Fálkaorðan 2016

Höfundur: Guðrún C. Emilsdóttir

Á fyrsta degi ársins 2016, voru ellefu Íslendingar boðaðir til Bessastaða þar sem forseti lýðveldisins sæmdi þá orðu fyrir það sem þeir höfðu, hver fyrir sitt leyti, lagt til íslensku þjóðinni til gagns og í leiðinni bæði gamans og gleði. Sex þessara Íslendinga voru konur og það vakti sérstaka athygli að þar af voru þrjár þeirra fræðimenn. Fræðimennska er oftar en ekki iðkuð á bak við luktar dyr og því ekki oft sem tækifæri gefst til að fá innsýn í heimi fræðanna og enn sjaldnar þegar konur eiga í hlut. En hverjar eru annars þessar sex konur?

551537ad3596a86c-1

Af vefsíðunni http://www.forseti.is

Elísabet Ronaldsdóttir hlaut riddarakross fálkaorðunnar fyrir framlag sitt til íslenskrar og alþjóðlegrar kvikmyndagerðar og er vel að viðurkenningunni komin. Hún hefur unnið við á annan tug kvikmynda í fullri lengd, og álíka mörgum heimildamyndum, stuttmyndum og dansstuttmyndum, auk aðkomu að fjölda styttri heimildamynda, sjónvarpsþátta, fréttaskota o.fl. Meðal þekktra mynda og þátta hérlendis og erlendis má nefna; Ófærð (2015 – klipping), Jóhanna – síðasta orrustan (2015 – klipping), John Wick (2014 – klipping), Djúpið (2012 – klipping), Contraband (2012 – klipping), Stelpurnar okkar (2009 – klipping), Reykjavík-Rotterdam (2008 – klipping). Sviðsverk hefur hún einnig búið til fyrir nokkur leikhús- og dansverk, s.s. í Secret Face (2005 – vídeóverk), Eldhestur á ís (1990 – ljós, handrit og búningar), o.fl.
Ekki vita allir hvað felst í klippingu kvikmynda og gera sér því e.t.v. ekki grein fyrir mikilvægi hennar fyrir heildarupplifun kvikmyndar. Elísabet skýrir það mjög vel á vef Kvennaslóðar, en þar segir hún meðal annars: „Ég lít þannig á að klipping sé túlkun. Það efni sem endar inn í klippiherberginu hefur stór hópur listamanna komið að, það er hlutverk klipparans að túlka verk þeirra allra, byggja upp hvert einstakt augnablik hverrar senu og setja þessi augnablik saman í heild sem geymir allt það besta úr tökunum og er trútt sögunni.“
Elísabet lauk námi í kvikmyndagerð frá The London Film School 1990 og hefur unnið sleitulaust við fagið síðan. Auk starfa við kvikmyndagerð hefur hún einnig sinnt kennslu við Kvikmyndaskóla Íslands og kenndi í eitt ár við The Puttnam School of Film í Lasalle í Singapúr. Elísabet var formaður Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar 2005-2006 og einn af stofnendum WIFT (Women in Film and Television in Iceland). Hún hefur og setið í stjórn RIFF (Reykjavík International Film Festival) síðan 2007.

858321

mbl.is/Styrmir Kári

Guðrún Ása Grímsdóttir hlaut riddarakross fyrir störf á vettvangi íslenskra fræða og menningar. Guðrún Ása lauk cand. mag prófi í miðaldasagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1979. Frá þeim tíma hefur hún stundað rannsóknir, skrif og fræðimennsku á sviði sagnfræðinnar og er í dag rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnúsonar á Íslandi. Gefnar hafa verið út á annan tug bóka og smárita um hin ýmsu sagnfræðilegu efni sem Guðrun Ása hefur búið til útgáfu, s.s. Biskupasögur, ættartölusafnrit, annála, staðhætti út frá sögulegu samhengi, o.fl. Einnig hefur Guðrún Ása skrifað fjölda bókakafla, greina og erinda og ritstýrt á annan tug verkefna.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir hlaut riddarakross fyrir forystustörf á vettvangi íþrótta og æskulýðsstarfs. Helga Guðrún hefur unnið í áratugi að íþróttamálum og varð formaður UMFÍ árið 2007, þá fyrst kvenna til að vera kosin til formennsku í félaginu. Hún lét af því embætti nú nýverið. Þar áður var hún m.a. varaformaður UMFÍ í sex ár, formaður Ungmenna- og íþróttasambands Ólafsfjarðar og formaður Ungmennafélagsins Geisla í Súðavík. Í október 2015 var Helga Guðrún sæmd Gullmerki ÍSÍ fyrir störf sín í þágu íþróttahreyfingarinnar.

