Hvernig eigum við að ræða um kynferðisbrotin í Köln og Hamborg?

Höfundur: Musa Okwonga

12376366_10208489223965949_5642122691154554219_nÞetta hefur verið skelfileg sjón fyrir hvaða konu sem er. Á gamlárskvöld umkringdi þyrping drukkinna og árásargjarnra karla konur í þýsku borginni Köln, í sjálfri miðborginni, veittust að þeim og beittu þær ofbeldi á ýmsan hátt. Talið er að árásarmennirnir hafi verið á milli 500 og 1000 talsins og á frumstigi rannsóknarinnar bendir flest til þess að árásirnar hafi verið samhæfðar og skipulagðar. Ráðherra lýsti því sem gerðist sem „glæpum af alveg nýrri gerð“

Samkvæmt Wolfgang Albers, lögreglustjóra, voru þarna framin “kynferðisbrot í gríðarlega miklu umfangi.” Hann sagði enn fremur: „Glæpirnir voru framdir af hópi manna sem virðast, af útlitinu að dæma, einkum vera af Norður-afrískum eða arabískum uppruna.“

Umfang kynferðisbrota gegn konum er gríðarlegt um heim allan, það er skelfilegt, það er svívirðilegt og það er um fram allt hneykslanlegt. Hvort sem konur eru staddar á opinberum vettvangi eða í ætluðu öryggi eigin heimilis sæta þær ofbeldi og misnotkun sem sprengir flestar mælistikur. Svo vitnað sé í skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum:

Talið er að 35 prósent allra kvenna, um víða veröld, hafi einhvern tíma á ævinni orðið fyrir líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi af hálfu maka og/eða líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi af hálfu einhvers sér ótengds. Þó hafa tilteknar svæðisbundnar rannsóknir sýnt að allt að 70 prósent kvenna hafi einhvern tíma á ævinni orðið fyrir líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi af hálfu maka og/eða líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi af hálfu einhvers sér ótengds. (Skáletranir eru höfundar)

Árásirnar í Köln geta því ekki talist einangruð frávik heldur ber að líta á þær sem óvenju alvarlega birtingarmynd tiltekinna kringumstæðna sem hafa, frá hnattrænu sjónarhorni, alltaf verið við suðupunkt.

Einhverjum kann að þykja þetta yfirdrifin lýsing, en það verður þá bara að hafa það; þegar öllu er á botninn hvolft tala tölfræðileg gögn og frásagnir sjónarvotta og þolenda sínu máli. Breska dagblaðið The Guardian segir svo frá:

Einn þolendanna, sem við köllum Kötju L., sagði við Kölner Express: „Þegar við komum út úr brautarstöðinni urðum við hissa að mæta þeim stóra hópi karla sem tók á móti okkur, hópi sem í voru aðeins karlar af erlendum uppruna … Við gengum í gegnum karlahópinn, það voru eins konar göng í gegnum mannþröngina, við gengum þar í gegn … Það var þuklað á mér allri. Þetta var martröð. Við æptum á þá og slógum frá okkur en þeir hættu samt ekki. Ég var skelfingu lostin og ég held að ég hafi verið snert svona 100 sinnum á þessari 200 metra gönguleið.“ Einn lögreglumannanna sem vinnur að rannsókninni sagði við Kölner Express: „Konurnar sem urðu fyrir árásunum urðu fyrir svo slæmum hrindingum og áreiti að þær voru með ljóta marbletti á brjóstum og rasskinnum.

Í sömu frétt í The Guardian segir enn fremur:

Fátt hefur verið meira rætt á Twitter í Þýskalandi en þessar árásir, og sumir hafa ásakað fjölmiðla um þöggun og yfirhylmingu, en aðrir láta í ljósi áhyggjur af því að þessi atburður verði vatn á myllu þeirra sem eru andsnúnir hælisleitendum og flóttamönnum.

hauptbahnhofÍ kjölfarið er afar hætt við því að konurnar sem ráðist var á muni hverfa úr umræðunni, að þær grafist fyrr en varir undir aurskriðu orðaskaksins á milli vinstri og hægri manna. Það er reyndar nú þegar byrjað að gerast. Við skulum þess vegna segja skýrt og greinilega hvað það var sem í raun gerðist. Fjöldi kvenna varð fyrir árásum allt að þúsund karlmanna í opnu, almennu rými. Níutíu þessara kvenna lögðu fram kærur hjá lögreglu. Þessa sömu nótt voru einnig framin kynferðisbrot með svipuðu sniði í Hamborg. Sjálfgefinn rétturinn til að áreita konur og rjúfa friðhelgi líkama þeirra sem þessir karlar virðast telja sig hafa gagnvart fórnarlömbum árásanna er hrollvekjandi.

