Höfundur: Aiofe

Kveðja til Bowies frá aðdáanda (Myndin er sótt hingað: http://www.ibtimes.co.uk/david-bowie-dies-fans-pay-tribute-ziggy-stardust-legend-london-berlin-new-york-1537239)
Dauði David Bowie vekur með mér einlægan trega. Eins og svo ótal margir aðrir óx ég úr grasi við hljóminn af tónlistinna hans. Hann bjó yfir rödd sem var á allan hátt einstök í sinni röð. Hann var kjarkmikill og fallegur og óttalaus. Sem hinsegin krakki, utangarðs og öðruvísi, var mér ómögulegt annað en skynja einhvers konar skyldleika á milli okkar. Space Oddity var eitt af uppáhalds lögunum mínum þegar ég var barn og hafði eldheitan áhuga á geimnum og vélmennum og efaðist ekki um að einn daginn myndi ég fá að fara til tunglsins.
Sumir vina minna geta ómögulega skilið hvers vegna fólk syrgir frægt fólk og dægurstjörnur.
Þau segja: Við hittum aldrei þessa manneskju, af hverju ætti dauði hennar að valda okkur sorg?
Þau skilja mig ekki og ég skil heldur ekki afstöðu þeirra. Málið er að við eyðum ekki bara ævistundum okkar með fólkinu sem við þekkjum persónulega. Hluta þessara stunda eyðum við í félagsskap listamanna sem við fáum aldrei að hitta í eigin persónu.
Þetta er engin 21. aldar uppfinning. Allt frá því að mannskepnan lærði að draga upp myndir, og síðan að skrifa, höfum við reynt að mynda tengsl okkar á milli, þvert yfir tíma og rúm. Tónlist sem var samin fyrir mörgum öldum getur kallað fram hjá mér gæsahúð. Rithöfundar sem dóu löngu áður en ég fæddist eru mér sem gamlir vinir.
Þeir eru það auðvitað ekki. Við fáum að sjá lokahandritið frá þeim. Við fáum það sem þeir hafa kosið að deila með okkur. En þessi tenging, þótt einhliða sé, er jafn raunveruleg fyrir því.
Fyrst við getum myndað raunveruleg tengsl við fólk sem er löngu látið, af hverju ættum við þá ekki að geta skynjað einhver tengsl við lifandi fólk, þrátt fyrir að hafa aldrei hitt það sjálft? Orð þess, uppgötvanir þess og tónlist þess geta samt sem áður breytt lífi okkar. Eða í það minnsta gefið okkur svolítið skýrari mynd af hugarheimi þess og tilfinningalífi.
Ég skil að það er til fólk sem lítur þetta öðrum augum. Sum ykkar upplifa einfaldlega ekki svona persónulega (þótt einhliða sé) tengingu við fólk sem þið munið aldrei fá að hitta. Það er algerlega lögmæt skoðun, þótt ég skilji ekki alveg hvers vegna þarf að ræða það núna, þegar margir eru augljóslega miður sín. Sumir ganga enn lengra og lýsa sorg sem þessari sem tilgerðarlegri og kalla hana yfirfærslu tilfinninga. Eins og sumt fólk hafi leyfi til að vera dapurt, en annað ekki.

David Bowie, 1972 (Myndin er sótt hingað: http://www.debriefdaily.com/lifestyle/lori-maddox-i-lost-my-virginity-to-david-bowie)
Það finnst mér vera kjaftæði. Þegar við látum í ljósi sorg við fráfall einhvers sem við höfum aldrei hitt erum við ekki að kasta eign okkar á sorg ættingja þeirra eða annarra ástvina. Depurðin sem ég upplifði í morgun er ekki sorg yfir því að missa einhvern sem maður elskar. Hún kemst ekki einu sinni nálægt því. Fólkið sem syrgir manneskjuna David Bowie fer í gegnum ferli sem við hin, sem syrgjum hann sem listamann, getum ekki gert okkur í hugarlund. Að sjálfsögðu. En ættum við hin þá bara að halda kjafti og neita okkur um að hafa nokkrar tilfinningar? Það væri fáránlegt. Kjaftæði. Fáránlegt kjaftæði sem sprettur af einhverri skinhelgri þörf fyrir að vera hrikalega kúl og líta niður á fólk sem leyfir sér að hafa tilfinningar.