Hrafnhildur Schram hlaut riddarakross fyrir störf í þágu íslenskrar myndlistar. Hrafnhildur lauk licentiatsprófi í listasögu frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Hún hefur starfað sem safnstjóri Listasafns Ásgríms Jónssonar, Listasafns Einars Jónssonar og verið deildarstjóri í Listasafni Íslands. Hrafnhildur hefur kennt listasögu, ritað listgagnrýni og fjölda greina um íslenska myndlist í blöð og tímarit og unnið heimildarmyndir fyrir sjónvarp um íslenska myndlistarmenn. Hún hefur unnið að rannsóknum á íslenskum myndlistarkonum og er höfundur fyrstu sérbókar um íslenska myndlistarkonu, Nínu Tryggvadóttur. Árið 2005 sendi hún frá sér bókina Huldukonur í íslenskri myndlist sem fjallar um fyrstu konurnar sem sigldu til Kaupmannahafnar í myndlistarnám. Hrafnhildur starfar nú sem sjálfstæður fræðimaður og rithöfundur auk þess að starfa sem sýningarstjóri.

Steinunn Kristjánsdóttir hlaut riddarakross fyrir rannsóknir á sviði íslenskrar sögu og fornleifa. Steinunn Kristjánsdóttir lauk doktorsprófi í fornleifafræði við Gautaborgar-háskóla árið 2004. Hún hefur sinnt kennslustörfum við Háskóla Íslands frá árinu 2005 og er í prófessorsstöðu síðan árið 2012. Kennslusvið Steinunnar liggur innan miðaldafræða og kynjafornleifafræði. Helstu rannsóknasvið hennar eru félagsleg fornleifafræði, miðaldafornleifafræði, trúarbragðarsaga, klaustur og klausturstarfsemi. Steinunn stjórnaði sem safnstjóri Minjasafns Austurlands rannsókninni Mörk heiðni og kristni frá 1997 til 2000. Nýtti hún rannsóknina til doktorsprófs og kom doktorsritgerð hennar The Awakening of Christianity in Iceland út árið 2004. Steinunn stjórnaði síðan samhliða kennslu fornleifarannsóknum á miðaldaklaustrinu að Skriðu í Fljótsdal til ársins 2012. Bók um rannsóknina, Sagan af klaustrinu á Skriðu, kom út á vegum Sögufélagsins árið 2012. Það verk hlaut Fjöruverðlaunin í flokki fræðibóka og var að auki tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og viðurkenningar Hagþenkis. Sem stendur vinnur Steinunn að nýrri rannsókn, Kortlagning klaustra á Íslandi, sem miðar að því að skrá minjar um íslensku miðaldaklaustrin.

Yrsa Sigurðardóttir hlaut riddarakross fyrir framlag til íslenskra bókmennta. Yrsa er byggingarverkfræðingur að mennt og starfar sem slíkur, en er jafnframt rithöfundur. Hún sendi frá sér sína fyrstu barnabók, Þar lágu Danir í því, árið 1998 og skrifaði 4 barnabækur í viðbót áður en hún snéri sér að bókum fyrir fullorðna árið 2005, með útgáfu fyrstu glæpasögu sinnar, Þriðja táknið. Alls hefur Yrsa skrifað 9 glæpasögur og kom sú síðasta, Sogið, út fyrir jólin. Yrsa hefur bæði hlotið og verið tilnefnd til fjölda verðlauna, m.a. hlaut hún viðurkenningu Barnabókaráðs Íslands, Íslandsdeildar IBBY árið 2000, fyrir bókina Við viljum jólin í júlí og 2003 hlaut hún Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir söguna Biobörn. Fyrir bókina, Ég man þig, hlaut Yrsa Blóðdropann, Íslensku glæpasagnaverðlaunin og var líka tilnefnd til Glerlykilsins, Norrænu glæpasagnaverðlaunanna fyrir sömu bók.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.