eindregna neitun og skýringar meints geranda.
Umfjöllun um dóminn er einnig hér, hér og hér. Samantekt: Gísli Ásgeirsson