Frá Evu í Paradís til Jack/Judith Halberstam

12375633_10208265888912055_286497409_oÁrið með heimspekingum – Dagbók 2016 er nú komið út. Þetta er önnur dagbókin með heimspekingum sem kemur út, en sú fyrri kom út fyrir jólin 2013 vegna ársins 2014 og má lesa umfjöllun um hana hér:

Sigríður Þorgeirsdóttir setti saman fyrri bókina, en að þessu sinni fékk Sigríður þrjár aðrar konur, þær Eyju Margréti Brynjarsdóttur, Nönnu Hlín Halldórsdóttur og Erlu Karlsdóttur til liðs við sig við skrifin (en einnig komu fáeinir aðrir að verkinu). Allar stunda þær heimspeki og fengum við tvær þeirra til að segja okkur frá bókinni og velta vöngum um mikilvægi bókar sem einblínir á konur.

Eins og fyrri dagbókin hefur þessi að geyma einn kafla um heimspeking fyrir hverja viku ársins, alls 53 heimspekinga úr sögu og samtíð. Eins og með flest yfirlitsrit um heimspekinga er það „ALGER tilviljun“ og „ALGERLEGA ómeðvitað“ að hér eru bara kynntir kvenmenn úr sögu heimspekinnar. En þar fyrir utan eru þær á allan hátt athyglisverðari hugsuðir hvort eð er. Eða það finnst alla vega höfundunum.

Við erum að segja okkur sögu heimspekinnar sjálfar,“ segja þær Sigríður og Nanna, „og fá aðra sögu, öðruvísi tilfinningu fyrir heimspeki.

„Óvart“

Þessi bók sem er „óvart“ aðeins um kvenkynsheimspekinga hlýtur að segja okkur margt um skilning okkar á sögunni. „Að vera barn og unglingur í kringum aldamótin síðustu þýddi að maður var alinn upp að miklu leyti í einhverri trú á að jafnrétti væri þegar komið á, þar sem maður fékk að fara í smíði en ekki bara handmennt í skólanum,“ segir Nanna. „Engu að síður las maður sögu- og íslenskubækur sem aðeins hefðu karlmenn verið til í fortíðinni“ Þetta styrkti frekar trúna á að framfarir hefðu orðið í jafnréttisbaráttunni, við áttum jú Vigdísi Fnnbogadóttur sem forseta á meðan engar slíkar fyrirmyndir var að finna í gamla daga. Og þrátt fyrir mikla meðvitund um skort á birtingamyndum kvenna í bókmenntum, fjölmiðlum og sögu þarf enn að setja upp kynjagleraugun við lestur hvaða rits sem er til að minna sig á að líta eftir hvort einhver kona fái þar rödd.

Það sem er því merkilegt við verkefni á borð við þetta er að það er verið að fara gegn meðvitundarleysi okkar.“ Rit eins og t.d. þessi dagbók sem aðeins fjallar um heimspeki kvenna getur hjálpað til þess að skoða önnur rit á sama hátt og spyrja: hver fær að tala? Hvers kyns hugsun er verið að koma á framfæri? „Þegar hugsun er takmörkuð við þröngan hóp karlmanna sem lítu upp til hvers annars en í gegnum konunar í kringum sig, þá er sú hugsun einfaldlega takmörkuð!

Bókin spannar tímabilið frá upphafi mannkyns til okkar samtíðar. Það gerir bókina skemmtilega og áhugaverða, að þó flestir kaflar fjalli um heimspekinga sem hafa verið uppi eða eru á lífi, þá eru nokkrar undantekningar. Skrifað er um nokkrar gyðjur sem oftar en ekki hafa verið tákngervingar um kvenleika og átök sem hafa staðið um hann. Eva, fyrsta konan, hefur þar ekki verið undanskilin og er hún m.a.s. tengd umræðunni um réttarkerfið í okkar samfélagi í dag:

