Jólameyjar

Höfundar vísna:  Knúzverjar.  Teikningar: Þórey Mjallhvít.

Grýla átti syni,         gryla1
er sögur fara af
og héldu niður fjallið
með húfu og gildan staf
til mannheima á jólum
að maka þar sinn krók
og allt sem tönn á festi
það illa hyski tók.

Hún átti margar dætur
– of langt að telja þær –
ótótlegar snótir
með úfið hár og klær.
Þær fylgdu bræðrum sínum
og fóru niðrí sveit
og illvirki þar unnu
sem enginn lengur veit.

Jólameyjar þessar,
þau leiðu jólatröll,
á aðventunni komu
og unnu mikil spjöll,
þær stálu, skemmdu og brutu
og stríddu mönnunum
og stönguðu hangikjötið
úr stórum tönnunum.

Ef forðum daga fóru
menn fjöllin yfir greið
áttavilltir urðu
og álpuðust af leið
því Stefna harla stríðin
sturla kunni þann
sem óravegu æddi
en enga stefnu fann.

 

gryla2Hnúta litla þótti
harðlynd, örg og þver
en brosti út að eyrum
í byrjun desember:
hún egndi saman mönnum
sem ærðir steyttu görn
en útí horni grétu
öldungar og börn.

Leiðindaskjóða læddist
lágfætt yfir börð,
með hempu síða á herðum
hlykkjaðist um svörð,
í húsin vildi halda
og horfa á fólksins líf,
Hún naut þess mest að njósna
um nöldur, agg og kíf.

Leppatuska læðist
svo laumuleg um ból,
hirðir nýju nærfötin
sem nota á um jól.
Köttinn á hún kynlegan
sem kann að meta fólk,
veiðir það og étur
en vill ei neina mjólk.

Jólameyjan Mukka
makaði sig út,
þrjóskaðist við þvotta
þótt sápu fengi og klút.
Hárið allt í henglum
hljóp í flækjuhnút,
grenjaði undan greiðu
og gekk á dyrnar út.

Er Bóla kom til bæja
varð brún á mörgum þung,
þeir einblíndu í speglagryla3
og auga drógu í pung,
en ei fór milli mála
að merkin sátu þar,
jarðarberjarauðar
jólabólurnar.

Er Skotta fór til byggða
í ferðum var hún snör,
hún ætlaði að ná sér
í nýja og hlýja spjör.
Hún krækti sér í sokka
og kannski vaðmálsbrók
og rósavettling líka
sá rummungsþjófur tók.

Hnyðja þótti lágfætt,
lítil, skökk og sver
og uppstökk var hún líka,
illgjörn, þrjósk og þver.
Í griðunga hún sótti
og gerði mannýg naut
svo holundarsár margur
af hennar völdum hlaut.

Tötrughypjan Taska
tók jafnt stórt og smátt,
skellti í vasa og veski
og skildi eftir fátt.
Ef gullhring sá á hendi
góndi hún og hló,
beið uns allir sváfu
og baug af fingri dró.

gryla4Næja norpaði úti
er næddi um húsasund,
langaði til að laumast
í ljósin stutta stund.
Hún teygði hönd í glugga
og tók þar jólaskraut,
kastaði því í svaðið,
klessti það og braut.

Flaska hét eitt fljóðið,
ferlegt var að sjá,
rambaði um í rökkri
og rakst þar alla á,
Fékk sér sopa úr flösku
fleiri en einn og tvo,
Gólaði úti á götu
og glerið braut hún svo.

Flotsokka furðumeyja
fimlega þökin kleif
Hún sótti inn í eldhús
og alla potta þreif,
Skóf þá innan floti
og færði sokk sinn í
þannig vildi hún arka
ein um borg og bý.

Á sólstöðum á vetri
Sóla sperrir tær,
hún gónir upp í geiminn,
geiflar sig og hlær,
er dagar eru stystir
hún dansar hjarnið um,
og seiðir menn frá kirkju
á sjálfum jólunum.

Er jólaljósin loga
löng um jólanótt
hugsar sér til hreyfings
hin fyrsta af meyjadrótt
Stefna upp til fjalla
staf í hendi ber
stefnir þangað ótrauð
strikið hún fer.

JOLAMEYJAR

 

Knúzharmónían syngur um jólameyjarnar:

 

2 athugasemdir við “Jólameyjar

  1. Bakvísun: Knúzannállinn 2015 | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.