Það er ekkert að því að upplifa tilfinningar. Það er ekkert að því að hafa ástríðu fyrir einhverju og það er ekkert hallærislegt við sorg. Við megum bara andskotinn hafi það vera döpur, ef okkur sýnist svo.
Og svo fer málið að verða dálítið flókið.
Því hver var svo hin fréttin sem blasti við mér í fréttaveitunni minni í morgun? Jú, það kemur á daginn að David Bowie kann að hafa haft kynmök við stúlku undir lögaldri . Ég segi vísvitandi „kann að hafa“, því ég frétti fyrst af þessu núna í morgun. Og ég segi „haft kynmök við“ en ekki „nauðgað“ þar sem konan sem um ræðið virðist, sem fullorðin kona, ævinlega hafa talað um tilvikið sem kynmök með gagnkvæmu samþykki og ég er alfarið á móti því að túlka upplifanir kvenna upp á nýtt fyrir þær.
Þar með er ekki sagt að það sem sagt er að hafi gerst hafi bara verið allt í góðu lagi. Kynmök við ólögráða einstakling (e. statutory rape) eru kynmök við ólögráða einstakling. Það er aldrei í lagi að fullorðin manneskja geri slíkt.
Ég skil alveg hvers vegna sumir vilja deila þessari frétt í dag. Það sem ég get eiginlega ekki alveg áttað mig á er hvaða viðbragða er vænst af mér, eða hvort það er raunhæft að ætlast til einhverra tiltekinna viðbragða. Sjáið þið til, ég held að það sem sé vænst af mér sé þetta: Að ég skelli Bowie í flokkinn „Fyrirlitlegt fólk“ og látið þar við sitja. Að mér hætti að þykja vænt um hann, að ég hlusti aldrei aftur á tónlistina hans.
Ég skil líka af hverju einhver kynni að ætlast til þess af mér. Það snýst um að taka málstað þolenda andspænis menningu sem gerir í sífellu lítið úr misnotkun ríkra, hvíta, valdamikilla karla á konum og stúlkum. Já. Og það er mikilvægt. Reyndar ætla ég ekki að smætta það málefni með þremur aumingjalegum orðum: „Það er mikilvægt“. Það er grundvallaratriði.
En þetta get ég ekki.
Nei, mér finnst það sem hann gerði ekki vera í lagi. Það verður ekkert meira í lagi fyrir það að það virðist ekki hafa valdið konunni sem um ræðir verulegum skaða. Ástæðan fyrir því að það er refsivert að fullorðinn einstaklingur eigi kynmök við ungling er ekki sú að það valdi unglingnum varanlegum skaða í hvert einasta skipti sem það gerist. Ástæðan fyrir því er sú að unglingar eru ekki dómbærir á þær afleiðingar sem slíkt getur haft, eða á það hvað getur reynst þeim skaðlegt og hvað ekki. Og vegna þess að unglingar, nýskriðnir af barnsaldri, eru ótrúlega berskjaldaðir gagnvart áhrifamætti og tilfinningalegri þvingun fullorðinna. Sjálfræðisaldurinn er verkfæri til að koma í veg fyrir að fullorðnir misnoti sér valdastöðu sína gagnvart unglingum og skort þeirra á færni til að taka sjálfstæðar, upplýstar ákvarðanir.