Þessir atburðir hafa orðið tilefni þeim mun meiri deilna fyrir það að kanslari Þýskalands, Angela Merkel, hefur á undangengnum tólf mánuðum tekið við fyrir hönd þjóðar sinnar í kringum einni milljón flóttamanna frá Afríku og Arabalöndunum – fólki af einmitt því þjóðerni sem virtist áberandi meðal ungu karlmannanna sem frömdu þessar árásir. Þannig hafa nú þegar margir gripið til þess að kenna innflytjendastefnu Merkel um þessa hrinu kynferðisbrota. Til að gæta fyllstu nákvæmni ber að taka það fram að margir árásarmannanna höfðu áður komist í kast við lögin í Þýskalandi og voru ekki úr hópi nýlega kominna flóttamanna.

Sú staðreynd mun þó duga skammt og ljóst er að öll orðræða um atburðina mun einkennast af deilum um kynþáttamál. Þess vegna skulum við bara demba okkur beint út í þann pytt. Lýðfræðilega er Þýskaland ekki mjög fjölbreytt hvað kynþætti varðar og flest þeldökkt fólk og fólk af arabískum uppruna sem þar er að finna virðist tilheyra verkamannastétt. Fyrir því eru margháttaðar hagfræðilegar ástæður, svo sem sú að fólk sem kemur til Þýskalands frá Afríku og Mið-Austurlöndum á í talsverðum erfiðleikum með að verða sér úti um vottorð og fá starf þegar hingað er komið. Í Berlín, borginni þar sem ég bý, eru langflestir þeirra þeldökku karlmanna sem fyrir augu mín ber fátækir, heimilislausir eða að selja eiturlyf við Görlitzer-lestarstöðina eða á stöðinni við Warschauer Strasse, tveimur af fjölfarnari lestarstöðvum borgarinnar. Og þegar ég segi langflestir á ég við eitthvað í líkingu við áttatíu prósent, ef ekki meira. Og nú ætla ég að hætta á að hljóma dómharður þegar ég segi að mig grunar að mun færri en óskandi væri geri sér nokkra rellu yfir félagslegum og hagfræðilegum ástæðum þess að þessir menn eru svona fátækir. Ég held að það sé raunar rík tilhneiging, og almennari en fólk kærir sig um að viðurkenna, til að álykta að svartir karlmenn séu að eðlisfari hneigðari til glæpa en aðrir og að þeim sé því síður treystandi.

Þetta byggi ég að hluta á eigin persónulegu reynslu af því að búa í Berlín, en einnig á samræðum mínum við ýmsa vini mína sem ekki eru hvítir á hörund. Vini mínum frá Vestur-Afríku sem heimsótti borgina gekk svo illa að festa sér íbúð í gegnum AirB&B að hann neyddist til að biðja annan vin að gera það fyrir sína hönd. Óteljandi önnur dæmi eru um þeldökkt fólk sem hefur átt í basli með að finna sér herbergi eða íbúðir í borginni – það er auðvitað enginn leikur að finna leiguhúsnæði í Berlín yfirleitt, enda borgin vinsæll íverustaður, en það er sláandi hversu margar slíkar sögur tengjast mismunun vegna kynþáttar. Og í dagsins önn vekur það iðulega furðu mína hversu oft – jafnvel í yfirfullum lestum – hvítir Berlínarbúar leyfa mér að hafa autt sæti við hliðina á mér og virðast einhvern veginn veigra sér við að setjast við hlið karlmanns sem er afrískur í útliti. Ef ykkur finnst þetta hljóma eins og vænisýki get ég upplýst að sjálfur áttaði ég mig ekki á því fyrr en vingjarnlegur, hvítur samborgari minn benti mér á það.

