Íslandsbanki bjargar jólunum hjá Sólstöfum.
Þetta er góð frétt að vestan og gaman að gleðjast yfir henni í aðdraganda jólanna. Sólstafir eru systursamtök Stígamóta og hafa starfað á Ísafirði og nágrenni síðan 2006. Þetta eru óformleg grasrótarsamtök og til þeirra geta leitað þau sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eða þekkja einhvern sem orðið hefur fyrir því. Þörfin er mikil því skemmst er að minnast þess þegar sex konur kærðu Lína Hannes Sigurðsson á Þingeyri fyrir kynferðisbrot. Niðurstaða þeirra mála varð sú að kærunum var ýmist vísað frá eða þær felldar niður því ekki var talið líklegt að sakfelling næðist fram. Þetta er ekki eina kynferðisbrotamálið sem kemur upp fyrir vestan og tæplega það síðasta.
Knúzið birti á sínum tíma Opið bréf þolanda, frásögn Hrafnhildar Rafnsdóttur og í kjölfar þess fjölluðu aðrir miðlar um málið sem jafnan var kallað Þingeyrarmálið. Í þessari grein Vísis er tengill á viðtal við Hrafnhildi og Maríu Valgeirsdóttur. Þær sýndu mikinn kjark með því að koma fram því litlu samfélögin eru þekkt fyrir að snúast hart gegn þolendum með þeim afleiðingum að þolendur flytja burt, treysta sér ekki til að búa lengur á sínum heimaslóðum en meintir gerendur njóta áfram vegs og virðingar í samfélaginu. Líni Hannes var að lokum dæmdur fyrir mikið magn barnakláms sem hann hafði safnað á mörgum árum. Um þann dóm má nánar lesa hér.
Sólstafir töldu einboðið að sækja um styrk til félagsmálanefndar Ísafjarðarbæjar til að geta haldið húsnæði fyrir starfsemina. Umsækjendum til furðu reyndist lítill skilningur vera þar fyrir hendi á starfseminni. Nefndin mælti að lokum ekki með að samtökin fengju umbeðin styrk upp á 717.797 og þóttu undirtektir einkum dræmar hjá formanni nefndarinnar, sem er Gunnhildur Elíasdóttir, eiginkona Lína Hannesar.
Heggur sá er hlífa skyldi
Skipun Gunnhildar í þetta embætti sætti gagnrýni á sínum tíma, ekki síst í ljósi þess að hún hafði gengið hart fram gegn meintum brotaþolum eiginmannsins og efast var um að hún gæti starfað af heilindum að félagsmálum. Það breytti engu og ekki datt formanni í hug að víkja af fundi við afgreiðslu þessa erindis Sólstafa vegna framangreindra tengsla sinna. Innan litla samfélagsins er erfitt að segja „hagsmunaárekstur“ upphátt. En starfsmönnum Íslandsbanka þótti þessi afgreiðsla nefndarinnar nógu skammarleg til að hefjast handa og safna því fé sem upp á vantaði. Eftir situr nefndin og einkum formaðurinn með skömmina.
Bakvísun: Knúzannállinn 2015 | Knúz - femínískt vefrit
Bakvísun: Viljinn til verka | Knúz - femínískt vefrit