Nú virðist í fljótu bragði sem Bowie hafi sloppið sæmilega fyrir horn og ekki valdið konunni sem um ræðir varanlegum og óbætanlegum skaða. Það sem er óboðlegt er þó að hafa tekið þá áhættu til að byrja með. Hann gerði það. Hann tók þá ákvörðun að gera það.
Fyrir þær sakir er mér nú uppálagt að kalla hann viðbjóð og hætta að vera leið yfir því að hann sé dáinn. Ég get það ekki. Ég get hins vegar sagt að hann sé maður sem gerði svolítið viðbjóðslegt.
Því það sem hann gerði var fyrirlitlegt. Og samt var hann mér innblástur. Hann bjó samt til tónlist sem smaug inn undir húðina á mér og á milli rifjanna í mér. Stelpan sem hringsnerist á eldhúsgólfinu fyrir aldarfjórðungi síðan og söng hástöfum að hún svifi um geiminn í niðursuðudós, sú stelpa er enn hluti af mér.
Og er það ekki einmitt þetta sem er svo snúið? Við viljum svo gjarnan búa í veröld þar sem allir eru annað hvort hetjur eða skrímsli. Við viljum að fólkið sem hrífur okkur með verkum sínum og orðum sé dásamlegar manneskjur og við viljum geta fordæmt fyrirlitleg lítilmenni sem gera viðbjóðslega hluti. Við kunnum ekki vel við hvað það það er vandratað og tyrfið á þessu gráa svæði. Auðvitað ekki. Okkur finnst það óþægilegt.
En við þurfum að sættast við það. Ef við breytum öllum sem gera eitthvað ljótt í skrímsli og forynjur breytum við um leið hverju einasta okkar hinna í einhvers konar Skellibjöllur – álfa sem geta ekki upplifað nema eina tilfinningu í einu. Geta ekki verið nema eitt í einu.
Ég ætla þess vegna að reyna að gera þetta: Ég ætla að reyna að venjast ónotunum sem fylgja því að feta mig um gráa svæðið. Skilja að undursamlegi sérvitringurinn geti líka verið maður sem þurfti ekki að skeyta um afleiðingar gerða sinna vegna forréttindastöðunnar sem hann naut. Reyna að sjá ekki annars vegar snilligáfuna og hins vegar misnotkunina sem spegilmynd af ýmist skrímsli eða engli, heldur líta einfaldlega á það sem hluti sem manneskjur gera. Alvöru, flókna, afbrigðilega, fallega eða ljóta hluti sem eru verk fólks af holdi og blóði. Reyna að skilja betur ástæður þessa alls, því allt er þetta hluti af því sem er við mannfólkið eigum sameiginlegt, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Ég ætla að gangast við því að reiði mín yfir því sem þessi maður gerði er jafn sterk og ást mín á tónlistinni sem hann skapaði og og jafn sár og sorg mín yfir fráfalli hans. Og að ég ætli að þreifa mig í gegnum þessi ónot, í gegnum þessa þoku, og reyna að finna þar leið til að breyta menningunni sem við búum við í samfélag þar sem ríkir, hvítir, ótrúlega hæfileikaríkir karlar hafa ekki sjálfgefinn rétt til að misnota fólk og komast upp með það.
Við getum nefnilega ekki breytt Bowie í mann sem hreif ekki fólk með sér. Og við getum heldur ekki gert hann að manni sem aldrei misnotaði sér völd sín og áhrif. Það eina sem við getum gert er að láta okkur hafa hvort tveggja og stefna að því að þeir hvítu, hæfileikaríku karlmenn sem tilheyra okkar kynslóð, kynslóð dagsins í dag, geri sér ljóst að þeir eru hvorki yfir okkur hin hafnir, né geta þeir hegðað sér að geðþótta án þess að það hafi neinar afleiðingar.
Það er eiginlega vandséð hvað annað er til ráða.
___
Þessi pistill birtist fyrst hér þann 11. janúar s.l. Halla Sverrisdóttir þýddi, með góðfúslegu leyfi höfundar.