Nú kynni einhverjum að finnast þetta óþarfa viðkvæmni en í raun er ég bara að benda á staðreyndir. Ég elska borgina og hér er gott að búa, þrátt fyrir minniháttar óþægindi. Slík tilvik hafa þó leitt mér fyrir sjónir að þær hugmyndir sem fólk gerir sér um eðli og innræti svartra karlmanna í sumum hlutum Þýskalands voru ekkert sérstaklega fallegar fyrir. (http://www.toytowngermany.com/forum/topic/201874-discrimination-in-nightclubsbars-in-cologne/). Og nú hafa árásirnar í Köln bætt gráu ofan í svart. Enda eru þær hrollvekjandi.

Hvað er þá til ráða, að þessum staðreyndum og forsendum upp töldum? Reyndar er það sáraeinfalt. Við skulum einfaldlega halda áfram að tala máli kvenna. Hvað það varðar að vera svartur karlmaður af afrískum uppruna hata rasistar okkur í Þýskalandi og annars staðar í heiminum hvort eð er. Þeir úrskurða okkur nauðgara og perverta og kynferðisbrotamenn um leið og þeir berja okkur augum. Konurnar sem var ráðist á í Köln og Hamborg skipta rasistana engu máli nema sem einhvers konar sönnun þess að við séum í raun það sem þeir hafa alltaf haldið – eða vonað – að við værum. Þeir skipta mig heldur engu máli. Og ég læt fólkið sem vill ekki sitja við hliðina á mér í lestinni ekki angra mig neitt heldur. Ótti við það sem er framandi er vani sem er erfitt að uppræta. Það sem skiptir mig máli, og raunar höfuðmáli, er öryggi þeirra kvenna sem kunna nú að verða enn hræddari en áður við að fara ferða sinna í almannarými. Ég held að konur hafi aldrei talið sig sérstaklega öruggar þegar þær hafa þurft að ganga gegnum hóp drukkinna og árásargjarnra karla að kvöldi til, af hvaða kynþætti sem þeir kunna að vera. En nú má vænta þess að hópar ungra manna af Norður-afrískum og arabískum uppruna muni vekja enn meiri ugg hjá konum en áður, hverjar sem fyrirætlanir þeirra karla kunna að vera.

Mér finnst því aðeins eitt til ráða. Við skulum einfaldlega gefa okkur þá grundvallarforsendu að það sé óumdeildur réttur kvenna að geta gengið um götur og torg, hvar sem er í heiminum, án þess að vera þuklaðar eða áreittar. Og taka þá afstöðu að nú sé runnin upp rétta stundin fyrir alla karlmenn, óháð kynþætti og uppruna, til að verða einlæglega misboðið yfir því hvernig komið er fram við konur í almannarými; til að hafna með festu og eindrægni þeirri ranghugmynd að við séum með einhverjum hætti samfélagslega skilyrtir til að koma fram við konur eins og skynlausa hluti, að við séum fórnarlömb óviðráðanlegrar kynlöngunar sem neyði okkur til að ráðast á konur sem eiga leið hjá. Gerum okkar besta til að hafna þeirri útbreiddu kvenfyrirlitningu sem allt of lengi hefur viðgengist um heim allan og varpa fyrir róða þeirri innrætingu karlrembu og kvenhaturs sem við kunnum að hafa orðið fyrir. Konur eru nefnilega orðnar hundleiðar á að segja okkur þetta og örmagna af því að heyja linnulausar orrustur, orrustur sem aldrei hafa verið teknar alvarlega.

Musa Okwonga er ljóðskáld, rithöfundur, íþróttafréttamaður, fjölmiðlamaður, almannatengill og ýmislegt fleira. Hann lærði lögfræði við Oxford University og starfaði um skeið sem lögmaður í London, en sagði skilið við lögfræðina til að leggja stund á ljóðlist. Hann er búsettur í Berlín.

Frekari upplýsingar um Okwonga má finna hér 

Þessi grein birtist first hér, á bloggsíðu Musa Okwonga, þann 6. janúar 2015. Halla Sverrisdóttir þýddi með góðfúslegu leyfi höfundar.

Myndin af Okwonga, sem fylgir greininni, er sótt á bloggsvæði Okwonga og er eftir Naomi Woddis (c), 2014.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.