„Þessi túlkun á sögunni um syndafallið hefur haft lúmsk og undirliggjandi áhrif, einkum á það hvernig ábyrgðin skiptist í kynferðislegum samskiptum kynjanna. Venjan var lengi að líta á Adam sem viljalaust verkfæri í höndunum á hinni tælandi, lævísu konu og ábyrgðin á syndafallinu því alfarið á herðum Evu. Í gegnum aldirnar var konan dæmd af samfélaginu fyrir lauslæti og svik þegar framhjáhald, kynlíf utan hjónabands og annað syndsamlegt athæfi átti sér stað en karlinn slapp yfirleitt með óflekkað mannorð. Enn gætir þessara áhrifa í réttarkerfi nútímans þar sem konur sitja uppi með sönnunarbyrðina, skömmina og ábyrgðina á ofbeldinu sem þær eru beittar en karlarnir bera hvorki ábyrgð né skömm. Þeir lentu jú í því að vera tældir af konu, hver getur varist slíkri ógn?“

12398491_10208265894472194_2023964034_o

Hinseginlist

Margir samtímaheimspekingar eiga sína viku í bókinni og í gegnum dagbókina gefst tækifæri til að kynnast nýjum sem maður hefur ekki heyrt um áður. Einn þeirra sem vakti áhuga greinarhöfundar er Jack/Judith Halberstam, sem er bandarískur kynja- og hinseginfræðingur. Hann er fædd kona og var nefnd Judith, en tók einnig upp nafnið Jack síðar. Í dag svarar Halberstam báðum nöfnum og bæði kvenkyns og karlkyns persónufornöfnunum. Halberstam hefur einnig vakið athygli vegna bókar sinnar Hinseginlist mistaka:

„Í henni sýnir Halberstam fram á að í kapítalísku efnahagskerfi sé aðeins ein gerð velgengni og mistaka í boði: Einstaklingur njóti aðeins velgengi ef hann græðir pening og nær starfsframa … Hann leitar í hinseginsögur til þess að afbyggja hina ráðandi hugmynd um velgengni en þær sýna hvernig þau sem séu álitin misheppnuð njóta í raun annars konar velgengi sem ætti einnig að hljóta viðurkenningu.“

Heimspeki er ekki og á ekki að vera einkaiðja háskólamenntaðra karlmanna sem hafa af yfirvegun rökrætt siðferðið. Heimspekin gerist í slúðrinu, í kjaraviðræðum, á facebook, í gráti og hlátri, þegar maður teflir við biskupinn og þegar amma segir manni sögur úr síldinni. Þetta sést glöggt í hinum ótal hugmyndum þeirra kvenna sem munu leiða okkur í gegnum árið 2016: Í gegnum margbreytilega reynslu – oftar en ekki þá reynslu að vera hliðruð – hafa þær komist að öðrum niðurstöðum en karlheimspekingar hinnar vestrænu hefðar; hafa orðað hugsun sína öðruvísi. Hliðrunin skapar þeim þekkingarlegt forskot.

Hönnun bókarinnar var í höndum þeirra Hildigunnar Gunnarsdóttur og Snæfríðar Þorsteins, sem eru margverðlaunaðar fyrir hönnun sína, en hún er óbreytt frá útgáfu fyrri dagbókar. Hún er því frekar fyrirferðamikil og sómar sér vel sem skrifborðsdagbók, en hentar e.t.v. ekki öllum töskum. Greinarhöfundur mun hins vegar hafa hana í töskunni hvert sem hún mun fara og njóta þess að lesa úr henni á stundum þegar beðið er eftir afgreiðslu, í strætó, á kaffihúsi, o.s.frv. Ég hlakka til að þurfa að bíða …!

Guðrún C. Emilsdóttir tók saman:

 

Ein athugasemd við “Frá Evu í Paradís til Jack/Judith Halberstam

  1. Bakvísun: Annáll 2015 | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.