Knuz.is er eina femíniska vefritið á Íslandi. Að því stendur hópur kvenna og karla sem skipta ritstjórnarstörfum sín á milli. Nú eru sex í ritstjórn. Fjórða starfsár vefritsins er að baki. Á árinu 2015 voru 200 greinar birtar, og alls eru greinarnar 877 frá upphafi vega. Höfundar eru á annað hundrað. Hér verður stiklað á helstu færslum hvers mánaðar.
Í janúar sögðu Elín Inga Bragadóttir og Margrét Helga Erlingsdóttir reynslu sína af hópnum Kynlegar athugasemdir sem þær stofnuðu í apríl 2014. Flestir urðu meðlimir um ellefu þúsund og nokkra athygli vakti þegar hópurinn var lagður niður. Í kjölfarið urðu nokkrar umræður um hópstjórn og umræðustýringu.
Íþróttadeild Knúzz fór mikinn í febrúar og úttekt Guðrúnar Hörpu Bjarnadóttur á Kynlegum íþróttafréttum hafði víða áhrif inni á fjölmiðlum þar sem íþróttafréttir hafa löngum þótt karlmiðaðar. Fleiri greinar þessa mánaðar voru á svipuðum nótum. Í lok febrúar sýndi Katrín Harðardóttir lesendum hina söguna af Rósu Parks þar sem fram kemur hvað atvikið fræga í strætisvagninum var vel skipulagt.
Hrelliklám var mikið í umræðunni á árinu og þegar FreeTheNipple-byltingin hófst undir lok marsmánaðar, fékk hún þegar byr undir báða vængi og greinar eins og Bræði, brjóst og bylting eftir Sigríði Guðmarsdóttur fóru á flug um netið, líkt og Frelsum týrbjöllurnar eftir Brynhildi Björnsdóttur. En ekki voru allir jafn hrifnir og þegar Kvennablaðið hóf upp nöldurraust sína og fann berbrystingum margt til foráttu, svaraði Hildur Guðbjörnsdóttir með greininni Ekki þín drusluganga. Allir höfðu skoðun á FreeTheNipple og spöruðu ekki að tjá sig.
Umræða um þungunarrof hófst í apríl og þá var rætt við Silju Báru Ómarsdóttur og Steinunni Rögnvaldsdóttur um söfnun þeirra á sögum kvenna sem rofið höfðu þungun sína. Þessar sögur komu út um haustið í bókinni Rof.

Þegar leitarorðið „kynferðisofbeldi“ er slegið inn á google.com birtast myndir af niðurbrotnum þolendum…
Umræða um kynferðisofbeldi hefur löngum einkennst af þöggun og þolendaskömm. Anna Bentína fjallaði um þagnarmúrinn í mest lesnu grein maímánaðar. „En vei þeim sem persónugerir ofbeldisgerandann og vogar sér að nafngreina hann. Því ef að nafn fylgir verknaðinum þá umbreytist umburðarlyndið gagnvart brotaþolanum í tortryggni. Efinn um ásetning brotaþolans fer undir smásjána og ofbeldisgerandinn hverfur.“ Hópurinn BeautyTips varð vettvangur frásagna kvenna af ofbeldi eins og Eydís Heintze lýsir í þessari grein. Það gekk þó ekki þrautalaust eins og Elísabet Ýr Atladóttir lýsir í Kvennabylting-gegn þöggun: „Heiðurinn eiga konurnar sem hófu umræðuna sem eitraðist af þöggunartilraunum og var eytt í kjölfarið, heiðurinn eiga konurnar sem sættu sig ekki við þöggun samfélagsins og deildu með okkur því sem þær voru þvingaðar til að upplifa, sögðu frá yfirþyrmandi þrýstingi frá samfélagi og jafnvel sínum nánustu til að þegja. Þær segja sögur sínar af gagnslausu réttarkerfi sem vinnur ekki fyrir þolendur, heldur gerendur.“
Druslugangan var í júlí og þá skrifaði Hildur Fjóla Antonsdóttir þessa grein. Mest lesna grein ágústmánaðar var Þess vegna er vændi nauðgun eftir Elísabetu Ýr sem hefur skrifað mikið um vændi fyrir Knúzið.
Í september varð einn hluti sýningar í Ráðhúsinu í tilefni af 100 ára afmælis kosningaréttar sumra kvenna mikið deiluefni og var fjallað um það í greininni Klám með kjötbollunum. „Afrekskvennasýningin er á vegum borgarinnar og er auglýst á vef Reykjavíkurborgar sem slíkur viðburður; ráðhúsið lagði til starfsmann og verkefnastjóra. Það sætir hálfgerðri furðu að þessir aðilar skuli ekki hafa gert sér grein fyrir að þarna sættu borgarstarfsmenn kynferðislegu áreiti í matartíma sínum, sátu undir því sem þeir upplifðu sem ógeðslegt klám og voru þolendur þess sem þeir hefðu síst átt að sæta og létu lengi vel yfir sig ganga“
Í október skrifaði Þóra Kristín Þórsdóttir um staðgöngumæðrun, sem var eitt af umdeildu málum ársins, og segir frá mögulegri lögleiðingu í sex einföldum skrefum. Hvers vegna kynlífsvinna er ekki vinna er bæði lengsta grein sem Knúzið hefur birt og sú sem hefur mestan uppsafnaðan lestur á árinu.
Í nóvember sigraði lið Hagaskóla í hæfileikakeppninni Skrekk með atriðið Elsku stelpur: Það vakti mikla athygli og umræður og myndband með því var textað á íslensku og ensku. Nú hafa um 25 þúsund manns horft á það.
Stelpur krefjast athygli
ekki reyna að hunsa okkur.
Stelpur krefjast tækifæra
ekki reyna að hindra okkur
Stelpur krefjast virðingar
ekki reyna að stoppa okkur.
Stelpur krefjumst jafnréttis
látum ekkert stoppa okkur!
Í desember tóku knúzverjar höndum saman og ortu um jólameyjarnar sem löngum hafa fallið í skuggann fyrir jólasveinunum. Stofnaður var lítill kór og flutti hann valin erindi á Grýluhátíð í ráðhúsi Reykjavíkur á aðventunni. Í meðfylgjandi grein er að finna öll erindin ásamt myndbandi með flutningi kórsins. Eitt af þeim er um hana Hnútu.
Hnúta litla þótti
harðlynd, örg og þver
en brosti út að eyrum
í byrjun desember:
hún egndi saman mönnum
sem ærðir steyttu görn
en útí horni grétu
öldungar og börn.
Saga úr litlu samfélagi vakti mikil viðbrögð skömmu fyrir jól, eins og gjarnan þegar viðkvæm mál úr litlum samfélögum eru rædd. Að þessu sögðu horfir Knúzið fram á veginn og stefnir á öfluga útgáfu árið 2016.
Gísli Ásgeirsson tók saman.